


Krakkarnir, Jón bóndi og Bragi Þór náttúrufræðikennari höfðu verið á ferðinni í næstum klukkutíma.
Þau mættu nánast engum og höfðu enn ekki rekist á rúturnar.
Allir símar voru enn sambandslausir.
Bragi Þór náttúrufræðikennari sat frammí og sagði fátt, en horfði einbeittur út um gluggann, greinilega að hugsa eitthvað. Hann skartaði sama svip og þegar hann sat við skrifborðið sitt að fara yfir próf; einbeittur en um leið ekki alveg viss um hvort hann væri í ruglinu eða ekki. Jón bóndi sat við hlið hans og stóð sig asnalega vel að keyra í þessari færð í þessu skyggni. Jón var andstæðan við Braga; hann talaði stanslaust.
Og auðvitað talaði hann um það sem allir tala um þegar þeir hafa ekkert til að tala um: Veðrið.
Nema Jón bóndi virtist nota orð sem enginn annar kunni.
„Þetta er bölvað kafald en jeppinn ræður við það. Kannski frekar kafaldshjastur, svona ef þú spyrð mig, en við þurfum svo sem ekki að fara í nein smáatriði.“ Og svo hló hann ægilega. Enginn skildi eða tók undir.
Aftur í sátu krakkarnir í kremju, ekkert þeirra í belti og öll einhvern veginn ofan á hvort öðru. Þau höfðu samt smám saman náð að laga sig að þessu öllu saman og eins og staðan var núna sátu allir örlítið hallandi og á um það bil einni og hálfri rasskinn.
Klara leit reglulega út um afturrúðuna til að athuga hvort að geiturnar væru nokkuð að elta þau. Það virtist ekki vera. Natalia sat við annan enda þvögunnar og starði á gólfið. Í eitt skipti hafði hún litið upp og séð um leið að Meistarinn, við hinar dyrnar, hafði verið að horfa á hana. Hún sendi honum eitraðan svip og hann leit strax undan. Jan, sem hafði verið óvenju hljóðlátur síðasta hálftímann byrjaði skyndilega að muldra eitthvað. Á sama tíma kinkaði hann höfðinu taktfast með hverju orði. Ragnar, sem hafði verið með störu aftan á hnakkann á símalandi bóndanum, leit forvitinn á hann.
„Hvað ertu að gera?“ spurði hann lágt. Jan hætti tautinu og leit á hann. Þó ljósin væru slökkt inni í jeppanum sá Ragnar samt glottið.
„Rappa,“ tilkynnti Jan stoltur og lagaði gleraugun á nefinu. „Þetta sem við vorum að ganga í gegnum er lífsreynsla. Upp á líf og dauða. Verður geggjað lag. Þannig virkar listin. Maður notar hana.“ Jan varð skyndilega grafalvarlegur á svipinn. „Samt enn allt í vinnslu, get ekki gefið þér sýnishorn núna, því miður.“ Ragnar var ekki viss hvernig hann ætti að svara, en kinkaði loks kolli.
„Jahá,“ sagði hann. „Og... ertu í hljómsveit eða...“ Jan skellti upp úr en þegar Ragnar hló ekki með varð hann afar hneykslaður á svipinn og hnussaði.
„Hefurðu í alvöru ekki heyrt lögin mín?“ Eins og elding reif Jan upp símann sinn og opnaði eitthvað í honum. Þungur bassadrónn ómaði úr símanum og setning sem hljómaði temmilega dónaleg, en rímaði nú samt, fylgdi auto-tune-uð á eftir.
„Nennirðu?“ hvæsti Natalia og Jan hlýddi.
„Sorrý,“ hvíslaði hann og slökkti á laginu. Hann sneri sér aftur að Ragnari. „Ég air-droppa þessu bara á þig þegar allt kikkar í gang. Þetta er geggjað dæmi sko. Prófum samt núna, bara ef það skyldi allt í einu virka. Svona, náðu í símann þinn, eftir hverju ertu að bíða, díses kræst!“ Ragnar kunni ekki við annað en að hlýða.
Það virkaði ekki að senda hljóðfælinn á milli símanna.
Jan hafði búið í Reykjanesbæ alla sína ævi og elskaði það. Dýrkaði það. Þetta var fullkomið pleis. Ekki of stórt, ekki of lítið. Amma hans og afi bjuggu í Póllandi í risastórri borg, Gdańsk, þar sem bjó meira en hálf milljón. Það var of stórt fyrir Jan. Aðallega vegna þess að þá tók enginn eftir manni. Á minni stað er það ekkert mál.
„Tökum Ísland sem dæmi,“ hafði Jan einhvern tímann sagt þegar hann var að útskýra þetta fyrir félögum sínum í frímínútum, „hér er ekkert mál að meika‘ða. Þú bara gerir eitthvað geggjað, hendir því online og búmm! Halló, Gísli Marteinn!“ Félögum hans hafði ekki þótt það töff og Jan hafði umsvifalaust leiðrétt sig og nefnt þátt á allt annari stöð með allt öðru fólki. Það var ekki séns að hann ætlaði að láta nokkurn mann fatta að þrátt fyrir mikla frægðardrauma vissi hann fátt meira kósí en að horfa á sjónvarpið með fjölskyldunni sinni á föstudagskvöldum. Áður en hann fór á djemmið – auðvitað. Því hvaða lúser myndi hanga heima hvert einasta föstudagskvöld? Ekki Jan the man, að minnsta kosti. Nei, nei, nei.
Jan hafði byrjað að læra á hljóðfæri þegar hann var 6 ára. Píanó. Og hann var snöggur að ná tökum á því. Tónfræðin var ekkert mál. Hann las nótur eins og að drekka vatn. Var meira að segja farinn að semja smá sjálfur þegar hann var í 5. bekk. Leyfði auðvitað engum að heyra, en hann var samt að því. Og var góður í því líka.
Svo þegar hann byrjaði í unglingadeildinni hafði hann ákveðið að kýla á það. Fara að framleiða eigið efni af alvöru. Pródúsera þetta sjálfur, taka upp sjálfur, semja sjálfur og – það sem hann hafði verið feimnastur við – rappa sjálfur.
Hann var kominn með þrjú lög. Mun fleiri í vinnslu. Og alveg fínustu viðbrögð. Mömmu hans fannst þetta mjög flott, en það var ekkert að marka hana. Það stendur örugglega í lögum eða eitthvað að foreldrar neyðist til að fíla list barnanna sinna. Jan hafði samt náð að koma einu laginu í spilun á FM957. Bara einu sinni, reyndar. En samt.
Viðbrögðin voru fín. En sum voru ekki eins fín. Auðvitað voru alltaf einhverjir sem drulluðu yfir allt, alveg sama hvað maður gerði, og hann reyndi að láta kommentin sem hann hafði fengið á tónlistina sína ekki trufla sig, en... þau gerðu það.
Og það var óþolandi.
Því Jan hafði verið megastoltur af þeim, alveg þangað til hann byrjaði að lesa kommentin.
Fyrst hafði Jan reynt að svara þeim, en það gerði bara illt verra. Þá komu bara fleiri ömurleg komment og athugasemdirnar fóru úr „Frekar lélegt lag, gaur“ yfir í „Þetta er vesta drasl sem ég hef nokkurn tímann heyrt!“ og þannig hljómaði setningin eftir að blótsyrðin, bæði á íslensku og ensku, voru tekin út.
Þannig að Jan ákvað að snúa vörn í sókn. Ekki leyfa neinum að sjá hvað honum leið illa yfir þessu. Gefa allt í botn. Þannig að ef einhver spurði hann út í tónlistina sína lét hann alltaf eins og hann væri megavinsæll og – líkt og rétt í þessu – sendi tónlistina á viðkomandi. Eða reyndi það allavega.
Þetta yrði fyndin saga í podcasti eftir 20 ár þegar hann væri orðinn heimsfrægur.
Frammí var Jón bóndi enn að blaðra um mismunandi tegundir af snjókomu.
„Algjör kaskahríð!“ tilkynnti hann. Öllum var sama.
„Hey,“ hvíslaði Jan og hallaði sér aftur að Ragnari. Þessu samtali var greinilega ekki lokið. „Gaur?“
„Hvað?“ spurði Ragnar.
„Vel gert áðan, by the way,“ sagði Jan. „Með úlpuna og köttinn.“ Meistarinn, sem var í kremju við hlið strákanna, sperrti eyrun en sagði ekkert. Ragnar yppti öxlum og gat ekki annað en brosað.
„Ég veit ekki hvað kom kom yfir mig. Ég varð bara... Ég veit það ekki.“ Jan hló.
„Ég veit það. Og það var geggjað!“ Ragnar roðnaði smá og var dauðfeginn að það var dimmt inni í bílnum.
Það var á bílastæði við Hvalfjarðargöngin sem þau fundu þær. Hinar rúturnar tvær.
Lagðar samviskusamlega hlið við hlið, með blikkandi ljós. Veðrið var örlítið betra hér og krakkarnir sáu glitta í hress skólasystkini sín.
Jón bóndi lagði fyrir aftan þær. Bragi náttúrufræðikennari opnaði dyrnar sín megin, stökk út og hljóp að annarri rútunni. Dyr opnuðust og hann skaust inn.
Krakkarnir reyndu að opna en dyrnar aftur í virtust ekki vilja opnast.
„Barnalæsing, rólegan æsing,“ andvarpaði Jón bóndi um leið og hann steig út úr bílnum, dauðfeginn að fá að rétta úr sér.
„Þetta,“ sagði hann við engan sérstakan um leið og hann skellti aftur hurðinni og bjó sig undir að opna fyrir krökkunum, „er að þróast úr él og yfir í snjógang.“
Sem var það síðasta sem hann myndi nokkurn tímann segja.
Því skyndilega heyrðist mjúkur dynkur undan jeppanum.
Eitthvað lenti í snjónum.
Og áður en Jón bóndi hafði tækifæri til að spá meira í veðrinu, áður en Jón bóndi náði að hleypa krökkunum út úr jeppanum, hafði uppvakningurinn, sem var búinn að vera fastur undir bílnum síðan Jón brunaði yfir skrímslahópinn í Borgarfirði, grípið í báða fæturna á Jóni bónda, kippt í og dregið hann undir jeppann.