top of page
14. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 12:03

Liðin eru klædd í rautt og blátt.

Í rauða liðinu eru Halldór, Pawel, Meistarinn, Arndís og Natalia.

Í því bláa eru Ragnar, Klara, Joanna, Æsa og Pétur.

Myglaður uppvakningahausinn bíður óþolinmóður og glefsandi á miðjum vellinum á meðan krakkarnir standa öll í hnapp, rauð og blá, og stara á hann. Þjálfarinn er búinn að blása í flautuna. Leikurinn er hafinn.

En enginn gerir neitt.

Krakkarnir hvorki vilja né geta hreyft sig.

„Hvaða rugl er þetta?!“ hvæsir Meistarinn og hristir höfuðið. Æsa lítur í áttina að Þjálfaranum og er orðin eldrauð í framan af bræði. Arndís skimar í kringum sig í leit að flóttaleið en sér að það verður ekki séns. Fullorðna fólkið úr Foreldrafélaginu stendur á hliðarlínunum, tilbúið að passa að krakkarnir komist ekki af vellinum.

Þjálfarinn blæs aftur í flautuna sína.

„Það er gult spjald ef þið byrjið ekki að spila, hm!“ gargar hann inn á völlinn. „Og eftir það er stutt í það rauða.“ Hann tekur dramatíska pásu. „Þið viljið sko ekki að ég sæki rauða spjaldið, hm?“ segir hann svo.

 

Við hlið Þjálfarans standa tvær konur, klæddar í græna íþróttagalla. Þær eru báðar með þykka hanska. Gvuð má vita hvers vegna. Fyrir aftan Þjálfarann er röð af klappstólum. Þar sitja hinir og þessir meðlimir Foreldrafélagsins og fylgjast spenntir með. Ragnar virðir fullorðna fólkið fyrir sér og skilur ekki hvernig þau geta bara setið þarna eins og ekkert sé. Þjálfarinn fer upp á tær til að sjá betur hvað krakkarnir eru að bralla inná velli og Ragnar sér skyndilega glitta í Kennarann. Hún situr beint fyrir aftan Þjálfarann, eins og fáránlegur aðstoðarþjálfari, með kaffibolla og vafin inn í teppi. Hún brosir til Ragnars þegar hún sér að hann er að horfa á sig. Svo veifar hún og sendir honum þumal upp.  

„Hvað er að þessu liði?“ tautar Ragnar forviða. Skammt frá sér hann glitta í Rafvirkjann. Sköllótti maðurinn stendur til hliðar upp við vegg og starir á Ragnar. Þegar hann sér að Ragnar er að horfa á sig lítur hann skömmustulegur undan.

„En ef við flýjum bara?“ spyr Pétur vongóður. Joanna bendir á fullorðna fólkið sem umkringir þau.

„Hvernig?“ Pétur svarar ekki.

„Koma svo!“ heyrist í Þjálfaranum.

„Já, koma svo!“ taka aðrir undir.

Krakkarnir líta hvort á annað. Svo á litina á treyjunum sem búið er að klæða þau í.

„Ókei,“ segir Klara. „S... spilum þá.“ Halldór hristir höfuðið.

„Þetta eru samt ekki jöfn lið,“ segir hann. Arndís setur upp svip en veit að hann hefur rétt fyrir sér. „Sorrý, en þau eru það bara ekki,“ endurtekur hann. „Við Natalia erum frábær í íþróttum. Og við erum í sama liðinu. Þetta er ekki sanngjarnt!“ Natalia dæsir.

„Verðum við samt ekki að gera þetta?“ spyr hún.

„Og hvað?“ hvæsir Arndís. „Ætlum við bara að spila einhvern fáránlegan fótboltaleik og láta svo éta helminginn af okkur?!“

„Við erum vinir...“ segir Pawel lágt. Krakkarnir líta á hann. Það er rétt hjá honum.

Þjálfarinn blæs aftur í flautuna.

Og í þetta skiptið fylgir gult spjald með í kaupbæti.

„Obbobbobb!“ heyrist í Þjálfaranum. „Nú myndi ég fara að gera eitthvað, hm?“ Krakkarnir stara ofan í gervigrasið. Enginn vill taka af skarið.

Kennarinn hallar skyndilega sér fram í stólnum sínum og potar í rassinn á Þjálfaranum þaðan sem hún situr. Hann snýr sér við, hallar sér niður að henni og hlustar. Hún hvíslar einhverju að honum.

„Ah,“ heyrist í Þjálfaranum, eins og hann hafi gleymt einhverju. Kennarinn kemur sér aftur fyrir í klappstólnum, með teppið og kaffið, sátt og sæl. „Ég var næstum búinn að gleyma,“ kallar Þjálfarinn til krakkanna, „að ef ekki er skorað mark á 10 mínútna fresti kemur spjald. Ég ætla ekki að leyfa ykkur að hlaupa bara um og ekki spila almennilegan leik!“ Hann dregur djúpt að sér andann og dæsir. „Og þar sem ég nenni ekki lengur að bíða ætla ég nú að gefa ykkur fimm sekúndur til að hefja leikinn. Annars kemur rautt spjald. Og þið viljið ekki rautt spjald, hm?!.“

Krakkarnir eiga engra kosta völ.
Natalia er sú sem ákveður að taka af skarið. Hún hleypur af stað. Sparkar í uppvakningahausinn. Og nú – fyrir alvöru – er leikurinn hafinn.

 

Þau hafa spilað í nokkrar mínútur. Hausinn gerir sitt besta til að glefsa í krakkana en þau ná að forðast bit. Reyna alltaf að miða í hnakkann þegar þau sparka. Eðlilega vill enginn vera í marki, þannig að bæði liðin hafa ákveðið að aftasti leikmaðurinn eigi að vera þar. Leikurinn gengur ágætlega, þótt enginn hafi enn skorað.

Það er á sjöundu mínútu sem fyrsta bitið kemur.

Klara ætlar að sparka hausnum í autt markið en misreiknar sig eitthvað. Hausinn skellur í markstönginni og endasendist til baka – beint í áttina að Æsu, sem snýr baki í markið.

„Passaðu þig Æsa!“ veinar Klara en er of sein.

Hausinn, með ginið galopið, þýtur í áttina að Æsu. En það er ekki hún sem verður bitin. Eins og elding kemur Pétur skyndilega hlaupandi. Hann hendist á Æsu, ýtir við henni með annarri öxlinni og snýr hinni í áttina að fljúgandi höfðinu.

Hausinn lendir með opið ginið á öxlinni og bítur. Fast. Blóð spýtist í allar áttir og Pétur fellur emjandi til jarðar. Konurnar í grænu jogginggöllunum koma hlaupandi inn á völlinn og grípa um hausinn sem er trylltur af gleði. Nú kemur skýring á því hvers vegna þær eru með hanska. Konurnar leggja hausinn í grasið í öruggri fjarlægð frá Pétri og koma svo aftur hlaupandi. Foreldrafélagið fagnar ægilega!

Krakkarnir stara stjarfir á vin sinn sem enn liggur í grasinu. Það vantar hluta af öxlinni. Hann veinar og reynir að grípa um opið sárið, en það er svo sárt að hann getur það ekki.

„Pétur...“ hvíslar Æsa og ætlar að fara til hans en er ýtt frá af grænklæddu konunum. Sú þriðja kemur hlaupandi með börur og saman koma þær Pétri fyrir á þeim.

Krakkarnir stara orðlaus á eftir konunum bera Pétur út af vellinum og í hvarf.

Hann er enn veinandi.

Hann kallar á vini sína. 

En það þýðir ekkert.

Pétur er farinn.

„Áfram með leikinn, hm?“ hrópar Þjálfarinn og blæs í flautuna sína.

Enginn hreyfir sig.

Allir krakkarnir stara á Æsu.

Hún starir á blóðpollinn í gervigrasinu þar sem Pétur lá og skelfur. Svo lítur hún í kringum sig, með eld í augum. Foreldrafélagið fylgist forvitið með.
„Er ekki gaman?“ hrópar Æsa skyndilega til fullorðna fólksins. Röddin bergmálar um höllina. „Er ekki ógeðslega gaman?!“ Tár renna niður kinnarnar. Hún hefur aldrei verið jafn ógeðslega reið. Svo gersamlega brjáluð að hana langar mest til að springa. Hún titrar af bræði, dregur djúpt að sér andann og tekur ákvörðun.

Finnur boltann þar sem hann liggur í grasinu, smjattandi og sáttur. Hluti af öxlinni á Pétri liggur við hlið hans, þar sem háls uppvakningsins hefði átt að vera.

„Hvers vegna ertu að éta ef þú ert ekki einu sinni með líkama?“ hvæsir Æsa um leið og hún bakkar þrjú skref frá hausnum.

„Æsa!“ kallar Ragnar, en hún heyrir ekki í honum. Hún heyrir ekki í neinum. Það eina sem spilast aftur og aftur í höfðinu á henni eru öskrin í Pétri. Hún kreistir aftur augun og leyfir tárunum að renna eitt andartak.

Svo orgar hún ægilega.

Hleypur að boltanum.

Og sparkar honum eins fast og hún getur í áttina að Þjálfaranum.

Eins og áður hefur komið fram er Æsa ekkert sérstaklega góð í íþróttum. Hún er ekki einu sinni viss hver er rétta leiðin til þess að sparka í bolta? Með tánum? Ristinni? Hælnum? Henni gæti ekki verið meira sama. Og akkúrat núna skiptir það ekki máli.

Því hún hittir beint í mark.

Höfuðið flýgur á fullri ferð í áttina að Þjálfaranum.
En ÞJálfarinn er snöggur. Mjög snöggur. Hann fattar rétt í tæka tíð hvað mun gerast og hendir sér veinandi í jörðina.

Kennarinn er ekki eins snögg. Hún heldur á enn kaffibollanum sínum, enn vafin inn í teppið sitt og er miðjum samræðum við hávaxna konu sem Æsa veit ekkert hver er þegar Þjálfarinn kastar sér niður. Kennarinn lítur í áttina að vellinum, akkúrat á hárréttu augnabliki.

Höfuðið smellur beint á andlitinu á henni.

Kaffibollinn flýgur eitthvert út í loftið og lendir á gervigrasinu. Hausinn byrjar umsvifalaust að borða. Kennarinn reynir að æpa en það er erfitt að opna munninn þegar einhver er að éta af þér varirnar. Allt fullorðna fólkið byrjar að veina. Grænklæddu konurnar hlaupa til.

Æsa lítur ekki undan. Ekki séns.

„Fyrir Pétur,“ hvíslar hún lágt. Svo snýr hún sér að áhorfendum. „Fyrir Pétur!“ gargar hún í þetta skiptið. Krakkarnir heyra í henni og taka undir.

„Fyrir Pétur!“ ómar um völlinn. Tárin eru aftur farin að renna hjá Æsu og það er bara allt í lagi.

Þjálfarinn sprettur skyndilega á fætur, eins og hann hafi legið á gormi. Vel greitt hárið út um allt, eldrauður í framan, gersamlega brjálaður.

„Rautt spjald!“ gargar hann og veður út á völlinn. Honum dettur ekki einu sinni í hug að athuga hvort það sé í lagi með Kennarann. „Rautt spjald!“ vælir hann aftur og grefur annarri hendinni ofan í stuttbuxurnar sínar. „Rautt spjald!“ Hann rífur upp rauðan miða, lyftir honum eins hátt og hann getur og arkar að Æsu.

Þjálfarinn blæs í flautuna. Grænklæddu konurnar virðast hafa komið Kennaranum í öruggt skjól og eru nú komnar aftur.

Þær stökkva á Æsu.

Halda henni niðri.

Rífa af henni bæði sokka og skó.

Þjálfarinn stendur yfir henni, brjálaður en samt sigri hrósandi.

Krakkarnir eru komnir aftur í hnapp og fylgjast skelfingu lostin með aðförunum. Þjálfarinn virðist hugsa sig um eitt andartak. Hann virðir krakkana fyrir sér og dregur svo djúpt að sér andann. Krakkarnir eru of langt í burtu til að taka eftir því, en Æsa sér það: Þjálfarinn titrar.

„Ætli það sé af reiði?“ hugsar Æsa. „Eða ótta?“ Tilhugsunin ein gefur henni aukakraft. Æsa slítur sig lausa og sprettur á fætur. Þjálfarinn lítur á hana, en gerir ekkert meira.

Svo byrjar hann að brosa.

„Ó, nei...“ hugsar Æsa. „Hvað nú?“ Þjálfarinn bendir á krakkaþvöguna.

Enginn hreyfir sig.

„Rautt spjald á alla! Allir úr sokkum og skóm, hm?!“ Hann bendir á Æsu. „Þið getið þakkað henni vinkonu ykkar það!“ Hann brosir enn breiðar. „Úr! Núna!“

Þau hlýða.
 

Hausnum er komið fyrir á miðjum vellinum.

Þjálfarinn blæs í flautuna.

Leikurinn heldur áfram.

skolaslit-3_s14.jpg
bottom of page