top of page
19. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 10:42
9.jpg

Á meðan Ragnar laumast í áttina að skólanum hópast Natalia, Arndís, Æsa og Pawel aftur saman inni í horni bókasafnsins.

„Ókei,“ pískrar Æsa stressuð. „Hvað eigum við að gera? Hvernig ætlum við að breyta öllu hérna í risastórt draugahús?“ Áður en Arndís getur svarað hefur Pawel troðið annarri höndinni ofan í annan buxnavasann sinn og tekið upp gamalt upptökutæki.

„Varstu með þetta á þér?!“ hrópar Æsa hlessa. „Í fótboltaleiknum?“ Pawel kinkar kolli.

„Þetta er ekki það stórt,“ segir hann. „Ég bara setti það nógu djúpt ofan í vasann og enginn sá það.“

„Hvað er þetta?“ spyr Natalia forvitin.

„Þetta,“ segir Pawel og ýtir á play, „mun sanna það sem þú ert búin að vera að segja heillengi, Æsa. Þú hafðir rétt fyrir þér.“ Hann lítur á Æsu, sem skilur ekkert.

„Ég?“ spyr Æsa hissa. „Hafði ég rétt fyrir mér?“ Arndís hnussar.

„Ég veit,“ segir hún. „Ég var alveg jafnhissa.“

 

Segulbandið byrjar að spilast.

Þreytuleg rödd heyrist úr tækinu. Gæsahúð læðist upp eftir hnakkanum á krökkunum.

„Til þess sem þetta finnur: Ég heiti Valdimar. Ég er öryggisvörður hér á flugvellinum. Ég rétt slapp. Fann öruggt skjól. Ég hef setið hér í margar vikur. Svo ótrúlega margar vikur. Vatn og matur eru löngu búin. Sömuleiðis það sem ég fann í sjálfsalanum frammi. Ég mun ekki opna dyrnar. Aldrei nokkurn tímann. Skrímslin gætu verið fyrir utan. Þau geta beðið mun lengur heldur en ég. Frekar svelt ég hér en að láta éta mig.“ Æsa lítur forvitin á Nataliu og svo á Pawel.

„Er þetta uppþornaði gaurinn frá...“ byrjar hún en Arndís grípur fram í fyrir henni.

„Vellinum, já. Hlustaðu.“ Þreytuleg röddin heldur áfram.

„Þótt öll samskipti við umheiminn virðast hafa verið rofin hef ég þó haft skjáina mína til að horfa. Og horft hef ég. Svo sannarlega.“ Röddin hlær. „En ekki bara horft. Ég hef líka séð.“ Æsa hnussar.

„Hvað, er þetta ljóðskáld eða?“ Pawel, Arndís og Natalia sussa öll á hana á sama tíma. Æsa þagnar.

„Eftir því sem tíminn líður hafa breytast þau. Skrímslin eru að slappast. Skrímslin eru hægari. Ljósin í augum þeirra minni. Flökta jafnvel, sýnist mér. Neistinn sem heldur þeim gangandi er að slokkna.“ Natalia hallar sér nær tækinu. „Það er mín kenning, eftir að hafa fylgst með þeim, að með þolinmæli megi bíða þau af sér. Að þau muni rotna og deyja. Deyja á nýjan leik, það er að segja.“ Maðurinn á segulbandinu hóstar og heldur svo áfram. „Ég hef ekki tíma til að njóta þess, en ég vona, hver sem þú ert, að þú hafir hann.“ Hann ræskir sig og dæsir með tilþrifum.  „Þetta eru niðurstöður mínar,“ segir röddin að lokum, „og þær eru ég svo sannarlega viss um. Og það mun breyta öllu.“

Svo þagnar allt.

 

Krakkarnir líta á Pawel sem horfir stoltur til baka.

Æsa brosir allan hringinn.

„Ég sagði ykkur það! Þeir eru að mygla! Eins og molta! Það er það sem ég er búin að vera að segja í marga mánuði!“ Natalia sussar á hana.

„Hvað þýðir þetta?“ spyr hún. Henni verður hugsað til baka þegar hún læddist um ganga flugstöðvarinnar og sá í fyrsta skipti flöktandi augu uppvakninganna. Eins og ljósapera sem var við það að springa.

„Skrímslin eru tengd Myrkrinu,“ segir Arndís. „Ef ófétin eru að deyja út, er ágætismöguleiki á því að Myrkrið sé að slappast líka. Sem ég held að sé einmitt ástæðan fyrir því að það stútaði okkur ekki um leið og Foreldrafélagið fann okkur. Myrkrið virðist laðast að þjáningu. Þess vegna vorum við látin keppa í fótboltanum! Það vildi sjá okkur þjást. Finna okkur þjást. Nú þegar svona fátt fólk er eftir fær Myrkrið ekki eins mikið að éta. Það er að svelta.“ Hún lítur á Pawel. „Það er allavega okkar kenning.“

„Ef Myrkrið væri í góðu formi hefði það fattað að við værum að fela okkur hérna inni,“ segir Pawel. „Það var fyrir utan, bara rétt fyrir utan, en fann okkur samt ekki.“

„Góður punktur,“ muldrar Æsa.

„Við ættum þess vegna að ráðast gegn því á meðan það er svona veikt,“ segir Pawel og stingur upptökutækinu aftur í vasann. „Á meðan við eigum einhvern séns.“ Hann lítur á vini sína og brosir. „Og við eigum séns,“ bætir hann við, fullur sjálfstrausts.

„Vá...“ segir Natalia og getur varla staðið kyrr af spenningi. „Ókei. Hvað gerum við?“

Pawel lítur á Nataliu.

„Teiknum,“ segir hann. „Við þurfum að koma táknunum á varnargarðinn. Táknunum sem þið Meistarinn ristuð á trén. Táknin sem opnuðu fyrir Myrkrinu. Og við þurfum að teikna þau allan hringinn. Með reglulegu millibili.“ Natalia tekur ósjálfrátt skref aftur og byrjar að hrista höfuðið. Allt í einu líst henni ekkert á þetta.

„Eruði viss um að það sé góð hugmynd?“ spyr hún. „Síðast þegar það gerðist opnuðust dyr og þetta, þetta, þetta... ógeð kom í gegn!“ Arndís tekur um aðra öxlina á henni og kreistir.

„Að opna dyr er nákvæmlega það sem við ætlum að gera,“ segir hún hughreystandi. „Nema í þetta skiptið verður það viljandi.“

„Ég veit ekki hvað mér finnst um það...“ tautar Natalia efins.

„Ég skil hvernig þér líður," segir Arndís, ,,en þetta er það besta sem við getum gert. Myrkrið laðast að táknunum. Það mun ekki eiga neinna kosta völ en að mæta.“

„Þannig að við teiknum táknirnar eða rúnirnar eða hvað sem þú vilt kalla það á varnargarðinn, opnum leið sem Myrkrið notaði til að koma hingað til að byrja með og svo hvað? Hafiði hitt Myrkrið? Það á ekkert eftir að vilja fara sjálft, sko,“ muldrar Æsa. Arndís kinkar kolli.

„Enda ætlum við ekki að bjóða því að fara. Við ætlum að bola því burt.“

„Hvernig?“ spyr Natalia holum rómi.

„Síðast brenndum við táknin og dyrnar lokuðust,“ segir Arndís. „Myrkrið hvarf. Við ætlum að endurtaka leikinn.“ Æsa grettir sig.

„Þú getur ekki kveikt í vegg.“ Pawel flissar skyndilega lágt. „Hvað?“ spyr Æsa og fer eiginlega að flissa líka. „Hættu þessu, maður!“ Pawel brosir.

„Muniði ekki hvað Lárus rafvirki talaði um?“ Æsa dæsir.

„Hann sagði svo margt, gaur. Hvernig á ég að muna það allt?“

„Lárus lagði rafmagnsvíra um alla varnarveggina. Sem virka. Það sem við þurfum bara að gera er að teikna táknin á blöð, festa þau í vírana, redda okkur smá bensíni úr bílunum sem eru hérna út um allt, hella yfir blöðin, yfir vírana, bíða þar til Myrkrið er mætt og svo búmm! Kveikja á rafmagninu. Setja einn neista af stað sem mun svo þjóta eftir vírunum. Brenna allt til kaldra kola! Endir.“ Stelpurnar stara á Arndísi og svo á Pawel.

„Ó,“ segir Æsa svo. „Sem sagt bara ekkert mál og alls ekkert víst að það muni ganga?“ Arndísi langar að verða móðguð en fer þess í stað bara að hlæja.

„Já,“ segir hún. „Eitthvað svoleiðis.“

Æsa hugsar sig um.

Og svo spyr hún spurningarninnar sem allir hafa verið að hugsa:
„Haldiði þá að allt muni spólast til baka?“ spyr hún vongóð. Æsa þorir varla að segja það upphátt. Arndís lítur á Pawel sem hugsar málið.

„Það var það sem gerðist síðast,“ segir hann lágt. „Vonandi,“ bætir hann við.

Natalia og Æsa líta hvor á aðra. Kinka svo kolli.

„Ókei,“ segir Natalia. „Komdu með blöð og penna.“

Krakkarnir byrja að undirbúa sig. Þau eru spennt. Þetta getur ekki klikkað.

Nema auðvitað getur það klikkað.

Þau höfðu rétt fyrir sér með það að Myrkrið sé að slappast. Krakkarnir ættu samt alls ekki að vanmeta Myrkrið.

Þegar Myrkrið náði fyrst að brjótast fram í draugahúsinu í grunnskóla krakkanna fyrir um tveimur árum hafði það notast við alls kyns skrímsli. Uppvakningarnir höfðu reynst best og þess vegna, þegar Myrkrið reyndi aftur, í fyrra, notaði það bara þá. Hin ófétin létu illa að stjórn.

Það þýðir samt ekki að þessi óféti leynist ekki einhvers staðar í nóttinni.

Myrkrið rembist. Það leggur allt á sig við að kalla þau til sín. Það veit að það hefur ekki efni á að sóa orku en nú eru góð ráð dýr.

Rándýr.

Nóttin hinum megin við varnargarðinn er róleg. Tunglið dansar í skýjunum og enginn er á ferli. En svo sést eitthvað. Hreyfing í fjarska. Fótatök. Vindhviða.
Ein af annarri mæta verur á svæðið:

Vampírur.

Varúlfar.

Draugar.

Þau stoppa öll við varnargarðinn og virða hann fyrir sér. Eins og þau séu að dást að honum.

Og svo byrja þau að klifra.

skolaslit-3_s19_bly.jpg
bottom of page