top of page
16. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 15:33

Kæru kennarar, slæmar fréttir: Kaflinn í dag er í lengri kantinum.
En ef þið þurfið að taka lesturinn í tveimur hollum
mæli ég með að taka pásu á 10:43.

Kæru krakkar, góðar fréttir: Kaflinn í dag er í lengri kantinum.

-Ævar

1.jpg

Bragi náttúrufræðikennari vaknaði um leið og sjórinn flæddi yfir magann á honum. Hann reisti sig upp í sætinu og var andartak að fatta hvað hefði gerst.

Allt í kringum hann voru öskrandi börn, læti og ófriður. Í eitt andartak hélt hann að hann væri staddur í miðjum frímínútum.

Svo mundi hann allt.

Og sá hvað hafði gerst.
 

Umsvifalaust losaði hann beltið sitt og sneri sér við.

„Hættiði þessu, þetta dugar ekki! Losið hauspúðana!“ gargaði hann á Klöru og Nataliu sem voru að berja á gluggana aftur í með bæði höndum og fótum. Meistarinn var að reyna að komast út um brotna afturrúðuna en vatnið streymdi þar inn og það var erfitt að brjótast í gegnum það. Litlar öldur hentu honum aftur inn í jeppann.

Stelpurnar hlýddu. Rifu hauspúðana af aftursætinu. Tveir mjóir pinnar stóðu út úr hverjum púða. Þær negldu þeim í sitthvora rúðuna. Aftur og aftur.

Bragi leit á Ragnar sem sat stjarfur í farþegasætinu við hlið hans.

„Við gerum það sama og þær. Það er ekki séns að við getum opnað dyrnar þótt það sé engin barnalæsing hérna frammí, sjórinn ýtir á móti og við erum aldrei að fara að vinna þann slag, ókei?“ Ragnar kinkaði kolli og losaði beltið sitt. Losaði hauspúðann. Byrjaði að berja.

„Um leið og glerið gefur sig fyllist jeppinn endanlega!“ veinaði Bragi. „Haldið niðri í ykkur andanum, syndið út og vonum að við séum ekki einhvers staðar úti á rúmsjó.“

Enginn svaraði.

Þau héldu áfram að berja. Fastar og fastar. Hraðar og hraðar.

Sjór streymdi áfram inn og hvað úr hverju myndi hann ná þeim upp að bringu. Þá fyrst yrði erfitt að lemja hauspúðunum í gluggana.

Göt voru farin að myndast í glerinu en það var ekki nóg til að allt heila klabbið gæfi sig.

Þangað til það gerði það.

Fyrst aftur í, svo sekúndu seinna frammí. Sjórinn flæddi inn, allir gripu andann á lofti og ærandi hausverkur helltist yfir hópinn þegar jökulkalt vatnið kafffærði þau.

Krakkarnir syntu út. Bragi líka.

Syntu. Spörkuðu. Syntu. Einhvers staðar fyrir ofan þau var loft – en hvar? Lungun voru farin að loga, ljósdeplar farnir að dansa fyrir augunum á þeim, öll von virtist vera að fjara út og skyndilega:

Loft.

Snjókoma.

Og blikkandi ljós.

Land!

Þau voru stutt frá landi. Sem betur fer. Hópurinn skreið í land, skjálfandi á beinunum og lagðist í snævi þakta fjöruna. Þau voru öll að hugsa það sama:

„Ef við komumst ekki í skjól verðum við úti. Við munum frjósa í hel. Á nokkrum mínútum.“

„Áfram nú!“ veinaði Klara og benti í áttina að blikkandi ljósunum sem höfðu beint þeim í rétta átt. Þegar þau komu nær sáu þau að þetta var stór björgunarsveitarbíll. Kveikt á öllum ljósum. Allar dyr lokaðar.

Saman stauluðust þau að bílnum og bönkuðu á dyrnar.

Ekkert svar.

Ofurvarlega og skjálfandi á beinunum opnaði Meistarinn farþegadyrnar og gægðist inn.

„Tómur,“ tilkynnti hann og hoppaði inn. „Drífið ykkur!“

Þau þurftu ekki að láta segja sér það tvisvar.

Miðstöðin var í botni. Allir vafðir inn í teppi og annað drasl sem þau fundu hér og þar í bílnum.

Krakkarnir öll aftur í. Bragi aftur kominn undir stýri. Stefnan sett á Reykjanesbæ. Heim. Og það var ekki langt að fara. Það fyrsta sem þau sáu þegar þau keyrðu af stað var skilti: „FITJAR.“

Þetta var 10 mínútna akstur í góðri færð. Kannski hálftími núna. Miðað við hvað þau voru búin að ganga í gegnum í dag, var það ekkert mál.

Þau keyrðu.

„Við fukum tugi kílómetra!“ sagði Klara skyndilega upp úr eins manns hljóði.

„Sem betur fer vorum við ekki í mikilli hæð þegar við lentum,“ tautaði Bragi og setti rúðuþurrkurnar í gang. Það var aftur að bæta í veðrið.

„Sem þýðir að uppvakningarnir sem voru á eftir okkur hafa dreifst yfir allt svæðið frá Kjalarnesi og hugsanlega hingað,“ sagði Ragnar skjálfandi röddu.

„Heldurðu að þeir séu komnir hingað?“ spurði Klara lágt og leit út um gluggann.

„Hvar er fólkið sem á þennan bíl?“ svaraði Ragnar á móti. Þau litu öll hvort á annað. Enginn vildi svara.

Og það var þá sem Natalia gat ekki meira.

„Ég þarf að segja ykkur svolítið...“ byrjaði hún lágt en Meistarinn, sem sat við hlið hennar stoppaði hana.

„Þegiðu! Er ekki í lagi með þig?“ hvæsti hann, en hún lét eins og hún heyrði ekki í honum. Krakkarnir litu á hana. Bragi hafði ekki augun af veginum en sperrti eyrun.

„Hvað?“ spurði Ragnar. „Hvað þarftu að segja okkur?“ Natalia opnaði munninn til að svara en gat skyndilega ekki talað. Augun fylltust af tárum og hún þurfti andartak til að jafna sig. Sem hún gerði.

„Þetta,“ sagði hún loks og opnaði faðminn, „allt þetta, allir uppvakningarnir, allir sem eru dánir, allt það sem gerðist í dag... það er mér að kenna.“ Krakkarnir störðu á hana.

Bragi keyrði næstum út af.

„Klukkan var kannski rétt yfir miðnætti...“ byrjaði Natalia. „Í gærkvöldi. Ég og stelpurnar nenntum ekki að hanga inni í skólanum með hinum krökkunum. Við stálumst út í litla skóginn sem var þarna við hliðina og kveiktum varðeld.“ Ragnar hugsaði til baka. Hann mundi eftir að hafa litið út um gluggann um miðja nóttina og séð eld. Hann leit á Klöru. Hún kinkaði kolli og mundi greinilega eftir honum líka.

„Þannig að það voruð þið?“ heyrðist í Braga. „Við vorum að reyna að komast að því hverjir hefðu verið að verki.“ Natalia roðnaði og leit undan.

„Sorrý. Það var þurr viður geymdur þarna í litlum skúr og við stálum honum. Okkur fannst það góð hugmynd. Ein okkar, Sandra, í níunda, hafði einu sinni verið í skátunum og var enga stund að koma honum í gang.“

„Hvað svo?“ spurði Ragnar.

„Við bara vorum þarna alla nóttina,“ sagði Natalia lágt. „Slúðruðum, sungum, fórum í snjókast. Og svo, ein af annarri, urðu stelpurnar þreyttar. Fóru aftur inn.“

„Nema þú?“ spurði Klara. Natalia kinkaði kolli.

„Nema ég.“ Hún leit upp á Meistarann. Hann gretti sig og andvarpaði.

„Og ég,“ sagði hann pirraður. Allir litu á hann.

„Hvað varst þú að gera þarna?“ spurði Ragnar. Meistarinn leit á hann illur á svip og Ragnar leit umsvifalaust eitthvert allt annað.

„Lemmér að geta,“ sagði Klara. „Þú sást eld og ætlaðir að nota glóðirnar til að kveikja í einhverju.“ Hún glotti. Meistarinn starði á hana og sagði ekkert. „Er það ekki? Er það rétt hjá mér? Það er rétt hjá mér!“ Hún fór að hlæja. „Þú ert svo fyrirsjáanlegur, gaur!“ Meistarinn lét eins og hann heyrði ekki í henni og leit á Braga.

„Sem nemandi með góða samvisku sá ég að einhver var að gera eitthvað af sér og vildi stoppa það. Slökkva þetta ólöglega bál áður en einhver myndi slasa sig.“ Meistarinn gerði sitt besta til að brosa sakleysislega en var greinilega ekki í æfingu. Það mistókst hrapallega. Bragi horfði á hann í baksýnisspeglinum, svo efins á svipinn að hann datt næstum fram fyrir sig á stýrið, og hristi svo höfuðið.

„Hvað gerðist?“ spurði hann, ísköldum rómi. „Sannleikann. Allan. Ekkert rugl. Núna.“ Meistarinn saug harkalega upp í nefið og hrækti á gólfið.

„Gaur, ertu að djóka?!“ missti Ragnar út úr sér. Meistarinn hundsaði hann og leit á Nataliu.

Hún starði á móti.

„Þetta er þín saga,“ sagði hann lágt. Hún hussaði.

„Okkar beggja,“ sagði hún. Meistarinn hnussaði til baka.

Hún hélt áfram.

„Ég var ein eftir. Fannst eitthvað kósí við að vera ein við varðeldinn. Eins og í ævintýri. Það var meira að segja krúttlegur köttur sem var að vesenast þarna rétt hjá. Ég lék mér að því að búa til litla snjóbolta og henda í áttina að honum. Hann stökk til og frá og reyndi að ná þeim.“

„Krúttlegur köttur?“ spurði Klara varlega. „Sá sami og...“ Natalia greip fram í fyrir henni, kökkur kominn í hálsinn.

„Ég sat þarna og var alvega að fara að fara inn þegar Meistarinn birtist allt í einu. Bara út úr skóginum. Eins og krípí hobbiti eða eitthvað.“

„Hobbitar eru ekki krípí,“ heyrðist í Ragnari.

„Skiptir ekki máli,“ sagði Natlia og leit á Meistarann. Hann sagði ekkert. „Hann kom og spurði hvort hann mætti setjast hjá mér og ég sagði já og svo sátum við bara. Og þögðum. Og það var... næs.“ Hún brosti dauflega út í annað. „Og við horfðum á eldinn og einhvers staðar útundan okkur var kötturinn að leika sér og svo fór smám saman að snjóa og þetta var bara... ógeðslega næs. Við horfðum inn í eldinn og létum hugann reika. Vorum hálfringluð. Svona eins og þegar maður fær mjög næs störu, hafiði fengið þannig?“ Hún leit á krakkana. Þau kinkuðu kolli, bara svo Natalia myndi halda áfram. Hún dæsti. „Við störðum,“ sagði hún lágt. „Við störðum á eldinn. Alveg þangað til...“ Hún þagnaði.

„Alveg þangað til hvað?“ spurði Ragnar lágt og hallaði sér nær.

„Alveg þangað til eldurinn byrjaði að stara á móti.“

Klara og Ragnar litu orðlaus á Meistarann og vonuðu að hann myndi staðfesta það að Natalia hefði verið að djóka. Hann gretti sig.

„Fyrst fundum við það bara,“ sagði hann lágt. „Svo sáum við þau. Augu. Rauð augu inni í eldinum. Og svo heyrðum við í henni. Röddinni.“ Hann hryllti sig við tilhugsunina. „En við heyrðum hana samt eiginlega ekki. Ekki eins og maður heyrir hluti venjulega. Hún var einhvern veginn,“ og hann lyfti annarri höndinni og veifaði út í loftið, „inni í okkur.“

Natalia kinkaði kolli og starði á gólfið.

„Og hvað sagði röddin?“ spurði Ragnar varlega.

„Sagði okkur að við værum frábær,“ sagði Natalia lágt. Röddin skalf. „Frábærir fulltrúar. En að við gætum orðið enn betri. Að við gætum orðið ómótstæðileg. Ef við bara værum til í að hjálpa örlítið til.“ Ragnar hristi höfuðið. Hann skildi ekkert.

„Hjálpa til hvernig?“ Meistarinn hló með sjálfum sér.

„Teikna einhver tákn. Rista þau í trén.“ Ósjálfrátt leitaði önnur höndin hans í buxnavasann en greip í tómt. „Ég er alltaf með vasahníf á mér, þannig að það var ekkert mál.“

„Og þið gerðuð það bara?!“ hrópaði Klara. Natalia leit snögglega á hana og var bálreið.

„Þú heyrðir ekki í röddinni! Hún lofaði að við hefðum getað orðið stórkostleg! Ef við myndum bara krota nokkur tákn! Veistu hvað það er erfitt að æfa og æfa og æfa en samt aldrei verða langbest? Þú hefur ekki einu sinni komið á handboltaleik, hvað þá spilað heilt mót! Pressan er fáránleg! Þú þarft að vinna, alltaf, annars er allt glatað! Ef ég get orðið betri, þá vil ég verða betri, sama hvað það kostar!“ Natalia hafði baunað þessu út úr sér án þess að ráða við sig. Nú greip hún fyrir munninn á sér og leit skömmustuleg undan.

„Hverju lofaði röddin þér?“ spurði Ragnar og leit á Meistarann. Í fyrstu hélt Ragnar að töffarinn ætlaði ekki að svara.

„Vinum...“ sagði hann svo. Mjög lágt.

„Og hvað?“ spurði Klara. „Gerðuði það?“ Natalia og Meistarinn kinkuðu kolli.

„Út um allt,“ svaraði Meistarinn. „En svo gerðist ekkert. Við urðum ekkert betri. En röddin þakkaði samt fyrir sig. Sagði að við myndum verða ómótstæðileg í augum allra.“ Hann hlær lágt. „Ég vissi samt ekki að það þýddi að allir myndu vilja éta okkur.“ Klara leit á þau bæði.

„Og kötturinn? Aumingja kötturinn? Hvað kom fyrir hann?“ Natalia yppti öxlum.

„Hann var að þvælast þarna á sama tíma og við vorum að skera út táknin. En svo fórum við Meistarinn aftur inn í skóla. Kannski var kötturinn þarna lengur. Kannski... breyttu táknin honum.“ Natalia gat ekki horfst í augu við Klöru. Hún vissi að Klara elskaði dýr.

„Ég held það sé ekkert „kannski“,“ sagði Meistarinn. „Kötturinn var á röngum stað á röngum tíma. Og hann rétt náði okkur áður en við fórum.“ Ragnar og Klara þögðu.

„Við héldum að þetta hefði ekki virkað,“ kjökraði Natalia. „Að þetta hefði bara verið draumur. Við vissum ekki...“ Hún hætti. Hún vissi að það skipti engu máli hvað hún myndi segja. Meistarinn leit skömmustulegur undan.

Þau keyrðu.

„Við erum komin!“ kallar Bragi skyndilega og öllum bregður.

„Hvar erum við?“ spyr Ragnar. Bragi bendir út um framrúðuna.

„Lögreglustöðin. Hringjum í foreldra ykkar þaðan. Látum líka vita hvað gerðist. Vörum aðra við. Ég þekki lögreglustjórann, hún mun ganga strax í málið. Komið nú!“

Þau hlaupa upp að lögreglustöðinni. Veðrið er aftur að versna og þótt að þau hafi náð að safna í sig hita inni í bílnum dugar það skammt.

Rétt áður en þau koma að lögreglustöðinni opnast dyrnar.

Ljós flæðir út.

Í gættinni stendur Þórkatla lögreglustjóri. Hún brosir og opnar faðminn.

„Þarna eruði!“ hrópar hún. „Við erum búin að vera að leita að ykkur út um allt! Komið inn, komið inn!“

Sem er nákvæmlega það sem krakkarnir og Bragi náttúrufræðikennari gera.

Og sem er sömuleiðis nákvæmlega það sem þau hefðu alls ekki átt að gera.

bottom of page