top of page
19. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 07:58
1.jpg

Sigurður var einmanna. Hafði verið það í dágóðan tíma.

Og það var ömurleg tilfinning. Ekki það að hann ætlaði að segja nokkrum lifandi manni frá því, en þannig var það. Það hafði byrjað í fimmta bekk. Fram að því hafði hann átt vini. Helling af þeim.

Svo flutti hann.

Byrjaði í nýjum skóla.

Og þá varð allt ömurlegt.

Enginn nennti að tala við Sigurð, ef hann sagði eitthvað var flissað og ef hann reyndi að kynnast einhverjum gekk það oftast bara frekar illa. Honum var nánast aldrei boðið í nein afmæli og þegar það átti að gera hópaverkefni eða kjósa í lið var hann alltaf valinn síðastur.

Sigurður hafði ekki hugmynd um hvers vegna. Hann hafði ekkert gert af sér. Ekki var það hann sem hafði beðið um að vera settur í þennan ömurlega bekk, með þessu ömurlega fólki!

Þannig að einn daginn ákvað hann að breyta um taktík: Frekar en að hugsa þetta sem svo að enginn nennti að hanga með honum, tók hann meðvitaða ákvörðun um að hann nennti ekki að hanga með neinum.

Hann byrjaði viljandi að fæla fólk í burtu. Var alltaf grimmur á svipinn, strunsaði frekar en að ganga, hvæsti á fólk ef það vogaði sér að tala við hann. Braut einu sinni glugga á smíðastofunni, kveikti í ruslatunnu á árshátíðinni og svo – einn veturinn – hafði hann múnað rútu fulla af krökkum úr öðrum skóla.

Eftir það var hann kallaður Meistarinn.

Honum fannst nafnið pínu hallærislegt, en hann fílaði það samt.

Vinum fjölgaði ekki eftir þetta allt saman, en það var þá allavega á hans forsendum. Hann vildi hafa þetta svona.

Var það ekki annars?

Auðvitað ekki.

Og Myrkrið hafði fundið það. Og nýtt sér það.

Krakkarnir sitja inni á kaffistofunni.

Segja ekkert.

Bragi náttúrufræðikennari hefur verið dreginn fram á gang. Hann var þyngri en þau héldu en þeim tókst að lokum að koma honum út úr kaffistofunni. Það var eitthvað óþægilegt við það að hafa hann þarna með þeim.

Klara hafði fundið þykkt teppi inni í skáp og breitt yfir hann. Það gerði þetta samt ekkert skárra.

Vasaljósið, eina lýsingin í gervalli stöðinni, liggur á miðju borðinu. Þau stara hvort á annað. Öll að hugsa það sama en ekkert þeirra þorir að segja það upphátt.

Að utan má heyra vindinn berja húsið. Og hugsanlega einhvern annan.

Klara lítur á Nataliu og svo á Meistarann. Meistarinn setur upp svip. Klara virðist ekki geta haldið aftur af sér lengur. Hún opnar munninn til að tala en er stoppuð.

„Ekki!“ hreytir Meistarinn í hana. „Við brugðumst rétt við, gerðum það sem þurfti að gera. Hann hefði drepið okkur! Þú sást hvað hann gerði við Braga. Og lögguna. Viltu að það komi fyrir þig?“ Klara hristir höfuðið. Svo lítur hún aftur á Nataliu.

„En ef við höfðum rangt fyrir okkur?“ spyr hún lágt. „Hvað ef það var ekki hann?“ Natalia sýgur fast upp í nefið og skýtur út hökunni.

„Þá þýðir það að við gerðum hræðilegan hlut, hentum vini okkar út í ískalt óveður og erum í enn meiri hættu en áður því við erum þá bara tvö á móti einum, en ekki þrjú.“ Hún lítur vongóð á Meistarann. „En það er ekki þannig, er það nokkuð?“ Hann hristir höfuðið.

„Nei. Það var hann. Klárlega. Þið sáuð hvernig hann lét. Það var gott að við læstum.“ Krakkarnir horfast í augu og kinka svo öll kolli.

Klara hugsar málið.

„Við læstum samt bara að framan, ekki satt?“

Þau stara hvort á annað í eitt andartak. Svo fölna allir í framan.

„Sjitt!“ hvæsir Meistarinn og ætlar að stökkva af stað. Klara er fyrri til.

„Rólegan æsing!“ hreytir hún í hann. „Ég skal gera þetta. Komdu með vasaljósið.“ Hún grípur það og stekkur af stað. Myrkur tekur yfir kaffistofuna.

„Reyndu að finna fleiri vasaljós þegar þú kemur til baka!“ hrópar Meistarinn á eftir henni.

Ragnar er enn fyrir utan lögreglustöðina. Tennurnar eru farnar að glamra og þótt hann reyni að hneppa skyrtunni alveg upp í háls er snjór einhvern veginn alls staðar. Hann hafði velt því fyrir sér eitt andartak að hlaupa út í kófið og finna skjól einhvers staðar annars staðar en hann þorir það ekki.

Hann gæti villst.

Og auk þess hefur hann ekki hugmynd um hvað leynist þarna úti.

Hann snýr bakinu í vindinn, setur undir sig höfuðið og fikrar sig meðfram lögreglustöðinni.

Ragnar er brjálaður út í krakkana og reynir að nota reiðina til að halda á sér hita. Það gengur ekki vel. Hvernig gátu þau samt gert honum þetta? Hann hélt þau væru vinir! Eða að minnsta kosti félagar. Hann skelfur af kulda og gengur fyrir horn.

Snarstoppar.

„Nei...“ hvíslar hann.
 

Þótt veðrið sé slæmt, getur hann samt séð þau nálgast. Sjálfslýsandi augun í myrkrinu. Svo ótrúlega mörg. Í mismunandi hæðum. Bæði börn og fullorðnir. Hann sér líka glitta í eitthvað sem hlýtur að vera...

"Hundar..." Hann þurrkar snjóinn úr augunum og bakkar hratt aftur fyrir hornið. Byrjar að þræða sér leið eftir lögreglustöðinni í hina áttina. Hvað á hann að gera? Vara krakkana við? Forða sér? Reyna að komast aftur inn?

Snjórinn skellur á honum úr öllum áttum og honum er orðið hrottalega kalt á tánum. Hríðin límist í hárið og frystir hnakkann.

Ragnar tekur ákvörðun: Inn. Núna!

Það hljóta að vera hliðardyr hérna einhver staðar, eða gluggi eða kjallari eða bara eitthvað. Í vindinum ómar lágt vein og áður en Ragnar getur litið um öxl og séð hvaðan það komi bætast fleiri óp í hópinn. Mannætu-martraðarkór syngur í hríðinni.
 

Ragnar er ekki viss hvort skrímslin hafi séð hann eða ekki, en er alveg sama. Hann verður að komast inn.

Hann staulast fram hjá aðalinngangi stöðvarinnar og prófar að taka í húninn, bara til öryggis.

Allt læst.

Hann heldur áfram, fikrar sér leið eftir veggnum og loks fyrir annað horn.

Skyndilega er gripið um annan handlegginn á honum.

Ragnar öskrar.


Natalia og Meistarinn sitja enn við borðið inni á kaffistofunni. Í myrkrinu.

Segja ekkert.

Þegja bara.

Hlusta á veðrið.

Nema skyndilega bætist annað hljóð við.

Í fyrstu er erfitt að gera sér nákvæmlega grein fyrir því hvað það er, en svo fer það ekki á milli mála:

Einhver er að flissa.

bottom of page