top of page
14. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 12:38
1.jpg
4.jpg

Uppáhaldsbíómynd Ragnars var Galdrakarlinn í Oz. Þessi með Dóróteu og hundinum og fuglahræðunni og því öllu saman. Myndin byrjar á því að aumingja Dóróthea lendir í hvirfilbyl og hendist yfir í annan heim, stútfullan af litríkum kynjaverum og töfrum.

Ragnar vissi að myndin væri eldgömul og pínu hallærisleg en tónlistin var snilld og alltaf þegar honum leið illa fannst honum fátt betra en að finna gamla DVD-diskinn sem mamma hans hafði einu sinni átt og smella honum í gamla spilarann.


Ragnar fattaði að eitthvað var ekki eins og það átti að sér að vera um leið og óveðrið sem hafði umkringt jeppann hætti skyndilega.

Nei - „Hætti“ er ekki rétta orðið.

Það var enn rok alls staðar í kringum þau, brjálaður snjóstormur satt best að segja. En einhverra hluta vegna virtist snjórinn ekki lengur skella á þeim.

„Hey...“ tautaði Ragnar og leit út um gluggann. „Er ég í ruglinu, eða er veðrið eitthvað að breytast?“ Hann hallaði sér alveg að framrúðunni og leit eins hátt upp í himininn og hann gat. Það var næstum eins og ósýnilegu röri, sem náði lengst upp í himininn, hefði verið skellt yfir jeppann og svæðið næst honum. Fyrir ofan þau, langt fyrir ofan óveðrið, sá hann glitta í sólina. Hvernig gat það verið? „Krakkar, án djóks. Það er eitthvað skrítið í gangi,“ hélt hann áfram.

Í fyrstu hlustaði enginn á Ragnar. Bragi náttúrufræðikennari var blótandi á milli þess sem hann lamdi í stýrið og reyndi að koma jeppanum aftur í gang. Allir hinir krakkarnir höfðu snúið sér við í aftursætinu og störðu nú út um afturrúðuna. Veinin í uppvakningunum, verunum sem þangað til rétt áðan höfðu verið vinir þeirra og bekkjarsystkini, voru orðin hærri.

Þeir voru þarna einhvers staðar úti í kófinu, svangir og hlaupandi.

„Hvað eigum við að gera?“ veinaði Klara og leit á hina krakkana. „Getum við flúið?“

„Og farið hvert?“ spurði Meistarinn. „Við erum dauð!“ Jan hlammaðist aftur í sætið og skellti hettunni á peysunni sinni yfir höfuðið. Natalia sagði ekkert. Hún bara starði út um afturrúðuna.

„Krakkar...“ sagði Ragnar, örlítið hærra. „Ég held að það sé eitthvað að veðrinu...“ Natalia heyrði loksins í honum og hnussaði.

„Já, það er vont. Uss, ég er að reyna að hugsa.“ Ragnar hristi höfuðið.

„Nei... ég held það sé... að verða verra.“ Það var eitthvað í rödd Ragnars sem fékk alla til að líta á hann. Meira að segja Bragi náttúrufræðikennari leit af blikkandi mælaborðinu.

„Hvers vegna segirðu það?“ spurði Klara. Ragnar benti.

„Sjáiði bara. Snjórinn er alls staðar nema hér.“ Krakkarnir litu í kringum sig. Það var rétt.

„Hvað er málið?“ spurði Meistarinn pirraður. „Hvað er í gangi?“ Ragnar kyngdi stressaður.

„Ég er með kenningu,“ sagði hann. „Hafiði heyrt um hvirfilbyli? Eins og í Galdrakarlinum í Oz?“ Enginn sagði neitt. „En „auga stormsins“? Hafiði heyrt um það?“ Bragi setti upp furðulegan svip en kinkaði kolli. Hinir skildu ekkert.

„Hvað ertu eiginlega að tala um?“ spurði Klara. Kennarinn í Braga gat ekki hamið sig:

„Það er talað um „í auga stormsins“ þegar þú ert í miðjunni á óveðrinu. Þér líður eins og allt sé í góðu, en í rauninni ertu í afar vondum málum. Því vonda veðrið er ekki farið, það er bara alls staðar í kringum þig.“ Hann leit út um framrúðuna. „Svoleiðis veður er samt mjög óalgengt hérna á Íslandi. Það getur svo sem vel verið að hlýnun jarðar fylgi eitthvað óvænt.“ Krakkarnir litu út um gluggana. Allt í kringum þau var snjórinn og rokið á fullri ferð. En lenti þó ekki á þeim.

„Erum við sem sagt þar?“ spurði Klara stressuð. „Í auga stormsins?“ Bragi hugsaði málið og leit svo á Ragnar.

„Skarplega athugað,“ sagði hann ánægður og Ragnar brosti út í annað. Svo leit kennarinn í baksýnisspegilinn á krakkana sem sátu aftur í. „Betra orð yfir það er „svikalogn“,“ hélt Bragi áfram. „Það lýsir því fullkomlega. En mér sýnist það, já. Og kannski var það bara gott að við stoppuðum því annars hefðum við keyrt beint inn í storminn. Og það hefði getað endað illa. Svona stormar geta gripið ótrúlegustu hluti með sér og hent þeim eitthvert annað. Það hefur meira að segja nokkrum sinnumn rignt síld hérna á Íslandi því svona gaurar hafa sogað hana upp úr sjónum.“ Bragi hugsaði sig um. „Á Breiðafjarðareyjum, minnir mig...“

Ragnari varð aftur hugsað til Galdrakarlsins í Oz og hvernig hvirfilbylurinn í þeirri mynd hafði rifið upp heilt hús og fleygt því eitthvert út í buskann.

„Ókei, ef ég hef skilið þetta rétt: Erum við inni í hvirfilbyl?“ hvíslaði Jan titrandi röddu.

„Hvað gerir maður þá?“ spurði Klara. „Getum við hlaupið út úr honum eða?“ Bragi hristi höfuðið.

„Hann gengur yfir. Vonandi er bíllinn nógu þungur til að við séum örugg.“ Hann hristi höfuðið. „Þetta er í raun mjög merkilegt, þetta er mjög óalgengt hérna á Íslandi og...“

Hann komst ekki lengra.

Skyndilega skall einhver á afturhlið jeppans.

Allir öskruðu. Þetta var Tinna samfélagsfræðikennari. Eða það sem eftir var af henni. Hún var alblóðug í framan og ekki lengur jórtrandi tyggjó heldur eitthvað sem leit út eins og rifið hrátt kjötstykki. Líklega löggan sem hafði lagt við göngin. Rétt á hæla hennar kom flóð af uppvakningum. Þeir hentu sér á bílinn, lömdu og klóruðu. Jeppinn lyftist örlítið og í eitt andartak hélt Ragnar að skrímslin myndu ná að velta honum. Blóð skvettist á rúðurnar, veinin og barsmíðarnar urðu sífellt hærri, krakkarnir gripu fyrir eyrun og öskruðu og skyndilega ómaði hávært brothljóð um aftursætið.

„Nei!“ gargaði Klara um leið og gríðarstór sprunga dansaði eftir rúðunni rétt við höfuðið á henni. Hinum megin við glerið var strákur úr 8. bekk. Stór biti hafði verið rifinn úr hálsinum á honum. Hann lamdi á rúðuna eins og óður, svart slím alls staðar og sjálflýsandi augu sem störðu á krakkana. Önnur sprunga myndaðist.

„Hún mun brotna!“ veinaði Jan og reyndi að ýta hinum krökkunum frá um leið og hann ýtti sjálfum sér eins langt og hann gat frá glugganum. Hann var nú kominn í mitt aftursætið, eins langt frá báðum gluggunum og hann mögulega gat.

Annað brothljóð ómaði um bílinn – hærra í þetta skiptið.

Afturrúðan.

Hún gaf sig.

Glerbrotum rigndi inn í jeppann og hendur og hausar teygðu sig inn. Krakkarnir hentu sér í gólfið.

„Keyrðu! Gerðu eitthvað!“ veinaði Meistarinn á Braga sem reyndi enn einu sinni að koma bílnum í gang. Það gekk ekki.

Fleiri uppvakningar voru nú mættir, en þessir hentu sér á húddið og skriðu óðir upp að framrúðunni, þar sem þeir lömdu og slóu. Allavega tveir þeirra nenntu ekki að nota hendurnar og byrjuðu þess í stað að lemja hálfmygluðum höfðunum í rúðuna. Hausinn á öðrum þeirra gaf sig strax og brotnaði í tvennt, eins og egg. Svart slím skvettist yfir rúðuna og í andartak sáu hvorki Bragi né Ragnar út.

Hinum uppvakningnum gekk betur. Hann negldi höfðinu í rúðuna og náði í gegn.

Svo festist hann. Hausinn upp að enni inni í bílnum, restin úti.

Uppvakningurinn trylltist. Baðaði höndum og fótum í allar áttir til að reyna að losa sig.

Bragi og Ragnar öskruðu.

Uppvakningarnir sem nú voru að troða sér inn um afturrúðuna voru komnir hálfir inn í jeppann. Bakið á aftursætinu virtist stoppa þá. Þeir gáfust samt ekki upp, veifuðu út í loftið, tilbúnir að grípa í hvað sem er. Tinna samfélagsfræðikennari var fremst í flokki.

Og það sem hún náði loks taki á var hettan á peysunni hans Jans.

Hún reif í hana og hálsmálið þrengdi umsvifalaust að.

„Nei!“ veinaði Jan og reyndi að slíta sig lausan. Það var rifið enn fastar. Eins hratt og hann gat reyndi Jan að klæða sig úr peysunni. „Nei, nei, nei!“ argaði hann en hann var ekki nógu snöggur. Hakan lenti einhvern veginn í hálsmálinu og hann flækti sig allur í peysunni. Uppvakningurinn hélt áfram að toga og byrjaði svo að kippa í hettuna. Fast og frekjulega.

„Ég er að kafna!“ veinaði Jan, orðinn blár í framan, hálsmálið að kyrkja hann. Vinir hans á gólfinu reyndu að hjálpa honum en það var erfitt því Jan sparkaði í allar áttir, gersamlega trylltur. Tinna samfélagsfræðikennari orgaði af spenningi, reif enn fastar í hettuna og að lokum gat Jan ekki meira.

Hann varð að fá loft.

Án þess að ráða við sig gaf hann örlítið eftir, reisti sig örlítið við, bara til að geta rétt fengið smá súrefni í lungun.

En það var nóg.

Tinna nýtti tækifærið, kippti eins fast í hettuna og hún mögulega gat og áður en krakkarnir náðu að grípa í vin sinn hafði hann endasenst í aftursætið. Allavega tveir uppvakningar gripu umsvifalaust í axlirnar á honum og byrjuðu að toga hann aftur í grunnt skottið, yfir bakið á aftursætinu. Það var hrikalega vont. Jan orgaði og veinaði og sparkaði í allar áttir en allt kom fyrir ekki. Uppvakningurinn sem var einu sinni Tinna samfélagsfræðikennari missti takið á Jan í öllum látunum, en byrjaði þess í stað að fálma út í loftið eftir nýjum stað til að ná taki á honum.

Það endaði á því að tveir fingur enduðu í nösunum á Jan.

En það virtist vera nóg.

Með orgi byrjaði uppvakningurinn að rífa í nasirnar. Fastar og fastar. Það síðasta sem krakkarnir og Bragi sáu af Jan voru fæturnir á honum sem sprikluðu enn í allar áttir.

Svo hvarf hann út um brotna afturrúðuna ásamt uppvakningunum.


Krakkarnir lágu stjarfir á gólfinu. Að utan mátti heyra Jan öskra.

Svo hætti orgið.

Í eitt andartak sagði enginn neitt. Meira að segja uppvakningurinn sem enn var fastur með höfuðið í framrúðunni tók sér andartaks-pásu.

Svo köstuðu uppvakningarnir sér aftur inn um opna afturrúðuna. Enn fleiri í þetta skiptið.

Gaurinn í framrúðunni trylltist.


En þá gerðist það:

Heimurinn sprakk.

Eða hann virtist gera það.

Skyndilega tókst jeppinn á loft. Allir öskruðu og reyndu að grípa í hvað sem var, hvort sem það var stýri, handbremsa eða bara annar krakki. Lætin í veðrinu urðu allt í einu ærandi. Uppvakningar af öllum stærðum og gerðum skullu á jeppanum og ýmist sprungu eða klesstust á rúðurnar áður en þeir hurfu aftur út í rokið. Uppvakningurinn sem var hálfur í framrúðunni kipptist til og slitnaði í sundur. Líkaminn þeyttist út í kófið, hausinn var enn öskrandi í rúðunni.

Jeppinn hallaðist og var nú á hlið. Þeir uppvakningar sem voru í skottinu hrundu út. Krakkarnir á gólfinu rétt náðu að skorða sig og grípa í sætin í kring til að fara ekki sömu leið.

Það var á hreinu hvað hafði gerst:

Auga stormsins var lokað.

Svikalognið farið.

Þau voru í hvirfilbyl. Hann greip jeppann með sér ásamt öllum uppvakningunum.

Þau snerust hring eftir hring.

Þau fóru hærra.

Og hærra.

Og hærra.

Í Reykjavík var veðrið ekkert spes.

Einhverjir voru þó á ferðinni, vel búnir, með húfur og í úlpum sem voru renndar alveg upp í háls. Það skipti samt engu máli þegar það fór skyndilega að rigna uppvakningum.

bottom of page