Það hafði alltaf verið ætlunin að halda hópinn. Ef eitthvað kæmi upp á ætluðu Halldór, Pawel, Pétur og Æsa að þjappa sér saman, bak í bak, þannig að það væri ekki hægt að koma aftan að þeim, vopnin á lofti, tilbúin í allt!
En sjokkið við að sjá uppvakninginn við enda ganganna er svo mikið að í andartak hætta krakkarnir að hugsa. Það er svo langt síðan þau tókust á við þessi óféti að þau eru komin úr æfingu. Öll plön fara út um gluggann!
Halldór og Pawel hrökklast inn um opnar dyrnar og inn í flugstöðina.
Pétur og Æsa bakka hins vegar í þveröfuga átt og enda á grasinu við hlið ganganna.
Uppvakningurinn hleypur. Blóð og svart slím skvettast á glerið.
„Komdu!“ veinar Æsa og rífur í annan handlegginn á Pétri sem starir á eftir strákunum.
„En hvað með...“ byrjar hann en svarar sér sjálfur í huganum. Pawel og Halldór verða að redda sér sjálfir. Allavega í bili. Þau hlaupa af stað. Uppvakningurinn kastar sér á glerið þegar hann verður var við þau, algerlega brjálaður.
Göngin halda. Hann hendir sér aftur á þunnt glerið.
Það kemur sprunga.
„Snöggur!“ hvæsir Æsa.
Skammt frá heyrist annað öskur.
Svo það þriðja.
Þau hlaupa.
Það er hvergi skjól. Neins staðar. Framundan er ekkert nema bílastæði – og jú, þau gætu svo sem falið sig undir bílum eða eitthvað álíka en hvað myndi það duga lengi? Kannski gætu þau stungið ófétin af en Æsa efast um það. Uppvakningarnir eru hryllilega snöggir.
„Ég er með hugmynd!“ veinar Pétur skyndilega og breytir örlítið um stefnu. Beint á ská, frá glergöngunum. Um leið byrjar hann að gramsa í gamla taupokanum sem hann heldur enn á. Hann missir næstum jafnvægið en lætur það ekki stoppa sig. Hamar og skrúfjárn fljúga upp úr pokanum og verða eftir í grasinu. Það skiptir engu. Hann var ekki á höttunum eftir þeim. „Komdu!“ kallar hann á Æsu um leið og hann gefur enn meira í og rífur upp úr pokanum hrífuhaus sem festur er í kaðal. Pétur kastar pokanum frá sér.
„Hvað ætlarðu að gera?!“ gargar Æsa á eftir honum. Uppvakningurinn í glergöngunum veinar. Pétur setur stefnuna á listaverkið. Gríðarstóra málmeggið.
„Klifra!“
Pétur stendur móður fyrir neðan glæsilegt listaverkið, blautur í fæturna eftir tjörnina umhverfis það, og byrjar að sveifla kaðlinum eins hratt og hann getur, hring eftir hring. Vonandi hafði Arndís fest hrífuhausinn nógu vel. Hún er klárust af þeim öllum og Pétur treystir henni 150%. Eða kannski svona 149%. Hún hafði allavega verið nógu lengi að hnýta skrambans hnútinn.
Æsa er líka orðin blaut í fæturna eftir tjörnina og verður næstum fyrir hrífuhausnum í öllum æsingnum. Hann þýtur svo nálægt höfðinu á henni að hún finnur hárin hreyfast. Æsa bakkar ósjálfrátt.
„Passaðu þig!“ hvæsir hún og dettur næstum aftur fyrir sig ofan í tjörnina. Pétur svarar engu. Það er næstum eins og hann heyri ekki í henni. Æsa hefur aldrei séð hann svona einbeittan á svip.
Blautt öskur ómar í fjarska og Æsa lítur hrædd um öxl.
Uppvakningurinn í göngunum er nú hvergi sjáanlegur. Í eitt hræðilegt andartak heldur Æsa að hann hafi náð að læðast upp að þeim og muni stökkva á þau, en hún hristir það af sér. Hann hefur pottþétt hlaupið inn í flugstöðina. Sem er frábært fyrir þau. Ekki eins skemmtilegt fyrir Halldór og Pawel.
Enn annað öskur ómar og Æsa snýst í hringi um sjálfa sig. Hvaðan koma þessi óhljóð eiginlega?! Hún sér engan uppvakning, en veit að þeir eru nálægt.
„Koma svo!“ hrópar Pétur um leið og hann sleppir tökunum. Saman horfa þau á kaðalinn skella í málmegginu með þungum dynk.
Klang!
Svo hlammast öll hersingin til jarðar.
„Aftur!“ hvæsir Æsa um leið og hún skimar í allar áttir í leit að fleiri uppvakningum. Pétur hlýðir. Í þetta skiptið heldur hann neðar í kaðalinn, sveiflar enn hraðar, bakkar einu skrefi aftar, sleppir tökunum enn seinna. Heldur niðri í sér andanum. Sér hrífuhausinn fljúga hærra...
Hærra...
Hærra...
Og rétt ná yfir brúnina á egginu.
Klang!
En samt gott klang! í þetta skiptið.
Pétur snýr sér við og lítur skælbrosandi á Æsu.
„Ókei, þetta var pínu kúl, þú verður að viðurkenna það,“ muldrar hann stoltur. Hún hefur ekki tíma til að vera sammála.
„Áfram nú!“ Hún ýtir honum frá, togar varlega í kaðalinn, passar að kippa ekki of fast svo hann skreppi ekki fram af brúninni, heyrir hrífuhausinn hendast til og frá nokkra metra fyrir ofan þau og skyndilega...
„Allt í góðu?“ spyr Pétur. Æsa kinkar kolli.
„Ég held hann hafi náð taki,“ hvíslar hún. Ofurvarlega togar Æsa í kaðalinn og þegar hún er nokkuð viss um að hausinn hafi náð góðu gripi kippir hún tvisvar í. Hún brosir. Hrífuhausinn er pikkfastur. Pétur lítur á hana.
„Þú fyrst,“ segir hann. „Ég verð rétt á eftir þér.“ Æsa hlýðir. Hún grípur um gaddakylfuna, kastar henni eins fast og hún getur upp í loftið og glottir þegar hún flýgur í fallegum boga og lendir beint ofan á egginu. Því næst grípur hún um kaðalinn.
Það er erfitt að klifra og málmeggið er sleipt þegar hún reynir að spyrna sér í það. Nokkrum sinnum heldur Æsa að hún muni missa takið en að lokum nær hún það hátt að hún getur gripið í brúnina á egginu. Með hárri stunu hífir hún sig yfir hana.
Æsa snýr sér umsvifalaust við til að hjálpa Pétri. Hún hefði ekki þurft þess. Hann er kominn hálfur upp eggið.
Fleiri öskur óma.
Og í þetta skiptið, sitjandi mun hærra en áður, sér Æsa hvaðan þau koma. Á langatímabílastæði, bara rétt hjá þeim, koma fjórir uppvakningar hlaupandi á fullri ferð.
„Snöggur!“ gargar hún á Pétur. Hann reynir eins og hann getur, en aulast til að líta um öxl. Hann sér um leið hvers vegna hann á að flýta sér. Umsvifalaust byrjar hann að sparka í allar áttir í örvæningarfullri tilraun til að ná spyrnu á málmegginu svo hann komist hraðar upp. Það gengur ekki vel. Eggið er mjög sleipt.
Allur þessi hamagangur virðist bara gera uppvakningana enn spenntari. Þeir hendast á yfirgefna bílana. Einn þeirra er kominn út af bílastæðinu, algerlega óður, og hættulega nálægt listaverkinu.
Pétur er nánast kominn að brúninni.
Það vantar bara örlítið upp á.
Til að hjálpa sér á lokametranum ákveður hann að gera eina lokatilraun til að spyrna sér í eggið. Fæturnir renna til.
Og hann missir takið á kaðlinum.
„Æsa!“ er það eina sem hann nær að segja áður en hann fellur aftur fyrir sig.
Æsa hefur aldrei verið neitt sérstaklega góð í íþróttum. Og heldur ekki neitt svakalega sterk. Né snögg. En á þessu augnabliki er hún þetta allt saman. Leifursnöggt grípur hún um annan útréttan handlegg Péturs, nær föstu taki og sleppir ekki.
Hún heldur eins fast og hún mögulega getur.
Með hinni hendinni grípur hún í brún listaverksins svo hún steypist ekki yfir.
Æsa er orðin rauð í framan af áreynslu og veit að ef hún nær þessu ekki á næstu örfáu sekúndum mun hún missa takið. Hún orgar ægilega og tosar í Pétur. Hann teygir sig upp á móti brúninni.
Einhvers staðar, alltof nálægt, heyrast öskur.
Og sull í vatni.
Þeir eru komnir.
„Náðu. Taki. Á. Brúninni!“ veinar Æsa og notar þann litla kraft sem hún á eftir til að tosa Pétur örfáa sentimetra til viðbótar upp.
Og það gerir gæfumuninn.
Með lausu hendinni nær Pétur að grípa í brúnina. Hann byrjar að hífa sig upp. Æsa heldur áfram að tosa.
Hann skríður yfir brúnina.
Krakkarnir liggja móð og másandi á flötum toppi eggsins. Æsa finnur varla fyrir öðrum handleggnum. Pétur trúir því varla að hann sé enn lifandi. Fyrir neðan listaverkið byrja skrímslin að orga. Krakkarnir gægjast.
Uppvakningarnir standa í grunnri tjörninni og stara upp á þau. Þegar þeir sjá glitta í krakkana ákveður einn þeirra umsvifalaust að staulast upp grjótið sem eggið hvílir á.
„Heldurðu að hann komist upp?“ spyr Æsa. Pétur hristir höfuðið.
„Ekki séns,“ segir hann og hlær næstum. „Þú sást hvað það var mikið vesen fyrir okkur og við vorum með...“ Hann hættir í miðri setningu.
Svo skríður hann af stað eins hratt og hann getur.
„Fljót!“ hvæsir hann. „Hífum klifurgræjuna...“ Pétur er of seinn.
Uppvakningurinn stendur nú við kaðalinn og kippir forvitinn í hann. Um leið kemur asnalegur hnykkur á allt heila klabbið og hrífuhausinn lyftist upp af brúninni.
Krakkarnir horfa orðlaus á eftir einu undankomuleiðinni sinni hrapa til jarðar og lenda á bólakafi í hausnum á uppvakningnum. Hann fellur aftur fyrir sig og skellur á bakið í vatnið, þar sem hann hristist til og frá með ægilegu orgi.
Krakkarnir líta hvort á annað.
Þau eru föst hérna.
„Við hefðum átt að halda okkur heima,“ hugsar Æsa og leggst aftur á bakið. Hana langar mest að fara að gráta, en það er ekki séns að hún ætli að leyfa sér það. Ekki hér. Ekki núna. Og sérstaklega ekki fyrir framan Pétur. „Við hefðum átt að halda okkur heima,“ hugsar hún aftur. „Þar vorum við allavega örugg.“
En þar hefur hún rangt fyrir sér.