Ragnar og Klara sitja inni í eldhúsi og eru að borða graut. Þau spjalla og hlæja. Meistarinn er sofandi inni í stofu uppi í sófa. Arndís situr á gólfinu við hlið sófans og er að reyna að lesa. Leppurinn yfir öðru auganu gerir það erfitt fyrir gleraugun að tolla á réttum stað. Natalia er inni á klósetti, með læstar dyrnar. Hún er að gera armbeygjur. Hún vill samt ekki að neinn sjái það. Joanna situr stressuð við forstofudyrnar og bíður.
Það er komið kvöld.
Dimmt úti.
Hvar eru þau?! Þau ætluðu að vera löngu komin.
Og það er þá sem hún heyrir þær.
Ókunnu raddirnar. Fyrir utan. Alveg við dyrnar!
„Krakkar!“ hrópar Joanna eins hátt og hún getur um leið og hún sprettur á fætur. Hún finnur fyrir náladofa í báðum fótum en valtar yfir það. „Ég held það sé einhver...“ Hún kemst ekki lengra. Það er tekið harkalega í hurðarhúninn og dyrnar eru opnaðar upp á gátt. Ísköld golan flæðir inn og Joanna dettur aftur fyrir sig. Hún lendir á rassinum og bítur fast í tunguna á sér um leið. Hún finnur blóðbragð.
Í gættinni standa þrjár skuggaverur.
„Krakkar!“ argar Joanna og byrjar að bakka, enn sitjandi, nú á fjórum fótum. Hún þarf ekki að kalla í þriðja skiptið. Arndís og Meistarinn koma hlaupandi, Natalia fast á hæla þeirra. Ragnar og Klara rétt á eftir. Öll vopnuð, öll tilbúin að ráðast á skrímslin sem hafa einhvern veginn komist í gegnum varnirnar þeirra, eru komin inn í húsið þeirra, eru tilbúin að rífa þau í sig.
„Bíðið!“ hrópar skyndilega kvenmannsrödd sem yfirgnæfir allt. Hún er hávær og skerandi, greinilega vön að þagga niður í stórum hóp af æstum krökkum.
Krakkarnir frjósa. Öll vopn á lofti.
Skuggaverurnar stíga inn um gættina. Inn í birtuna.
Og krakkarnir sjá að þetta eru engin skrímsli.
Þetta er fólk.
Lifandi fólk.
Tveir menn og ein kona.
„Sæl veriði,“ segir konan og brosir afsakandi. „Megum við aðeins spjalla?“
Þau sitja við stórt eldhúsborðið. Ragnar er sá eini sem enn er að borða. Klara lítur á hann og pírir augun. Hann skilur hvað hún er að meina og leggur skeiðina frá sér.
Tvö úr þriggja manna hópnum sitja nú á móti þeim. Annar mannanna, hávaxinn og myndarlegur, stendur vörð fyrir utan.
Konan er lágvaxin og brosmild, með þéttar dökkar krullur. Maðurinn við hlið hennar er sköllóttur með yfirvaraskegg og með afar ráma rödd. Þau virða krakkana fyrir sér og líta pínulítið út eins og eldri hjón að spjalla við barnabörnin sín.
„Jæja,“ segir konan loks blíðlega og ræskir sig. „Er ekki best að við byrjum á því að kynna okkur?“ Svo dregur hún djúpt að sér andann og segir ekkert. Það tekur krakkana andatak að fatta að „okkur“ þýði „þau“. Þau eigi að byrja.
Krakkarnir kynna sig.
Eftir að hvert og eitt þeirra hefur sagt nafnið sitt kinkar konan kolli og endurtekur það lágt með sjálfri sér. Meistarinn er síðastur. Eftir það ríkir þögnin ein.
„Kærar þakkir fyrir þetta,“ segir konan vingjarnlega og lítur á sköllótta manninn. „Og þá er líklega komið að okkur, ekki satt?“ Maðurinn brosir og leggur aðra höndina á bringuna á sér.
„Ég er Rafvirkinn,“ segir hann stoltur. Lágvaxna konan tekur við.
„Og ég er Kennarinn. Mikið hrikalega er gaman að hitta ykkur.“ Krakkarnir stara á fullorðna fólkið.
„Ókei...“ segir Natalia loks. „En hvað heitiði? Í alvörunni?“ Fullorðna fólkið flissar og líta svo á krakkana eins og þau séu algjörir kjánar.
„Það er það sem við köllum okkur núna,“ segir Kennarinn blíðum rómi. „Þetta er kannski smá nostalgía í okkur, en þið fyrirgefið okkur það vonandi.“
„Sjáið til,“ tekur Rafvirkinn við, ,,áður en...“ en hann virðist týna afgangnum af setningunni. Hann ræskir sig. „Afsakið, ég á stundum erfitt með að tala um það sem gerðist...“ Hann lítur örsnöggt undan. „Okkur langar að muna hvernig allt var,“ segir hann svo. „Ég var rafvirki. Þess vegna kalla ég mig Rafvirkjann. Það er nú ekki flóknara en það.“ Svo hlær hann lágt. Kennarinn sest betur upp í stólnum sínum og dregur djúpt að sér andann.
„Jæja,“ heldur hún áfram. „Að máli málanna."
Krakkarnir halda niðri í sér andanum. Hvað í ósköpunum er í gangi?
„Við erum hluti af félagsskap sem við köllum Foreldrafélagið,“ segir Kennarinn stolt.
Krakkarnir líta hvort á annað. Þau hafa heyrt þetta orð áður.
„Foreldrafélög eins og þau sem eru í grunnskólum?“ Kennarinn og Rafvirkinn kinka bæði kolli.
„Og leikskólum,“ skýtur Rafvirkinn inn í.
„Sem skipuleggja hausthátíðir og jólaböll og svoleiðis?“ spyr Klara. Fullorðna fólkið kinkar aftur kolli.
„En það er þó einungis toppurinn á ísjakanum!“ segir Kennarinn stolt. „Við störfum á bak við tjöldin, við pössum að allt sé í röð og reglu. Án okkar er anarkía. Allt út um allt. Það vill enginn.“
„Ef við mætum ekki tveimur tímum fyrr en allir aðrir, hefur enginn stól til að sitja í á árshátíðinni,“ hlær Rafvirkinn og Kennarinn tekur undir.
„Geturðu ímyndað þér?“ skellihlær hún. Meistarinn lítur á Nataliu og ranghvolfir í sér augunum. Natalia tekur við sendingunni.
„Ókei,“ segir hún, rétt nógu hátt til að yfirgnæfa hláturinn. „Hvað kemur það okkur við?“ Rafvirkinn og Kennarinn ná að róa sig og hláturinn verður að lágu flissi. Það verður að viðurkennast að þau eru pínu krúttleg. Rafvirkinn ræskir sig.
„Jú, sjáið til,“ segir hann og brosir. „Við í Foreldrafélaginu erum vön því að hugsa í lausnum. Gera mikið úr litlu. Grípa boltann þegar eitthvað kemur upp á.“ Hann lítur fullur sjálfstrausts á krakkana. „Í stuttu máli sagt: Við erum með stað sem er öruggur. Og okkur langar að bjóða ykkur að koma þangað.“
Þessar síðustu tvær setningar hanga í loftinu eins og fáránlegt jólaskraut sem ætti að vera löngu búið að taka niður.
Það er Ragnar sem rýfur þögnina.
„Og ykkur fannst góð hugmynd að gera það með því að ráðast inn til okkar?“ Kennarinn vaggar höfðinu til og frá eins og það hafi nú ekki verið mikið mál.
„Við vildum aðeins sýna ykkur að þótt að þessi aðstaða ykkar sé vissulega til fyrirmyndar, er hún ekki nógu örugg. Engir uppvakningar komast að ykkur, og því ber að hrósa, en það er margt fleira á sveimi en þeir.“ Krakkarnir líta skömmustuleg undan. Þetta er rétt hjá henni. Þau höfðu sofið á verðinum og þau vita það. Það var í raun algjör heppni að þetta fór ekki verr.
„Eigiði eitthvað annað að borða en graut?“ spyr Meistarinn skyndilega. Rafvirkinn brosir.
„Við skulum orða það svona: Það er einn aðili hjá okkur sem við köllum Hamborgarasnillinginn. Svarar það spurningunni þinni?“ Meistarinn lítur á hina krakkana og yppir öxlum.
„Ég er til,“ segir hann svo. „Ég er hvort eð er kominn með ógeð á að vera hérna.“ Ragnar lítur löngunaraugum á diskinn sinn en segir ekkert. Klara tekur eftir því og flissar. Arndís hugsar hins vegar málið.
„Ef þessi staður ykkar er svona frábær, hvers vegna eruð þið að koma til okkar?“ Kennarinn bendir stolt á hana.
„Þú ert greinilega sú skarpasta í skúffunni, mín kæra.“ Arndís roðnar örlítið en segir ekkert. Hinir krakkarnir þegja sömuleiðis, en af allt annarri ástæðu.
„Þið eruð ráðagóð. Það er akkur í því,“ segir Rafvirkinn rámri röddu. „Og auk þess er styrkur í fjöldanum.“
Krakkarnir geta ekki neitað því. Og þótt að ekkert þeirra segi það upphátt finnst þeim gersamlega frábært að sjá annað fólk á lífi.
Kennarinn virðir þau fyrir sér, brosir út í annað og stendur svo á fætur.
„Frábært, þá er það ákveðið. Við vorum að spá hvort við myndum ekki gista hér í nótt og svo myndum við öll skella okkur í smá göngutúr heim til okkar í fyrramálið. Hvernig hljómar það? Þið getið þá nýtt kvöldið í að pakka.“ Krakkarnir líta vandræðaleg hvort á annað og enda loks á Joönnu.
„Hvað?“ spyr Rafvirkinn áhyggjufullur.
„Það vantar fjóra,“ segir Joanna lágt og lítur undan. „Litla bróður minn og þrjá aðra.“
„Hvert fóru þau?“ spyr Kennarinn hissa. Joanna hristir höfuðið.
„Að flugstöðinni,“ tautar hún. „Þau ætluðu að reyna að finna mat og ná sambandi við einhvern. Ef það væri hægt. Og svo ætluðu þau að koma heim áður en það yrði dimmt...“
„Ef við hefðum nú bara komið hingað fyrr,“ tautar Kennarinn og hristir höfuðið.
„Hvað?!“ heimtar Joanna.
„Flugstöðin er það sem við í Foreldrafélaginu flokkum sem „rautt svæði“.“
„Sem þýðir?!“ nánast hrópar Joanna. Í huganum er hún búin að klæða sig í úlpu og húfu og hlaupin af stað.
„Sem þýðir,“ heldur Kennarinn áfram lágum rómi, „að ef við hefðum komið hingað í tæka tíð hefðum við vafalaust ráðlagt ykkur frá því að fara þangað.“ Hún lítur á Rafvirkjann. „Ertu ekki sammála því?“ Hann kinkar kolli. Kennarinn dæsir. Joanna starir á þau og trúir ekki eigin eyrum.
„En þá verðum við að fara og bjarga þeim og...“ Rafvirkinn stoppar hana.
„Það er komið kvöld. Það er ekkert sem við getum gert úr þessu.“ Joanna lítur á sköllótta manninn og langar helst að henda einhverju í hann. Kennarinn skerst í leikinn.
„Sögðuð þið ekki að þau ætluðu að vera komin aftur áður en það yrði dimmt?“ Joanna kinkar stressuð kolli. Kennarinn tekur varlega um aðra öxlina á henni. „Veistu,“ segir lágvaxna konan blíðlega og lítur djúpt í augun á Joönnu, „ég held þetta verði í góðu lagi. Bróðir þinn og vinir hans hljóma eins og algjör hörkutól. Þau eru sjálfsagt bara rétt ókomin. Ég finn það á mér.“ Joanna finnur kökk myndast í hálsinum, en kyngir honum. Kennarinn tekur eftir því en minnist ekki á það. „Ég finn það á mér,“ endurtekur hún í staðinn og Joanna nær að kreista fram bros.
Rafvirkinn réttir upp hönd.
„Kennari?“ spyr hann og sú lágvaxna lítur um öxl.
„Já?“
„Varnirnar hjá þessum krökkum eru til fyrirmyndar,“ segir hann brosandi. „Eigum við ekki bara að segja honum að koma inn? Það er engin ástæða að standa vörð og það er skítkalt úti.“ Hann er að tala um hinn manninn sem hafði komið með þeim. Þennan sem var búinn að standa vörð fyrir utan húsið síðan þau komu. Kennarinn hugsar sig um og kinkar svo kolli.
„Jú, satt og rétt.“ Hún blikkar Joönnu og sleppir takinu á öxlinni á henni. Joönnu líður örlítið betur.
Rafvirkinn trítlar fram í forstofu til að sækja vin sinn.
Kennarinn skimar í kring um sig og finnur loks það sem hún var að leita að: Baðherbergið. „Afsakið mig andartak.“ Og hún lætur sig hverfa.
Krakkarnir standa nú ein eftir í eldhúsinu.
Þau eru öll að hugsa það sama: Nú þurfa þau bara að bíða eftir Pawel, Halldóri, Æsu og Pétri og þá er þetta komið. Kennarinn og Rafvirkinn eru pínu skrítin, en það er allt í góðu. Ef þau eru með mat og öruggt skjól eru þau í góðum málum. Þetta getur ekki klikkað.
Þeim er borgið.
Krakkarnir heyra útidyrahurðina opnast og lokast. Þungt en öruggt fótatak fylgir á eftir. Sá sem var að standa vörð er greinilega kominn inn.
„Góða kvöldið,“ segir hávaxinn og myndarlegur maður um leið og hann gægist inn í eldhúsið. Brosið hans er smitandi og ef einhver krakkanna hafði verið efins um að þau væru í öruggum höndum fauk sá efi út um gluggann þegar snjóhvítar tennurnar og flottir vöðvarnir mættu á svæðið. Þessi gæji er hetja, það er á hreinu. Nú eru þau öll sannfærð um að allt verði í lagi.
„Gaman að hitta ykkur,“ heldur hávaxni maðurinn áfram um leið og hann gengur á röðina og heilsar öllum með þéttu og hlýju handabandi. „Ég frétti að þið ætluðuð að flytja inn til okkar. Mikið er það gaman, hm?“
Allir brosa.