top of page
3. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 10:02
3.jpg

Andrúmsloftið í kringum lögreglustöðina er rafmagnað.

Það sem unglingurinn sagði kvisast út eins og eldur í sinu og á minna en mínútu hefur hvert einasta foreldri á svæðinu heyrt það.

Þórkatla lögreglustjóri reynir að róa alla niður, segir þeim að fara aftur heim til sín, hún þurfi að rannsaka þetta nánar, hún muni senda frá sér yfirlýsingu og setja inn á vefsíðu lögreglunnar um leið og hún veit eitthvað meira.

„Verið bara dugleg að ýta á „refresh“. Og björgunarsveitirnar munu svo að sjálfsögðu halda áfram að leita,“ hrópar hún yfir hópinn um leið og hún gefur Sæmundi lögregluþjóni merki um að fara með unglinginn inn á stöð, eins og skot! Foreldrarnir færa sig frá þegar þessir furðulegu félagar staulast í áttina að stöðinni og týnast svo einn af öðrum út í snjókomuna. Aftur heim. Einhverjir hafa nú þegar tekið upp síma og eru að reyna að hringja í krakkana sína. Enginn virðist svara.

Þórkatla horfir á eftir þeim. Hún veit að þetta verður langt kvöld og enn lengri nótt. Það eru ótalmargir hlutir sem hún veit að hún þarf að gera; hringja í skólann og fá lista yfir alla nemendurna sem voru í þessum blessuðu rútum, reyna að spjalla við unglinginn og komast að því hvað í ósköpunum gerðist, hella upp á nýjan skammt af kakói.

En fyrst verður hún að hringja í lækni.


Hálftími hefur liðið.

Unglingurinn hefur varla sagt nokkuð. Sama hvað Þórkatla reynir að ná sambandi við hann. Hann situr bara og starir.

„Allt í góðu hér,“ muldrar Hanna læknir og lýsir með litlu ljósi beint í augun á unglingnum. „Opnaðu munninn,“ bætir hún við og unglingurinn hlýðir. Hún tekur upp lítinn tunguspaða úr tré og rekur upp í hann. Unglingurinn kúgast örlítið. „Afsakaðu þetta,“ tautar Hanna læknir, en af tóninum að dæma að henni er alveg sama. Hún starir eitt andartak ofan í kokið á unglingnum, andvarpar, hendir spaðanum í ruslatunnu sem er við fæturna á henni og lítur svo á Þórkötlu lögreglustýru.

„Jæja?“ spyr Þórkatla. Hanna læknir yppir öxlum.

„Allt í góðu hér,“ segir hún, pínu pirruð. „Fyrir utan smá hálsbólgu, sýnist mér. Eitthvað smá rusl þarna ofan í.“ Hún bendir með hanskaklæddum vísifingri á unglinginn. „Og allt blóðið, auðvitað.“ Þórkatla hafði laumað blautum þvottapoka til unglingsins á meðan þau biðu eftir lækninum og hann hafði þrifið sig í framan.

Í ljós hafði komið fölt andlit á strák. Kannski í 9. bekk? Tíunda? Þórkatla var ekki alveg viss.

Fötin voru hins vegar enn blóðug. Hárið líka. Hnakkinn.

„Eru sár á þér? Ertu slasaður?“ spyr læknirinn. Unglingurinn starir út í loftið, nánast eins og hann heyri ekki í henni. „Hey!“ kallar læknirinn og smellir fingrum frekjulega fyrir framan nefið á unglingnum. „Sár?“ Unglingnum bregður, lítur á lækninn, virðist hafa heyrt en gleymt að svara og hristir svo höfuðið. Hanna læknir, sem er fræg fyrir að vera fínasti læknir en ekkert sérstaklega kurteis, hnussar lágt. „Fyrst þú segir það. Þetta blóð virðist hvort eð er vera gamalt. Og góðu fréttirnar eru þær að það kemur líklega ekki úr honum,“ heldur hún áfram.

„Og slæmu fréttirnar?“ spyr Þórkatla. Læknirinn lítur á hana með vandlætingarsvip.

„Hvað heldur þú?“ spyr hún snúðug til baka. Þórkatla heldur aftur af sér að henda ekki einhverju í Hönnu lækni. Það eina sem hún heldur á er kakóbolli og hún tímir honum ekki.

Þórkatla hefur oft þurft að vinna með Hönnu lækni og í hvert einasta skipti hefur henni þótt það bæði erfitt og pirrandi. Kvöldið í kvöld er engin undantekning.

„En fæturnir?“ spyr Þórkatla, bæði til að skipta um umræðuefni, en líka vegna þess að unglingurinn staulaðist berfættur í gegnum snjóinn til þeirra. „Allt í góðu þar?“ Hanna læknir beygir sig, virðir fæturna fyrir sér og réttir svo aftur úr sér.

„Hann hefur ekki rölt langt, það get ég sagt þér,“ rymur hún og grettir sig örlítið í framan þegar hún teygir úr sér. Þórkatla getur ekki annað en brosað. Þetta eru góðar fréttir. Það hlýtur að þýða að rúturnar séu einhvers staðar nálægt.

Er það ekki?

Læknirinn er að röfla eitthvað, en Þórkatla er of djúpt hugsi til að heyra það.

„Eruði ekki með sturtu hérna?“ endurtekur læknirinn, enn hærra og í þetta skiptið tekur Þórkatla eftir henni. Læknirinn lítur aftur á unglinginn. Unglingurinn lítur þreyttur og forvitinn á þær. „Að læknisráði mæli ég með sturtu. Og mat. Og,“ og hún bendir með hanskaklæddum fingri á bollann hennar Þórkötlu, „kakó.“


Annar hálftími hefur liðið.

Veðrið fyrir utan er orðið verra.

Unglingurinn hefur fengið að fara í sturtu inn í búningsherbergi lögreglunnar og fengið lánuð aukaföt sem Þórkatla fann einhvers staðar inni í geymslu. Þau eru öll of stór en það verður að duga í bili.

Þau sitja inni á kaffistofu við kassalaga eldhúsborð.

Unglingurinn öðru megin með kakóbolla við hlið sér. Sæmundur lögregluþjónn og Þórkatla lögreglustjóri hinum megin. Á milli þeirra hefur verið komið fyrir farsíma. Hann er stilltur á vídjóupptöku. Myndavélin snýr að unglingnum.

„Gott og vel,“ segir Þórkatla blíðlega. Þrátt fyrir það bregður unglingnum örlítið. Hún brosir. „Ekkert stress, bara spjall. Þetta er ekki yfirheyrsla, við viljum bara vita hvað gerðist.“ Unglingurinn kinkar stressaður kolli og teygir sig í kakóið. Þórkatla lítur á Sæmund.

Hans verkefni er einfalt; um leið og unglingurinn segir þeim nafnið sitt mun hann þjóta af stað, heyra í skólastjóranum úr skólanum sem horfnu krakkarnir tilheyra (Þórkötlu minnir að hann heiti Unnar) og fá hjá honum símanúmerið hjá foreldrum unglingsins.

„Byrjum þetta á auðveldri spurningu,“ segir Þórkatla. Unglingurinn fær sér kakósopa og grettir sig í framan þegar hann kyngir. „Hvað heitirðu?“ Unglingurinn opnar munninn til þess að svara. Sæmundur hallar sér fram. Þórkatla heldur niðri í sér andanum. Svo hættir unglingurinn við. Svo hættir hann við að hætta við. Svo gefst hann upp.

„Ég...“ byrjar hann titrandi röddu.

„Já?“ spyr Þórkatla. Unglingurinn grettir sig enn meira í framan, eins og það að hugsa sé sárt.

„Ég... ég man það ekki.“ Um leið og unglingurinn segir það er eins og hann sé að gera sér grein fyrir því á sama tíma. Á augabragði fyllast augun af tárum og hann lítur logandi hræddur á lögreglustjórann. „Hve- hvers vegna man ég það ekki?“ stamar hann. „Hvað er að mér?“ Þórkötlu langar mest að standa upp og knúsa hann, en heldur aftur af sér.

„Manstu eitthvað? Bara hvað sem er? Hvar þið voruð? Hvað gerðist?“

„Þú sagðir að allir væru dánir,“ skýtur Sæmundur inn í, til að reyna að hjálpa. „Hvað áttirðu við með því?“ Unglingurinn starir á hann, næstum eins og hann hafi ekki hugmynd um hvað lögregluþjónninn sé eiginlega að tala. „Varstu að tala um hina krakkana?“

 

Í eitt andartak enn virðist enginn vera heima í huga unglingsins. Svo hallar hann skyndilega undir flatt, eins og hann sé að hlusta á eitthvað í órafjarlægð. Eins og hann heyri tónlist í næsta herbergi og sé að reyna að greina hvaða lag sé verið að spila. Svo lítur hann á Þórkötlu. Augun eru galopin.

„Ég man hvað gerðist,“ segir hann titrandi röddu. Þórkatla hallar sér nær. Ýtir símanum örlítið nær unglingnum. Upptakan er enn í gangi.

„Og hvað var það sem gerðist?“ spyr hún lágt. Unglingurinn dregur djúpt að sér andann og Þórkatla sér að hann er farinn að skjálfa.

„Það kom að neðan...“ segir unglingurinn lágt.

,,Hvað kom að neðan?“ spyr Sæmundur forvitinn. Unglingurinn lítur undan og muldrar eitthvað svo fáránlegt að Sæmundur flissar næstum óvart. Þórkatla sparkar í hann undir borðinu og Sæmundur þarf að bíta í kinnina á sér til að kveinka sér ekki.

„Geturðu endurtekið þetta, takk?“ spyr Þórkatla, eins blíðlega og hún getur. „Fyrir upptökuna.“ Unglingurinn dregur djúpt að sér andann.

„Skrímslið,“ segir hann svo, hátt og snjallt. „Skrímslið kom að neðan. Undan gólfinu. Í öftustu rútunni. Og enginn tók eftir því fyrr en það var orðið of seint...“

yfirheyrsla_2.jpg
bottom of page