Kæru vinir. Þetta er Ævar. Hér er örsnögg upprifjun á Skólaslitum 1 og 2. Varúð; ef þið hafið ekki lesið Skólaslitin og viljið alls ekki vita hvað gerist, skuluði hætta að lesa nákvæmlega núna!
Skólaslit 1 fjalla um hóp af krökkum sem lifa af hræðilega hrekkjavöku þegar krakkarnir sem eiga að hræða hina í skólanum breytast í skrímsi. Örfáir krakkar komast að því að stórhættuleg tákn hafa verið teiknuð á veggi draugahússins og hafi þannig opnað gátt fyrir eitthvað sem við vitum ekki hvað er, en við köllum Myrkrið. Þessir krakkar eru hin ofurklára Arndís, pólsku systkinin Pavel og Joanna, fótboltahetjan Halldór, hin alltaf pínulítið pirraða Æsa og hinn álkulegi Pétur (sem er töluvert skotinn í Æsu og hún hugsanlega í honum). Eitt af öðru eru krakkarnir étin eða þaðan af verra en ná þó rétt í lokin að brenna niður draugahúsið. Rúnirnar hverfa og allt spólast til baka. Allir sem dóu lifna aftur við en enginn man eftir því hvað gerðist.
Ári seinna eru sami skóli á leiðinni út á land í skólaferðalag. Um nóttina eru tveir enn vakandi, handboltastelpan Natalia og hinn eitursvali Meistari og þegar varðeldurinn sem þau hafa kveikt byrjar að tala við þau geta þau ekki annað en hlustað. Myrkrið hefur vaknað á ný og nú sleppur það út með látum. Í þetta skiptið eru rúnirnar ekki ristar á tjöld sem hægt er að brenna heldur tré sem ná ofan í jörðina og um leið flæðir Myrkrið um allt. Uppvakningar, uppvakningakettir og uppvakningageitur er bara lítill hluti af því sem Natalia og Meistarinn þurfa að kljást við, ásamt krökkum sem öll voru í öftustu rútunni með þeim. Í lokin standa bara nokkrir eftir; dýravinurinn Klara, besti vinur hennar Ragnar og svo auðvitað Meistarinn og Natalia. Saman finna þau yfirgefinn bóndabæ, girða hann af og halda sig til hlés. Myrkrið og skrímslin eru enn þarna úti. Þau halda að enginn muni finna þau, þar til einn daginn er bankað upp á: Æsa, Pétur, Pawel, Joanna, Halldór og Arndís eru mætt á svæðið.
Og þá vindum við okkur í Skólaslit 3. Síðustu Skólaslitin. Þau byrja 2. Október inná skólaslit.is. Það er bæði hægt að hlusta og lesa. Eða bæði í einu. Sjáumst þá!