top of page
20. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 12:25
0-munnur copy.jpg

„Hættu að öskra!“ hvæsir Klara á Ragnar og rífur aftur í handlegginn á honum. Munnurinn á Ragnari lokast með háum smelli. Þau eru bæði klesst upp við lögreglustöðina.

„Sorrý,“ hvíslar hann. Svo lítur hann um öxl og bendir með lausu höndinni í áttina að horninu. „Uppvakningar! Alls staðar!“

„Líka hérna megin?“ spyr Klara. Ragnar yppir öxlum.

„Ekki viss.“ Klara lítur út í kófið og pírir augun. Hún sér ekkert. Ofurvarlega lyftir hún vasaljósinu sem hún hafði slökkt á og kveikir. Ljósgeislinn hverfur út í nóttina en ekkert sést nema snjór.

„Ertu alveg viss?“ spyr hún stressuð. Ragnar kinkar kolli.

„Hinum megin við húsið. Börn. Fullorðið fólk. Ég held ég hafi meira að segja séð hund!“ Augun í Klöru stækka um helming og næstum ósjálfrátt ætlar hún að hlaupa af stað. Hún elskar dýr. Nú er það Ragnar sem rífur í hana. „Ertu að djóka?!“ hreytir hann í hana. Klara fattar hvað hún hafði næstum gert.

„Fyrirgefðu,“ hvíslar hún skömmustuleg og beinir vasaljósinu að jörðinni.

 

Ragnar getur samt ekki annað en brosað. Þetta var týpísk Klara. Eins og hann mundi eftir henni. Áður en þau hættu að tala saman. Áður en allt varð skrítið á milli þeirra.

Hún lítur á hann, forvitin á svip.

„Hvað?“ spyr hún. Ragnar ætlar að svara, en veit að hann þarf þess ekki. Klara veit nákvæmlega „hvað“. Þau þegja.

„Sko...“ byrjar Ragnar loks. Hann skelfur af kulda og langar ekkert meira en að komast aftur inn. Hann veit líka þau ættu ekki að standa hérna og spjalla, að skrímsli gætu komið fyrir hornið á hverri stundu, en hann er algjörlega viss um að ef hann segir þetta ekki núna, þá mun hann kannski aldrei segja það. „Ég veit að þetta er búinn að vera hræðilegur dagur,“ heldur hann áfram, „og ég veit að við munum líklega vera étin eftir smástund,“ og Klara byrjar bæði að tárast og hlæja á sama tíma, „en þetta var...“ og Ragnar leitar eitt andartak að réttu orðunum, „... næs,“ segir hann loks. „Að hanga með þér. Aftur.“ Hann roðnar smá og lítur undan. „Ég saknaði þín...“ Klara lítur á hann og brosir.

„Sömuleiðis,“ segir hún lágt. Svo er skyndilega eins og það hafi verið skrúfað frá krana. Allt sem hana hefur langað að segja síðustu mánuðina og árin flæðir út. Ragnar reynir að stoppa hana og svara en kemst ekki að. „Ég gerði það óvart,“ byrjar Klara og röddin brestur örlítið. „Ég ætlaði ekki að segja neinum, því mér þótti svo fáránlega vænt um það að þú sagðir mér þetta á undan næstum öllum, en svo var ég eitthvað að spjalla við stelpurnar í bekknum á Snapchat daginn eftir og ég missti eitthvað út úr mér og þær fóru að spyrja meira út í það og áður en ég vissi af hafði ég kjaftað. En þær lofuðu samt að segja engum en þær gerðu það samt og svo mættir þú í skólann og allir létu eins og fávitar og ég einhvern veginn bara... svo bara...“ Hún hristir höfuðið. „Ég hefði ekki átt að beila. Ég hefði átt að standa með þér. Ekki skilja þig einan eftir. Fyrirgefðu.“ Ragnar horfir á hana og brosir dauflega út í annað. Vindurinn hvín.

„Ég ætla ekki að segja „Ekkert mál,“ “ segir hann loks, „því þetta var mega-mál.“ Klara lítur skömmustuleg undan. „Og mér leið oft illa og hefði þurft á vini að halda,“ og nú langar Klöru að hverfa ofan í jörðina, „en takk. Fyrir að segja þetta.“ Hann brosir til hennar. „Og hver veit? Kannski verðum við ekki étin. Þá getum við kannski hangið saman næstu helgi eða eitthvað?“ Klara lítur upp úr snævi þakinni gangstéttinni og brosir til baka.

„Ég væri til í það,“ segir hún lágt.

Skyndilega heyrist eitthvað. Þau þagna bæði. Ragnar læðist og laumast til að gægjast aftur fyrir hornið. Hann kippir höfðinu strax til baka.

„Þau eru að koma!“ hvíslar hann og hleypur af stað. „Þau eru við aðaldyrnar. Að reyna að komast inn. Hvert förum við?“ Klara leiðir og hleypur meðfram lögreglustöðinni.

„Bara hérna aðeins neðar. Það er hliðarhurð. Ég skildi hana eftir opna. Komdu!“

Þau hlaupa.

Inni á kaffistofunni er enn myrkur.

„Hvaða hljóð var þetta?“ hvíslar Natalia titrandi röddu. „Varstu að flissa?!“

„Þetta varst þú,“ urrar Meistarinn til baka. „Og þú veist það alveg. Því það varst þú sem varst sýkt, ekki Ragnar, og ég var auli og ég henti honum út og nú ert þú að flissa yfir því.“ Natalia lemur í borðið.

„Þetta var ekki ég! Ég hef ekkert gert! Þetta varst þú! Þú ert að reyna að rugla í mér!“ Meistarinn getur ekki annað en hlegið, honum þykir þetta svo fáránlegt. „Sko!“ hrópar Natalia. „Þú gerðir það aftur!“

„Nei!“

„Víst!“

„Nei!“

Klara og Ragnar læðast aftur inn á lörgreglustöðina. Þau passa að læsa hliðarhurðinni á eftir sér og standa núna inni í einhvers konar lítilli auka-forstofu. Þau lauma sér aftur inn á ganginn.

Í fjarska heyra þau Meistarann og Nataliu rífast.

Enn er verið að berja á útidyrnar.

„Hvað er í gangi?“ hvíslar Ragnar.

„Veit ekki,“ svarar Klara og lýsir eftir ganginum í áttina að kaffistofunni. Líkið af Braga náttúrufræðikennara liggur enn á gólfinu, teppið enn breytt yfir það.

„Þau hafa alltof hátt!“ segir Ragnar og hleypur af stað. „Uppvakningarnir munu heyra í þeim!“


Þegar Klara og Ragnar storma inn á kaffistofuna, vopnuð eina vasaljósinu á svæðinu sem búið er að finna, stendur Meistarinn í öðrum enda stofunnar og heldur á upprúlluðu dagblaði. Hann heldur því á lofti eins og sverði og miðar því að Nataliu. Hún situr hins vegar enn við borðið, gersamlega brjáluð á svipinn.

„Hvað er í gangi?!“ hvæsir Klara. „Það eru uppvakningar fyrir utan! Ekki láta þá heyra í ykkur!“ Natalia lítur á Ragnar og svo aftur á Klöru.

„Ætlaðir þú ekki að læsa?!“ Klara hristir höfuðið.

„Hann var ekki sýktur, við gerðum mistök!“

Ragnar lætur eins og hann heyri þetta ekki, stekkur til og dregur fyrir gluggana á kaffistofunni eins hratt og hann getur. Hann er ekki viss, en honum finnst hann sjá hreyfingu í myrkrinu fyrir utan, rétt áður en gardínan tók yfir.

„Það er hún!“ segir Meistarinn og bendir á Nataliu með dagblaðinu. „Það var hún allan tímann!“ Hann lítur örsnöggt í áttina að Ragnari. „Sorrý, maður.“ Ragnar, sem er enn skjálfandi af kulda, yppir öxlum og reynir að láta eins og þetta hafi ekki verið neitt mál.

„Það er hann!“ svarar Natalia.

„Uss!“ hvæsir Klara. „Þeir eru fyrir utan!“

„Það er hann!“ hvíslar Natalia, eins hátt og mögulega er hægt að hvísla. Meistarinn ákveður að þetta blessaða dagblað sé ekki að gera neitt fyrir hann og hendir því í Nataliu. Hún, verandi frekar góð í handbolta, grípur það og grýtir beint til baka.

„Á!“ veinar Meistarinn og grípur um annað augað. „Er ekki í lagi með þig?“

Og skyndilega er flissað.

Nema núna er vasaljós í herberginu, þannig að allir sjá framan í alla.

Ekkert þeirra var sökudólgurinn.

Natalia starir á Meistarann.

„Ég sagði þér það!“ hvæsir hún á hann. Hann sussar á hana.

„Hvaðan kom þetta?“ hvíslar hann og skimar í kringum sig. „Er einhver annar hérna en við?“ Klara gægist fram á gang.

„Ég held ekki,“ segir hún lágt. „Nema einhver sé frammi að fela...“ Hún þagnar. Krakkarnir líta á hana.

„Hvað?“ spyr Ragnar og læðist til hennar. Klara stendur enn í dyragættinni og starir stjörf á gólfið. Ragnar gægist yfir öxlina á henni. „Hvað?“ spyr hann aftur. „Ég sé ekkert.“

„Það er einmitt málið,“ hvíslar hún titrandi röddu og lýsir með vasaljósinu á teppalagt gólfið. „Hvar er Bragi?“

Skyndilega fyllist kaffistofan af flissi.

En það er ekki þægilegt fliss, það er ekki smitandi fliss, það fær mann ekki til að vilja taka undir. Það sker í eyrun og fær mann til að vilja öskra.

Natalia sprettur á fætur og Meistarinn kemur hlaupandi. Allir forða sér út úr kaffistofunni og standa nú fyrir utan hana. Klara lýsir í hringi og reynir að finna hvaðan óhljóðið kemur.

„Þarna!“ veinar Meistarinn skyndilega og Klara snýst í hálfhring.

Lýsir inn í dimmt horn, skammt frá tölvunum.

Og þar stendur hann.

Bragi Þór náttúrufræðikennari.

Það sem var einu sinni Bragi Þór náttúrufræðikennari.

Það er greinilega búið að koma hryggnum aftur fyrir á sinn stað, því hann stendur hálfuppréttur, en það er eins og sá sem púslaði bakinu á honum aftur saman hafi ekki verið sérstaklega góður í því. Hann er allur skakkur og skringilegur.

Bragi starir á krakkana.

Augun rauð.

Svart slím rennur úr munninum.

Myrkrið hafði ekki farið í Ragnar eða Klöru eða Nataliu eða Meistarann eftir að það yfirgaf Þórkötlu lögreglustjóra. Það hafði fundið Braga. Það var miklu skemmtilegra. Og svo hafði það beðið. Það kunni það. Fylgst með. Og notið þess að sjá þessar miklu hetjur snúast gegn hvor annarri. Þau voru greinilega ekki meiri vinir en svo að smá hraðahindrun sendi þau út í skurð!

„Manneskjuhamskipti...“ hvíslar Klara.


Höggin á útidyr lögreglustöðvarinnar eru orðin hærri. Þyngri.

Vein eru farin að bætast í hópinn.

Krakkarnir heyra út undan sér að einhverjir eru byrjaðir að berja á stóra gluggann inni á kaffistofunni, jafnvel þótt Ragnar hafi dregið fyrir.

„Þau... eru... alls staðar...“ slefar Myrkrið með munni náttúrufræðikennarans. Röddin er eins, en samt ekki. Eins og tveir séu að tala á sama tíma. „Þau... hafa... umkringt... stöðina...“ Myrkrið glottir. „Þetta... er... búið.“

Skrímslin fyrir utan berja fastar og fastar á gluggana.

Brothljóð ómar einhvers staðar. Krakkarnir eru ekki viss hvar. Sigurvein fylgir í kjölfarið.

Þau stara á skrímslið þar sem það gnæfir yfir þeim. Þau reyna ekki að mótmæla, þau reyna ekki að flýja. Því þau vita að Myrkrið hefur rétt fyrir sér.

Þetta er búið.

skinsuit_red-glow2.jpg
bottom of page