top of page
17. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 11:31
1.jpg

Þau sitja öll inni á kaffistofu, öll með kakó eða kaffi, öll að ná í sig hita.

Það er enginn inni á lögreglustöðinni nema Þórkatla lögreglustjóri. Hún hleypur fram og til baka, sækir fleiri teppi og hlý föt á milli þess sem hún spyr frétta. Krakkarnir og Bragi segja henni hvað hefur á daga þeirra drifið.

Þau segja frá öllu.

Líka varðeldinum.

Þeim til mikillar gleði trúir Þórkatla þeim. Efast um ekkert. Kinkar kolli á hárréttum stöðum og glósar niður hitt og þetta.

„Hefur þú ekki orðið vör við neitt skrítið?“ spyr Bragi loks og klárar úr kaffibollanum. „Ekkert í fréttunum um þetta eða neitt slíkt? Ekkert á netinu?“ Þórkatla hristir höfuðið.

„Hér er bara búið að vera mjög rólegt,“ segir hún. „Einhverjir foreldrar auðvitað að tékka hvort ég væri búin að heyra eitthvað frá rútunum, en ég sagði þeim bara að fara heim og að ég myndi láta þau vita á vefsíðu lögreglunnar.“

„Ertu bara ein á vakt?“ spyr Meistarinn skyndilega. Þórkatla lítur á hann einu andartaki of lengi og kinkar svo kolli.

„Alein,“ segir hún brosandi. „Það er stundum þannig. Sæmundur greyið var veikur. Með hausverk. Honum leið víst eins og „einhver væri að kljúfa höfuðið á honum í tvennt“.“ Hún hlær. „Eða það er allavega það sem hann sagði í símanum, hann er alltaf svo dramatískur.“

„Ekkert á netinu?“ spyr Bragi aftur. „Eða í sjónvarpinu?“ Hún hristir höfuðið.

„Veðrið truflar sjónvarpsútsendingarnar og netið er búið að detta inn og út í allan dag. Mér skilst það sé svoleiðis yfir allt sveitafélagið. En ég skil ekki svona net-dæmi, kann ekkert á þetta.“ Hún hlær aftur.

„Hvernig geturðu þá látið foreldrana vita?“ spyr Klara. Þórkatla lítur á hana, forvitin á svip. „Fyrst netið er að detta inn og út?“ Lögreglustjórinn brosir.

„Þú ert svolítið klár,“ segir hún. Klara veit ekki hvort þetta er hrós eða ekki.

„Takk,“ segir hún, bara til að vera viss.

„Ég myndi vilja drífa mig heim,“ segir Ragnar skyndilega og stendur á fætur. „Mamma og pabbi eru örugglega mjög stressuð. Megum við það?“ Þórkatla hristir höfuðið og bendir á stóran glugga kaffistofunnar.

„Alltof vont veður. Ég skal hringja í þau. Engar áhyggjur.“

„Ókei, en ég nenni allavega ekki að húka hér,“ segir Meistarinn og stendur á fætur. „Má ég skoða vopnin?“ Þórkatla brosir og Bragi grípur dagblað af borðinu og lemur í Meistarann.

„Ái!“ djók-kvartar unglingurinn.

„Hagaðu þér, drengur,“ fíflast Bragi. Svo lítur hann á lögreglustjórann. „Mega þau ekki rölta um og skoða? Þau lofa að gera ekkert af sér.“ Hann lítur á krakkana. „Ekki satt?“ Þau kinka öll kolli. Þórkatla virðir þau fyrir sér.

„Gott og vel,“ segir hún loks. „En ef eitthvað er læst má ekki opna það og haldið ykkur frá bílskúrnum.“

„Af hverju?“ spyr Meistarinn púkalega.

„Því hún sagði það,“ segir Bragi og lemur hann aftur með dagblaðinu. Allir hlæja. Þórkatla hæst allra.

Krakkarnir ráfa um stöðina. Þau finna gamla lögreglubúninga, máta húfur merktar löggunni og stelast til að setjast í skrifstofustólana.

„Úff, hvað er málið?“ spyr Klara allt í einu og lyktar út í loftið. Natalia og Ragnar, sem standa við stóra korktöflu og eru að skoða eitthvað sem þau halda að sé ægilegt glæpamál (en er líklega skipulagning um hver á að þrífa klósettið í næstu viku), rölta til hennar. Meistarinn er stunginn af. Krakkana grunar hvert, en segja ekkert.

„Hvað?“ spyr Ragnar.

„Fyndin fýla.“ Natalia kinkar kolli.

„Já, oj. Ég finn hana núna.“ Ragnar tekur eitt skref og stoppar. Hann steig ofan í eitthvað. Teppið virðist vera blautt, bara rétt hjá tölvunum.

„Kemur örugglega héðan,“ segir hann og tekur nokkur skref á nokkurn veginn sama staðnum. Subbulegt hljóð heyrist undan skónum, eins og hann sé að kreista svamp.

„Leki?“ spyr Natalia. Þau líta upp í loftið.

„Eða einhver hellti einhverju niður,“ tautar Ragnar áhugalaus og skimar í kringum sig. Sér það sem hann er að leita að. „Farinn á klósettið,“ tilkynnir hann og skýst af stað.

Stelpurnar halda áfram að skoða.

Meistarinn er inni í bílskúrnum.

Auðvitað.

Hann lítur í kringum sig og iðar af spenningi. Honum finnst fátt skemmtilegra en að vera einhvers staðar þar sem hann má ekki vera. Hér er stór og flottur löggubíll, alls konar drasl sem má finna í hverjum einasta bílskúr og stór frystikista í öðrum endanum. Og svo auðvitað risastóru dyrnar sem liggja út. Og litlu dyrnar sem hann kom inn um.

Með öðrum orðum; ekkert merkilegt.

Hann röltir og skoðar.

„Hvers vegna máttum við ekki koma hingað inn?“ tautar hann um leið og hann beygir sig og gáir undir löggubílinn. Ekkert. „Rugl er þetta,“ röflar hann um leið og hann gengur að frystikistunni og nemur staðar. „Nema...“ hvíslar hann og glottir.

Svo tekur hann í stórt handfangið sem stendur út úr loki kisturnnar.

Og opnar.

Meistarinn veinar og hrökklast aftur á bak. Rekur sig í gömul sumardekk og rennur næstum á höfuðið. Álpast í áttina að dyragættinni og kúgast örlítið. Stoppar ekki fyrr en hann kemst ekki lengra, með bakið upp við vegginn, rétt við dyrnar. Natalia og Klara heyra lætin og koma hlaupandi.

„Hvað?“ spyr Natalia og grípur í Meistarann. Hann bendir eins og óður með annarri og heldur fyrir munninn með hinni. Stelpurnar, sem hafa þekkt Meistarann lengi, hafa aldrei séð hann svona hræddan áður. Þær læðast að frystikistunni.

Opna hana.

Og þurfa að bíta í kinnarnar svo þær öskri ekki líka.


Ofan í fyrstikistunni liggur Sæmundur lögregluþjónn. Í tveimur hlutum. Frosinn. Við hliðina á honum er eitthvað sem lítur út eins og fölleitur og loðinn fatahaugur.

Þær halla sér nær.

Svo bakka þær aftur.

Þetta eru ekki föt.

Þetta er húð.

Þær sjá glitta í ljóst hár á tómu höfði, sem hvílir efst í haugnum eins og sprunginn bolti .

Klara teygir sig varlega í áttina að hárinu og tekur í það. Tosar. Þetta er þungt en Klara er þrjósk. Hún styður sig við fyrstikistuna og togar eins og hún getur.

Húðhaugurinn hefur enn ekki frosið allur saman og gefur loks eftir, eins og hræðilegur gormur.

Manneskja kemur í ljós. Neðri hlutinn er enn ofan í kistunni, en þar sem Klara stendur, togandi í hárið, fer ekki á milli mála að þetta er strákur. Unglingur.

„Þetta er eins og manneskjubúningur,“ hvíslar Natalia. Klara hristir höfuðið. Hún elskar dýr. Hún hefur lesið um svona lagað áður.

„Frekar eins og snákur,“ segir hún lágt. „Þegar þeir skipta um húð. Það er kallað hamskipti.“ Natalia starir.

„Manneskjuhamskipti?“ hvíslar hún og Klara þorir ekki að svara. Teygt andlitið starir á þær. „Hver er þetta eiginlega?“ spyr Natalia lágt. Klara hristir höfuðið.

„Ég veit það ekki,“ svarar hún og sleppir takinu. Hún getur ekki haldið lengur. Húðhaugurinn hrapar aftur ofan í fyrstikistuna með þungum dynk, sem stelpurnar munu aldrei gleyma.

„Þetta var ég,“ heyrist skyndilega sagt á bak við þær. Stelpurnar snúa sér við.

Í dyragættinni að bílskúrnum stendur Þórkatla lögreglustjóri.

Í annarri höndinni heldur hún um hnakkann á Meistaranum. Í hinni heldur hún á einhverju sem lítur út eins og langt og hrufótt bein.

Nema það er rautt á litinn.

Blóðrautt.

Það lekur.

Pollur hefur myndast á gólfinu.

Það tekur stelpurnar smástund að fatta á hverju lögreglustjórinn heldur. Svo sjá þær það. Þær hafa verið í líffræði. Þær hafa skoðað beinagrindur og lært nöfnin á hinum ýmsu beinum.

Þetta er hryggur. Úr manni.

Í eitt andartak halda þær báðar að Þórkatla hafi rifið hrygginn úr baki Meistarans, en hann virðist enn vera við hestaheilsu, enn að reyna að losa sig án árangurs.

„Ó, nei...“ hvíslar Natalia um leið og hún fattar hvað hefur gerst.

„Hvar er Bragi náttúrufræðikennari?“ spyr Klara lágt.

Þórkatla svarar engu.

Hún starir bara.

Og smám saman breyta augun um lit. Þau verða rauð.

Natalia tekur ósjálfrátt eitt skref aftur. Hún þekkir þessi augu. Þetta eru augun sem störðu á móti innan úr eldinum.

„Takk fyrir síðast,“ segir Þórkatla og brosir.

Svo brosir hún meira.

Og örlítið meira.

Brosið, sem getur hreinlega ekki stækkað meira, verður enn stærra. Lengra. Frekara.

Fyrir aftan Þórkötlu eru ljósin á lögreglustöðinni farin að flökta. Skuggarnir iða. Það er eins og það búi eitthvað í þeim. Eitthvað svangt.

Rafmagnið fer af.

bottom of page