top of page
2. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 07:10
2.jpg

„Gaur! Ertu að djóka?! Á fætur! Rúturnar eru alveg að fara!“

Ragnar opnaði augun, bara örlítið, og emjaði eins og sært dýr.

„Það er október!“ veinaði hann. „Á ekki að vera dimmt á morgnanna?“ Einhver sparkaði í hann og Ragnar emjaði enn hærra.

„Gaur! Það er ekki lengur morgunn! Þú svafst alltof lengi! Bragi er orðinn brjálaður! Snöggur!“ Bragi sem um ræddi var Bragi Þór náttúrufræðikennari. Hann var líka sá sem stjórnaði öllu í þessari ferð. Sá sem lá á dýnu á gólfinu í svefnpoka og átti að vera löngu kominn á fætur var Ragnar. Sá sem hafði sparkað í hann var bekkjarsystir hans, Klara.


Ragnar settist upp og nuddaði stýrurnar úr augunum. Svo fálmaði hann út í loftið eftir símanum sínum. Leit á skjáinn. Klukkan var 12.

„Ó, sji...“ byrjaði hann og spratt á fætur. Gleymdi að hann var enn í svefnpokanum. Datt fram fyrir sig og með sveiflu, rétt náði að lenda aftur á dýnunni. Missti andann eitt andartak.

„Ái...“ stundi hann. Klöru var alveg sama. Hún snerist á hæl og stormaði út úr stofunni.

„Bragi sagði að við leggjum af stað eftir þrjár mínútur. Hvort sem þú ert kominn inn í rútuna eða ekki!“ Hún var komin fram á gang. Röddin bergmálaði um tóma kennslustofuna þar sem allir höfðu sofið í nótt. Ragnar dæsti og skreið svo af stað eins og stórfurðuleg svefnpokalirfa.

„Ég er að koma!“

Bæði Ragnar og Klara voru hluti af unglingadeildinni í stórum skóla á Reykjanesinu. Þau voru á skólaferðalagi. Þetta var tveggja daga ferð, lagt af stað á föstudegi og komið heim á sunnudegi.

Áfangastaðurinn var Borgarfjörður, en þar voru þrír vinaskólar sem þau höfðu eytt síðasta árinu í að skrifast á við. Krakkarnir í grunnskóla Borgarbyggðar tóku vel á móti þeim og helgin hafði farið í að skoða Borgarfjörðinn, halda kvöldvökur með hinum krökkunum, grilla (þótt það væri snjór alls staðar) og njóta lífsins.

Bragi Þór náttúrufræðikennari hafði verið mjög skýr í gærkvöldi:

„Allir að sofa á miðnætti, við vöknum 10, göngum frá og erum farin héðan á slaginu 12. Spáin er slæm og við verðum að vera á undan veðrinu. Skilið?“ Allir höfðu skilið. Ekki nærri því allir höfðu farið eftir því.

Ragnar hafði alltaf verið vökustaur. Þótt hann væri á ferðalagi var engin breyting á því. Krakkarnir gistu allir í grunnskólanum á Varmalandi, en kennararnir (fjórir talsins, einn fyrir hverja rútu) gistu annars staðar, á hóteli aðeins ofar við sömu götu.

Sem þýddi auðvitað að um leið og kennararnir voru farnir að sofa voru öll ljós kveikt og partý haldið. Fyrri nóttina hafði verið svona „demó-partý“ eins og Ragnar hafði orðað það. Aðeins rólegra, aðeins verið að athuga hversu mikil læti mættu vera án þess að fullorðna fólkið heyrði, en samt alveg stemming. Aðfararnótt sunnudagsins hafði allt orðið vitlaust. Partý bæði inni og úti. Það var snjókoma, en samt ekki rok. Kalt en samt ekki of kalt. Fullkomið!

Rétt við grunnskólann var lítill skógur sem einhverjir hlupu út í og voru að fíflast í snjókasti og öðru. Einhverjir kveiktu meira að segja varðeld og voru úti hálfa nóttina. Hápunktur næturinnar var víst þegar köttur, sem greinilega átti heima þarna einhvers staðar, hafði ákveðið að slást í hópinn.

Kennararnir sváfu í gegnum þetta allt.

Ragnar var síðastur að fara að sofa og langsíðastur að vakna. Með stírurnar í augunum og slef út á kinn tróð hann svefnpokanum og öllu draslinu sínu ofan í svartan ruslapoka og hljóp af stað.

Rúturnar voru fjórar. Einn kennari í hverri. Einn bílstjóri. Hellingur af krökkum.

Þrjár þeirra voru þegar lagðar af stað. Ragnar sá í rassinn á þeim þar sem þær brunuðu í burtu. Sú fjórða beið eftir honum. Farangursrýmið var enn opið. Ragnar hljóp að því og sveiflaði ruslapokanum inn í það með tilþrifum. Dralsið hans lenti með dynk einhvers staðar lengst í iðrum rútunnar. Bragi Þór náttúrufræðikennari stóð fremst í rútunni og gægðist út.

„Áfram með þig, drengur!“ hvæsti hann á Ragnar um leið og sá síðarnefndi tróð sér fram hjá kennaranum og inn í rútuna. Ragnar svaraði engu, laumaði sér eins aftarlega og hann gat og hlammaði sér í sæti.

„Ég náði því,“ tautaði hann og leit á sessunaut sinn, strák úr 10. bekk sem enginn vissi almennilega hvað héti, en allir kölluðu Meistarann. „Ég náði!“ Meistarinn, sem var með heyrnartól í báðum eyrum og gæti ekki verið meira sama, leit áhugalaus á Ragnar, kinkaði kolli og hélt svo áfram að glápa út um gluggann. Klara, sem sat aðeins framar, sneri sér við í sætinu og sendi Ragnari svip sem greinilega þýddi: „Þú skuldar mér greiða fyrir að hafa vakið þig.“

Bragi Þór náttúrufræðikennari óð út úr rútunni, skellti aftur hurðinni að farangursrýminu og stormaði svo aftur um borð.

„Af stað!“ skipaði hann.

Sem var nákvæmlega það sem rútan gerði.

Bílastæðið á Varmalandi stóð nú autt. Það snjóaði og himininn varð sífellt grárri með hverri mínútunni. Á víð og dreif mátti sjá dökka olíubletti þar sem rúturnar höfðu staðið. Í hvítum snjónum sáust þeir vel.

Það sem sást hins vegar ekki eins vel var slóðin.

Örlitla blóðslóðin, blönduð svörtu gumsi.

Sem var skiljanlegt, hún var bara nokkrir dropar hér og þar. Hún virtist liggja frá litla skóginum skammt frá skólanum, þvert yfir bílastæðið og alveg að staðnum þar sem fjórða og síðasta rútan hafði staðið.

Þar sem farangursrýmið hafði verið opið mun lengur en á öllum hinum rútunum.

Það voru læti í rútunni. Eins og í öllum rútum. Það voru líka læti í krökkunum. Eins og í öllum krökkum.

Sem þýddi að enginn heyrði furðulega hljóðið úr farangursrými rútunnar.

Það heyrði enginn klórið.

Mjálmið.

Og enginn sá augun.

Sjálflýsandi augun í myrkrinu.

Kafli_2.jpg
bottom of page