top of page

ERTU MEÐ SPURNINGU FYRIR ÆVAR EÐA ARA?

SENDU OKKUR PÓST Á SKOLASLIT@GMAIL.COM FYRIR 18. OKTÓBER

OG VIÐ SVÖRUM ÞEIM Í VÍDJÓI.

13. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 12:10
3.jpg

Klukkan er orðin 10.

Krakkarnir gægjast fram á gang.

Sjá engan.

Skipta liði.

Hlaupa af stað.

Það er eitthvað ekki eins og það á að vera hérna. Ef fólkið í Foreldrafélaginu héldu að þau gætu falið sannleikann fyrir krökkunum, höfðu þau svo sannarlega rangt fyrir sér. Þetta er skólinn þeirra, þau eru á heimavelli, þau þekkja alla króka og kima og meira að segja nokkra staði sem þetta lið hefur ekki einu sinni heyrt um. Ef einhver hér er að fela eitthvað munu þau finna það.

„Þetta var hvort eð er of gott til að vera satt,“ tautar Meistarinn svekktur um leið og hann lætur sig hverfa út í nóttina. Natalia hleypur með honum. Halldór fylgir.

Þau hafa klukkutíma. Svo ætla þau að hittast aftur og gefa skýrslu. Krakkarnir eru ekki með úr á sér, en þetta er skóli; það eru klukkur út um allt. Þau dreifa sér um bygginguna og leita.

Pawel og Joanna halda kyrru fyrir í skrifstofu-herberginu, bara til öryggis ef einhver skyldi koma. Allar sængur hafa verið mótaðar þannig að það lítur út eins og það liggi einhver undir þeim. Ef meðlimir Foreldrafélagsins myndu allt í einu banka upp á munu Joanna og Pawel drífa sig til dyra og láta vita að allt væri nú svo sannarlega í lagi.

 

Skólinn er stór og á nokkrum hæðum. Þau þurfa að vera snögg.

Natalia, Meistarinn og Halldór taka þakið og efstu hæðina.

Æsa, Pétur og Arndís miðjuhæðirnar tvær.

Klara og Ragnar ætla að skoða jarðhæðina og helst leiksvæðið í kringum skólann, ef þau ná því.

Ef krakkarnir rekast á einhvern úr Foreldrafélaginu munu þau þykjast hafa verið að leita að klósettinu og villst. Ef allt annað bregst ætla krakkarnir að láta eins og þau hafi gengið í svefni. Æsa stakk reyndar upp á því að hún myndi bara sparka í hvern þann sem væri eitthvað að þvælast fyrir henni en restin af hópnum ákvað að það væri ekki góð hugmynd.

„Eigum hana samt inni,“ sagði Pétur.


Það er ekkert að frétta á þakinu.

Efsta hæðin er líka tóm.

Æsa, Pétur og Arndís finna heldur nánast ekki neitt. Bara tómar stofur.

Það eru hins vegar Klara og Ragnar sem komast í feitt. Þau rölta um auða ganga neðstu hæðarinnar og nýta hvert tækifæri til að gægjast út um gluggana og skoða leikvöllinn. Þau vita að varnargarðurinn er öruggur, en það er samt eitthvað skrítið við það að vera á ferðinni að nóttu til, þannig að þau eru alveg til í að losna við að fara út.

„Sérðu eitthvað?“ spyr Klara. Ragnar hristir höfuðið. Leikvöllurinn er tómur. Sama gildir um allar stofur sem þau ganga fram hjá.

En í fjarska heyra þau samt lágan óm. Þau elta hljóðið.

Áður en þau vita af standa Klara og Ragnar fyrir utan íþróttasalinn, sem þau voru inni í fyrr um daginn. Það heyrast læti. Það gengur greinilega mikið á þarna inni. Ofurvarlega leggja þau lófana á þungar dyrnar og ýta.

Salurinn er enn fullur af fólki, sem snýr baki í þau. Enginn virðist taka eftir þeim.

Þjálfarinn er enn uppi á sviði, alveg eins og áðan, nema núna er Kennarinn með honum. Þau eru að segja eitthvað og liggur mikið niðri fyrir. Krakkarnir greina ekki orðaskil vegna látanna í áhorfendum en komast fljótt að því að þau þurfa þess ekki.

Stórt myndvarpi hangir í loftinu og varpar glærum á hvítt tjald sem hangir aftast á sviðinu. Þegar krakkarnir sjá hvað glærurnar sýna þarf Klara að bíta sig í kinnarnar til að gefa ekki frá sér hljóð.

Glærurnar á hvíta tjaldinu sýna myndir af þeim. Krökkunum. Fyrir ofan þau stendur eitt einasta orð: ÖSKURDAGUR. Ragnar gapir. Hvað í ósköpunum er „Öskurdagur“? Er þetta auka R í orðinu viljandi? Hrollur læðist upp eftir bakinu á honum.

Hvað er í gangi hérna?!

Ragnar og Klara líta hvort á annað, loka hurðinni eins varlega og þau geta og hlaupa.

Leikvöllurinn má eiga sig. Þau verða að segja hinum krökkunum frá því hvað þau fundu.

„Hvað var þetta eiginlega?“ hvíslar Ragnar forviða. Klara yppir öxlum.

„Ég veit það ekki,“ svarar hún móð. „En ég er ekki að fíla það.“ Þau hlaupa um gangana og hægja bara á sér til að ná beygjum. Klukkurnar í kringum þau segja þeim að klukkutíminn sé liðinn og rúmlega það. „Ég veit um styttri leið,“ segir Klara og Ragnar eltir.


Þau hlaupa fyrir horn og snarstoppa.

Skyndilega mætir þeim þungur fnykur.

Þau þekkja fýluna um leið:

Uppvakningar.

Þau stirðna upp. Skima í kringum sig. Sjá engin skrímsli. En enda bæði með augun á hurð neðar á ganginum. Þau vita bæði hvert hún liggur: Niður í kjallara.

Og án þess að segja það upphátt vita þau bæði að þau verða að gá.

Ragnar opnar dyrnar varlega.

Klara smeygir sér inn.

Ragnar eltir.

Dyrnar lokast á eftir þeim.


Tröppurnar niður í kjallara eru þröngar. Krakkarnir læðast niður þær. Lyktin er enn verri hérna megin við hurðina; súr og ertandi. Eina birtan hérna virðst vera skíman frá grænu ljósi sem hangir efst í stiganum. Loks enda tröppurnar og steypt gólf tekur við. Krakkarnir píra augun og líta í kringum sig. Í því litla ljósi sem þau eru í sjá þau að þau eru stödd á löngum gangi. Í fjarska sjá þau glitta í eitthvað. Þetta er ljós.

„Komdu,“ hvíslar Ragnar og Klara kinkar kolli. Þau læðast af stað, gerandi sér bæði grein fyrir því að þetta er kannski ekki gáfulegasti göngutúr í heimi. Ragnar vildi óska að þau hefðu enn eitthvað af uppvakningagumsinu og að þau hefðu ekki þrifið það af sér. Hann getur samt ekki annað en brosað. Ragnar veit ekkert skemmtilegra en þegar hann og Klara eru að vesenast eitthvað. Eftir mánuðina á bóndabænum eru þau orðin enn betri vinir en þau voru áður.

Og hann elskar það!

Skyndilega hleypur eitthvað yfir fæturna á honum og hverfur aftur út í myrkrið. Ragnar öskrar. Klara hlær.

„Sástu músina?“ hrópar hún spennt og stekkur af stað. „Oh, koddu hérna krúttið þitt!“ Ragnar, enn í sjokki, getur samt ekki annað en hlegið. Hann grípur í vinkonu sína, sem er nú komin á fjóra fætur, og stoppar hana í að elta músina.

„Ef við lifum þetta af skal ég kaupa handa þér heilan músasirkus,“ hvíslar hann og reynir að fela stressið í röddinni, „en við verðum að halda áfram.“ Klara kinkar kolli og glottir. Það er rétt hjá honum.

 

Þau halda göngunni áfram. Lyktin verður alltaf sterkari og sterkari. Ljósið sem þau eru að elta sömuleiðis. Og nú eru þau farin að heyra eitthvað líka. Stunur. Urr. Þeim er löngu hætt að lítast á blikuna. Upp við vegg sjá þau móta fyrir gamalli hillu. Hún virðist vera full af hreingerningarvörum.

„Hérna,“ segir Ragnar og grípur skúringamoppu. Klara tekur við henni.

„Vilt þú ekkert vopn?“ spyr hún. Ragnar skimar betur í kringum sig. Finnur spreybrúsa með hreinsiefni. Þau vita bæði að það mun duga skammt.

Lyktin er nú orðin kæfandi. Klara reynir að anda með munninum til að fýlan taki ekki yfir en það skiptir engu.

Þau eru nánast alveg komin að uppruna ljóssins. Og trúa varla eigin augum. Þetta virðist vera gluggi. Alveg niðri við gólfið. En ótrúlega furðuleg staðsetning á glugga. Og ekki nóg með það; það eru rimlar úr járni fyrir honum.

„Hvað er þetta eiginlega?“ tautar Klara, leggur frá sér moppuna, krýpur og gægist.

Sekúndu seinna óskar hún þess að þau hefðu aldrei komið hérna niður.

Hún grípur fyrir munninn sinn til þess að kæfa öskrið.

Ragnar gægist líka og trúir ekki sínum eigin augum.

Það virðist vera annar kjallari ofan í kjallaranum. Glugginn sem þau eru að horfa í gegnum er efst í loftinu á þessum nýja-enn-dýpri-kjallara. Þetta virðist vera stór salur. Eini inngangurinn inn í hann er hurð í hinum endanum. Hún er lokuð. Sem betur fer. Því salurinn er fullur af uppvakningum. En það er samt ekki það versta.

„Þetta eru allt saman börn...“ hvíslar Ragnar. Og hann hefur rétt fyrir sér. Hver einasti uppvakningur virðist vera yngri en 16 ára. Einhvern veginn gerir það þetta allt saman helmingi hræðilegra. Þeir eru hálfmyglaðir, fölir og fáir. Nokkrir eru meira að segja hálfgegnsæir. Þau ráfa um rýmið, stundum emjandi, stundum glefsandi út í loftið.

„Hvað eru þau að gera hérna niðri?“ spyr Klara og kökkurinn í hálsinum beyglar róminn. Ragnar getur ekkert sagt. Hann á engin svör. Þetta er næstum því eins og geymsla.

Hræðileg geymsla. Hvað eru þessir krakkar að gera hérna? Og hvers vegna sagði Foreldrafélagið þeim ekki frá þessu?

„Sjáðu...“ hvíslar Klara og bendir. Sjálflýsandi augun í nokkrum uppvakninganna flökta. Alveg eins og í tollverðinum í flugstöðinni.

 

„Það er aldeilis, hm!“ hrópar kunnugleg rödd skyndilega. Krakkarnir öskra bæði og snúa sér við. Uppvakningarnir heyra í þeim og fara samstundis úr því að vera frekar rólegir yfir í að algjörlega tryllast. Einn þeirra byrjar meira að segja að klifra upp eftir veggnum og kastar sér á rimlana, emjandi og veinandi.

Hann nær ekki í gegn.

Krakkarnir sitja á gólfinu og stara upp á Þjálfarann, sem stendur nú yfir þeim í öllu sínu veldi. Brosið er farið. Áður en nokkur nær að segja eitthvað rífur hann fast í aðra höndina Ragnari og kippir honum á fætur. Ragnar missir hreinsiefnabrúsann sem hann ætlaði að nota sem vopn og á ekki séns í þennan massaða, sterka karl.

Klara ætlar að grípa skúringarmoppuna og hjálpa en nær því ekki. Kennarinn birtist skyndilega og stekkur á hana.


Klukkutíma seinna er búið að smala öllum krökkunum út úr skólanum og inn í íþróttahöllina sem lúrir innan veggja varnargarðsins: Reyjaneshöllina! Þeim er skipt í lið. Til að kenna þeim lexíu. Helmingurinn hefur verið klæddur í rautt. Hinn helmingurinn í blátt. Fyrra liðið til að skora þrjú mörk sigrar og má fara. Hitt verður étið.

Þeim er ýtt inn á fótboltavöllinn. 


Skyndilega flýgur uppvakningahaus inn á völlinn. Hann lendir í gervigrasinu og rúllar örlítið um áður en hann stoppar loks skammt frá krökkunum. Umsvifalaust opnast augun á mygluðu andlitinu og munnurinn byrjar að bíta út í loftið.

„Rauðu byrja með boltann, hm?“ kallar Þjálfarinn. Svo blæs hann í flautu.

Leikurinn er hafinn.

Ekki allir munu lifa hann af.

bottom of page