Pétur, Æsa, Halldór og Pawel virða umhverfið fyrir sér. Í um það bil 500 metra fjarlægð, við enda vegarins, blasir hún við þeim. Stór og glæsileg bygging: Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Krakkarnir hafa öll farið til útlanda áður og ótaloft farið hérna í gegn. Tjillað í fríhöfninni og fengið sér að borða. En það var í öðru lífi. Nú er, eins og einhver sagði, öldin önnur.
Úr þessari fjarlægð virðist allt vera með felldu í flugstöðinni. En því lengur sem krakkarnir horfa á bygginguna, þeim mun fleiri óþægilegum smáatriðum taka þau eftir.
Brotnum rúðum.
Rauðum skellum á hurðunum.
Það sést glitta í rútu sem virðist liggja á annarri hliðinni skammt frá aðalinnganginum.
Þetta er eins og að horfa á „Finndu fimm villur“-þraut. Í fyrstu virðast myndirnar tvær vera alveg eins. Smám saman fattarðu að þær gætu ekki verið ólíkari.
Halldór lítur upp í himininn og andvarpar.
Það er byrjað að dimma.
Gangan hingað hefur tekið langan tíma. Of langan tíma. En það var ekki að ástæðulausu. Krakkarnir höfðu ekki viljað fara of hratt yfir og pössuðu sig að skima stanslaust í allar áttir, ef ske kynni að eitthvað nálgaðist.
Góðu fréttirnar eru þær að ekkert hafði komið. Ekki einu sinni kind.
Slæmu fréttirnar eru þær að hægagangurinn þýðir að þau eru langt á eftir áætlun. Ef Halldór ætti að giska er klukkan örugglega farin að ganga sex. Jafnvel sjö.
Það þýðir tvennt; annað hvort verða þau að labba heim í myrkri eða gista hér í nótt.
Hvorugur kosturinn er girnilegur.
„Áfram gakk,“ hvíslar Halldór og gengur af stað. Hin elta.
Hvert og eitt þeirra er með heimagert vopn. Pawel skartar litlum flugbeittum kaststjörnum, sem hann festir með belti þvert yfir bringuna. Hann hafði búið þær til úr pottlokum. Fyrst hafði hann teiknað stjörnurnar á blað, svo lagði hann teikninguna ofan á hin ýmsu lok sem hann fann í eldhúsinu á bóndabænum, því næst tók hann stein og sargaði útlínur í gegnum teikninguna. Svo höfðu tekið við margar vikur af vinnu. Útkoman varð stórkostleg. Þessar stjörnur voru stórhættulegar.
Æsa er með gaddakylfuna sína. Flugbeittir naglarnir standa í allar áttir eins og illa greiddur haus. Það þorir aldrei neinn að vera nálægt Æsu þegar hún heldur á kylfunni, sama hversu oft hún lofar að fara varlega. Þess vegna rekur hún lestina.
Pétur er með boga og örvar. Hann er ekki hittinn með þetta annars ágæta vopn sem hann fann einhvers staðar á leið sinni að bóndabænum, en þetta er skárra en ekkert. Og áður en allt fór í rugl elskaði Pétur Lord of the Rings, þannig að þegar hann notar bogann líður honum eins og algjörum töffara, sem er frábært fyrir sjálfsálitið hans.
Og svo er það Halldór. Hann er með skrítnasta vopnið: „Sverð-prikið“ eins og hann kallar það. Sverð öðru megin, prik hinum megin.
„Þú veist aldrei í hverju þú gætir lent, sko,“ var Halldór vanur að segja. „Kannski þarftu sverð. Kannski þarftu prik. Ekki málið, ég er með bæði!“
Í gömlum taupoka, merktum búð sem er löngu farin á hausinn, eru krakkarnir svo með nokkra hluti til viðbótar sem þau ímynda sér að þau gætu hugsanlega þurft að nota. Þar má til dæmis finna hamar, skrúfjárn, vasaljós og meira að segja klifurgræju sem Arndís hafði búið til fyrir nokkrum vikum. Þetta er ekkert flókin græja, bara hrífuhaus festur með afar góðum hnút í kaðal, en eins og Halldór hafði sagt: „Þú veist aldrei í hverju þú gætir lent.“
Þau höfðu skipst á að halda á pokanum í dag. Á lokametrunum var komið að Pétri. Enn hafa þau samt ekki þurft að nota neitt af þessu. Uppvakningarnir eru hvergi sjáanlegir.
„Kannski mygluðu þeir allir?“ er kenning sem Æsa er búin að stinga allavega þrisvar upp á í dag. Strákarnir eru ekki vissir.
„Kannski eru þeir að bíða...“ er önnur kenning sem Pétur er sífellt að koma með.
„Þeir hljóta samt að mygla á endanum,“ reyndi Æsa að bæta við hana. „Þetta er ekkert flókið, ef við bíðum bara nógu lengi þá detta þeir í sundur og hverfa. Eins og svona molta.“
„Hvernig veist þú það?“ hafði Pétur spurt til baka. Æsa yppti bara öxlum.
Þau læðast eftir veginum. Það eru bílaleigubílar alls staðar, ýmist á hvolfi eða hálfir út af. Rúðurnar subbulegar og brotnar.
„Þau voru að reyna að flýja,“ segir Pawel lágt og lagar heyrnartólin sín. Hann er búinn að svitna svo mikið á göngunni að þau vilja helst bara renna af eyrunum. Pétur fylgist forvitinn með.
„Viltu ekki taka þau af þér, litli gaur?“ spyr hann. „Betur heyra eyru en eyra.“ Pétur hugsar sig um. „Eða eitthvað svoleiðis.“ Pawel hristir höfuðið.
„Nei, takk,“ svarar hann og heldur göngunni áfram.
Flugstöðin nálgast með hverju skrefinu.
Spennuhnútur er mættur á svæðið í hverjum einasta maga.
Í bílaleigubíl skammt frá hreyfist eitthvað.
Við hlið flugstöðvarinnar má sjá stóra tjörn. Í henni miðri er mikil grjóthrúga og ofan á henni trónir glæsilegt listaverk; gríðarstórt egg úr málmi. Það hallar örlítið. Toppurinn á egginu er brotinn og flatur. Upp úr honum teygir sig svo trjóna þotu, næstum eins og goggur að gægjast. Venjulega er tjörnin upplýst, en ljósin virðast vera eitthvað biluð. Þau flökta.
„Ég var alltaf pínu hrædd við þetta þegar ég var lítil,“ tautar Æsa lágt og nikkar með höfðinu í áttina að listaverkinu. Halldór hlær. Æsa kemur sjálfri sér á óvart með því að láta það ekki fara í taugarnar á sér.
„Það er ekkert,“ segir Halldór og glottir. „Ég var hræddur við Strumpana.“ Æsa á ekki til orð.
„Strumpana?“
„Hvað?“ spyr Halldór hissa. „Þeir eru mega krípí. Svo margir og alltaf syngjandi og...“ Þau ná ekki að halda áfram að rökræða þetta. Pétur veður inn í samtalið.
„Eigum við að fara inn um aðalinnganginn eða til hliðar?“ spyr hann. Halldór opnar munninn til þess að segja þeim að aðalinngangurinn sé klárlega málið, en lokar honum jafnharðan aftur.
Þau sjá loksins almennilega í framhlið flugstöðvarinnar. Búið er að byrgja dyrnar að aðalinnganum. Að utan með gaddavír. Að innan með töskum. Það er kannski ekkert sniðugt að vera að reyna að brjótast í gegnum þetta. Þau gætu fest sig í gaddavírnum og jafnvel þótt þau kæmust í gegnum hann gætu töskurnar dottið og lætin ómað um allt.
„Einn af hliðarinngöngunum,“ hvíslar Halldór. „Komiði.“
Þau taka stóran sveig fram hjá byggingunni og enda loks hjá löngum, glærum göngum sem liggja beint að einum af mörgum hliðarinngöngum flugstöðvarinnar.
Við enda þeirra má sjá dyr. Það er gaddavír í kringum þær, en ekki fyrir framan. Að innan er gatan greið. Engar töskur.
„Varlega,“ hvíslar Halldór og grípur um sverð-prikið. „Varlega...“
Krakkarnir læðast inn í göngin.
Þau reyna að stíga létt til jarðar en fótatakið bergmálar samt.
Halldór er fremstur. Svo Pétur. Því næst Æsa.
Pawel er aftastur. Hann gengur örlítið hægar en hinir, lítur í kringum sig og brosir. Hann man eftir því að hafa labbað þessi göng með foreldrum sínum og Joönnu síðast þegar þau fóru til Póllands. Hvenær hafði það aftur verið? Fyrir tveimur árum? Þremur? Hann man allavega að takk-takk-takk-takk-hljóðið í töskunum þegar þau drógu þær hratt eftir jörðinni hafði verið skemmtilega taktfast.
Næstum eins og tónlist.
Eftir því sem krakkarnir nálgast innganginn hægja þau á sér. Dyrnar sem blasa við þeim eru úr gleri og á þeim miðjum má sjá dökkbrúnt handafar, sem einu sinni hafði verið blóðrautt.
„Úff...“ stynur Pétur. Hin þegja.
Krakkarnir skima í kringum sig. Göngin enda rétt fyrir framan dyrnar. Síðustu metrarnir hafa verið málaðir í regnbogalitum. Pawel tekur eftir því og kinkar kolli sáttur.
„Verðum að muna að segja Ragnari frá þessu,“ segir hann og nikkar í átt að litríkri götunni. Æsa brosir með sjálfri sér.
Skyndilega heyrist hátt hviss-hljóð og allir krakkarnir öskra. Án þess að fatta það eru öll vopn komin á loft. Öll hjörtu slá helmingi hraðar. Allavega tveir strákar veina.
Það er Pawel sem er fyrstur að fatta. Hann lætur kaststjörnurnar síga og bendir á dyrnar.
„Opnast sjálfkrafa,“ segir hann og brosir út í annað. „Þær opnuðust því við vorum komin svo nálægt.“ Krakkarnir stara á opna gættina. Þetta er rétt hjá honum. Hér er ekkert að óttast.
Súr fýla innan úr flugstöðinni flæðir smám saman á móti þeim og Pétur kúgast örlítið. Halldór líka. Og eins og til að staðfesta það sem Pawel hafði verið að segja lokast dyrnar skyndilega aftur, með háu hviss-hljóði. Þeim bregður öllum aftur, nema í þetta skiptið er það allt í lagi.
Æsa byrjar að hlæja. Pétur líka. Halldór hristir höfðið og brosir allan hringinn. Pawel sömuleiðis. Og einhver öskrar.
Krakkarnir snúa sér öll leiftursnöggt við.
Í hinum enda ganganna, þar sem þau höfðu staðið fyrir um það bil tveimur mínútum, stendur uppvakningur. Hann hallar undir flatt, næstum eins og hann sé að reyna að ákveða sig hvað hann eigi að gera. Svart slím lekur út um augu og munn, mun dekkra en krakkarnir eru vön að sjá á uppvakningum. Fötin eru rifin og tætt. Þar sem maginn ætti að vera er ekkert nema dökkt sull.
„Ég held að Æsa hafi rétt fyrir sér,“ nær Pétur að hugsa áður en allt verður einhvern veginn miklu verra. „Ég held þeir séu að mygla...“
Svo er eins og skrímslið hafi gert upp heilalausan hug sinn.
Uppvakningurinn hleypur af stað.