top of page
7. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 07:40
7.jpg

Þórkatla lögreglustjóri hafði verið í lögreglunni í meira en 20 ár. Fyrst sem lögregluþjónn og svo sem lögreglustjóri. Henni fannst það gaman. Engir tveir dagar voru eins. Sumir voru vissulega ekkert sérstaklega skemmtilegir, en margir hverjir voru skrambi góðir.

Þórkötlu hafði alla ævi langað til þess að verða lögga. Henni fannst eitthvað ótrúlega spennandi við að leysa ráðgátur. Þegar hún var lítil voru ráðgátubækur það eina sem hún las og oftar en ekki var hún búin að fatta hver var sökudólgurinn þegar bókin var um það bil hálfnuð.

„Það er bara svo augljóst!“ hafði hún alltaf sagt. „Vísbendingarnar eru þarna alveg frá byrjun. Þú þarft bara að fylgjast vel með.“

Það kom aldrei neitt annað til greina í huga Þórkötlu en að verða lögga. En þegar hún hafði loksins byrjað í löggunni komst hún að því að það að „leysa ráðgátur“ var kannski minnsti hlutinn af þessu öllu saman. Dagurinn í dag var til dæmis mjög gott dæmi um það; bjarga túristum og losa stífluð niðurföll.

Þangað til rúturnar hurfu auðvitað.

Þórkatla hafði einu sinni átt mann - en ekki lengur. Hann bjó núna á Tenerife og ef eitthvað var að marka myndirnar af honum á Facebook var hann ekki að eyða alltof miklum pening í sólarvörn. Saman áttu þau litla stelpu, sem var auðvitað ekki lengur lítil stelpa, nýbyrjuð í menntaskóla og allt saman. Dóttir Þórkötlu var enn klárari en mamma sín og hafði meira að segja fengið að hoppa beint úr áttunda bekk í þann tíunda. Það var auðvitað frábært, en þýddi samt að hún var miklu yngri en allir hinir í nýja skólanum sínum, sem olli mömmu hennar ómældum áhyggjum. Akkúrat núna var Þórkatla samt fegin að Arndís sín hafði verið svona þrjósk og barist fyrir að fá að hoppa yfir tvo bekki. Annars hefði hún verið í einni af rútunum sem hvarf.

Þórkatla elskaði ráðgátur. Og ef maður ætlaði að vera góður að leysa ráðgátur þurfti maður að taka eftir öllu. Vera duglegur að hugsa fram í tímann. Sjá alla möguleika fyrir sér. Það sama gilti um að vera lögga. Hún hafði verið lögregluþjónn á Reykjanesinu í meira en áratug en innst inni var hún eins og dóttir sín; hún hugsaði stórt. Þáverandi lögreglustjórinn, Baldvin, var orðinn mjög gamall og myndi sjálfsagt hætta hvað úr hverju. Og Þórkatla ætlaði sér að taka við af honum – sama hvað! Hún fór þess vegna í starfsleyfi, tók lögfræðina og kom til baka, sprenglærð og eini arftaki Baldvins gamla. Allt er gott sem endar vel – ekki satt?

Þórkötlu hafði alla ævi dreymt um ráðgátur. Og nú var hún svo sannarlega stödd í einni slíkri. En það var ekki eins gaman og hún hefði haldið.


Hún hleypur um ganga lögreglustöðvarinnar, kallar á unglinginn, opnar skápa, gáir undir sófa en finnur ekkert. Sæmundur lögregluþjónn er þarna einhvers staðar líka, á hlaupum fram og til baka.

„Sérðu eitthvað?“ kallar Þórkatla.

„Ekkert enn!“ er svarað í næsta herbergi. Þórkatla opnar dyrnar inn í bílskúr og tekur hring. Hér er heldur enginn.

Án þess að ráða við sig sparkar Þórkatla í skóflur sem hefur verið komið samviskusamlega fyrir í einu horninu. Þær falla til jarðar með látum. Hún felur andlitið í höndum sér. Hún veinar. Hvernig gat þetta gerst? Þetta var algjört klúður! Frá A til Ö!

Hún jafnar sig. Heldur áfram að leita.

Hann getur ekki hafa farið langt, hann hlýtur að vera hérna einhvers staðar!

Hún stígur aftur fram á gang um leið og beyglað píp bergmálar um stöðina. Hún veit hvað þetta er.

„Ég var að fá póst!“ kallar Sæmundur einhvers staðar í fjarska. „Frá skólastjóranum!“

Þórkatla dæsir. Það er þó allavega eitthvað. Hún röltir aftur til baka, passar sig að leita aftur inni í öllum herbergjum, en grípur sífellt í tómt. Hún hefur leitað alls staðar. Þetta gengur bara ekki upp.

Að lokum endar hún inni á kaffistofunni. Stendur yfir auðum stólnum þar sem unglingurinn sat rétt áðan og hristir höfuðið. Á skenk rétt hjá er fjarstýring og Þórkatla grípur hana. Reynir að kveikja á sjónvarpinu. Fær ekkert nema sand.

„Sjónvarpið er bilað!“ kallar hún pirruð til Sæmundar.

„Það er búið að vera svoleiðis í allan dag!“ kallar hann til baka. Hún skilar fjarstýringunni aftur á sinn stað og röltir að stórum glugganum í öðrum enda kaffistofunnar. Stendur við hann og horfir út.

„Veðrið á bara eftir að versna,“ tautar hún. „Bara eftir að versna...“

Og skyndilega grípur hún andann á lofti.

Hún fattar hvar hún á eftir að leita.

Úlpan hennar hangir á snaga. Þórkatla grípur hana og klæðir sig eins hratt og hún getur. Rennir alla leið upp í háls. Svo finnur húfu og skellir henni á höfuðið. Rúsínan í pylsuendanum er stórt vasaljós. Þórkatla opnar dyrnar að lögreglustöðinni.

Snjór æðir inn og vindurinn skellur í fangið á henni.

„Ég verð enga stund!“ kallar hún og stígur út.

„Lokaðu á eftir þér!“ kallar Sæmundur til baka.

Það sést ekki lengur á milli húsa.

Litlir skaflar hafa myndast hér og þar upp við stöðina og Þórkötlu grunar að þeir verði stærri eftir því sem líður á kvöldið. Hún heldur vasaljósinu beint fyrir framan sig. Ljósgeislinn sker í gegnum myrkrið og snjókornin eins og geislasverð. Ljósastaurarnir sem umkringja stöðina eru dauðir, ekkert nema hávaxnir skuggar í storminum. Það er gangstétt umhverfis stöðina og Þórkatla gerir sitt besta til að fylgja henni.

„Halló?“ kallar hún en eina svarið sem hún fær er öskrandi vindurinn. „Ertu hérna?!“

Hún heldur áfram. Eitt skref í einu. Einn skafl í einu. Fer fyrir horn og heldur áfram.

Veðrið er jafnvel enn verra hérna megin. Vindurinn bítur í kinnarnar. Hún kallar. Labbar. Lýsir. Leitar.

„Halló?!“ en enginn svarar.

Fer fyrir annað horn.

Og frýs.


Á jörðinni situr unglingurinn.

Hágrátandi.

Snjórinn í kringum hann, sem einu sinni hafði verið hvítur, er nú blóðrauður.

Unglingurinn heldur á einhverju. Í fyrstu trúir Þórkatla ekki sínum eigin augum og heldur að snjórinn og vindurinn og myrkrið séu að valda því að hún sjái einhverja vitleysu.

Unglingurinn heldur á fæti.

Og ekki hvaða fæti sem er; þetta er fóturinn á Hönnu lækni. Sem var alltaf erfið og pirrandi. Sem hafði skoðað unglinginn áðan. Sem hafði verið farin heim.

„Það kom eitthvað...“ hrópar unglingurinn og bendir skjálfandi út í myrkrið. „Hún var fyrir utan gluggann og ég sá eitthvað á bak við hana og ég hljóp út um bakdyrnar til að vara hana við en var of seinn. Það kom eitthvað! Það kom eitthvað og reif hana í sig!“

Foot.jpg
bottom of page