top of page
13. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 07:37
1.jpg
3.jpg

Það var nánast engin umferð á móti.

Og þeir örfáu óheppnu sem Bragi og krakkarnir mættu komust ekki langt. Uppvakningarnir skullu á þeim eins og hræðileg alda. Eins skelfilega og það hljómaði var það samt bara fínt. Það hægði á skrímslunum. Stoppaði þau ekki – en hægði samt á þeim.

Klara fylgdist agndofa út um afturrúðna með bílstjórum missa stjórn á ökutækjunum sínum og ýmist velta þeim eða keyra utan í veggi ganganna, rétt áður en uppvakningarnir réðust inn í bílana.

„Aumingja fólkið...“ tautaði hún. „Þau voru bara á leiðinni heim. Eða í vinnuna. Og nú eru þau...“ Hún andvarpaði og settist aftur í sætið sitt. Meistarinn leit á hana og hnussaði.

„Dauð,“ sagði hann. „Steindauð. Það er ekki okkar mál. Hverjum er ekki sama? Þegiðu bara. Það er ekki eins og þetta sé okkur að kenna.“ Natalia leit snögglega á hann eitt augnablik og Meistarinn starði til baka.

Hvorugt þeirra sagði nokkuð.

Þau bara störðu.

Klara tók eftir því.

„Hvað?“ spurði hún. Natalia leit undan.

„Ekkert,“ laug hún. „Ekki neitt.“

Natalia elskaði íþróttir. Hafði alltaf verið góð í þeim. Alltaf verið sterkari, sneggri, betri en flestir. Ástæðan fyrir því var einföld. Fjögur orð: Hún gafst aldrei upp. Aldrei. Það var eiginlega sama hvaða íþrótt hún byrjaði að æfa; hún hætti ekki fyrr en hún var búin að ná brjálæðislega góðum tökum á henni. Eina íþróttin sem virtist þvælast fyrir henni voru hestaíþróttir. Það var eitthvað við þessi risastóru dýr sem hún treysti ekki alveg. Hún vissi ekki hvað það var. Kannski var ástæðan sú að hún gat ekki haft fullkomna stjórn á hrossinu, eins og hún hafði á sjálfri sér.

Natalia byrjaði í sundi þegar hún var ung. Fór svo í fótbolta. Prófaði körfubolta. En það var ekki fyrr en Natalia byrjaði að æfa handbolta sem hún fann hina fullkomnu íþrótt fyrir sig. Hraðinn sem þú varðst að búa yfir og snerpan hentuðu henni fullkomlega. En það sem hún fílaði best við handboltann var að leikurinn var aldrei búinn fyrr en hann var búinn. Þú áttir alltaf séns. Alveg sama hver staðan var. Þannig var það nákvæmlega núna; staðan var ekki góð en hún neitaði að gefast upp. Hún þyrfti bara að gera betur. Hlaupa hraðar. Skora. Aftur og aftur. Og sigra.

Natalia hafði alltaf verið hávaxin, en það var ekki fyrr en hún byrjaði í sjöunda bekk sem það byrjaði að trufla hana. Því þegar þú ert orðin höfðinu hærri en allir í bekknum þínum og bekknum fyrir ofan ferðu að fá óþarfa athygli sem er ekki svo skemmtilegt.

Hún hafði vonast til þess að einhver af strákunum í bekknum myndi kannski taka vaxtarkipp áður en hún byrjaði í unglingadeildinni en varð ekki að ósk sinni. Nú var hún í tíunda bekk og búinn að vera hærri en allir í skólanum í meira en þrjú ár. Natalia var meira að segja hávaxnari en sumir kennararnir!

Og það sem verra var: Miklu hávaxnari en strákarnir sem hún var skotin í.

Sem var einhvern veginn það vandræðalegasta af öllu. Natalia vissi ekki hvers vegna, það var það bara. Í öllum bíómyndum og bókum voru strákarnir alltaf þeir sem voru hávaxnir. Ekki stelpurnar.

Þannig að fyrir um það bil tveimur árum byrjaði Natalia að ganga hokin. Til að byrja með tók hún ekki eftir því – ekki fyrr en henni fór að vera illt í bakinu. Handboltaþjálfarinn hennar hafði skammað hana og sagt henni að rétta úr sér og Natalia reyndi eins og hún gat, en alltaf þegar hún var með vinkonum sínum, eða í frímínútum eða bara úti í búð og rak augun í spegil eða rúðu eða vel bónaðan bíl sá hún sjálfa sig, hálfskakka og asnalega. Eins og það að vera hávaxin væri eitthvað til að skammast sín fyrir?

Henni fannst óþolandi að ráða ekki við þetta. Að þetta skyldi trufla hana svona mikið. Hún var bara eins og hún var og það var ekkert að því.

Bragi þaut í gegnum Hvalfjarðargöngin og uppvakningarnir eltu.

Natalia starði út um framrúðuna og reyndi að kyngja kekkinum sem hafði verið í hálsinum hennar frá því í Borgarfirði. Frá því að rútan þeirra hafði stoppað. Frá því að bölvaður kötturinn hafði mætt á svæðið.

„Kötturinn...“ tautaði hún og var næstum því búin að opna munninn og kjafta öllu. Hún gat ekki haldið því inni í sér lengur. Hún vildi hrópa hvað hafði gerst. Hvað hafði gerst um nóttina við varðeldinn. Þegar hún og vinkonur hennar höfðu stolist út. Höfðu...

Nei. Ekki núna. Aldrei.

Þessi leikur var ekki búinn. Þau gætu enn sigrað! Þau voru kannski undir en þetta var ekki búið fyrr en það var búið.

Bragi keyrði svo hratt í gegnum göngin að hann náði varla beygjunum.

Uppvakningarnir voru enn skammt undan ef hann myndi halda þessari ferð væru þau í góðum málum.

„Við erum að komast út!“ veinaði Ragnar og benti. Það var rétt hjá honum.

Þau skutust út úr göngunum Kjalarnesmegin.

Brjálaður snjóstormur skall umsvifalaust á bílnum og Bragi missti næstum stjórnina. En bara næstum.

„Hvasst á Kjalarnesinu?“ heyrðist í Jan. „Hvað annað er helst í fréttum? Að vatn sé blautt?“ Hann hló stressaður og leit á félaga sína í von um bros. Það mætti honum ekkert nema þögnin ein.

„Passaðu þig!“ veinaði Ragnar skyndilega og benti. Út úr kófinu birtist skyndilega lögreglubíll með blikkandi ljós, sem hafði verið lagt út í kant. Hann var líklega þarna til að stoppa fólk í að halda inn í óveðrið. Bragi reif í stýrið og rétt náði að forðast árekstur.

„Þú verður að horfa hvert þú ert að keyra, gaur!“ hrópaði Jan. Bragi leit örsnöggt um öxl.

„Ef þú þegir ekki felli ég þig í öllu, meira að segja í fögum sem ég er ekki einu sinni að kenna!“ hvæsti hann. Jan ákvað að það væri hugsanlega gáfulegt að þegja núna. Klara leit út um afturrúðuna og sá uppvakningana skella á aumingja löggunni rétt áður en snjórinn tók yfir allt.

Veðrið hafði verið slæmt á leiðinni en það var miklu verra hér.

Mun hvassara.

Meiri snjór.

Og skyndilega byrjaði jeppinn að dansa fram og til baka á veginum.

„Hvað er í gangi?“ hrópaði Jan, sem gat ekki hamið sig.

„Ég veit það ekki!“ hvæsti Bragi og reyndi að hafa stjórn á bílnum, sem nú var farinn að gefa frá sér hátt surg. Skyndilega kviknuðu öll ljós í mælaborðinu.

Og svo – eins og honum hefði verið kippt úr sambandi – drap bíllinn á sér.

Hann rann síðustu metrana og Bragi rétt náði að koma honum út í kant.

Svo stoppaði hann.

Krakkarnir litu hvort á annað.

Í gegnum brjálað rokið heyrðust veinin í uppvakningnum.

Þeir voru rétt hjá.

bottom of page