top of page
6. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 11:45
6.jpg

Pawel og Halldór hlaupa inn í flugstöðina.

„Þau urðu eftir!“ hrópar Pawel. „Pétur og Æsa eru úti, þau urðu eftir!“ Rödd hans, sem venjulega er ekkert sérlega hávær, bergmálar um yfirgefinn salinn.

Henni er svarað með veini.

Strákarnir líta um öxl. Uppvakningurinn úr glergöngunum kemur hlaupandi á fullri ferð. Hann er skakkur og skældur og útum allt eins og sokkur á snúru í roki. Hann er trylltur á svip og hleypur ótrúlega hratt. Sem er frábært, því það þýðir að hann er of snöggur fyrir sjálfvirku hurðina. Með blautum smelli skellur uppvakningurinn á lokaðar dyrnar og fellur aftur fyrir sig. Rúðan er kámug af slími og blóði.

Ófétið skellur í jörðina með subbulegum dynk.

Á nákvæmlega sama augnabliki opnast sjálfvirku dyrnar.

Hviss!

Þetta væri pínu fyndið ef það væri ekki svona hræðilegt.

Strákarnir stoppa og stara á skrímslið.

„Heldurðu að hann sé...“ byrjar Pawel en kemst ekki lengra. Uppvakningurinn sest svo hratt upp að hann brýtur næstum á sér bakið. Strákarnir heyra brakið í beinunum alla leið inn í flugstöðina. Ófétið lítur ringlað í kringum sig, sér þá, veinar og skríður svo af stað. Einhvern veginn er það miklu verra en þegar hann hljóp á eftir þeim.

„Hlauptu!“ gargar Halldór og Pawel þarf ekki að láta segja sér það tvisvar.

Halldór veit ekki hvað gekk á þegar uppvakningarnir mættu fyrst í flugstöðina fyrir einhverjum mánuðum síðan, en af subbuskapnum á gólfinu, veggjunum og meira að segja loftinu að dæma, er hann feginn að hafa ekki verið hérna þegar það gerðist. Fýlan er enn ferleg og hann reynir eins og hann getur að anda með munninum.

Strákarnir hlaupa í gegnum neðstu hæð flugstöðvarinnar, skjótast undir og yfir bönd sem einu sinni áttu að kenna ferðalöngum hvernig átti að vera í röð og passa sig að klessa ekki á skilti og innskráningar-skjái sem standa hér og þar. Halldór stekkur yfir töskuhaug sem einhvern tímann var líklega einhvers konar varnarveggur sem hafði ekki haldið. Pawel flækir sig næstum í íþróttatösku sem einhver hefur hent frá sér, en rétt nær að halda jafnvægi.

Ætlunin var að reyna að finna mat og ná sambandi við umheiminn. Það verður þó að bíða í bili. Fyrst verða þeir að finna öruggt skjól.

„Hvert?“ kallar Pawel.

„Upp!“ svarar Halldór. „Hann á aldrei eftir að geta skriðið upp stigann. Og ef honum tekst það verðum við löngu farnir eitthvert annað.“ Hann bendir í áttina að rúllustiga sem auðvitað virkar ekki lengur. Pawel eltir. Hann veit hvað er þarna uppi. Hann man eftir því frá því hann fór síðast til Póllands. Þetta er öryggistékkið og fríhöfnin. Rúllustiginn er greiðfær. Engar töskur hér. Halldór tekur þrjár tröppur í hverju skrefi og Pawel fylgir fast á eftir. Halldór er samt miklu sneggri og kominn upp á topp löngu á undan. Fótboltagarpurinn hleypur í hvarf og Pawel getur ekki annað en brosað.

Þeir eiga eftir að stinga þennan skríðandi uppvaking af og fara létt með það.


Pawel er í rúllustiganum miðjum þegar hann heyrir Halldór skyndilega veina einhvers staðar í fjarska.

„Hvað?!“ kallar Pawel á móti og stoppar. Hann þarf ekki að bíða eftir svari. Halldór kemur hlaupandi aftur niður rúllustigann, eins hratt og hann getur.

„Til baka!“ veinar hann. „Til baka!“ Hann þýtur fram hjá Pawel og tekur núna fjórar tröppur í hverju skrefi. Pawel lítur upp í áttina sem Halldór hafði komið hlaupandi úr. Hann veit að hann ætti að nýta tímann í að flýja, en hann bara verður.

Pawel heyrir í þeim áður en hann sér þá.

Svo koma þeir.

Uppvakningarnir.

Heilt flóð af þeim. Klæddir upp sem starfsfólk flugvallarins, flugmenn eða ferðafólk. Skrímslin eru öll í myglaðri kantinum og sum hver meira að segja hálfgegnsæ. Eins og þau séu að tærast upp.

,,Það er nýtt..." hugsar Pawel. Þau hlaupa. Skríða. Sumir meira að segja velta sér.

„Pawel!“ gargar Halldór, nú kominn aftur á jarðhæðina, og Pawel rankar við sér. Hann hleypur á eftir vini sínum.

Skyndilega er eins og flugstöðin hafi lifnað við.

Úr öllum hornum, handan innritunarborða, meira að segja úr baðherbergjunum í kjallaranum, flæða nú uppvakingar. Þeir eru eins og alda af tönnum og höndum. Þeir ýta og bíta, hrasa hver um annan og einhverjir klifra meira að segja eftir veggjunum eins og ógeðslegar, gríðarstórar köngulær. Strákarnir hlaupa. Stundum er Halldór á undan, stundum Pawel. Þeir vita ekkert hvert þeir ætla, en þeir mega ekki stoppa. Halldór hleypur svo hratt að ef einhver væri að taka tímann væri hann örugglega búinn að setja Íslandsmet í spretthlaupi innanhúss. Hann hleypur eins og hann eigi lífið að leysa.

Skyndilega sér hann glitta í hálfopna hurð í fjarska, merkt „Starfsmannainngangur“. Bingó!

„Þangað!“ veinar Halldór og bendir um leið og hann skiptir um stefnu.

En þá gerist það: Halldór er svo spenntur fyrir starfsmannainnganginum að hann fylgist ekki nógu vel með. Á gólfinu fyrir framan hann liggur yfirgefin ferðtaska. Hann flækist í henni.

Missir jafnvægið.

Og flýgur fram fyrir sig.

Það bergmálar holur hvellur um flugstöðina þegar höfuðið á Halldóri skellur í hart gólfið.

Allt verður svart.
 

„Halldór!“ gargar Pawel og skransar til að stoppa við hlið hans. Halldór liggur eins og kartöflupoki á gólfinu. Uppvakningarnir nálgast úr öllum áttum. Pawel skimar í kringum sig eins og óður. Starfsmannainngangurinn er rétt hjá. Dyrnar eru enn hálfopnar. Og svona nálægt getur Pawel séð hvers vegna: Það er afrifinn handleggur fastur í gættinni.

Uppvakningarnir veina af hungri. Þeir nálgast með hverju andartakinu.

„Vaknaðu!“ veinar Pawel og slær Halldór í framan með flötum lófa eins fast og hann getur. Það virðist duga. Halldór galopnar augun. Ennið á honum er nú þegar orðið stokkbólgið. Þetta verður stór kúla. Ef þeir lifa af, það er að segja.

Pawel rífur í Halldór og nær að koma honum á fætur. En það er erfitt; Halldór er bæði stærri og þyngri en Pawel.

„Já...“ tautar Halldór lágt og staulast af stað. „Einmitt...“


Pawel dregur Halldór með sér en sá síðarnefndi virðist varla taka eftir því.

Vegna þess að skyndilega heltekur furðuleg tilfinning hann.

Í fyrstu finnst Halldóri hún vera ókunnug, en svo fattar hann það: Þetta er sama tilfinning og hann hefur verið með í maganum þá morgna sem hann hefur dreymt illa. Þegar hann hefur dreymt... draugahúsið? Martröðina sem þau öll dreyma.

Nema núna er þessi óþægilega tilfinning einhvern veginn meiri. Eins og hann sé að horfa á bíómynd sem hann gleymdi að hann hefði séð áður.

Halldór lítur um öxl. Skrímslin stefna öll í áttina að honum. Og skyndilega verður tilfinningin helmingi stærri. Hún verður hræðileg. Og Halldór verður algerlega viss um eitt; að Pawel eigi eftir að loka hann úti. Að Pawel verði fyrri til að komast inn um hálfopnar dyrnar, að hann eigi eftir að skella hurðinni á nefið á honum. 

Og hvers vegna?

Því það var það sem gerðist síðast.

Halldór hristir höfuðið. Hvað þýðir það? Hvað gerðist síðast? Síðast hvenær?

Hann hefur ekki tíma til að velta því lengur fyrir sér. Þeir eru komnir að starfsmannainnganginum.

 

Pawel hendir sér á dyrnar sem opnast upp á gátt. Hann sparkar afrifnum handleggnum frá sem flýgur eitthvert út í buskann. Svo rífur Pawel eins fast og hann getur í Halldór, sem staulast sljór inn um gættina.

Pawel hefur engan tíma til að spá í það hvort uppvakningar leynist hinum megin við hálfluktar dyrnar. Allt er betra en það sem er á eftir þeim.

Hann snýr sér við.

Uppvakingarnir eru rétt við dyrnar. Sá fremsti teygir sig í áttina að honum. Þetta er túristi. Hann er enn í litríkri dúnúlpu. Það vantar hálft andlitið á hann.

Pawel hefur ekki einu sinni tíma til að láta sér bregða.

Hann grípur í hurðina og skellir eins fast og hann getur.

Dyrnar lenda beint á andliti uppvakningsins af fullum krafti. Það litla sem eftir var af fésinu verður umsvifalaust að rauð-svörtu mauki sem dreifist yfir dyrnar.

Hurðin smellur í lás.


Strákarnir sitja móðir á köldu gólfinu. Þeir eru staddir á löngum og þröngum gangi. Ljós frá grænu skilti fyrir ofan læstar dyrnar er eina týran hér inni.

Það er barið á dyrnar. Orgað og veinað. Meira að segja rifið í hurðarhúninn. Þær halda.

„Þarna munaði mjóu,“ stynur Pawel lágt og hallar sér upp að veggnum. Hann fær ekkert svar. Halldór situr bara og starir fram fyrir sig. Pawel lítur á hann.

„Halldór?“ spyr hann áhyggjufullur. „Er í lagi með þig?“ Kúlan á enninu er orðin enn stærri en bara rétt áðan. Halldór starir bara fram fyrir sig. Loks segir hann eitthvað, en það er svo lágt að Pawel greinir ekki orðaskil. Hann hallar sér nær vini sínum og tekur af sér heyrnartólin til að heyra betur. Umsvifalast verður allur hávaði frá uppvakningunum óbærilegur. Skerandi. Úr öllum áttum.

„Hvað?“ spyr Pawel.

Og loks heyrir hann hvað Halldór er að segja:

„Ég veit hvað þeir eru...“


Pawel hristir höfuðið.

„Hvað ertu að tala um?“ spyr hann. „Veistu hvað hvað eru?“ Halldór heldur um höfuðið, eins og hann sé að reyna að ná utan um þetta allt saman.

„Draumarnir,“ segir hann titrandi röddu. „Sem við dreymum öll. Um draugahúsið.“ Pawel starir á Halldór og þorir ekki að hreyfa sig. Hann veit hvað Halldór er að tala um. „Ég held að eitthvað hafi gerst þegar ég datt...“ heldur Halldór áfram en þarf að grafa djúpt eftir hverju einasta orði. „Eins og eitthvað hafi... losnað.“ Pawel þorir ekki að anda.

„Hvað þá?“ spyr hann. Skyndilega slokknar á störunni í augum Halldórs. Hann lítur á Pawel. 

„Ég held að draumarnir okkar, sem við öll dreymum á hverri einustu nóttu, séu ekki draumar...“ hvíslar Halldór og röddin er svo tóm að hún er nánast óþekkjanleg. „Ég held að þetta séu minningar.“

bottom of page