

Einhver reif í Ragnar.
Hann rankaði við sér.
Ósjálfrátt lamdi hann út í loftið, gersamlega skelfingu lostinn. Einhver greip um höndina og hélt henni fastri. Ragnar opnaði munninn til þess að öskra en lófi var lagður þétt yfir varir hans.
„Uss!“ hvæsti einhver og þótt að Ragnar væri logandi hræddur var hann samt nógu skýr í kollinum til að hlýða. Hann lokaði munninum og opnaði þess í stað augun.
Í fyrstu sá hann bara grátt.
Svo fattaði hann að hann var að horfa upp í himininn. Það var snjókoma og hvasst. Og kalt. Hann lá á bakinu í snjó. Sitt hvorum megin við hann var svo enn meiri snjór, næstum eins og hann hefði ákveðið að leggja sig milli tveggja skafla.
„Hvað gerðist?“ hugsaði hann. „Hvar er ég?“
„Ekki orð,“ var hvíslað og eigandi handarinnar sem lá yfir munninn á honum sleppti takinu. Ragnar kinkaði kolli og lá grafkyrr. Nú þegar augu hans höfðu vanist grámanum sá hann að hann var ekki einn á ferð; útundan sér glitti í fleiri krakka. Hann þorði bara ekki að hreyfa höfuðið til að gá hverjir þetta voru.
Í fjarska heyrði hann eitthvað.
Það tók hann andartak að gera sér almennilega grein fyrir því hvaða hljóð þetta var. Svo fattaði hann það.
Stunur.
Fjölmargar, holar og emjandi stunur.
Og skyndilega mundi Ragnar allt.
Skólaferðalagið. Rútan. Kötturinn.
Og blóðið.
Og skrímslin.
Hann ætlaði að setjast upp en aftur var gripið í hann.
„Uss,“ var hvíslað, enn lægra í þetta skiptið. „Þau sjá okkur ekki.“ Hann kinkaði kolli.
Varlega sneri Ragnar sér yfir á magann og tók um leið eftir því að hann var ekki á milli tveggja skafla.
Hann var ofan í djúpum skurði.
Honum var illt í enninu og þegar hann bar fingurna upp að seyðandi verknum mætti honum risastór kúla. Hann kveinkaði sér lágt og kippti höndinni aftur frá höfðinu. Hann leit varlega til hægri og sá þar Meistarann og lávaxna gaurinn með gleraugun úr 8. bekk hjúfra sig eins djúpt ofan í jörðina og þeir gátu. Hann leit til vinstri. Þar lá Natalia, handboltastelpan úr 10. bekk sem hafði óvart hent skó í hnakkann á Braga náttúrufræðikennara rétt áðan. Það var hún sem hafði haldið Ragnari niðri.
Augu hennar fundu hans og hún bar vísifingur hægt upp að vörunum. Svo benti hún á skurðbarminn. Ragnar vissi hvað hún meinti. Ofurvarlega gægðist hann upp.
Skurðurinn sem krakkarnir höfðu leitað skjóls í var í um það bil 10 metra fjarlægð frá þjóðveginum. Misháir snjóskaflar og dauð strá földu kollinn á Ragnari þar sem hann leit forviða í kringum sig.
Rútan lá á hliðinni, hinum megin við veginn. Það rauk úr henni. Ragnar sá að afturrúðan sem þau höfðu verið að berja á hafði greinilega brotnað þegar hún valt. Sama gilti um flesta hina gluggana.
Á þjóðveginum stóðu krakkarnir sem höfðu verið í rútunni. Bekkjarsystkini, skólasystkini og vinir. Úr fjarlægð litu þau út eins og þau væru að taka þátt í Skrekks-atriði sem væri enn ekki byrjað; öll á sínum stað, tilbúin að byrja að dansa um leið og tónlist myndi fara að óma eða einhver myndi segja vel valda setningu.
En ef þú komst nær sástu að það var eitthvað mikið að þeim. Þau voru alblóðug. Munnarnir opnir. Húðin rifin og tætt. Sár alls staðar. Augun sjálflýsandi. Síversnandi veðrið virtist ekki hafa nein áhrif á þau. Þau stóðu hér og þar um veginn, slefandi svörtu slími, næstum eins og þau væru að bíða eftir einhverju. Nokkur þeirra voru þó örlítið hressari en þessi stjörfu; rétt við rútuna lá einhver. Allavega fjögur skólasystkini virtust vera að gæða sér á honum. Smjattið heyrðist alla leið til Ragnars.
Innan úr rútunni ómuðu skyndilega stunur og vein. Hendur og fætur skvettust inn og út um brotna gluggana og Ragnar grunaði, með miklum hryllingi, að þetta væru krakkarnir sem voru orðnir að skrímslum en enn föst í beltunum sínum.
„Þetta er bara hluti af þeim,“ hugsaði Ragnar. „Við vorum mun fleiri í rútunni. Hvar eru allir hinir?“
Hann lét sig aftur síga ofan í skurðinn.
Hjartað í honum sló svo hratt að honum fannst það vera að springa.
„Hvað gerðist?!“ hvíslaði hann að Nataliu.
„Þú skallaðir sæti þegar rútan fór útaf,“ hvíslaði hún á móti. „Rotaðist. Við rétt náðum að draga þig út og hlaupa í skjól áður en uppvakningarnir tóku yfir allt.“ Ragnar starði á Nataliu.
„Uppvakningar?“ spurði hann og fór næstum að flissa. „Uppvakningar?!“ Hún kinkaði kolli og fannst ekkert fyndið við þetta.
„Hvað myndir þú kalla þá?“ Hann hugsaði sig um. „Einmitt,“ skaut hún á hann, pínu pirruð. Áður en Ragnar náði að segja eitthvað meira hafði Natalia litið til hliðar og gripið eitthvað sem lá í snjónum við hlið hennar. Þetta var úlpa.
„Ég rétt náði að grípa hana í öllum látunum,“ sagði Natalia. „Farðu í þetta svo þú frjósir ekki.“ Ragnar tók við úlpunni og var um það bil að fara að klæða sig í hana þegar lág rödd heyrðist á bak við hann.
„Hey.“ Hann leit um öxl. Þetta var áttundu bekkingurinn með gleraugun.
„Hvað?“ spurði Natalia lágt. Áttundu bekkingurinn notaði olnbogana til að skríða til þeirra eftir ísköldum skurðbotninum, eins og hann væri að leika hermann í bíómynd. Meistarinn var enn á sínum stað skammt frá þeim. Hann starði út í loftið, enn í sjokki.
„Við getum ekki verið hér endalaust,“ hvíslaði áttundubekkingurinn. „Þau munu byrja að ráfa og finna okkur.“
„Hvað eigum við þá að gera, Jan?“ hvæsti Natalia til baka. „Það er ekki eins og við getum húkkað far!“ Jan ranghvolfdi í sér augunum og dæsti.
„Við getum skriðið,“ sagði hann loks, „eftir skurðinum. Hann nær heillangt í báðar áttir. Komist lengra frá þeim.“ Natalia opnaði munninn til að mótmæla en hætti svo við. Þetta var alls ekki svo galin hugmynd.
„Kannski er bóndabær nálægt, þar sem við getum leitað skjóls,“ tautaði hún hugsi og Jan kinkaði kolli brosandi.
„Nefnilega! Það er allt morandi í þeim hérna!“
„Ö... krakkar...“ hvíslaði Meistarinn skyndilega, en enginn var að hlusta. Þau voru of spennt að skipuleggja svakalegan flótta.
„Við nýtum veðrið,“ sagði Ragnar spenntur. „Þeir heyra pottþétt ekki í okkur út af vindinum.“ Jan var sammála.
„Skríðum með vindi svo lyktin af okkur berist ekki til þeirra.“ Natalia kinkaði kolli.
„Einföld röð, sækjum fram, leitum skjóls, ekkert mál.“ Hún glotti og svipurinn var smitandi.
„Krakkar...“ hvíslaði Meistarinn aftur, hærra í þetta skiptið.
„Þú fremst?“ spurði Ragnar og Natalia kinkaði kolli.
„Ég fremst. Þú aftast?“ Hann kinkaði kolli.
„Algerlega.“ Svo leit hann um öxl, tilbúinn að gefa Meistaranum merki að koma til þeirra.
En Meistarinn var ekki að fara neitt.
Ofan í skurðinum, kannski um tuttugu metra frá Meistarnum, stóð kötturinn.
Eða það sem eftir var af honum.
Feldurinn var nú nánast alveg farinn af. Maðkétið holdið belgdist út í graftarkýlum hér og þar. Augun virtust vera orðin enn stærri. Tönnunum hafði fjölgað. Klærnar voru nú svo stórar og breiðar að þær héldu kettinum uppi, eins og hann stæði á margföldum og beinhvítum stultum.
Hann hvæsti.
Og stökk af stað.
Ragnar hugsaði ekki. Ef hann hefði gert það hefði hann örugglega hætt við.
Hann bara hljóp af stað, beygður í baki svo uppvakningarnir á þjóðveginum myndu ekki sjá hann og greip þéttingsfast um báðar ermar úlpunnar, sem hann var enn ekki búinn að klæða sig í.
Meistarinn byrjaði að bakka í snjónum á fjórum fótum eins og óður, enn hálfsitjandi. Kötturinn var samt sneggri. Miklu sneggri. Ófétið, sem var núna eins og einhvers konar viðbjóðsleg snjókönguló, myndi ná honum á augabragði.
„Hjálp!“ hvísl-veinaði Meistarinn og það var svo sannarlega það sem Ragnar ætlaði sér að gera. En hann yrði að vera snöggur. Og heppinn.
Hann hélt um úlpuna.
Meistarinn bakkaði.
Kötturinn hljóp.
Ragnar hljóp á móti.
Þegar það voru minna en þrír metrar á milli kattarins og Meistarans hafði skrímslið fengið nóg af þessu. Ófétið undir sig stökk og í fullkomnum boga, eins og bara kettir geta myndað, setti hann stefnuna á Meistarann.
En Ragnar varð fyrri til.
„Frá!“ veinaði hann um leið og hann henti sér á milli Meistarans og kattarins með opinn faðminn.
Fullkomni bogi kattarins endaði á fullkomnum stað; í miðri úlpunni. Áður en dýrið gat brugðist við, áður en dýrið gat byrjað að klóra og bíta, greip Ragnar um báðar ermarnar eins fast og hann gat, lokaði úlpunni eins vel og hann gat, stóð á fætur og sveiflaði henni í einn hring í kringum sig eins hratt og hann gat.
Svo sleppti hann takinu.
Úlpan, með kettinum innanborðs, flaug – í fullkomnum boga – upp úr skurðinum og lenti með látum í snjónum, miðja vegu milli malbiksins og skurðarins.
Kötturinn, sem var hálfmyglaður fyrir, sprakk.
Úlpan opnaðist og blóð og garnir og augu og tennur, ásamt iðandi möðkum og gulum greftri skvettist í allar áttir, eins og ristastórt „ÞAU ERU HÉR!“-skilti.
Uppvakningarnir þurftu ekki að láta segja sér það tvisvar.
Þeir vöknuðu úr sinni endalausu störu, veinuðu og hlupu af stað. Ragnar stóð enn teinréttur í skurðinum eftir kastið góða og var með fullkomið sjónarhorn á hryllinginn sem nú vissi nákvæmlega hvar þau voru. Krakkarnir myndu aldrei sleppa lifandi. Skrímslin myndu ná þeim og tæta þau í sig.
Hann lokaði augunum og vonaði að þetta myndi taka fljótt af.
Skyndilega heyrði hann eitthvað.
Hann þekkti hljóðið um leið.
Þetta var flauta.
Bílflauta!
Ragnar opnaði augun aftur og starði agndofa á risastóran jeppa koma keyrandi á fullri ferð niður eftir þjóðveginum. Einhver lá á flautunni og athygli uppvakninganna fór umsvifalaust frá skurðinum og að bílnum.
Eins og yndisleg hakkavél brunaði jeppinn yfir allavega sjö þeirra áður en hann bremsaði með látum.
Dyrnar að aftan opnuðust upp á gátt.
Í sætinu sat Klara.
Hún teygði höndina á móti krökkunum.
„Inn í bílinn!“ veinaði hún. „Núna!“
