top of page
4. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 10:37
4.jpg

Klara, sem sat nú í öftustu rútunni á leiðinni aftur heim, sem hafði gert sérferð aftur inn í skóla til að vekja Ragnar, sem sat ein með engan við hliðina á sér og var að lesa bók, hafði alltaf elskað dýr. Alveg frá því að hún var lítil.­­­

Fyrsta gæludýrið hennar hafði verið hamstur, sem hún hafði kallað herra Hamstur. Hún var fjögurra ára, þannig að það fór ekkert sérstaklega mikið fyrir frumlegheitum í nafnavali.

Herra Hamstur lifði góðu lífi í um það bil hálft ár. Hann var sprækastur á nóttunni, átti það til að troða sér í gegnum rimlana á búrinu sínu og fela sig inni í eldhúsi og hann elskaði grænmeti.

En einn daginn hafði hann stungið af. Enginn vissi nákvæmlega hvernig það gerðist, en pabbi Klöru hafði verið mjög furðulegur í framan þegar hann útskýrði fyrir henni hvernig herra Hamstur hefði nú vel getað troðið sér út úr búrinu og forðað sér þegar útidyrnar höfðu verið opnaðar. Þess vegna væri nánast ómögulegt að finna hann aftur og þau skyldu ekkert reyna það. Klara hafði orðið miður sín, en smám saman jafnaði hún sig. Af einskærri tilviljun var ný ryksuga keypt daginn eftir að herra Hamstur hvarf, því eins og pabbi hennar hafði orðað það:

„Gamla ryksugan var eitthvað stífluð.“

Hvað sem það nú þýddi.

Á eftir herra Hamstri fylgdu kettir, hundar, gullfiskar (samt bara einu sinni – það var ekki hægt að knúsa gullfiska, þannig að Klara hafði minna gaman af þeim) og fermingarpeningarnir frá því í fyrra höfðu verið lagðir inn á bók því, og haldið ykkur fast; Klara var að safna sér fyrir hesti!

Pabbi hennar var ekki alveg sannfærður um að það væri besta hugmynd í heimi og var satt best að segja að vona að það myndi eldast af henni, en Klara ætlaði sko ekki að gefa sig. Hún var búin að ákveða það að þegar hún yrði eldri ætlaði hún að búa úti í sveit og vera dýralæknir. Það kom ekkert annað til greina.

Eitt af því sem Klöru hafði þótt skemmtilegast við ferðina um Borgarfjörðinn síðustu tvo daga voru skoðunarferðirnar. Þau höfðu heimsótt allavega eitt kúabú, tamningarstöð þar sem var hellingur af hestum og svo – sem henni hafði þótt bæði fáránlega gaman og fyndið á sama tíma – fóru þau í geitalabb. Sem var nákvæmlega það sem maður hafði búist við; göngutúr með geit í bandi. Geiturnar voru margar og misfrekar, en góður klukkutími hafði farið í að labba um holt og hæðir með þær. Veðrið hafði verið gott. Þetta hafði verið yndislegt.

Klara elskaði dýr. Elskaði þau!

Klara var í 9. bekk. Sama bekk og Ragnar. Sama bekk og einhverjir aðrir hérna í rútunni. Hún lyfti höfðinu upp úr bókinni (sem var þriðja bók í seríu sem hún hafði byrjað að lesa á íslensku en einhverra hluta vegna höfðu bara fyrstu tvær bækurnar verið þýddar og þess vegna var hún núna að lesa á ensku) og sá að meirihlutinn af þeim sem voru í þessari rútu voru 8. bekkingar og örfáir 10. bekkingar. Það voru sem sagt ekki sömu sæti og þegar þau höfðu lagt af stað á föstudaginn, þegar kennararnir höfðu samviskusamlega raðað í rútur eftir bekkjum. Bragi Þór náttúrufræðikennari sat fremst eins og herforingi. Eldri maður með bumbu og þykk gleraugu sat í bílstjórasætinu og ók. Hér og þar voru krakkar að skjótast á milli sæta, henda drasli hvort í annað og garga út í loftið. Aftast voru nokkrir 8. bekkingar í gamnislag.

Lætin voru ærandi.

Klara hafði gleymt heyrnartólunum sínum heima og átti erfitt með að einbeita sér að lestrinum. Skór flaug eftir ganginum og lenti í hávaxinni stelpu úr 10. bekk. Hún svaraði með því að öskra út í loftið og grýta skónum til baka.

Stelpan, sem hét Natalia og æfði handbolta, misreiknaði sig aðeins. Skórinn flaug fram hjá eiganda sínum og lenti beint í hnakkanum á Braga náttúrufræðikennara.

Það var dropinn sem fyllti mælinn.

Leiftursnöggt greip Bragi um hljóðnema sem stóð út úr mælaborðinu, bar hann svo nálægt munninum að hann nánast gleypti hann og þrumaði:

„Þögn! Í! Rútunni! Allir! Í! Belti! Núna!“

Allt datt í dúnalogn.

Allir rassar lentu í sætum.

Enginn sagði neitt.

Eina hljóðið sem nú ómaði í rútunni var dynurinn í dekkjunum og vindurinn fyrir utan.

Og mjálmið.

Að neðan.

Klara leit annars hugar upp úr bókinni sinni. Hvaða hljóð var þetta? Hún leit út um gluggann. Þau höfðu ekki verið lengi á ferðinni, kannski bara rétt rúmar 10 mínútur. Hún kannaðist við sig hérna. Framundan var afleggjarinn sem þau höfðu hrökklast upp í gær til að fara í geitalabbið.

Annað mjálm heyrðist. Hærra í þetta skiptið.

Að neðan.


Klara losaði beltið og spratt á fætur.

„Sestu niður!“ heyrðist í Braga en hún hundsaði hann. Hún óð af stað eftir rútunni og hallaði sér ýmist til hægri eða vinstri yfir miskáta nemendur eftir því hvar hljóðið ómaði. Einhverjir flissuðu og aftarlega í rútunni stóð Ragnar upp úr sætinu sínu til að fylgjast betur með. Bragi Þór hafði nú losað beltið sitt og kom askvaðandi eftir gangi rútunnar á móti Klöru.

„Jæja, nú skalt þú gjöra svo vel að...“ byrjaði hann, en Klara, án þess að ráða við það, sussaði á hann. Kennarinn, sem vann við það að sussa - ekki að láta sussa á sig, varð í framan eins og einhver hefði rekið við og bjó sig undir það að grípa í hnakkadrambið á Klöru.

En svo heyrði hann það líka.

Mjálmið.

Að neðan.

Hann og Klara horfðu hvert á annað og hann vissi að hún hefði haft rétt fyrir sér. Án þess að biðjast afsökunar sneri kennarinn sér við og óð aftur fremst í rútuna.

„Út í kant,“ skipaði hann. Bílstjórinn leit hissa á Braga.

„Ha?“ spurði hann.

„Út. Í. Kant,“ endurtók Bragi. „Eins. Og. Skot.“ Svo blótaði hann. Hátt. Einhverjir flissuðu en flestir þorðu varla að hreyfa sig.

Rútubílstjórinn gaf stefnuljós, ók út í kant og stoppaði rútuna.

„Dyrnar,“ skipaði Bragi og bílstjórinn hlýddi. Með hviss-hljóði opnuðust þær og náttúrufræðikennarinn óð út. Kaldur vindgustur lék um rútuna. Klara elti. Um leið og kennarinn yfirgaf svæðið voru öll belti losuð og allir hentu sér á gluggana hægra megin í rútunni til að fylgjast með.

Bragi opnaði farangursrýmið upp á gátt.

Súr fýla tók á móti honum.

„Úff,“ stundi kennarinn og kúgaðist örlítið. „Hvað í ósköpunum gerðist hér?“ Bragi hafði einu sinni gleymt hráu kjötfarsi inni í ísskáp í 10 daga. Þetta var álíka lykt. Hann gægðist inn.

Haugur af töskum og öðru drasli blasti við.

Hann beygði sig í hnjánum til að sjá betur. Klara var nú komin við hlið hans.

„Ég held að þetta sé köttur,“ sagði hún lágt. „Ég heyrði mjálm.“

„Ég held það sé rétt hjá þér...“ tautaði Bragi og teygði sig inn í stórt farangursrýmið. „Svona nú,“ söng hann inn í myrkrið. „Kss, kss, kss...“

„Hann hefur pottþétt átt heima á Varmalandi,“ hélt Klara áfram spennt. „Við verðum að snúa við og skila honum.“ Bragi, sem var nú kominn hálfur inn í farangursrýmið hnussaði.

„Ekki séns. Við hendum honum út hér og hann ratar heim.“ Klara átti ekki til orð.

„Hann á eftir að verða fyrir bíl! Við erum ekki að fara að...“

Hún komst ekki lengra.

Skyndilega kom eitthvað hlaupandi út úr iðrum rútunnar.

Það notaði hnakkann á Braga sem stökkpall, spyrnti sér og lenti með látum í snjónum skammt frá. Bragi náttúrufræðikennari og Klara veinuðu bæði. Krakkarnir inni í rútunni öskruðu og börðu í gluggana. Einhverjir voru með síma og voru að taka þetta allt saman upp. Þetta var hrikalega spennandi!

Klara og Bragi náttúrufræðikennari sneru sér við eins hratt og þau gátu.

„Hvað var...“ byrjaði Klara en hætti í miðri setningu. Bragi sagði ekkert. Hann bara starði.

Óskapnaðurinn sem stóð nú másandi í vegkantinum fyrir framan þau hafði vissulega einhvern tímann verið köttur. En hann var það ekki lengur. Það hafði eitthvað hræðilegt komið fyrir þetta aumingja dýr. Kötturinn var hálfrotinn, líkt og hann hefði dáið fyrir mörgum vikum. Marglitur feldurinn hékk í flyksum hér og þar utan á líkamanum eins og rifin og alltof-stór peysa og blóð í bland við svart slím dropaði út um opinn kjaftinn. Eftir bakinu og á fótunum voru sár, stútfull af gulum greftri. Maðkar dönsuðu í ógeðinu. Augun voru sjálflýsandi.

Kötturinn starði á Braga og Klöru.

Hvorugt þeirra þorði að hreyfa sig.

„Ég get kannski náð honum...“

„Þú kemur ekki nálægt þessu!“

Kötturinn hvæsti. Gröftur og slím og slef og blóð skvettist í allar áttir.

Bæði Klara og Bragi veinuðu.

Fyrir ofan þau voru krakkarnir inni í rútunni að tryllast. Þeir börðu á glerið og einhverjir voru horfnir úr gluggunum og virtust vera á leiðinni út.

Öll lætin urðu til þess að athygli kattarins fór af Braga og Klöru og í áttina að rútunni.

Dyrnar voru enn galopnar.

„Lokiði...“ byrjaði Bragi en var of seinn.

Kötturinn hvæsti aftur.

Tók undir sig stökk.

Og lenti inni í rútunni.

Kisa.jpg
bottom of page