top of page
7. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 11:08
7.jpg
skolaslit-3_s7_dead-guy_bly.jpg

Halldór og Pawel staulast eftir löngum ganginum. Hér og þar koma þeir að dyrum en þegar þeir reyna að opna þær kemur í ljós að þær eru flestar læstar. Þær fáu sem opnast leiða bara inn í kústaskápa eða baðherbergi. Gangurinn er furðulega hreinn miðað við restina af flugstöðinni. Hugsanlega hafa skrímslin ekki ratað hingað inn á síðustu mánuðum. Óhljóðin í uppvakningunum lækka með hverju skrefinu.

„Hvað meinarðu með að draumarnir okkar séu minningar?“ spyr Pawel loks og hefur ekki augun af Halldóri. Hann hefur áhyggjur af honum. Að renna svona svakalega á höfuðið getur verið stórhættulegt. Halldór gæti verið með heilahristing, eða eitthvað þaðan af verra.

„Ég er ekki alveg viss...“ tautar Halldór og nuddar augun. „En ég held við höfum lent í þessu áður.“ Pawel þarf að gefa í til að halda í við vin sinn.

„Uppvakingum? Ertu að meina áður en við komumst á bóndabæinn og hittum krakkana?“ Halldór hristir höfuðið.

„Nei. Það var öðruvísi. Ég er að tala um þessar aðstæður sem við vorum í áðan: Ég og hópur af uppvakningum. Þeir alveg að ná mér. Og vinur. Eins og við áðan.“ Pawel getur ekki annað en brosað. Hann er ekki viss um að undir nokkrum öðrum kringumstæðum en í hræðilegum skrímslafaraldri hefðu þeir Halldór orðið vinir, en honum þykir samt vænt um að heyra Halldór segja það.

„Var það ég?“ spyr Pawel. „Sem var að hlaupa með þér í þessari minningu?“ Halldór hristir höfuðið.

„Nei...“ tautar hann og reynir að muna. „Ég held að það hafi verið... Arndís?“ Síðasta orðið er meiri spurning en fullyrðing og virðist koma Halldóri sjálfum á óvart. „Nema hún hjálpaði mér ekki. Hún... lokaði á mig.“ Hann lítur á Pawel. „Getur það verið?“ Sá yngri yppir öxlum. Hann er ekki viss. En það sem hann er þó með á hreinu er að þetta spjall virðist vera að losa eitthvað í höfðinu á honum.

Allt í einu er eins og það sé eitthvað við Halldór sem hann eigi að muna.

Eitthvað... loðið? Getur það verið?

„Hvað er eiginlega í gangi hérna?“ tautar hann. Þeir halda áfram.

Strákarnir hafa ráfað um endalausa ganga í alltof langan tíma. Enn hafa þeir ekkert fundið sem gæti orðið þeim að gagni; hvorki mat né eitthvað sem hjálpar þeim að ná sambandi við umheiminn.

„Erum við villtir?“ spyr Pawel loks lágt. Halldór andvarpar og kinkar kolli.

„Þokkalega,“ muldrar hann og nuddar augun. Honum er enn illt. Kúlan á enninu stendur eins og hálfur tennisbolti út úr höfðinu. Þeir taka beygju og standa skyndilega fyrir framan hurð sem virðist ólík hinum hurðunum sem þeir hafa séð hingað til.

Í fyrsta lagi er hún rauð.

Í öðru lagi er hún merkt: „SECURITY“. Strákarnir líta hver á annan. Svo glotta þeir báðir. Halldór leggur eyrað upp að hurðinni og hlustar.

„Það suðar eitthvað...“ tautar hann og bakkar aftur frá hurðinni um leið og hann losar sverð-prikið af bakinu. Pawel grípur tvær kaststjörnur með annarri hendi og teygir sig varlega í hurðarhúninn með hinni. Halldór kinkar kolli til hans. Pawel dregur djúpt að sér andann.

„Þrír...“ hvíslar hann. „Tveir...“ Hann segir ekki síðustu töluna. Pawel opnar dyrnar upp á gátt og strákarnir stökkva í stöður, tilbúnir að ráðast á hvað sem kann að ryðjast á móti þeim.

Herbergið er autt.

Fyrir utan fúlskeggjaða gamla karlinn sem situr í rúllustól og starir á þá.

Maðurinn er dauður. Fyrir löngu. Af litarhaftinu að dæma virðist hann hafa verið mennskur þegar það gerðist. Allt í kringum hann eru samlokubréf og tómar gosdósir.

„Ég held hann hafi komist í sjálfsala og svo lokað sig hérna inni. Ekki þorað að fara fram.“ hugsar Pawel með sjálfum sér og stígur inn í herbergið.

Uppruni suðsins sem þeir heyrðu kemur strax í ljós: Skeggjaði löngu-dauði karlinn situr við stórt skrifborð. Það er fullt af tölvum, tækjum og tólum. Og símum! Bak við skrifborðið má sjá gríðarstóran vegg. Veggurinn er fullur af skjám. Lágt suð ómar frá þeim. Skjáirnir sýna hina ýmsu hluta flugvallarins og flugstöðvarinnar.

„Bingó...“ syngur Halldór og stekkur umsvifalaust af stað. Hann rífur upp rautt símtól og hlustar.

Ekkert.

Halldór blótar og tekur upp næsta símtól.

Sagan endurtekur sig. Ekkert að frétta.

Hann blótar aftur og heldur áfram að gramsa.

Á meðan Halldór reynir að finna leið til að ná sambandi við umheiminn hefur Pawel rölt að skjáunum. Einn þeirra sýnir yfirgefna flugbraut. Annar sýnir rúllustigann sem þeir hlupu niður fyrr í kvöld. Og sá þriðji sýnir...

„Halldór!“ veinar Pawel og bendir á skjáinn. Halldóri dauðbregður og er næstum búinn að sveifla sverð-prikinu sínu í Pawel.

„Passaðu þig, gaur!“ hvæsir Halldór og slíðrar prikið. „Ég hefði getað hoggið þig í tvennt!“ Pawel hundsar hann og bankar í skjáinn.

„Sjáðu! Þarna eru þau!“

Og það er rétt hjá honum.


Skjárinn sýnir listaverkið fyrir framan flugstöðina. Á egginu miðju má sjá tvær manneskjur; Æsu og Pétur.

Halldór rekur upp sigurvein og gefur Pawel föstustu fimmu sem Pawel hefur nokkurn tímann fengið. Pawel brosir. Vinir hans eru óstöðvandi!

Nokkrir uppvakningar umkringja eggið.

Þeir komast greinilega ekki upp.

Sem betur fer.

„Er hljóð á þessu?“ tautar Halldór og skimar í kringum sig eftir fjarstýringu. Pawel prófar að ýta á nokkra takka, en ekkert gerist.

„Nei.“ En þeir þurfa ekki hljóð. Myndin er nógu skýr. Krakkarnir eru í felum ofan á egginu og þrír uppvakningar, mjög illa farnir og subbulegir, standa í tjörninni fyrir neðan og stara upp á þau. Halldór snýr sér skælbrosandi að Pawel, kúlan á enninu orðin svo stór að ennið er nánast ekkert nema kúla.

„Klifurgræjan hennar Arndísar!“ hlær hann og bankar í skjáinn. „Þannig komust þau upp! Hún er snillingur, ég er að segja þér það!“


Tíminn líður.

Strákarnir kunna ekki á nærri því öll tækin á borðinu og hafa gefist upp á að reyna að ná sambandi við umheiminn. Þess í stað sitja þeir á gólfinu og dotta.

Á skjánum sem sýnir listaverkið sést glitta í fyrstu geisla sólarinnar.

En það er líka eitthvað annað í gangi.

„Sjáðu,“ segir Pawel lágt og ýtir við Halldóri.

„Hm?“ spyr Halldór hálfsofandi og þurrkar slef úr öðru munnvikinu.

„Sjáðu!“ endurtekur Pawel og nú er málrómurinn þannig að Halldór kemst ekki hjá því að vakna.

Uppvakningarnir fyrir neðan listaverkið standa ekki lengur og stara.

Það tekur strákana andartak að fatta hvað er í gangi. Halldór pírir augun.

„Eru þeir að...“ byrjar Pawel. Halldór kinkar kolli.

„Það er eins og þeir séu að slást.“ Og það er rétt hjá þeim. Uppvakningarnir þrír virðast hafa misst allan áhuga á Æsu og Pétri. Nú standa þeir í vatninu og ýta hvor öðrum, fram og til baka. Alltaf harkalegar og harkalegar.

„Hvers vegna í ósköpunum eru þeir að slást?“ spyr Pawel. „Eru þeir ekki í sama liðinu?“ Halldór kinkar aftur kolli.

„Maður hefði haldið það.“

En strákarnir þurfa ekki að velta þessu lengi fyrir sér. Skyndilega fær einn uppvakninganna nóg. Hann tekur undir sig stökk, algerlega brjálaður, og lendir á félaga sínum. Þeir skella í tjörnina og láta öllum illum látum. Vatn og eitthvað sem lítur út eins og hinir ýmsu líkamspartar skvettast í allar áttir.

Skyndilega reisir annar uppvakninganna sig við. Hann teygir úr sér, lygnir aftur augunum og galopnar á sér ginið. Tyggur eitthvað. Hendir sér svo aftur í vatnið.

Strákarnir stara á skjáinn.

„Hvað í ósköpunum er í gangi?!“ hrópar Halldór forviða. „Er annar að éta hinn?“ Pawel þarf ekki að svara. Það virðist vera nákvæmlega það sem er að gerast. Og ekki nóg með það. Nú er sá þriðji orðinn hluti af látunum. Hann tekur undir sig stökk og lendir í þvögunni miðri. Enn meiri læti og sull.

Pawel lítur af skrímslunum og á félaga sína á skjánum sem líka hafa tekið eftir öllum hamaganginum. Æsa og Pétur eru nú alveg á brún listaverksins og halla sér fram til að sjá betur.

Skyndilega tekur Æsa kipp og rífur í Pétur. Hún dregur hann frá brúninni með annarri og heldur fyrir munninn með hinni. Skjárinn er ekki stór og það er ekkert hljóð en Pawel veit samt að hún hafði rétt í þessu öskrað.

Hvað gerðist?

Pawel lítur af vinum sínum sem er nú bæði staðin upp. Æsa bendir eitthvert út í loftið og Pétur sömuleiðis. Þau skima í allar áttir og enda að lokum á stóra goggnum sem stendur út úr egginu. Þessum sem vísar aðeins upp í loftið.

„Þau eru að reyna að komast hærra...“ tautar Pawel. „En hvers vegna?“

„Ó, sjitt!“ hrópar Halldór skyndilega. Og Pawel sér um leið hvers vegna.

Uppvakningarnir eru hættir að slást.

Einn þeirra stendur eftir sem sigurvegarinn.

Hann reisir sig við, rennvotur og enn ógeðslegri en áður.

Og stærri.

Miklu stærri.

Og það er þá sem Pawel fattar að þetta var ekki slagur.

„Ó...“ hvíslar hann og finnur að hnén gefa sig næstum. Hann grípur í skrifborðið svo hann detti ekki.

„Hann át hina...“ tautar Halldór forviða, „Hann át hina!“

„Já...“ segir Pawel skjálfandi röddu. „Til að stækka.“

Uppvakningurinn, mun stærri en áður, lítur í áttina að egginu.

Og byrjar að klifra.

bottom of page