top of page
17. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 09:36
7.jpg

Krakkarnir hlaupa.

Það skiptir ekki máli hvort það er möl eða gras eða malbik sem fyrir þeim verður; þau mega ekki láta neitt stoppa sig. Einhvern tímann þurfa þau að redda sér sokkum og skóm, en það er ekki efst á listanum akkúrat núna.

„Það er bara tímaspursmál hvenær Þjálfarinn og hinir í Foreldrafélaginu fatta að við erum farin,“ másar Natalia og hvetur krakkana áfram með því að snúa sér við og hlaupa aftur á bak. „Áfram með ykkur!“

„Já, já, já, þú ert í hrikalega góðu formi!“ másar Æsa og lítur í kringum sig hvort hún sjái ekki stein eða eitthvað sem hún getur kastað í Nataliu.

„Hvert förum við?“ spyr Arndís stressuð og skimar í kringum sig. „Ég held að skólinn sé ekki málið.“ Hinir krakkarnir eru sammála.

„Ráðhúsið?“ spyr Natalia. „Það er styttra þangað en í skólann.“ Æsa grettir sig.

„Er ekki eiginlega bókað að það séu einhverjir þar?“ Natalia hugsar sig um. Hugsanlega er þetta rétt hjá Æsu.

„Það voru allir á leiknum,“ segir Ragnar. „Ráðhúsið er pottþétt tómt. Og það er stórt. Við getum falið okkur.“

„En ef við förum bara? Út fyrir varnargarðinn?“ spyr Arndís. Pawel hristir höfuðið.

„Þú heyrðir hvað Lárus rafvirki sagði: Þótt að Myrkrið sé það sem heldur öllu úti er samt straumur á honum. Við komumst pottþétt ekki yfir hann.“

„En í eitthvað hús?“ spyr Natalia. „Eða blokk?“

„Allavega ekki Ráðhúsið,“ segir Arndís. „Þar eru bara skrifstofur og bækur.“

Skyndilega stoppar Pawel.

Hinir krakkarnir taka eftir því. Þau hægja á sér eitt af öðru.

„Komdu,“ skipar Arndís eins lágt og hún getur.

„Já, drífum okkur, hvað er í gangi?“ hvíslar Æsa og lítur stressuð í áttina að íþróttahöllinni. Hún er enn hættulega nálægt.

„Hvað, Pawel?“ spyr Natalia og byrjar að ganga aftur í áttina til hans. Pawel svarar engu. Hann bara hugsar sig um. Svo stekkur hann skyndilega af stað. Hleypur fram hjá þeim öllum. Stingur þau af.

„Pawel?“ kallar Arndís á eftir honum. „Komdu hérna!“ Pawel hlýðir ekki. Hleypur bara enn hraðar. Þýtur yfir götur og gangstéttir. Fótatakið bergmálar í nóttinni. Hann stefnir í áttina að Ráðhúsinu. Krakkarnir elta.

„Hvað ertu að gera maður?!“ hvæsir Æsa á eftir honum.

„Ráðhúsið er líka bókasafn!“ kallar Pawel til baka. „Og ég er með hugmynd!“

Ráðhúsið er vissulega líka bókasafn. Og það er tómt. Einhvern tímann gerðist eitthvað hræðilegt hérna en Foreldrafélagið virðist hafa náð að hreinsa verstu klessurnar af veggjunum. Það er samt enn dökkrauður blettur á gólfinu í anddyrinu sem virðist engin leið að þrífa.

„Ekki kveika of mörg ljós!“ kallar Æsa á eftir Pawel, sem hverfur á milli bókahillanna. Arndís eltir hann.

„Þið standið vörð!“ kallar hún til baka án þess að líta um öxl.

Ragnar, Æsa og Natalia hlýða.

Þau gægjast út um glugganna. Allt er með kyrrum kjörum.

Í nokkrar mínútur.

Svo sjá þau glitta í hóp af fólki í fjarska. Fólkið er að koma úr íþróttahöllinni.

„Niður!“ hvíslar Æsa um leið og hún rífur í Ragnar með annarri og Nataliu með hinni.

Þau liggja flöt á gólfinu og fylgjast með fólkinu nálgast í gegnum kámuga glugga úr öruggri fjarlægð. Eftir því sem fólkið nálgast kannast krakkarnir við sífellt fleiri andlit. Þetta eru meðlimir Foreldrafélagsins. Þau virðast samt ekki hafa áhuga á Ráðhúsinu, jafnvel þótt nokkur ljós hafi verið kveikt þar inni. Þau eru annars hugar og stefna öll aftur í áttina að skólanum, áhyggjufull á svip.

„Sjáiði nokkuð Rafv... Lárus einhvers staðar?“ hvíslar Ragnar og vogar sér að kíkja aðeins betur. Æsa hristir höfuðið. Ragnar hugsar sig um. „Hvað haldiði að þau hafi gert við hann?“ spyr hann svo. Hvorug stelpnanna segir nokkuð. Þær geta rétt ímyndað sér það.

Síðastur er Þjálfarinn. Langsíðastur. Aleinn. Hann arkar ákveðnum skrefum á eftir hópnum, eldrauður í framan og blótandi.

„Ekki... hreyfa ykkur...“ hvíslar Æsa um leið og hann veður fram hjá Ráðhúsinu. „Hann er mjög... nálægt...“

Skyndilega snarstoppar Þjálfarinn.

 

Ragnar og Natalia líta bæði á Æsu, brjáluð á svipinn.

Hún hristir höfuðið. Það er ekki séns að hann hafi heyrt í henni. Bara ekki séns!

Og það er rétt hjá henni.

Í fyrstu heyra krakkarnir ekki hvað það er, en svo læðist hvíslið inn í Ráðhúsið. Það fyllir það.

„Hvar?“ spyr rödd sem er svo kunnugleg að krakkarnir þora varla að anda. Það er eins og það kólni allt í kringum þau. Einhvers staðar í iðrum bókasafnsins fellur bók á gólfið með háum hvelli. Krakkarnir taka kipp.

Það gerir Þjálfarinn sömuleiðis.

En ekki vegna þess að annað hvort Pawel eða Arndís misstu bók. Vegna þess að hann var ekki nógu snöggur að svara spurningunni. Eins og einhver í nóttinni hafi potað í hann, ýtt við honum til að hann sé fljótari að taka við sér.

„Hvar?!“ hvíslar röddin, hærra í þetta skiptið, frekjulegar í þetta skiptið, stressaðri í þetta skiptið. Þjálfarinn kippist aftur við, eins og hann hafi fengið rafstraum.

„Við erum að leita, við erum að leita, hm?!“ segir hann óðamála og byrjar að snúast í hringi um sjálfan sig, eins og hann sé að reyna að verjast einhverju ósýnilegu. Æsa byrjar að brosa.

„Hann er hræddur...“ hugsar hún. Og fílar það í tætlur.

„Snöggur...“ hvíslar röddin og Þjálfarinn byrjar umsvifalaust aftur að arka í áttina að skólanum. „Snöggur!“ skipar hún og nú hleypur Þjálfarinn.

Krakkarnir horfa á eftir honum og þora ekki að hreyfa sig.

Þótt Þjálfarinn sé farinn er Myrkrið enn þarna einhvers staðar.

„Alls staðar,“ eins og Lárus rafvirki hafði sagt.

Þau liggja. Bíða. Horfa. Hlusta.
Það líður örugglega korter áður en krakkarnir þora að standa aftur á fætur. Hitastigið er aftur orðið eins og það var.

„Ég held við séum góð í bili,“ hvíslar Ragnar og lítur inn í bókasafnið. „Finnum þau.“

Inn í horni hafa Pawel og Arndís komið sér fyrir við borð. Það er þakið blöðum og bókum. Arndís situr í stól og flettir stórri bók merktri GATNAKERFI REYKJANESBÆJAR fram og til baka, á meðan Pawel, vopnaður blaði og pennum í alls kyns litum, teiknar.

„Svona,“ segir Arndís og bendir á eitthvað í bókinni. Pawel kinkar kolli, bendir á eitthvað annað í bókinni og heldur svo áfram að teikna. Arndís tekur eftir krökkunum og dæsir. „Mikið var,“ segir hún og lagar gleraugun á nefinu. „Við erum komin með þetta.“ Æsa fnæsir en segir ekkert.

„Komin með hvað?“ spyr Natalia. Arndís lítur á Pawel.

„Vilt þú taka þetta, eða?“ Pawel kinkar kolli. Hann ýtir öllu af borðinu nema stóru blöðunum sem hann hefur verið að teikna á. Breiðir úr þeim. Sýnir krökkunum.

Ein teikninganna sýnir skólann þeirra. Þetta er nákvæm teikning, hver gangur og stofa merkt samviskusamlega.

Næsta sýnir svæðið í kringum skólann. Allar götur, öll hús.

Sú þriðja sýnir svæðið í kringum svæðið í kringum skólann.

Sú fjórða sýnir enn stærra svæði. Í kringum það hefur verið teiknaður hringur.

„Varnargarðurinn,“ segir Pawel og bendir á hringinn. „Höldum við. Kannski nokkrir metrar til eða frá.“

„Miðað út frá því sem við sáum út um gluggann fyrr í kvöld,“ skýtur Arndís inn í. „Ef við reiknum með að skólinn okkar sé miðjan og fjarlægðin sé þess vegna sú sama í allar áttir, ætti varnargarðurinn að vera um það bil svona stór.“ Hún lítur stolt á Pawel og svo á krakkana. Þau líta brosandi til baka.

„Vel gert,“ segir Ragnar. Arndís roðnar smá.

„Ókei...“ segir Natalia efins. „Þetta eru alveg flottar myndir en hvað eigum við að gera við þetta?“ Pawel brosir.
„Við ætlum að snúa vörn í sókn. Þetta byrjaði í draugahúsi. Þetta mun enda í draugahúsi.“ Hann bendir á teikningarnar og lítur svo spenntur á hina krakkana.

„Þannig að við ætlum að breyta skólanum aftur í draugahús?“ spyr Æsa efins. Pawel brosir út í annað og lagar heyrnartólin á höfðinu.

„Þú mátt segja það,“ segir hann og lítur á Arndísi. „Ég sagði allt hitt.“ Hún glottir.

„Ekki bara skólanum,“ svarar hún og réttir úr sér. Hún lagar gleraugun á nefinu. „Við ætlum að breyta öllu innan varnargarðsins í eitt stórt draugahús!“
 

skolaslit-3_s17_bly.jpg
bottom of page