top of page
5. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 08:46
5.jpg

Þórkatla lögreglustjóri og Sæmundur lögregluþjónn stara á strákinn.

Hvorugt þeirra segir nokkuð.

„Blóðugur og slefandi... köttur?“ spyr Þórkatla loks. Unglingurinn kinkar kolli.

„Mhm,“ muldrar hann lágt. Þórkatla veit ekki hvað hún á að segja. Þetta hljómar eins og eitthvað úr fáránlegri hryllingsmynd.

„Og hvað gerðist svo?“ spyr hún varlega, því unglingnum finnst greinilega mjög óþægilegt að rifja þetta upp. „Eftir að þessi... veiki köttur stökk um borð?“ Strákurinn lítur snögglega á Þórkötlu.

„Hver sagði að hann væri veikur?“ Þórkötlu bregður örlítið.

„Jah, ég gerði bara ráð fyrir... lýsingin á honum var þannig að hann hljómaði frekar slappur greyið.“ Hún reynir að hlæja og slá þessu upp í grín, en unglingnum er enginn hlátur í huga. Sæmundur lögregluþjónn kemur til bjargar.

„Og á þessu augnabliki ert þú inni í rútunni?“ spyr Sæmundur grafalvarlegur á svip, til að sýna að þetta sé sko ekkert grín. Unglingurinn lítur á hann og kinkar kolli.

„Já.“

„Hvar?“ Hann hugsar sig um.

„Bara rétt við dyrnar.“

„Þar sem kötturinn stóð?“ Hann hugsar sig um.

„Já.“

„Og hvað gerist svo?“ Unglingurinn hallar undir flatt. Aftur eins og hann sé að reyna að hlusta á lag sem verið er að spila í öðru herbergi.

„Svo verður allt... vitlaust,“ segir hann loks. „Öskur. Blóð. Tennur...“ Hann ýtir hugsuninni frá og lítur tárvotum augum á Þórkötlu. „Ég vil ekki tala um það.“ Hún andvarpar.

„Þú eiginlega verður, vinur. Við þurfum að komast að því hvað gerðist.“ Unglingurinn dæsir lágt og hristir höfuðið.

„Það var kötturinn...“ segir hann svo. „Það var kötturinn.“ Sæmundur hallar sér fram í sætinu sínu og nú er það hann sem á erfitt með að slá þessu öllu ekki upp í grín.

„Ertu að segja að...“ byrjar lögregluþjónninn og leitar að réttu orðunum, „að kötturinn hafi, hvað? Drepið...“ Unglingurinn stoppar hann.

,,Étið,“ segir hann, ískaldri röddu. Í eitt andartak heldur Þórkatla að gluggi hafi gleymst opinn. Svo fattar hún að þetta er hrollur að læðast upp eftir bakinu á henni. Unglingurinn andvarpar og felur andlitið í höndum sér.

„Getum við tekið smá pásu?“ spyr hann aumur. „Mér finnst erfitt að tala um þetta.“ Þórkatla kinkar kolli.

„Ekkert mál,“ segir hún blíðlega. „Tökum smá pásu.“  Hún stoppar vídjó-upptökuna.

Þórkatla stendur á fætur og Sæmundur hermir. Þau ganga af stað út úr kaffistofunni, en rétt áður en lögreglustjórinn stígur fram á gang stoppar hún. Sæmundur gengur næstum aftan á hana.

„Eitt enn,“ tautar Þórkatla hugsi og unglingurinn lítur stressaður á hana.

„Hvað?“

„Þú þarft ekki að hugsa meira í bili um það sem gerðist í rútunni, en ef það er rétt sem þú segir...“

„Það er rétt,“ grípur unglingurinn frammí.

„Gott og vel,“ heldur Þórkatla áfram, „en þá þýðir það að þið voruð rétt fyrir utan Borgarnes þegar rútan ykkar stoppaði. Hvernig í ósköpunum komstu hingað? Í þessu veðri? Þetta eru meira en 100 kílómetrar.“ Sæmundur lögregluþjónn lítur forvitinn á unglinginn. Þetta er góð spurning.

Unglingurinn starir til baka.

Svo hristir hann höfuðið.

„Ég man það ekki,“ segir hann lágt. „Ég man bara að það voru öskur og blóð og tennur og allt varð hræðilegt og svo var ég að labba í snjónum og þú greipst mig.“ Hann snöktir lágt. „Ég skil ekki neitt,“ tautar hann. „Ég vil bara fara.“ Hann lítur aftur á Þórkötlu. „Hvers vegna má ég ekki bara fara?“

Hún brosir blíðlega til hans.

„Í fyrsta lagi vitum við ekkert hvar þú átt heima. Og í öðru lagi sendum við þig auðvitað ekki aftur út í þetta veður. Við þurfum bara að ná í foreldra þína og fá þau til að koma og sækja þig. Það ætti ekki að taka langan tíma. Þau eru örugglega byrjuð að leita að þér, og munu vafalaust hringja hingað fyrr en seinna.“ Unglingurinn kinkar leiður kolli.

„Ókei...“ segir hann lágt.

,,Meira kakó?“ spyr hún. Hann kinkar aftur kolli.

simasima_blek_copy.jpg

Sæmundur og Þórkatla standa við inngang lögreglustöðvarinnar. Þau hafa lokað inn á kaffistofu til að fá næði.

„Hvað heldur þú?“ spyr Sæmundur.

„Ég held að barnið sé í sjokki og að við munum ekki ná neinu gáfulegu upp úr honum fyrr en í fyrsta lagi í fyrramálið.“ Sæmundur er sammála.

„Ein hugmynd,“ tautar hann hugsi.

„Hvað?“

„Hann man ekki hvað hann heitir, en ég gæti hringt í skólastjórann og fengið myndir af öllum sem voru í rútunum. Ásamt nöfnum. Við gætum komist að því hver hann er þannig.“

„Sniðugt. Drífðu í því.“ Sæmundur brosir og stekkur af stað. Hann sest við stórt skrifborð, rífur upp símtól og ætlar að fara að hringja þegar Þórkatla tekur lítinn kipp. Sæmundur lítur upp á hana.

„Hvað?“ Þórkatla slær sig í ennið og brosið verður enn stærra.

„Símarnir!“ segir hún.

„Hvað með símana?“ spyr Sæmundur.

„Strákurinn sagði að krakkarnir hefðu verið úti í glugga að taka þetta allt saman upp.“ Sæmundur kinkar kolli.

„Stemmir. Og?“

„Það voru pottþétt einhverjir að live-stream-a. Eða settu þetta strax á samfélagsmiðlana sína. Ef við fáum nöfnin á krökkunum ættum við að geta flett einhverjum þeirra upp á TikTok eða instagram eða hvað þetta nú heitir allt saman og séð betur hvað í raun og veru gerðist!“ Sæmundur glottir út í annað.

„Þannig að þú trúir ekki að dauður köttur hafi étið alla í rútunni?“ Þórkatla hristir höfuðið.

„Ekki séns.“ Sæmundur flissar lágt.

„Gott,“ segir hann og tekur aftur upp símtólið. „Ekki ég heldur.“

Unglingurinn situr einn eftir á kaffistofunni og starir fram fyrir sig. Hann heyrir óminn í Þórkötlu og Sæmundi hinum megin við lokaðar dyrnar, en greinir ekki orðaskil. Hann er enn að jafna sig á þessu öllu saman. Hann situr bara. Og starir.

Ef hann hefði litið í kringum sig hefði hann tekið eftir stórum glugga fyrir aftan sig.

Og ef hann hefði litið í kringum sig hefði hann séð að fyrir utan gluggann stendur einhver.

Og horfir inn.

Nokkrar mínútur líða.

Sæmundur nær sambandi við Unnar skólastjóra.

Á meðan heyrir Þórkatla í hinum ýmsu björgunarsveitum og segir þeim að þrengja leitarhringinn við Reykjanesið. Allavega ein rúta hljóti að vera einhvers staðar nálægt fyrst unglingurinn gat gengið í gegnum snjóinn án þess að tærnar hefðu kalið af honum.

„Öll nöfn og myndir á næsta hálftímanum!“ segir Sæmundur lögregluþjónn stoltur um leið og hann skellir símtólinu aftur á sinn stað. „Og gott betur en það; nemendafélagið heldur utan um flesta samfélagsmiðlana hjá krökkunum, þannig að við ættum að fá nokkuð góðan lista yfir þá líka.“

Þórkatla gengur að kaffistofunni og opnar dyrnar upp á gátt.

„Góðar fréttir,“ tilkynnir hún stolt, „eftir smástund ættum við að geta...“ Hún þagnar í miðri setningu.

Unglingurinn er horfinn.

bottom of page