top of page
2. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 09:33
2.jpg

Það eru nokkir mánuðir síðan „hinir“ krakkarnir mættu. Það var það sem Ragnar, Klara, Natalia og Meistarinn höfðu kallað Æsu, Pétur, Joönnu, Pawel, Arndísi og Halldór fyrstu vikuna.

„Hina“ krakkana. Því þau höfðu búið hérna ein í marga mánuði áður en þau hin komu.

 

Ragnar, Klara, Natalia og Meistarinn höfðu verið í skólaferðalagi úti á landi þegar Myrkrið hafði tekið yfir. Og gott betur en það; Natalia og Meistarinn voru þau sem höfðu óvart hleypt því yfir í okkar heim. Það var samt voða lítið minnst á það, þeim leið nógu illa yfir því.

Krakkarnir höfðu verið í öftustu rútunni af þremur í þessu annars ágæta skólaferðalagi. Komust með herkjum á lögreglustöðina á Reykjanesinu. Rétt sluppu þaðan lifandi. Fundu yfirgefinn bóndabæ og gerðu sitt besta til að bæði fela sig en um leið gera hann þannig að enginn uppvakningur gæti komið nálægt án þess að þau vissu af því.

Meistarinn og Natalia höfðu eytt sumrinu í að grafa djúpan skurð í kringum húsið. Ragnar og Klara höfðu sett upp gaddavírsgirðingar. Og gott betur en það; í fjósi skammt frá hafði Klara rekist á nokkrar bjöllur sem líklega höfðu einhvern tímann hangið á kúm. Þau festu þær á staura og ráku þá nánast alveg á kaf í jörðina þar sem grasið var sem mest. Ef þú vissir ekki af þeim var ekki séns að þú myndir sjá þá. Fullkomin þjófavörn fyrir hálfheilalausa uppvakninga á röltinu sem voru ekkert að fylgjast með því hvert þeir stefndu.

En svo höfðu þau mætt; Æsa, Pétur, Joanna, Pawel, Arndís og Halldór. „Hinir“ krakkarnir. Ragnar vissi um leið hver þau voru, þótt það væru nokkrir mánuðir síðan hann hafði séð þau. Þetta voru krakkar sem höfðu verið með þeim í skóla. Og ekki nóg með það; Joanna, Æsa og Pétur höfðu verið með þeim í skólaferðalaginu. Bara ekki í sömu rútu. Þau höfðu verið í fremstu rútunni.

Pawel var of ungur til að vera í unglingadeildinni og hafði þess vegna verið heima hjá sér þegar fyrstu uppvakningarnir mættu á svæðið. Arndís og Halldór höfðu verið í Reykjavík.

Enginn af „hinum“ krökkunum vildi samt tala um hvað hafði gerst áður en þau komu hingað.

Það var of hræðilegt. Ragnar hafði reynt að veiða sögurnar upp úr þeim. Hverng þau höfðu lifað af, hvernig þau höfðu fundið hvort annað en ekkert hafði gengið. Hann vissi ekki alveg hvers vegna.

Hann vissi þó hvernig sagan þeirra endaði: Á yfirgefnum bóndabæ á Reykjanesinu með Ragnari, Klöru, Meistaranum og Nataliu.
 

Dagarnir liðu einn af öðrum og sambúðin gekk vel.

Það voru hins vegar næturnar sem voru furðulegar. Nánast hverja einustu nótt dreymdi einhvern illa. En það var ekki það furðulega; það sem var skrítnast var að alla krakkana virtist dreyma það sama. Þau áttu erfitt með að muna það nákvæmlega en það var eitthvað í sambandi við.. draugahús?

Gat það verið?
Aðalvandamálið var samt maturinn. Hann var smám saman að klárast. Þegar „hinir“ krakkarnir höfðu fundið bóndabæinn voru allar frystikistur fullar og þau gátu veitt fisk úr sjónum en í sumar hafði komið gat á bátinn sem var erfitt að laga og nú var farið að sjást í botninn á frystikistunni. Allar dósir sem þau höfðu fundið voru að klárast. Um haustið var það algerlega komið á hreint; einhver myndi þurfa að fara af bæ og leita að vistum.

 

„Ég get þetta ekki lengur!“ hafði Æsa tilkynnt ákveðin á svip eitt kvöldið við borðstofuborðið, „Ég get ekki borðað meiri graut!“ Hinir krakkarnir höfðu starað á hana.

„Hvað meinarðu?“ hafði Pétur, með fullan munninn af ósöltuðum hafragraut, spurt. Æsa benti á diskinn sinn. Hún hafði enn ekki snert á honum.

„Mig langar í mat,“ dæsti hún. „Alvöru mat. Svona eins og maður kaupir út í búð og eldar svo.“ Hinir krakkarnir kinkuðu kolli.

„Við getum samt ekki farið í Reykjanesbæ,“ sagði Joanna lágt. „Hann er fullur af uppvakningum.“

„Var það allavega síðast þegar við vorum þar,“ tautaði Meistarinn. „Við rétt sluppum. Held ég vilji halda því þannig, sko.“ Arndís hnussaði.

„Mér finnst mikilvægara, ef við ætlum að skreppa af bæ, að við reynum að ná sambandi við umheiminn. Athuga hvernig staðan er. Kannski getum við kallað á hjálp.“

„Allir símar urðu skrítnir eftir að Myrkrið tók yfir,“ sagði Pawel annars hugar. 

„Þá finnum við bara ofursíma eða eitthvað. Það hlýtur að vera símkerfi einhvers staðar sem hreinlega má ekki klikka, sama hvað gerist. Er með vara-kerfi og vara-vara-kerfi.“ Pawel leit á hana.

„Vara-vara-kerfi?“ Arndís svaraði engu. Hún vissi sjálf að þetta voru ekki sannfærandi rök.

„En hvað með einhver af minni þorpunum hérna í kring?“ spurði Ragnar og fékk sér kúfulla skeið af graut. Hann var sá eini í hópnum sem fannst ekkert svo slæmt að borða graut í öll mál. Fannst það meira að segja bara smá næs. „Eru ekki lítil kaupfélög eða eitthvað álíka þar sem við getum fundið eitthvað?“

„Ég myndi ekki taka sénsinn á því,“ tautaði Joanna og benti á Ragnar með skeiðinni sinni. „Ég held það séu góðar líkur á því að þorpin séu á kafi í skrímslum líka.“ Klara leit stressuð í áttina að glugganum. Það var dregið frá og tunglið dansaði í skýjunum.

„Við erum alls ekki langt frá þessum þorpum,“ sagði hún hugsi. „Ætti ekki einhver uppvakninganna að ráfa hingað á endanum?“ Natalia kinkaði kolli.

„Góður punktur. Hvað er langt síðan við sáum uppvakning síðast?“ spurði hún. Hinir hugsuðu sig um.

„Fjórir mánuðir,“ svaraði Pawel loks. „Þessi sem festist ofan í gryfjunni.“ Þeim varð öllum hugsað til uppvaknings sem hafði ráfað ofan í eina af gildrunum þeirra. Hann hafði verið illa farinn og hálfmyglaður. Þau höfðu tekið gamla hrífu og stútað honum. Það hafði verið subbulegt en nauðsynlegt.

Skyndilega spratt Halldór á fætur. Hann var svo spenntur á svipinn að það var næstum hlægilegt.

„Hvað?“ spurði Pétur forvitinn. Halldór hafði ekki verið að taka þátt í samræðunum. Hann hafði verið að hugsa. Hann hafði starað út um gluggann og séð í fjarska glitta í flöktandi ljós.

„Hvað er þetta aftur?“ hafði hann hugsað.

Og svo hafði hann munað það!

„Ég er með hugmynd!“ tilkynnti Halldór. „Ég veit hvar er bæði matur og vara-vara-vara...“ Hann mundi ekki síðasta orðið og benti óðamála á Arndísi.

„Kerfi?“ kláraði hún. Hann kinkaði kolli.

„Já!“

Það er kominn morgunn. Krakkarnir hafa farið yfir þetta fram og til baka og ákveðið sig. Þeir sem eru fljótastir að hlaupa fara. Og Pétur. Því hann er góður á tölvur. Hinir verða eftir heima. Natalia, sem er vissulega snör í snúningum, slæst ekki með í för. Bara til öryggis ef eitthvað kæmi upp á heima.

Þau leggja af stað um leið og birtir. Stefnan er að komast að Leifsstöð. Flugstöðin ætti að vera full af mat, en það sem mikilvægara er að hún er stútfull af tölvum, sem eru tengd hinum ýmsu kerfum. Myrkrið bara hreinlega getur ekki hafa eyðilagt þau öll. Þessi kerfi voru notuð til að stýra flugumferð – þau eru tengd við gervihnetti!

Planið er að ná í vistir, reyna að ná sambandi við umheiminn, kalla á hjálp og drífa sig svo aftur heim áður en nóttin mætir á svæðið. Halldór, Pawel, Pétur og Æsa halda af stað. Veðrið er gott og svalt, sólin skín og þau geta séð vel í allar áttir ef einhver skyldi reyna að laumast að þeim. Þau vita vel að þau eru að taka áhættu en það er ekkert annað í boði. Hinir krakkarnir eru í góðum málum á meðan. Það er ekki séns að einn einasti uppvakningur geti komist að bóndabænum án þess að þau taki eftir honum.


Seinna sama kvöld, þegar Pétur og Æsa hafa leitað skjóls á fáránlegasta og um leið hættulegasta felustað á öllu Reykjanesinu, þegar Halldór og Pawel eru að berjast fyrir lífi sínu, má sjá skugga nálgast bóndabæinn.

Eigendur skugganna hoppa yfir allar gildrur, skjótast fram hjá öllum viðvörunarbjöllum, troða sér í gegnum allar girðingar og áður en nokkur veit af þeim, standa þau við dyr bóndabæjarins.

Krakkarnir hafa verið svo upptekin af því að verja bóndabæinn fyrir uppvakningum að þau steingleymdu að spá í það hvort það væri eitthvað annað á ferðinni.

Eitthvað enn hættulegra.

Eyra er lagt upp að útidyrahurðinni.

Fyrir innan má heyra í krökkunum tala saman. Þau eru að borða kvöldmat. Það litla sem er eftir af honum.

„Eigum við að banka?“ spyr rám rödd.

„Auðvitað ekki,“ svarar önnur.

bottom of page