Ragnar hleypur.
Eins hratt og hann getur.
Það eru uppvakningar alls staðar!
Allt í kringum hann er fólk að reyna að flýja íþróttasalinn. Ragnar rétt nær að skjóta sér undan hávöxnum manni, kölluðum Körfuboltaspilaranum, áður en gaurinn flækir langar lappirnar í stól og dettur á andlitið. Uppvakningarnir sem voru rétt á eftir Ragnari skipta snarlega um skoðun og ráðast á manninn.
Ragnar nær loks að stórum dyrunum sem leiða út úr salnum, ýtir við þeim og hendir sér fram á gang.
Fyrir utan tvöfaldar dyrnar eru stólar, tómur skórekki og langt skóhorn sem hangir í þunnri keðju á veggnum. Ragnar kippir í skóhornið, slítur keðjuna í sundur og treður svo skóhorninu í gegnum handföngin tvö á hurðinni. Hann hefur varla sleppt takinu þegar einhver hendir sér á dyrnar. Þær byrja að opnast en stoppa á járninu.
Sem byrjar umsvifalaust að gefa eftir.
Þetta mun ekki halda lengi.
Ragnar snýst á hæli og hleypur aftur af stað.
Hann veit nákvæmlega hvert hann á að fara: Skammt frá er hurð að skrifstofu. Og í vasanum er rauður lykill sem gengur að henni.
Ragnar átti að gera tvennt. Það var það sem Pawel hafði sagt honum: Í fyrsta lagi opna fyrir uppvakningakrökkunum svo Foreldrafélagið myndi ekki þvælast fyrir. En hitt var jafnvel enn mikilvægara: Að finna skrifstofu Lárusar rafvirkja og slökkva á rafmagnsgirðingunni. Í nákvæmlega klukkutíma. Og svo kveikja á henni aftur.
Ekkert þeirra veit hversu mikill straumur er á vírunum sem þekja varnargarðinn, en krakkarnir vilja ekki taka neina sénsa. Miðað við rafgeyma-sprengjuna sem Lárus rafvirki hafði búið til á flugvellinum búast krakkarnir við því að straumurinn sé mikill. Hugsanlega banvænn.
„Ég verð að drífa mig,“ hugsar Ragnar og reyndir að hundsa höggin sem hann heyrir glymja á dyrnar að íþróttasalnum. Þau bergmála um gangana, næstum eins og þau séu að elta hann. „Hvar ertu?“ tautar hann og tekur beygju í átt að kennarastofunum. „Hvar ert...“
„Hvað gengur hér á, hm?“ heyrist skyndilega hrópað og Ragnar þarf ekki að líta í áttina að röddinni til að vita hver er mættur. Þjálfarinn, greinilega of seinn á fundinn sem var verið að halda í íþróttasalnum, kemur skyndilega hlaupandi. Sveittur, eldrauður í framan og í alvörunni forviða þegar hann sér Ragnar. „Þú!“ gargar hann og skyndilega er allur kvíði í karlinum gufaður upp. Hann er himinlifandi! „Komdu hérna!“ gargar Þjálfarinn, opnar faðminn og hleypur á móti Ragnari eins og hann sé að smala í réttum.
Pawel, Natalia, Arndís og Æsa hlaupa út úr Ráðhúsinu.
Arndís og Æsa setja stefnuna á bílastæðið, enn fullt af yfirgefnum bílum. Arndís heldur á stórri skúringarfötu sem þau fundu inni í geymslu. Æsa heldur á gúmmíslöngu. Enginn veit hvar hún fann hana, hún var bara allt í einu með hana. Báðar stelpurnar eru með vasana fulla af tuskum.
„Við fyllum fötuna og byrjum svo að bleyta vírana,“ kallar Arndís. „Drífið þið ykkur, Ragnar hlýtur að vera búinn að taka rafmagnið af.“ Natalia og Pawel hlaupa af stað. Þeirra hlutverk er einfalt; hengja upp blöðin með rúnunum. Þau hverfa út í nóttina, bæði með upprúlluð blöð undir höndunum og vasa fulla af bréfaklemmum.
Arndís stoppar við fyrsta bílinn og ýtir á hlerann sem felur bensínlokið.
Hann opnast.
„Tilbúin?“ spyr hún og lítur á Æsu. Þegar þær ræddu þetta hafði Arndís vinsamlegast beðið um að þurfa ekki að vera á slöngunni. Hún kúgast mjög auðveldlega ef hún borðar eitthvað ógeðslegt og var tilbúin að þurfa að rífast við Æsu um þetta. Annað hafði komið á daginn. Æsu þótti þetta ekkert mál.
„Tilbúin,“ svarar Æsa ákveðin á svip og kemur öðrum enda slöngunnar fyrir uppí sér. Arndís skrúfar bensínlokið af og stingur hinum endanum á slöngunni á bólakaf ofan í bensíntankinn. Æsa andar frá sér, bíður eitt augnablik og sýgur svo eins fast og hún getur. Hún er eldrauð í framan, hún titrar af áreynslunni, axlirnar eru komnar upp undir eyru og Arndís er satt best að segja næstum því búin að stoppa þetta allt saman þegar Æsa byrjar skyndilega á hósta ægilega. Bensínið flæðir!
„Komið!“ veinar Æsa og hrækir munnfylli af bensíni á jörðina. Svo miðar hún sínum enda slöngunnar ofan í skúringarfötuna og saman horfa stelpurnar á bensínið flæða. Kunnugleg fýla fylgir.
„Vel gert!“ segir Arndís. Æsa grettir sig, ræskir sig og hrækir aftur á jörðina. Munnvatnið er regnbogalitað.
„Ekki í fyrsta skipti sem ég hef stolið bensín af bíl, get ég sagt þér.“ Arndís svarar engu en glósar hjá sér í huganum að þegar þetta allt saman er búið þurfi þær tvær að spjalla lengi saman. Æsa er greinilega mun áhugaverðari en Arndísi hefði nokkurn tímann getað dottið í hug.
Þetta gengur vel.
Svo vel að stelpurnar taka ekki eftir því að hægt en örugglega er verið að umkringja þær.
Pawel og Natalia hafa skipt úr hlaupum yfir í ark. Þau eru nánast komin alveg að varnargarðinum.
„Heldurðu...“ byrjar Pawel skyndilega en hættir jafnharðan aftur.
„Hvað?“ spyr Natalia og lítur á hann. Pawel þegir í smá stund enn. Honum liggur eitthvað á hjarta en hann veit bara ekki alveg hvernig hann á að orða það.
„Heldurðu að... Myrkrið hafi tekið yfir Foreldrafélagið?“ spyr hann svo. „Eins og þið sögðuð að hefði gerst á lögreglustöðinni í fyrra. Þegar Myrkrið laumaði sér inn í líkama fólks og stjórnaði því?“ Natalia hugsar til baka og í eitt andartak dansar skælt andlitið á Braga náttúrufræðikennara í huga hennar. Hrollur læðist upp eftir bakinu. „Er það þess vegna sem þau gerðu alla þessa hræðilegu hluti?“ Natalia dæsir og hugsar sig um. Þetta er flókin spurning. En samt eiginlega ekki.
„Nei,“ segir Natalia loks. „Myrkrið entist aldrei lengi í líkama annars fólks. Það tæmdi þau. Eða eitthvað þannig. Þurfti alltaf að vera að skipta. Þannig að ég held að Myrkrið hafi ekki tekið yfir Foreldrafélagið.“ Hún hristir höfuðið og lítur svo aftur á Pawel. „Ég held að fullorðna fólkið hafi bara verið hrætt. Og þegar maður er hræddur þá gerir maður heimskulega hluti.“ Pawel meðtekur svarið og veltir því fyrir sér.
„Ókei,“ segir hann svo. Hann lítur í áttina að varnargarðinum. Þau eru komin að honum. Hár veggurinn gnæfir yfir þeim. Í tunglsljósinu sjá þau glitta í rafmagnsvírana. Lárus rafvirki hafði ekkert verið að djóka; það eru vírar út um allt. Efst upp, í miðjunni, á ská og svo – sem betur fer – alveg neðst. Í augnhæð.
Fullkomið.
Þau stoppa við neðsta vírinn og virða hann fyrir sér. Natalia hallar sér upp að vírnum og hlustar.
Ekkert hljóð. Ekkert suð. Ekkert taktfast tikk-tikk-tikk. Ekkert.
„Heldurðu að Ragnar hafi náð að slökkva?“ spyr Pawel. Natalia yppir öxlum.
„Vonandi.“ Hún lítur á Pawel og svo aftur á vírana. „Við erum að renna út á tíma. Það er bara ein leið til að komast að þessu.“ Svo leggur Natalia blöðin sín á jörðina og grípur með báðum höndum um rafmagnsvírinn.
Þjálfarinn hefði náð Ragnari.
Auðveldlega.
Ef skóhornið hefði ekki gefið sig.
Rétt áður en Þjálfarinn stekkur á Ragnar heyrist hátt klang!-hljóð sem bergmálar um auða ganga skólans. Ragnar veit um leið hvað það er.
„Hlauptu!“ veinar hann, um leið og hann beygir sig og hendir sér í jörðina. Í stað þess að beygja sig líka og grípa svo í hnakkadrambið á Ragnari snarstoppar Þjálfarinn. Öskur heyrast í fjarska. Hann lítur í áttina að þeim. Svo lítur hann forviða á Ragnar, sem liggur enn á gólfinu.
„Hvað hefurðu gert, hm?!“ hvíslar hann. Ragnar svarar ekki. Hann skríður á fætur á fjórum fótum og hleypur af stað. Framundan eru ótalmargar dyr og hann þarf að komast að því hver þeirra er að skrifstofu Lárusar rafvirkja.
Hann reynir að hugsa.
Lykillinn er rauður. Hlýtur það ekki að þýða að skráin sé líka...
Þarna!
Ragnar stoppar svo hratt að hann rennur næstum á höfuðið. Öskrin í fjarska verða sífellt hærri og hærri og hjartað í brjósti Ragnars slær svo hratt að hann heyrir nánast í því. Hann grefur höndinni ofan í vasann og finnur lyklakippuna og byrjar að leita en þeir eru svo margir, hvers vegna eru þeir svona margir og þarna er hann!
Ragnar grípur rauða lykilinn. Stingur honum á kaf. Snýr. Dyrnar opnast upp á gátt.
Ragnar hendir sér inn. Tekur um hurðarhúninn. Er um það bil að fara að skella í lás þegar hann heyrir skyndilega kunnuglega rödd.
„Bíddu!“ Þetta er Þjálfarinn. Ragnar gægist aftur út um gættina og sér myndarlega manninn koma hlaupandi á móti sér. Á eftir honum er alda af uppvakningum, bæði fullorðnum og börnum. Tennur og hendur, ekkert nema tennur og hendur.
„Ekki loka!“ gargar Þjálfarinn eins hátt og hann getur og teygir sig í áttina að opnum dyrunum.
Ragnar starir á hann. Um leið verður honum hugsað til baka og allt sem hefur gerst síðustu klukkutímana hellist yfir hann. Það síðasta sem hann sér er Klara. Elsku Klara sem gerði ekkert af sér. Elsku Klara sem var bara að reyna að hjálpa og var étin.
Og Ragnar ákveður sig.
Hann tekur enn fastar um hurðarhúninn og lítur á Þjálfarann.
Þjálfarinn sér um leið hvað mun gerast og byrjar umsvifalaust að veina. Að hlaupa hraðar. Að sannfæra Ragnar um að hann muni nú ná þessu.
En Ragnari er alveg sama.
Hann veit hvað hann þarf að gera.
Ragnar dregur djúpt að sér andann.
Og lokar.
Svo galopnar hann dyrnar aftur.
Þjálfarinn, varla búinn að hægja á sér, endasendist inn um gættina, klessir á stól og flýgur á andlitið. Ragnar skellir og læsir.
Sekúndu seinna ráðast skrímslin á dyrnar, gersamlega óð. En Ragnar hefur ekki tíma til að spá í það núna. Hann klofar yfir Þjálfarann sem liggur enn á gólfinu og skimar í kringum sig. Hann þarf að slökkva á rafmagninu sem umlykur varnargarðinn og það þarf að gerast núna!
„Þarna!“
Á veggnum er rofi. GIRÐING stendur stórum stöfum. Ragnar tekur í hann og tosar hann niður. Einhvers staðar í fjarska heyrist þungur dynkur.
Natalia grípur um vírinn.
Ekkert gerist.
„Glæsilegt!“ segir hún og lítur glottandi á Pawel. ,,Vel gert, Ragnar!" Hann brosir til baka.
„Hengja upp myndir?“ spyr hann spenntur.
„Hengjum upp myndir,“ svarar Natalia. Og það er nákvæmlega það sem þau gera.
Þeim líður vel.
Þau munu ná þessu.
Og það er ekkert sem getur stoppað þau.
Skúringarfatan er full og stelpurnar eru bara enn á fyrsta bíl. Þetta er snilld.
„Drífum okkur,“ skipar Arndís og stendur á fætur. Hún grípur um fötuna og lyftir. „Vó, hvað hún er þung!“ Æsa leggur slönguna frá sér og stekkur til svo hún geti hjálpað vinkonu sinni.
En svo snarstoppar hún. Því núna sér hún þær.
„Ó, nei...“ hvíslar Æsa og Arndís heyrir um leið á málrómi hennar að þær eru í vondum málum. Hún leggur frá sér fötuna. Lítur í áttina sem Æsa horfir í.
Fyrir framan stelpurnar stendur heill her af skrímslum.
Draugar. Varúlfar. Vampírur.
„Ekki... hreyfa þig...“ hvíslar Arndís. „Stattu grafkyrr...“
„Við erum ekki í Jurassic Park!“ hvæsir Æsa til baka. „Og þetta eru ekki grameðlur!“
Og það er rétt hjá henni.
Það skiptir engu máli hvort stelpurnar hlaupi eða standi grafkyrrar; þær eru dauðans matur.