top of page
16. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 14:00
6.jpg

Ragnar, Pawel, Æsa, Natalia og Arndís sitja stjörf á gólfi búningsklefans. Þau eru enn berfætt. Skammt frá þeim er skál með ávöxtum. Enginn hefur lyst.

„Við verðum étin,“ tautar Arndís og hristir höfuðið. „Ég mun deyja á fótboltavelli. Ég gæti ekki hugsað mér ömurlegri örlög.“ Æsa faðmar hnén sín og reynir að róa sig niður. Hún er algerlega brjáluð. Natalia hallar sér að Pawel, sem situr við hliðina á sér, og kreistir öxlina á honum. Hann segir ekkert. Starir bara á gólfið. Ragnar reynir að hugsa ekki um Klöru og hvað kom fyrir hana.

Þau vita ekkert hvort leikhléð er nýbyrjað eða rétt að klárast. Enginn segir þeim neitt. Það eina sem þau vita er að þetta er, eins og Þjálfarinn orðaði það: „Bara rétt að byrja.“
Það eru tvennar dyr í búningsklefanum. Aðrar, þær sem krakkarnir stauluðust inn um rétt áðan, leiða aftur út á völl. Hinar leiða út úr íþróttahöllinni.

Báðar eru læstar.

Þangað til önnur þeirra er það ekki.

Hár smellur segir þeim að einhver hefur tekið dyrnar sem leiða út úr íþróttahöllinni úr lás.  Krakkarnir spretta á fætur og búast við hinu versta. Hvað í ósköpunum gerist núna? Hvaða hræðilegheit munu flæða inn um gættina? Er strax komið að seinni helmingi leiksins?

Dyrnar opnast og maður laumar sér inn.

Hann lokar á eftir sér.

Þau þekkja hann um leið: Rafvirkinn.

Krakkarnir þora ekki að hreyfa sig. Sköllótti maðurinn starir á þau eitt andartak og lyftir svo upp báðum höndum.

„Ég kem í friði,“ segir hann lágt og stígur í áttina að þeim. Ósjálfrátt bakka þau öll. Hann stoppar. „Fyrirgefiði, ég ætlaði ekki...“ Hann tekur skref aftur á bak. „Þetta hefur algerlega farið úr böndunum,“ tautar hann. „Við vorum bara... við ætluðum aldrei...“ Hann stoppar sjálfan sig af og lítur á krakkana. Reynir að brosa. Það tekst ekki.

Krakkarnir stara á hann. Bíða eftir að eitthvað hræðilegt gerist.

„Við höfum ekki langan tíma,“ segir Rafvirkinn lágum rómi. „Það eru bara nokkrar mínútur eftir af pásunni og þá byrjar allt aftur. Ég var að koma af fundi með Þjálfaranum, hann er að velta upp þeim möguleika að bæta öðrum bolta við. Jafnvel þremur. Þið munuð aldrei eiga séns! Ekki að þið áttuð nokkurn tímann séns.“ Krakkarnir líta hvort á annað.

„Lengi getur vont versnað...“ tautar Æsa. Rafvirkinn bendir á dyrnar.

„Forðið ykkur og farið sem lengst í burtu. Út fyrir varnargarðinn, helst af landi brott ef þið mögulega getið. En farið varlega. Það er alls staðar! Og það lýgur!“ Krakkarnir stara á Rafvirkjann.

„Hvað er alls staðar?“ spyr Arndís ísköldum rómi. Rafvirkinn tekur aftur skref í áttina að þeim og í þetta skiptið forða þau sér ekki.

„Myrkrið,“ hvíslar hann og krakkarnir óska þess að hann hefði aldrei komið inn í búningsklefann.

„Myrkrið?“ apar Natalia miður sín upp eftir honum. „Það sem kom öllu af stað?“ Rafvirkinn kinkar kolli. Hana langar mest til þess að öskra. Natalia bendir út í loftið. „En, en, en varnargarðurinn?“ stamar hún. „Sem heldur öllu úti?“ Rafvirkinn hristir höfuðið.

„Hann heldur engu úti,“ segir hann lágt. „Þið hafið séð hvernig Myrkrið leggst bæði á menn og dýr. Haldiði að nokkrir veggir haldi þeim úti? Sama hversu háir þeir eru?“ Krakkarnir eru orðlausir. Hvað er maðurinn að tala um?

„En þið sögðuð...“ byrjar Pawel en Rafvirkinn stoppar hann.

„Við lugum,“ segir hann hranalega. „Við lugum að ykkur svo þið mynduð treysta okkur, svo þið mynduð koma með okkur, svo við gætum gefið ykkur Myrkrinu!“ Allar þessar upplýsingar velta upp úr honum í belg og biðu, eins og þær hafi ekki getað beðið eftir því að komast út.  Æsa er farin af fnæsa af reiði. Arndís tekur í annan handlegginn á henni.

„Róleg...“ segir hún lágt. En Æsa hlustar ekki.

„Hvernig í ósköpunum getið þið réttlætt það?“ hrópar hún. „Að gefa okkur Myrkrinu? Að fórna okkur bara?“ Rafvirkinn starir á hana.

„Þú ert svo ung,“ byrjar hann og hljómar eins og þolinmóður faðir að útskýra fyrir litlu barni, „þú manst ekki hvernig allt var, þú skilur ekki...“ Æsa grípur brjáluð frammí.

„Auðvitað man ég það! Þótt þú sért fullorðinn þýðir það ekki að ég sé vitlaus!“ Og nú fýkur í Rafvirkjann.

„Myrkið lofaði að allt yrði betra!“ veinar hann. Æsu dauðbregður. „Að allt yrði eins og það var! Að við þyrfum bara að finna ykkur! Á meðan myndi Myrkrið halda svæðinu okkar auðu. Það hjálpaði okkur meira að segja að reisa varnargarðana. Við höfum eytt mörgum mánuðum í að ferðast um, bjarga börnum úr hinum ýmsu aðstæðum, koma með þau hingað og sýna þau Myrkrinu, bara til þess að komast að því að það voru ekki réttu börnin, bara til þess eins að sjá Myrkrið taka yfir þau og breyta þeim í skrímsli.“ Rafvirkinn lítur skömmustulegur undan. Ragnar hugsar til kjallarans sem var ofan í kjallaranum og veit hvar þessi börn eru geymd. Hann hefur séð þau. Og hvað þau eru orðin.

„En nú átti að verða breyting á: Loksins fundum við ykkur, nú átti allt að verða í lagi, þetta átti allt að verða þess virði en þá heldur Myrkrið bara áfram, vill refsa ykkur, passa að þið þjáist, við héldum að það væri nóg að þið kæmuð hingað en þá heimtar Myrkrið þennan fáránlega fótboltaleik og ef eitthvert ykkar myndi lifa hann af væri það með aðra hluti planaða og þetta heldur bara endalaust áfram og áfram og áfram...“ Rafvirkinn týnir orðunum sínum og er farinn að babbla.
„Var það þess vegna sem þið voruð með myndir af okkur upp á vegg?“ spyr Ragnar. „Inni íþróttasal?“ Rafvirkinn þagnar og kinkar kolli.

„Við vildum vera alveg viss, fara yfir öll smáatriði áður en við sögðum Myrkrinu frá ykkur.“

„En hvað er „Öskurdagur“?“ heldur Ragnar áfram. „Það stóð yfir myndunum.“ Rafvirkinn dæsir.

„Það er það sem Myrkrið kallaði hann: Daginn sem þið mynduð finnast. Enda hafið þið gert fátt annað en það síðan þessi fótboltaleikur byrjaði: Öskrað.“ Hann hristir höfuðið vonsvikinn. „Foreldrafélagið var stofnað til að hjálpa... við ætluðum aldrei að...“ Rafvirkinn þagnar.

Svo lítur hann á lokaðar dyrnar.
„Þið verðið að drífa ykkur,“ segir hann stressaður og ætlar að opna.

Krakkarnir hreyfa sig ekki.

Þau treysta honum ekki.
„Hvers vegna?“ spyr Arndís skyndielga ískaldri röddu. Rafvirkinn lítur á hana og skilur í alvörunni ekki hvað hún á við. Hún sér það. „Hvers vegna ertu að hjálpa okkur? Fyrst þið hafið eytt öllum þessum tíma í að leita að okkur.“

„Já! Fékkstu allt í einu samvisku eða?“ skýtur Æsa inn í. Rafvirkinn dregur djúpt að sér andann.  

,,Það er ekkert svo flókið,“ segir hann rámri röddu. „Þið reynduð að hjálpa hvort öðru. Þess vegna dóu þau sem dóu. Það gerir ykkur einstök.“ Krakkarnir segja ekkert. Rafvirkinn skilur það vel. „En það sem gerði útslagið var hann.“ Svo lítur hann á Ragnar.

„Hvað?“ spyr Ragnar hissa. Rafvirkinn brosir dauflega út í annað.

„Þú minnir mig á strákinn minn,“ segir hann og röddin gefur sig örlítið. Ragnar veit ekki hvað hann á að segja.

„Ó. Hvernig þá?“ spyr hann loks. Rafvirkinn setur upp svip og Ragnar veit hvert svarið er áður en sköllótti maðurinn segir það upphátt.

„Hann var líka...“

„Trans?“ Rafvirkinn kinkar kolli. Svo hnussar hann lágt.

„Ég, hérna... ég tók ekki vel á því. Þegar hann... þegar hann sagði okkur það. Ég... ég bara hélt að...“ Rafvirkinn lítur skömmustulegur undan. „Ég veit ekki hvað ég hélt...“ tautar hann. „Við rifumst. Ég sagði eitthvað sem ég átti alls ekki að segja og hann fór.“ Rafvirkinn hristir höfuðið. „Strákurinn minn fór. Og ég sá hann aldrei aftur. Það var mér að kenna. Hann gerði ekkert af sér.“ Rafvirkinn klórar sér í hnakkanum, bara til að gera eitthvað. Ragnar finnur að krakkarnir eru að horfa á sig, eins og hann eigi að segja eitthvað, en hann veit að þetta er ekki hans. Þetta er Rafvirkjans að gera upp. Sköllótti maðurinn setur stút á varirnar á meðan hann leitar að réttu orðunum. Hann finnur þau ekki. Natalia ákveður að rjúfa þögnina.

„Hvenær gerðist það?“ spyr hún lágt. Ragnar er feginn að fleiri en hann eru orðnir hluti af þessu. Rafvirkinn yppir öxlum og reiknar svo í huganum.

„Fimmtán... nei, sextán ár. Tæplega.“ Og nú getur Ragnar ekki þagað lengur.

„Sextán ár?!“ hálf-hrópar hann. „Hvernig geturðu ekki talað við strákinn þinn í sextán ár?! Hvað er eiginlega að þér? Það skiptir engu máli að hann sé trans! Hvernig gastu ekki talað við strákinn þinn í...“ Rafvirkinn lyftir upp báðum höndum, eldrauður í framan. Ekki af reiði samt. Einhverju öðru.

„Ég veit!“ hrópar hann og reynir að stoppa Ragnar. Orðin særa hann. „Ég veit! Og nú er það orðið of seint...“ Hann dæsir og reynir að jafna sig. „Ég stóð ekki með honum. Sem ég hefði átt að gera! Ég veit það! En ég get staðið með þér.“ Hann lítur yfir hópinn. „Ykkur,“ bætir hann við. „Þetta er komið gott.“


Sköllótti maðurinn með yfirvaraskeggið brosir dauflega til krakkanna. Svo grefur hann annarri höndinni ofan í vasann sinn og tekur upp stóra lyklakippu.

„Hérna,“ segir hann og kastar lyklunum til Ragnars, sem rétt grípur. „Það var einu sinni kona með okkur í Foreldrafélaginu sem var kölluð Húsvörðurinn. Ég fékk þessa lykla hjá henni.“ Rafvirkinn dæsir og hristir höfuðið. „Vitleysa er þetta. „Húsvörðurinn.“ „Kennarinn“ “ Hann gerir grín að orðunum og endar loks á sjálfum sér. „ „Rafvirkinn.“ “  Hann hnussar. „Ég man ekki hver byrjaði á þessari vitleysu.“ Hann tekur skyndilega stórt skref í áttina að krökkunum og réttir út aðra höndina. „Lárus heiti ég,“ segir hann stoltur. „Gleður mig að kynnast ykkur.“

Enginn vill vera fyrstur. Að lokum er það Pawel sem stígur fram og tekur í útrétta höndina. Lárus rafvirki lítur á hina krakkana. Þau hreyfa sig ekki Hann kinkar kolli. „Ekkert mál,“ tautar hann og reynir að brosa út í annað. „Ekkert mál.“ Hann nikkar til Ragnars. „Lyklarnir ganga að öllum hurðum hér um slóðir.“ Hann lítur djúpt í augun á Ragnari. „Öllum,“ endurtekur hann ákveðinn. Ragnar segir ekkert en er nokkuð viss um að hann skilji hvað Lárus eigi við.

„Ég veit ekki hversu lengi varnargarðurinn mun halda þegar Myrkrið kemst að því að ég hef sleppt ykkur,“ segir hann lágt. „En ég held þið ættuð samt að eiga séns.“ Arndís sperrir eyrun.

„Hvers vegna segirðu það?“ spyr hún forvitin.

„Myrkrið vildi að þið mynduð þjást,“ segir Lárus hugsi. „Það segir mér að Myrkrið taki hlutum persónulega. Ég veit ekki hvað þið gerðuð því, en Myrkrið er gersamlega með ykkur á heilanum.“ Hann brosir út í annað. „Sem er veikleiki. Hafið það í huga.“ Hann bendir á lyklakippuna. „Það er einn rauður lykill þarna sem gengur að skrifstofunni minni,“ segir hann við Ragnar. „Ég lagði rafmagn um alla varnargarðana. Þið vitið bara af því.“


Sköllótti maðurinn horfir upp í loftið eitt andartak og þegar hann lítur aftur á krakkana sjá þau að það eru tár í augunum.

„Vitleysa er þetta...“ tautar hann með sjálfum sér.

Svo segir hann ekkert meira.

Hann bara gengur að hurðinni sem liggur inn í íþróttahöllina og opnar hana. Upp á gátt. Það sést glitta í falleg ský og tunglið. Enginn þorir að hreyfa sig af ótta við að þetta sé einhvers konar gildra, en að lokum er það Ragnar sem ákveður að treysta Lárusi.

Hann gengur að opnum dyrunum og gægist út.

Enginn er á ferli.

Ragnar lítur á hina krakkana og gefur þeim merki um að allt sé í lagi. Þau elta.

Lárus rafvirki horfir á eftir krökkunum hverfa út í nóttina.

bottom of page