top of page
18. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 12:58
1.jpg

Í langan tíma var ekkert.

Bara myrkur

Og í myrkrinu var enn meira myrkur. Og lengst inn í því var enn dimmara myrkur. Og þar beið hún. Veran. Sú sem kallaði sig Myrkrið. Með stóru M-i. Hún beið. Hún var góð í því. Hún kunni það. Hún gat það.

Hún beið og beið. Beið eftir einhverjum nógu opnum, nógu örvæntingarfullum, nógu hungruðum sem hún gæti gleypt í sig.

Hún beið í skuggum. Hún beið í skúmaskotum. Hún beið í nóttinni. Alls staðar þar sem var myrkur beið hún.

Beið eftir að einhver – hver sem er – myndi ramba á dyrnar.

Dyrnar sem myndu hleypa henni inn í þennan heim.

Og opna þær.

Það eina sem fólk þyrfti var réttu lyklarnir. Réttu táknin.

 

Í gegnum aldirnar hafði einhverjum tekist það. Að hluta til. Fyrir einhverja dásamlega tilviljun; víkingar sem voru enn að finna út úr rúnunum sínum, fólk sem var að fikta við galdra, einhverjir viljandi, aðrir fyrir slysni. En það var aldrei nóg. Í stað þess að opna dyr var gluggi opnaður. Eða rifa. Aldrei dyr.

En smám saman var táknunum safnað saman. Þau voru varðveitt. Falin, en geymd. Urðu að flökkusögum sem fáir trúðu en margir reyndu þó að finna.

Seint á síðustu öld kom ný tegund af myrkri. Djúpt í óravíddum internetsins, þar sem enginn bjó. Og þar beið Myrkrið líka. Beið eftir því að einhver myndi finna það. Og opna dyrnar. Upp á gátt.

Myrkrið beið. Í óralangan tíma. Þar til í fyrra. Þar til ung og metnaðarfull stúlka sem vildi búa til hið fullkomna draugahús fann það. Og loksins voru dyrnar opnaðar. Upp á gátt.

Það var dásamlegt.

Myrkrið, ásamt öllum sínum viðbjóði, tók yfir allt. Át og reif og sleit. Hámaði allt í sig sem fyrir því varð.

En Myrkrið hafði gert mistök. Það hafði verið of spennt. Vaðið af stað. Ekki hugsað út í allt. Táknunum var eytt og allt hafði bakkað. Eins og dyrnar hefðu aldrei verið opnaðar. Skrímsli urðu að engu. Allir gleymdu. Minningar urðu að draumum. Það sem hafði gerst, hafði aldrei gerst.

En Myrkrið mundi.

Ó, það mundi.

Það flúði og sleikti sár sín.

En það gat ekki fyrirgefið. Það gat ekki gleymt skólanum, skólanum þar sem það hafði munað svo óþægilega litlu.

Myrkrið bjó enn í nóttinni. Og beið.

Og eina nóttina sá það eld.

Og nemendur sem það kannaðist við.

Nemendur úr skólanum góða.

Nemendur sem það hafði hakkað í sig ári áður án þess að hafa nokkuð fyrir því.

Nemendur með vonir. Og drauma. Veikleika. Veikleika sem hægt var að nýta sér.

Nemendur sem vildu gera betur, vildu eignast vini.

Þannig að Myrkrið gerði vart við sig.

Og laug.

Myrkrið gat varla hamið sig fyrir spenningi. Því í þetta skiptið yrði ekki spólað til baka. Í þetta skiptið væri engin hurð til að loka aftur. Dautt var dautt. Sýkt var sýkt.

Táknin sem hleyptu því út í þetta skiptið voru skorin í tré. Og trén lágu ofan í jörðina. Þótt trén væru hoggin myndu ræturnar lifa. Myndi moldin í kring dafna. Myndi gróðurinn í henni vaxa.

Síðast voru táknin skráð á tjöld sem hægt var að brenna og skemma.

Núna voru táknin orðin órjúfanlegur hluti af heiminum. Þeim yrði aldrei eitt.

Myrkrið laug að nemendunum. Það var yndislegt. Og dýrið, dýrið með skottið og klærnar hafði verið það fyrsta. Sett allt af stað. Með hverri mínútunni sem leið stækkaði Myrkrið. Truflaði sjónvarp og net, faldi rútur í vondu veðri og eitraði allt sem það komst í.

Síðast hafði það leikið sér með vampírur og varúlfa, í stað þess að einbeita sér bara að einu; uppvakningunum. Þeir voru bestir. Þeir voru óstöðvandi. Óseðjandi. Ómótstæðilegir.

Myrkrið hefur þegar sigrað.

En það getur ekki hamið sig.

Þessi örfáu sem eru eftir hafa þvælst fyrir því í dag. Lifað mun lengur en þau hafa nokkurn rétt á. Myrkrið langar ekki bara að losa sig við þau, það vill eyðileggja þau. Refsa þeim fyrir að voga sér að ögra því. Og það veit nákvæmlega hvernig það á að gera það.

Ragnar situr á klósettinu þegar ljósaperurnar byrja að flökta.

Hann er nokkurn veginn staðinn á fætur þegar rafmagnið fer endanlega af.

„Ertu að...“ bölvar hann og nær að hífa upp um sig buxurnar án þess að detta á höfuðið. Hann fálmar út í loftið og finnur loks vaskinn, þar sem hann þvær sér um hendurnar. Furðuleg hljóð heyrast skyndilega hinum megin við lokaðar baðherbergisdyrnar; hróp og köll í bland við furðulegt hljóð sem minnir hann helst á stíflað klósett. Ragnar drífur sig að þurrka sér um hendurnar og opnar aftur fram.

Þögn.

Algjört myrkur.

Hann lyftir báðum höndum og fikrar sig eftir veggjunum. Skyndilega rekst hann í eitthvað. Ragnar rétt nær að grípa það áður en það fellur í gólfið og fattar um leið hvað það er.

Stórt og þykkt vasaljós.

„Jess!“ Hann kveikir. Og lítur í kringum sig.

Ragnar stendur við tölvurnar. Á gólfinu, lengst í burtu, alveg við innganginn að bílskúrnum, sér hann glitta í Þórkötlu lögreglustjóra. Eða það sem eftir er af henni. Hún liggur á gólfinu í svo furðulegri stellingu að það er næstum því fyndið. Það er líkt og einhver hafi hleypt öllu loftinu úr henni.

„Hvað gerðist eiginlega?“

Geislinn leitar inn á kaffistofu.

Og hann sér Braga náttúrufræðikennara.

„Ó, nei...“ hvíslar hann. Kennarinn liggur fram á borðið í miðju kaffistofunnar. Allt bakið er dökkrautt. Fyrir utan dimma og þykka línu sem liggur niður eftir því.

„Hvað gerðist... ?“ hvíslar Ragnar aftur og í þetta skiptið er honum svarað.

 

Einhver kemur hlaupandi út úr myrkrinu. Frá bílskúrnum. Ragnar lýsir í áttina að manneskjunni og sér um leið að þetta er Meistarinn. Augun eru óð og hann baðar höndunum í allar áttir.

„Þær eru ekki þær sjálfar!“ veinar hann og hleypur til Ragnars. „Passaðu þig! Ekki treysta þeim!“ Ragnar, sem skilur ekkert, lýsir í áttina sem töffarinn kom hlaupandi úr og sér Klöru skyndilega koma hlaupandi. Natalia er rétt á eftir henni. Þær eru sömuleiðis öskrandi.

„Ekki koma nálægt henni!“ gargar Natalia. „Hún er ekki hún sjálf lengur!“ Klara svarar þessari ásökun með miklum mótmælum.

„Nei, það er hún! Eða hann!“ Meistarinn verður algerlega brjálaður við þetta og lemur í næsta vegg.

„Það er í fínu lagi með mig, það er önnur hvor þeirra sem er í ruglinu!“ Krakkarnir eru nú öll komin hættulega nálægt Ragnari og hafa nánast umkringt hann. Ragnar snýst í hringi og lýsir framan í þau öll. Nataliu. Meistarann. Klöru.

„Hvað gerðist?!“ hrópar Ragnar. „Ég skrapp á klósettið og nú er Bragi dáinn og löggan er...“ Hann leitar að rétta orðinu. „... tóm!“ hrópar hann loks. „Og nú eruð þið öll orðin rugluð! Hvað er í gangi?!“

 

Allir byrja að tala á sama tíma.

Ragnar sussar á hópinn og allir þagna.

„Þú,“ segir hann og lýsir framan í Meistarann. „Hvað gerðist?!“ Töffarinn dregur djúpt að sér andann og hefur ekki augun af stelpunum tveimur.

„Það var eitthvað að löggunni,“ segir Meistarinn. „Hún var ekki hún sjálf. Það var eitthvað inni í henni.“

„Eitthvað sem við sáum í eldinum,“ grípur Natalia frammí. Meistarinn kinkar kolli.

„Og það braust út. Gat ekki hamið sig lengur. Gat ekki falið sig lengur.“ Ragnar lítur á stelpurnar og svo aftur á Meistarann.

„Og hvað svo?“ spyr hann stressaður.

„Svo fór rafmagnið af!“ hrópar Meistarinn. „Það var eitthvað í skuggunum og svo varð allt svart og svo byrjaði ógeðslegt hljóð og svo varð ekkert eftir af löggunni. Þú sást það sjálfur!“ Ragnar hristir höfuðið.

„En það sem var inni í löggunni. Hvert fór það?“ Meistarinn bendir með báðum höndum á stelpurnar. Þær eru ekki kátar með þessar ásakanir.

„Nei!“ veinar Klara. „Það fór inn í hann! Lögreglustjórinn hélt um Meistarann, það liggur beinast við að þetta hafi farið í hann.“ Meistarinn hristir höfuðið. Ragnar lýsir fram og til baka í andlit sem öll eru bæði reið og hrædd.

„Við verðum að komast að því hver það er!“ segir hann titrandi röddu. „Og henda þeim aðila út. Eða eitthvað. Ég veit það ekki!“

„Þetta er allavega ekki í mér!“ hrópar Natalia.

„Og ekki í mér!“ veinar Klara. „Þú þekkir mig! Ég er ég!“

„Ekki í mér!“ tilkynnir Meistarinn. Ragnar lýsir fram og til baka. Fram og til baka. Og skyndilega sér hann eitthvað. Eitthvað óþægilegt í andlitum félaga sinna.

Hann sér þau fá hugmyndina öll á sama tíma.

Og hann byrjar að skjálfa.


„Hvar varst þú?“ spyr Natalia varlega. Ragnar kyngir.

„Á klósettinu.“ Hún hnussar.

„En hentugt.“

„Það er ekkert sem segir að þetta hafi ekki getað skriðið í þig,“ segir Meistarinn. „Eða flogið. Ég veit ekki hvernig þetta ógeð ferðast.“ Klara stendur til hliðar, efins á svip.

„Eruði alveg viss?“ spyr hún lágt. Meistarinn hnussar.

„Við vorum öll saman. Hann var annars staðar. Meikar ekki miklu meiri sens að hann hafi fengið þetta í sig?“ Ragnar byrjar að bakka frá krökkunum, en kemst ekki langt. Þau eru einhvern veginn alls staðar.

„Hvert ertu að fara?“ spyr Natalia stressuð.

„Burt frá ykkur!“ segir Ragnar. „Ég treysti ykkur ekki!“ Meistarinn hristir höfuðið.

„Og ekki við þér.“ Hann lítur á Nataliu og Klöru. Þau líta öll þrjú á Ragnar.

Svo stökkva þau á hann.

Það er brjálað veður úti.

Dyrnar að lögreglustöðinni opnast.

Ragnari er hent út.

Svo er skellt í lás.

Hann lendir harkalega í snjónum og sprettur umsvifalaust á fætur. Ræðst á dyrnar og byrjar að berja. Enginn svarar.

Ragnar ræður ekki við það; hann finnur að tár eru byrjuð að streyma niður kinnarnar.

Hann skilur ekki hvað er í gangi, en það er þó þrennt sem hann er alveg viss um:

Ef hann kemst ekki aftur inn mun hann frjósa í hel.

Hann er enn hann sjálfur.

Og það þýðir að einhver af krökkunum þremur inni á lögreglustöðinni er að ljúga.

bottom of page