top of page

ERTU MEÐ SPURNINGU FYRIR ÆVAR EÐA ARA?

SENDU OKKUR PÓST Á SKOLASLIT@GMAIL.COM FYRIR 18. OKTÓBER

OG VIÐ SVÖRUM ÞEIM Í VÍDJÓI.

11. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 12:38
11.jpg

Ragnar, Natalia og Joanna læðast um ganga flugstöðvarinnar. Lykin af uppvakningagumsinu sem hellt var yfir þau er þung og krakkarnir geta ekki beðið eftir því að skola viðbjóðinn af sér. Ragnar strýkur sér um kollinn og finnur að hárið er orðið hart. Hann kúgast örlítið og heldur göngunni áfram.

Ragnar og Joanna eru vopnuð. Natalia þurfti að skilja sitt vopn eftir. Þess í stað staulast hún með fötuna, fulla af „felusafa“ í boði Foreldrafélagsins. Vopn Ragnars og Joönnu eru vægast sagt heimagerð með hlutum sem þau fundu á bóndabænum, en þau virka nú samt ágætlega.

Ragnar er með plóg á priki, sem hefur verið tálgað í beittan odd.

Joanna með sleggju.

Planið er að finna strákana, hella ógeðinu yfir þá og forða sér svo aftur út.

En hvað ef þau finna þá ekki?

Eða það sem verra væri; hvað ef þau finna bara hluta af þeim?

Fatan er farin að síga í og Natalia skiptir stöðugt um hendi. Joanna og Ragnar hafa bæði boðist til að halda á fötunni, en Natalia er langsterkust af þeim öllum.

Hún treystir því að krakkarnir verji sig.


Krakkarnir koma að krappri beygju. Joanna tekur af skarið og kíkir fyrir hornið. Hún hefur verið fremst í flokki frá því að þau lögðu af stað, staðráðin í að finna strákana áður en það er orðið of seint.

„Pawel,“ hvíslar hún lágt, en svarið sem hún fær er ekki það sem hún vonaðist eftir. Lág stuna bergmálar um ganginn.

Þau gægjast öll.

Innar á ganginum, um 20 metra frá þeim, stendur maður. Hann hallar sér upp að veggnum. Höfuðið hangir til hliðar, augun sjálflýsandi, munnurinn opinn.

Uppvakningur.

Af gömlum vana frjósa krakkarnir.

Joanna er sú fyrsta sem tekur við sér. Hún veit að þau hafa ekki endalausan tíma.

„Komiði,“ hvíslar hún og læðist af stað. Ragnar og Natalia elta.


Þegar krakkarnir koma nær sjá þau að þetta er starfsmaður vallarins. Hann er merktur Tollinum í bak og fyrir.

„Tollvörður,“ hvíslar Ragnar og stelpurnar kinka kolli. Þetta er ekki fyrsti uppvakningurinn sem þau hafa mætt síðan þau byrjuðu að leita að strákunum og það er alltaf jafn skrítið að hlaupa ekki í burtu. Öll ófétin sem þau hafa mætt hér á göngunum eiga það sameiginlegt að hafa unnið á vellinum. Þau eru næstum því öll með nafnspjöld. Það er pínu óþægilegt. Það er auðveldara að hugsa um uppvakningana sem heilalaus skrímsli – ekki sem fólk sem var mjög óheppið. „INGVI STEINN“ stendur til dæmis á nafnspjaldi tollvarðarins. Hann hallar enn höfðinu að veggnum og starir.

Þau nálgast hann hægt en örugglega; Joanna fremst, svo Ragnar, Natalia öftust. Uppvakningurinn Ingvi tekur varla eftir þeim. Starir bara og heldur áfram að halla sér upp að veggnum. Sjálflýsandi augun jafn stór og óþægileg og áður.

Eða hvað?

Skyndilega tekur Ragnar eftir svolitlu. Án þess að fatta að hann hafi gert það stoppar hann rétt við uppvakninginn Ingva og starir á hann.

„Sjáiði...“ hvíslar Ragnar lágt. Natalia gengur næstum aftan á hann.

„Áfram!“ hvíslar hún stressuð. En Ragnar ræður ekki við sig. Hann nikkar með höfðinu í áttina að uppvakningum. „Sjáðu...“ hvíslar hann aftur.

Natalia andvarpar. Hún er vægast sagt pirruð.

„Ef ég setti þetta gums á mig til einskis og verð étin af því að þú gast ekki þagað þá veit ég ekki hvað ég geri!“ fnæsir hún gegnum samanbitnar tennur. Ragnar lítur á hana, grafalvarlegur á svip.

„Sjáðu augun,“ hvíslar hann eins lágt og hann getur. „Án djóks, sjáðu þau.“ Svo gengur hann aftur af stað.


Joanna hafði ekki stoppað. Hún er löngu komin fram hjá uppvakningnum. Ragnar er næstur. Natalia sú síðasta. Gangurinn er svo þröngur að ef ófétið myndi teygja sig í áttina að þeim gæti hann gripið í þau.

Uppvakningurinn Ingvi lítur sljór á eftir krökkunum, en samt eiginlega ekki. Það er næstum eins og hann horfi í gegnum þau. Taki eftir þeim, en sé alveg sama.

Natalia lætur fötuna flakka úr einum lófa í hinn og dæsir pirruð.

Hvað var Ragnar að röfla? Hún er komin fram hjá uppvakningnum, en án þess að hugsa of mikið um það laumast hún til að líta um öxl, bara svona til að vera alveg viss um að Ragnar hafi verið í ruglinu.

Uppvakningurinn Ingvi er nú um það bil fimm metra í burtu og starir enn á eftir þeim, augun skær og stingandi. Natalia hnussar. Hvað var Ragnar að bulla? "Augun"? Já, uppvakningarnir eru með augu, þau vita það. Hvað með...

Hjartað hennar missir úr slag.

Hún sér það! Hún sér það sem Ragnar sá.

Augun flökta. Fyrst smá – svo helling. Eins og ljósapera sem er alveg að fara að bila.

„Eða springa...“ tautar hún óvart, aðeins of hátt. Uppvakningurinn Ingvi rymur og tekur snöggan kipp.

Krakkarnir hlaupa næstum því af stað.

Öskra næstum því.

En bara næstum því.

Uppvakningurinn stekkur ekki af stað en skyndilega byrjar hann að skima í kringum sig eins og óður. Hann er að leita að uppruna hljóðsins. Joanna lítur á Nataliu og sendir henni eitraðan svip. Natalia lítur undan og gengur aftur af stað. Það gutlar í fötunni en uppvakningnum virðist alveg sama um það.

Hann er enn að leita.

Krakkarnir halda sinni leit áfram.

Fleiri gangar.

Fleiri beygjur.

Fleiri dyr.

Og skyndilega heyra þau læti.

Og rödd.

Þetta er Halldór!

Joanna hleypur af stað. Ragnar líka. Natalia skakklappast með þunga fötuna á eftir þeim, eins hratt og hún getur.

„Bíðiði!“ hróp-hvíslar hún á eftir vinum sínum.

Þau hlaupa fyrir horn og rétt sjá í lappirnar á uppvakningi sem stekkur inn um rauðar dyr. Innan úr herberginu veinar Pawel. Joanna hleypur enn hraðar og nú er sleggjan komin á loft. Ragnar eltir með plóginn. Natalia er langt á eftir þeim, missir næstum fötuna, nær að halda taki og lítur stressuð um öxl.

Hún heyrði eitthvað.

Svo taka öskrin í Halldóri yfir og hún hefur engan tíma til að spá í neinu öðru.


Ragnar og Joanna koma hlaupandi inn í herbergið.

Pawel liggur á gólfinu.

Halldór stendur enn en uppvakningurinn hefur stokkið á hann. Halldór hefur borið fyrir sig hendurnar.

Það versta sem hefði getað gerst, hefur gerst: Uppvakningurinn hefur tekið stóran bita úr öðrum handleggnum á Halldóri. Skrímslið japlar á kjötinu og orgar ægilega.

„Nei!“ veinar Ragnar og lyftir upp beittu vopninu. Nú þarf hann bæði að stúta uppvakningi og vini sínum. Þetta er eins hræðilegt og hugsast getur. Joanna stekkur til Pawels sem enn liggur á gólfinu. Ragnar grípur um prikið og býr sig undir það að kála skrímslinu.

En hann stoppar.

Því skyndilega byrjar uppvakningurinn að hósta.

Það er eins og munnbitinn standi í honum.

Lítið rykský fýkur út um galopið ginið.

Uppvakningurinn hóstar aftur. Og kúgast.

Og sleppir svo takinu á Halldóri og tekur eitt skref aftur.

Grípur um hálsinn.

Eins og hann sé að kafna.

Og um leið og uppvakningurinn bakkar frá Halldóri sér Ragnar hvað hefur gerst:

Halldór hafði borið fyrir sig hendurnar þegar uppvakningurinn stökk á hann. Nema það voru ekki hendurnar hans. Það hefur gengið svo mikið á að Ragnar hefur varla tekið eftir því að strákarnir eru báðir með sinn hvorn helminginn af einhverjum gaur hangandi framan á sér. Og þegar skrímslið stökk á Halldór hafði hann gripið í hendurnar á þessum löngu dauða-karli og borið þær fyrir sig. Þær voru hendurnar sem uppvakningurinn fékk sér bita af!

Eldgamlar og uppþornaðar. Og greinilega mjög erfitt að kyngja þeim.

Ragnar andar léttar. Skyndilega er dagurinn mun betri.

„Frá!“ gargar Joanna skyndilega og Ragnar rétt nær að beygja sig. Hún sveiflar sleggjunni sinni eins fast og hún getur og höfuðið á uppvakningnum með nafnspjaldið LÁRA springur. Svartar slettur lita skjáina og sömuleiðis algerlega forviða andlitið á Halldóri.

Það sem eftir er af uppvakningnum stendur örfá andartök enn upprétt en fellur svo til jarðar.

Halldór og Pawel stara orðlausir á krakkana.

Svo byrja þeir báðir að brosa.

Ragnar og Joanna sömuleiðis.

Og þetta hefði verið ótrúlega falleg stund ef Natalia hefði ekki allt í einu ruðst með látum inn í herbergið öskrað: „Það eru fleiri að koma! Flýtið ykkur!“

Halldór og Pawel standa hlið við hlið.

Natalia rífur lokið af fötunni, kastar því frá sér og reynir ekki einu sinni að leita að ausu. Svakaleg fýla fyllir herbergið, en enginn tekur eftir því. Natalia notar alla þá krafta sem hún á til og lyftir fötunni eins hátt og hún getur. Hún hundsar skjálfandi handleggina og veit að ef hún missir fötuna eru vinir hennar dauðir. Einhvers staðar nálægt – alltof nálægt – heyrist í fleiri uppvakningum.

„Lokið augum og munni,“ stynur hún og hellir svo ógeðinu yfir strákana.

Sekúndum seinna koma uppvakningarnir hlaupandi. Þeir fylla herbergið um leið, leitandi og glefsandi út í loftið.

En þeir sjá ekki strákana.

Ekki frekar en hina krakkana.

Joanna tekur varlega í höndina á litla bróður sínum og leiðir hann af stað.

Hinir elta.


Þau ganga varlega út úr flugstöðinni. Þora varla að anda. Trúa því ekki að þetta sé að virka.

Morgunsólin mætir þeim og krakkarnir píra augun á móti henni.

Það er einn og einn uppvakningur í morgungöngu hér og þar, en enginn þeirra tekur eftir þeim.

Sendiferðabíllinn kemur brunandi og skammt á eftir honum kemur heill her uppvakninga hlaupandi. Krakkarnir spretta á móti bílnum, sem varla stoppar.

Dyrnar á hlið hans opnast og skælbrosandi andlit vina þeirra mæta þeim.

„Inn!“ veinar Arndís og þau hlýða. Meistarinn tekur í dyrnar og lokar þeim. Allir klappa og knúsast og kúgast pínu því Ragnar, Joanna, Natalia, Pawel og Halldór eru auðvitað öll enn úti í uppvakningagumsi. Þjálfarinn lítur í baksýnisspegilinn og brosir.

„Jæja!“ hrópar hann kátur og gefur aftur í. „Nú skulum við hætta þessari vitleysu og koma okkur í öruggt skjól, hm?“

Þau bruna í burtu. Einhverjir uppvakningar reyna að elta, en halda ekki í við ökutækið. Allir hlæja. Þetta er snilld!

Og hér gætum við endað söguna.

Sagt að allt hafi farið vel.

En við vitum öll að það væri lygi.

Því sólarhring seinna var meira en helmingur allra í sendiferðabílnum dáinn.

bottom of page