top of page
18. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 14:00
8.jpg

„Hvað í ósköpunum eruði að tala um?“ spyr Æsa forviða. „Breyta öllu innan varnargarðsins í eitt stórt draugahús? Við erum innan varnargarðsins! Ég man hvernig þetta var! Munið þið það? Það var hræðilegt! Það voru ekki bara uppvakningar, heldur líka vampírur og varúlfar! Og draugar! Viljiði búa það til aftur? Og stækka það?! Hvers vegna í ósköpunum?!“

„Það er enginn að fara að búa til vampírur og varúlfa, Æsa!“ segir Arndís pínu pirruð.

„Þannig var það nú samt!“ hrópar Æsa. Arndís dæsir með tilþrifum og Æsa lítur hvössum augum á hana. „Kanntu eitthvað annað en að dæsa?“ spyr Æsa. „Því sum okkar láta sér nægja að anda bara!“ Arndís snöggroðnar í framan og hendir bókinni merkt GATNAKERFI REYKJANESBÆJAR frá sér. Hún lendir á gólfinu með þungum dynk sem bergmálar um bókasafnið.

„Stelpur!“ hvæsir Ragnar og gengur á milli þeirra.

„Þú segir mér ekkert hvað ég á að gera!“ veinar Arndís og stekkur á Æsu. Ragnar er samt sneggri og nær að grípa í hana. Hann heldur í annan handlegginn á Arndísi á meðan Natalia heldur í Æsu.

„Halt þú bara kj...“ byrjar Æsa og sparkar út í loftið. Pawel er enn að skoða kortin sín og gæti ekki verið meira sama.

„Það sem við verðum að gera...“ byrjar hann en enginn er að hlusta.

„Nenniði að róa ykkur aðeins!“ hvæsir Natalia en enginn er heldur að hlusta á hana.

„Ekki hafa svona hátt!“ kallar Ragnar fullur örvæntingar og missir næstum jafnvægið. Arndís er sterkari en hann hélt og er smám saman að ná að losa sig úr takinu sem hann hefur á henni. Æsa á hinn bóginn er ekki sterkari en Natalia, en ef Natalia ætti að vera alveg hreinskilin er hún pínu hrædd við Æsu akkúrat núna. Æsa virkar á Nataliu eins og týpa sem gæti byrjað að bíta. Það er bara tímaspursmál hvenær Ragnar og Natalia missa tökin á stelpunum og þá fyrst mun allt verða vitlaust.

Það sem stoppar hin væntanlegu slagsmál er ekki Pawel með góða áætlun eða Ragnar og Natalia með einstaklega góðan „róa-sig-niður“-sannfæringarmátt.

Það er rödd.

Ókunn rödd.

Hún ómar um bókasafnið.

„Ég sver það, ég heyrði eitthvað!“

Krakkarnir frjósa. Stelpurnar líta hvor á aðra og ákveða að þetta verði útkljáð seinna.

„Niður,“ hvíslar Natalia og beygir sig. Hún kemur sér fyrir á gólfinu, alveg upp við stóra bókahillu. Hinir krakkarnir herma. Skyndilega sjá þau glitta í manneskju á milli tveggja hilla, lengst í burtu. Hún heldur á vasaljósi og skimar í kringum sig.

„Ertu viss?“ gjammar önnur rödd. Ragnar lítur á Nataliu og augun hans stækka um helming. Þau eru í vondum málum.

„100%,“ svarar fyrri röddin. „Tékka þú hjá skrifstofunum, ég athuga bókasafnið betur.“ Krakkarnir skima í kringum sig eftir mögulegri undankomuleið en þau eru úti í horni. Þau komast hvorki lönd né strönd. Það er ekki einu sinni neyðarútgangur hérna sem þau gætu laumast út um.

Skyndilega heyrast læti að utan.

Eigendur raddanna tveggja hætta leitinni og hlaupa aftur fram í anddyri.

„Hvað er málið?“ kallar annar þeirra.

„Þau eru öll búin að breytast hérna úti,“ er svarað að utan. „Komiði! Drífum okkur með þau í Holuna!“ Ekkert meira er sagt. Eigendur raddanna hlaupa báðir út úr Ráðhúsinu.

Krakkarnir heyra hratt fótatakið færast lengra og lengra í burtu.

Þau bíða.

Þora ekki að hreyfa sig.


„Ég held þau séu farin...“ hvíslar Natalia loks og stendur varlega á fætur. Hinir krakkarnir herma. Pawel gengur aftur að kortunum sínum og bendir á þau.

„Við verðum að drífa okkur,“ segir hann ákveðinn á svip. Krakkarnir kinka kolli. Þau eru öll komin á sömu blaðsíðuna núna. Arndís stendur við hlið Æsu og hallar sér snöggt að henni.

„Sorrý með mig,“ hvíslar hún afsakandi. Æsa svarar engu. Svo kinkar hún örsnöggt kolli og sýgur fast upp í nefið.

„Sömuleiðis,“ segir hún svo lágt að það heyrist varla.

„Hvað viltu að við gerum?“ spyr Ragnar og gengur til Pawels. „Hvernig breytum við öllu svæðinu í risadraugahús?“ Pawel dregur djúpt að sér andann og lítur svo á Nataliu. Hún veit hvað hann ætlar að segja áður en hann spyr.

„Já,“ svarar hún lágt. „Ég man enn táknin sem Myrkrið fékk okkur... Meistarann til að rista á trén.“ Hún stoppaði eitt andartak áður en hún sagði nafn vinar síns. Pawel kinkar kolli.

„Flott,“ segir hann. „Þá þurfum við þig hér.“ Svo lítur hann á Ragnar.

„Hvað?“ spyr Ragnar og líst ekkert á blikuna. Arndís tekur við:

„Við vorum neydd í þennan fáránlega fótboltaleik eftir að þið Klara fundið uppvakningabörnin. Í aukakjallaranum.“ Ragnar kinkar kolli. Hann hafði sagt krökkunum frá því á meðan þau biðu í búningsherberginu eftir að leikurinn byrjaði.

„Já, stemmir,“ segir hann. „Hvað með þau?“ Arndís setur stút á varirnar.

„Þú þarft að finna þau aftur,“ segir hún.

„Ókei...“ svarar Ragnar efins. „Og hvað?“

„Og hleypa þeim út.“
 

Æsa getur ekki hamið sig lengur.

„Hleypa þeim út?!“ veinar hún. „Eruði rugluð?!“ Arndís bregst ekki illa við í þetta skiptið. Hún veit að Æsa er ekki reið út í sig, hún er bara hrædd. Arndís er það líka.

„Við megum ekki við því að Foreldrafélagið þvælist fyrir okkur,“ segir hún ákveðin á svip. „Uppvakningar eru góð truflun.“ Natalia skerst í leikinn.

„Uppvakningarnir munu éta þau,“ segir hún. „Eru allir bara sáttir við það, eða?“ Í andartak segir enginn neitt.

„Þetta voru bara börn,“ segir Æsa loks ískaldri röddu. „Og Foreldrafélagið skyldi þau eftir hjá Myrkrinu. Þetta er þeim að kenna. Þau verða bara að díla við það.“ Hinir krakkarnir kinka kolli.


Ragnari langar ekkert aftur í skólann, en grunar að hann hafi lítið um það að segja.

„Ókei, ég skal gera þetta, en,“ segir hann, „ég fann bara glugga að kjallaranum sem var ofan í kjallaranum. Ekki salinn sjálfan. Og það eru járnrimlar fyrir honum.“ Pawel tekur við. Hann gramsar í teikningunum sínum, velur loks kortið sem hann hafði teiknað af skólanum og réttir Ragnari.

„Sjáðu hér,“ segir hann og bendir. „Ef þú ferð í gegnum íþróttasalinn og inn um þessar hliðardyr hér, niður tröppurnar og eftir þessum langa gangi hér ættirðu að koma beint að hurðinni sem þið Klara sáuð í gegnum gluggann.“ Ragnar grandskoðar kortið. Þetta virðist vera rétt hjá Pawel.

„Gott kort,“ segir Ragnar og getur ekki annað en brosað. Pawel kinkar sáttur kolli.

„Ég veit.“ Ragnar lítur á Arndísi.

„En hvað með ykkur? Hvað ætlið þið að gera á meðan ég hætti lífi mínu?“
„Við verðum hér á meðan,“ segir Arndís ákveðin á svip, „og við klárum málið.“ Hún lítur á Pawel sem kinkar ákveðinn kolli.

Ragnar læðist í áttina að skólanum.

Leikvöllurinn er auður. Anddyrið sömuleiðis. Í örvæntingarfullri tilraun til að dulbúa sig finnur hann húfu og úlpu í óskilamunum í fatahenginu og læðist svo inn í skólann. Allir eru hlaupandi fram og til baka. Enginn tekur eftir honum.

„Fundur í salnum eftir tvær!“ hrópar einhver og Ragnar veit um leið hvaða sal er verið að tala um. Hann verður að flýta sér. Hann dregur húfuna alveg niður að augum, setur undir sig höfuðið og stefnir í átt að íþróttasalnum.

Salurinn er stútfullur af fólki. Sumir eru að raða stólum, aðrir að tengja skjávarpann og enn aðrir að hella upp á kaffi. Allir eru stressaðir. Enginn er að horfa á hann.

Ragnar lítur í lófann á sér, þar sem hann hefur teiknað mjög grófa og klessta útgáfu af kortinu hans Pawels. Hann finnur hliðarhurðina. Laumast inn. Sér tröppurnar. Fer niður þær. Endar á löngum gangi. Og byrjar að labba.

Lyktin verður sífellt verri og verri og Ragnar veit að hann er á réttri leið. Að lokum gengur hann fyrir horn og sér hana: Hurðina. Þykka málmhurð. Á henni hangir skilti: HOLAN. Lyktin hérna er hræðileg. Ragnar finnur lyklakippuna sem Lárus rafvirki gaf honum og prófar fyrsta lykilinn sem hann rekur augun í. Stingur honum á bólakaf í skránna.

Hann virkar ekki.
Ragnar velur annan lykil.

Svo þann þriðja.

Það er ekki fyrr en hann prófar þann fjórða sem hann hittir í mark.

Hann snýr.

Lásinn gefur sig með háum smelli.

Að innan heyrir Ragnar lágt vein.

Hann veit að um leið og hann opnar hann hefur aðeins örfáar sekúndur.

Hann opnar.

Herbergið er gersamlega stútfullt af uppvakningum.

Alveg við dyrnar stendur hávaxinn strákur. Augun sjálflýsandi. Munnurinn opinn. Hann er með stórt sár á öðrum handleggnum. Ragnar þekkir hann um leið.

„Elsku Halldór...“ hvíslar Ragnar og langar mest að stökkva á vin sinn og knúsa hann. Halldór lítur á Ragnar og í eitt andartak er eins og það sé ekkert að honum. Eins og þetta sé bara sami gamli góði Halldór. Svo orgar uppvakningurinn og hleypur af stað.


Ragnar snýst á hæli.

„Ó, nei, ó, nei, ó, nei!“

Hann hleypur.
Uppvakningurinn eltir.

Hinir uppvakningarnir elta hann.
Ragnar hleypur.

Eins hratt og hann getur.

Eftir ganginum, upp tröppurnar og svo hendir hann sér á dyrnar.

Þær opnast upp á gátt.

Íþróttasalurinn er nú pakkaður fullur af fólki. Hér eru enn fleiri en bara rétt áðan. Einhver er uppi á sviði að tala en þagnar um leið og Ragnar hrindir upp hurðinni með látum. Allir stara á hann. Ragnar snarstoppar, jafnvel þótt hann viti vel að hann eigi alls ekki að gera það.

„Þarna er einn!“ grenjar skyndilega kvenmannsrödd, skammt frá honum. Ragnar lítur til hliðar. Ein af grænklæddu konunum af fótboltavellinum stendur rétt hjá hurðinni og bendir á hann. Ragnar bíður ekki eftir því að hún segi eitthvað meira. Hann hleypur.

Grænklædda konan veinar ægilega og ætlar að hlaupa á eftir honum, en áður en hún nær að leggja af stað heyrast skyndilega hræðileg hljóð hinum megin við hálflokaðar hliðardyrnar.

Grænklædda konan lítur í áttina að óhljóðunum, rétt áður en dyrnar brotna af hjörunum og flóð af uppvakningabörnum treður sér inn um gættina.

Þau stökkva á grænklæddu konuna og áður en hún nær einu sinni að hrópa á hjálp hefur eitt þeirra bitið af henni annað eyrað. Fleiri börn bætast í hópinn og áður en Ragnar veit af er ekkert eftir af grænklæddu konunni.

Allir í íþróttasalnum gersamlega tryllast.

Þau hlaupa og hrinda.

„Hjálp!“ veinar miðaldra kona, kölluð Bankastjórinn, rétt áður en þrír 7 ára krakkar taka undir sig stökk, lenda á bakinu á henni og rífa hana í sig.

„Stoppið þau!“ öskrar hávaxinn maður, kallaður Stjórnmálamaðurinn, um leið og hann grípur í lávaxna konu, kölluð Skúringarkonan, og hendir henni í veg fyrir fjóra fimmtubekkinga, svo hann nái að sleppa. Krakkarnir tæta hana í sig á augabragði. Stjórnmálamaðurinn kemst samt ekki langt. Það eru ár og öld síðan hann hljóp eitthvað að ráði og skyndilega finnur hann furðulegan verk í brjóstinu, sem dansar svo út í annan handlegginn.

Stjórnmálamaðurinn fær hjartaáfall og fellur fram fyrir sig. Reynir að reisa sig við. Reynir að skipa fólkinu í kring að hjálpa sér. En enginn heyrir í honum fyrir öskrum og smjatti.

Á endanum eru það ekki uppvakningarnir sem ganga frá Stjórnmálamanninum, heldur hitt fullorðna fólkið sem hleypur yfir hann.

Í gamla daga var Stjórnmálamaðurinn vanur að vaða yfir fólk – nú hefur það snúist við.
 

Ragnar hleypur.

Eins hratt og hann getur.

Það eru uppvakningar alls staðar!

skolaslit-3_s18_bly.jpg
bottom of page