top of page
6. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 06:40
6.jpg

Kötturinn stóð móður og slefandi fremst í rútunni.

Krakkarnir sem höfðu verið á leiðinni út snarstoppuðu.

Bílstjórinn, enn spenntur í beltið sitt, enn með báðar hendur á stýrinu, leit forviða á gólfið þar sem ófétið beið.

„Hvað í ósköpunum kom fyrir þig... ?“ byrjaði hann en komst ekki lengra. Kötturinn sneri sér að honum, hvæsti og stökk. Í fullkomnum boga, eins og bara kettir geta myndað, lenti dýrið beint á bumbunni á bílstjóranum. Hann skaut út klónum, rak þær á bólakaf í bringuna á aumingja manninum og klifraði. Leiftursnöggt.

Upp eftir hálsinum. Tók örlítinn hring yfir hnakkann. Niður eftir enninu.

Og endaði á andlitinu.

Áður en bílstjórinn náði einu sinni að byrja að öskra var kötturinn byrjaður að bíta.

Og klóra.

Og éta.

Bílstjórinn öskraði.

Krakkarnir sömuleiðis. Allir hrökkluðust eins langt í burtu frá bílstjórasætinu og þeir mögulega gátu. Einhverjir duttu. Aðrir ekki.

Að utan heyrðist í Braga náttúrufræðikennara og Klöru sem greinilega voru að koma hlaupandi. En þau mundu aldrei komast inn. Því í árangurslausri tilraun til að losa köttinn af andlitinu á sér byrjaði bílstjórinn að baða höndunum í allar áttir. Mælaborðið fyrir framan hann var ekkert nema takkar. Hann lamdi í þá alla.

Dyrnar lokuðust.

„Bíddu!“ veinaði Bragi fyrir utan en var of seinn. Hann lamdi í lokaðar dyrnar. Bílstjórinn, enn með köttinn á andlitinu, sperrtist allur upp í sætinu.

Annar fóturinn fann bensíngjöfina.

Og ýtti alveg niður.

Rútan brunaði af stað!

Einhverjir krakkar voru í beltum, langflestir ekki. Rútan rásaði fram og til baka eftir veginum og fór sífellt hraðar og hraðar.

„Vó!“ veinaði Meistarinn þar sem hann sat í sætinu sínu og skall með ennið í rúðuna. Ragnar, sem rétt hafði náð að festa sig í belti áður en rútan lagði aftur af stað, starði með hryllingi fram fyrir sig. Hann sat aftarlega en hann sá samt blóðsletturnar sem nú þöktu framrúðuna.

Bílstjórinn, sem enn var veinandi, náði loks góðu taki á feldi kattarins og reif í.

Eins fast og hann gat.

Þrennt gerðist á sama tíma; feldur kattarins byrjaði að gefa sig þar sem bílstjórinn reif í hann. Súr fýla gaus upp. Á sama tíma skaut kötturinn klónum út eins langt og hann gat og inn í andlit bílstjórans. Hann ætlaði sko ekki að missa takið á þessum girnilega bita.

Og það síðasta – það hræðilegasta af öllu – var þegar bílstjórinn náði loksins að nota sinn síðasta kraft til að rífa köttinn af andlitinu á sér. Klær dýrsins voru svo djúpt inni í húðinni að það var bara eitt sem gat gerst; bílstjórinn reif andlitið af sjálfum sér.


Kattarkvikindið og andlit bílstjórans klesstust bæði á blóðuga framrúðuna. Kötturinn datt niður á gólf – andlitið sat fast á rúðunni og starði holum augum á krakkana sem þorðu ekki að hreyfa sig.

Rútan var enn á fullri ferð. Bílstjórinn féll fram fyrir sig.

„Allir í belti!“ veinaði einhver.

„Getur einhver gripið stýrið?“ hrópaði annar. Stelpa úr 10. bekk ætlaði að hlaupa til og bjarga málunum en hætti snarlega við. Skyndilega byrjaði bílstjórinn að kippast til og frá. Svo sperrist hann aftur upp í sætinu sínu, gersamlega óður, bítandi út í loftið. Hendurnar teygðar í áttina að krökkunum. Sem betur fer var hann fastur í beltinu sínu.

Rútan rásaði fram og til baka eftir veginum. Fór næstum út af hægra megin, svo vinstra megin, lenti næstum framan á bíl sem kom á móti, en náði einhvern veginn að halda sér á malbikinu.

„Hvað er að honum?“ veinaði stelpa sem sat skammt frá bílstjóranum. Hún var ekki enn komin í belti og kastaðist fram og til baka eftir því hvert rútan fór. „Hvers vegna er hann að bíta svona?!“ Strákur í 10. bekk sat í sætinu fyrir aftan hana. Honum gat ekki verið meira sama um bílstjórann.

Hann var að leita að kettinum.

„Hvert fór hann?“ hrópaði strákurinn og losaði beltið sitt. „Hvar er...“ Hann komst ekki lengra. Undan sætinu hans kom kötturinn hlaupandi á fullri ferð, stökk á lærið á honum og fékk sér stóran bita. Strákurinn kastaðist aftur í sætinu sínu, veinaði og greip um lærið. Kettinum gat ekki verið meira sama. Hann skaust upp eftir handlegg stráksins og notaði stólbakið til að spyrna sér og stökkva. Hann lenti á hálsi stelpunnar fyrir framan strákinn og beit.

Það var blóð alls staðar.

„Aftast í rútuna! Aftast í rútuna!“ veinaði Ragnar og losaði beltið sitt. Meistarinn hermdi. Fjölmargir krakkar sömuleiðis. 8. bekkingarnir sem höfðu verið í gamnislag beittu nú öllum sínum kröftum í að reyna að brjóta rúðuna fyrir ofan öftustu sætaröðina.

„Við verðum að komast út!“ öskraði einn af þeim, lávaxinn gaur með gleraugu, og lamdi í glerið. Rúðan gaf sig ekki.

Ragnar heyrði öskur og leit um öxl í áttina að látunum. Kötturinn hafði stokkið á allavega fjóra til viðbótar og myglaður feldurinn var nú orðinn rennandi. En það var samt ekki það versta.

Það var eitthvað virkilega mikið að krökkunum sem kötturinn hafði bitið.

Þau stóðu skyndilega upp með látum. Eins og þau væru þaulæft dansatriði. Störðu í kringum sig eins og óð. Augun sjálfslýsandi. Munnarnir hálfopnir.

„Hvað í...“ byrjaði Ragnar en komst ekki lengra. Skrímslin stukku af stað. Réðust á krakkana sem voru í sætunum næst þeim, sem flest voru föst í beltum og komust hvergi.

„Brjótið gluggann, brjótið gluggann, brjótið gluggann!“ öskraði Ragnar og lamdi eins fast og hann gat í glerið.

Bragi náttúrufræðikennari og Klara stóðu enn þar sem rútan hafði stoppað og horfðu á hana dansa fram og til baka neðar á veginum.

Og að lokum var heppnin ekki lengur með rútunni.

Hún tók harkalega beygju til hægri, lyftist örlítið upp vinstra megin og þaut útaf.

bus_copy copy.jpg
bottom of page