top of page
8. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 07:33
8.jpg

„Hvernig getur þetta verið?! Hvernig getur hann bara étið hina og stækkað?!“ Pétur og Æsa komast ekki lengra. Þau hafa flúið eins langt út á enda listaverksins eins og þau geta. Málmgoggurinn sem gægist út úr egginu er ekki breiður en þau ná samt að sitja klofvega á honum. Það má þó ekki miklu muna. Vindhviða gæti velt þeim um koll, svo lélegt er jafnvægið þeirra. „Hvernig?!“ heldur Æsa forviða áfram.

Pétur hristir höfuðið.

Hann hefur engin svör.

Uppvakningurinn, nú mun stærri en bara rétt áðan, hleypur upp grjótið sem eggið hvílir á, eins og hann sé þaulvanur íþróttamaður. Hendir sér á listaverkið, teygir sig örlítið og nær taki á brúninni um leið. Hér þarf svo sannarlega enga klifurgræju.

„Nei, nei, nei!“ veinar Æsa og reynir að sveifla gaddakylfunni sinni með annarri á meðan hún heldur um málmgogginn með hinni. Pétur teygir sig í bogann sinn og örvarnar eins hratt og hann getur.

Miðar.

Skýtur.

Örin hittir beint í hendi uppvakningsins um leið og hún grípur um brúnina. Ófétið missir takið eitt andartak og hrinur aftur til jarðar.

„Jess!“ fagnar Pétur og dettur næstum sjálfur niður.

„Varlega!“ hvæsir Æsa. „Vel gert,“ bætir hún svo við.

Uppvakningurinn lætur þetta þó ekki á sig fá. Hann kastar sér aftur á eggið, skríður upp eftir því eins og ógeðsleg padda og þegar Pétur reynir aftur að skjóta í hann smeygir kvikindið sér listilega undan örinni.

Svo tekur hann þéttingsfast um eggbrúnina með báðum höndum og hendir sér yfir hana.

Stendur á fætur, á listaverkinu miðju.

Og finnur krakkana um leið.

Augun eru sjálflýsandi. Munnurinn opinn. Æðarnar kolsvartar. Og svo, eins og til að gera þetta enn hræðilegra, tekur skrímslið smá kipp. Dettur næstum fram fyrir sig. Rembist. Krakkarnir líta hvort á annað og svo aftur á uppvakninginn. Furðulegt hljóð heyrist. Eins og blanda af lágu veini og einhverju að rifna. Magi uppvakningsins byrjar skyndilega að iða. Ganga upp og niður í bylgjum. Teygjast og tosast til og frá. Og skyndilega er eins og eitthvað taki í húðina.

Að innan.
 

Pétur gubbar örlítið en nær að kyngja því.

Æsa getur ekki hætt að horfa.

Tvö auka-höfuð naga sér skyndilega leið út um magann á uppvakningnum. Svart slím rennur niður eftir skrímslinu, sem virðist láta þetta furðulega lítið trufla sig.

Krakkarnir stara á viðbjóðinn. Þó að hausarnir séu þaktir slími og þörmum og öðrum hræðilegheitum þekkja þau andlitin um leið. Þau hafa starað á krakkana í alla nótt.

Þetta eru uppvakningarnir sem sá stóri át rétt áðan.

„Ég held við þurfum ekkert lengur að leita að mat,“ hvíslar Pétur. „Ég hef misst alla lyst. Að eilífu, sko.“

Hausarnir glefsa út í loftið og orga.

Uppvakningurinn beygir sig í hnjánum. Tilbúinn að stökkva af stað. Pétur snýr sér varlega að Æsu.

„Eigum við?“ hvíslar hann. Hún lítur til jarðar og svo aftur á hann.

„Ekki séns,“ hvíslar hún til baka. „Við eigum eftir að fótbrotna.“ Pétur yppir öxlum.

„Það er samt skárra en,“ og hann nikkar með höfðinu í áttina að skrímslinu, „þetta!“ Þau hafa ekki tíma til að rökræða þetta nánar. Uppvakningurinn veinar og -

Skyndilega stoppar hann.

Allir hausarnir þrír halla undir flatt. Hlusta. Pétur lítur á Æsu sem lítur aftur á skrímslið. Hvað gerðist eiginlega?

En allt í einu heyra krakkarnir það líka.

Furðulegt hljóð sem ómar í fjarska.

„Hvað er þetta?“ hvíslar Æsa.

Hljóðið heldur áfram. Hátt og skerandi. Skrímslið snýr sér nú alveg við og lítur í áttina að látunum. Krakkarnir sömuleiðis.

„Þetta er...“ byrjar Pétur og getur varla hamið brosið, „þetta er bíll!“ Það er rétt hjá honum. Eftir veginum sem liggur að flugstöðinni kemur brunandi stór sendiferðabíll. Hann er á fullri ferð og hægir ekki einu sinni á sér í beygjunum. Flautunni er haldið inni og það er greinilegt að bíllinn stefnir í áttina að listaverkinu.

Uppvakningurinn orgar ægilega.

„Hvað eigum við að gera?!“ veinar Æsa.


Sendiferðabíllinn er kominn eins nálægt og hann getur. Með háu skransi bremsar hann á veginum rétt hjá þeim. Umsvifalaust opnast allar dyr. Út stökkva Meistarinn, Klara, Ragnar, Joanna, Natalia og Arndís. Æsa og Pétur eiga ekki til orð.

Uppvakningurinn tryllist úr spenningi.

Síðastur út úr bílnum er álkulegur sköllóttur maður með yfirvaraskegg. Hann heldur á einhverju í fanginu. Þetta virðist vera dökkur kassi í þyngri kantinum. Á hann hafa verið stungin nokkur göt.

Maðurinn lítur á krakkana og kinkar kolli.

Umsvifalaust byrja þau öll að hrópa og veifa.

Uppvakningurinn verður enn spenntari. Dettur næstum fram fyrir sig. Nær jafnvægi. Urrar lágt. Lítur um öxl og virðir Æsu og Pétur fyrir sér. Annar magahausinn gægist líka og Pétur nær óvart augnsambandi við hann. Hausinn brosir blítt. Það er hræðilegt.

Svo tekur uppvakningurinn ákvörðun.

Hann veinar ægilega. Hausarnir í maganum líka. Svart slím slettist í allar áttir. Svo stekkur hann niður af egginu og lendir jafnfætis í tjörninni.

Samstundis hætta hinir krakkarnir að hrópa. Eins og þetta hafi verið þaulæft. Þau líta nú öll á sköllótta manninn með yfirvaraskeggið, sem tekur stórt skref í áttina að tjörninni.

Hann heldur enn á furðulega kassanum.

Og áður en Æsa og Pétur ná að segja nokkuð hefur þessi furðulegi maður kastað svarta kassanum, með báðum höndum í fullkomnum boga, beina leið í átt að tjörninni.


Það er ekki fyrr en Pétur sér kassann flökta í ljósunum sem umkringja tjörnina að hann fattar hvað þessi kassi er. Hann sá svona dæmi stundum ofan í húddinu á bílnum hjá afa sínum í gamla daga.

Þetta er svona bílabatterí.

Rafgeymir.

Pétur veit ekki mikið um bíla en hann er nokkuð viss um að svoleiðis græja eigi sko alls ekki að lenda í vatni. Hvað þá þegar búið er að stinga göt á hana.

„Haldið fyrir eyru og augu!“ veinar sköllótti maðurinn með yfirvaraskeggið rámri röddu. Æsa og Pétur líta hvort á annað. Það er ekki beint í boði. Þau þurfa allavega eina, ef ekki báðar hendur, til að halda sér í listaverkið.

Rafgeymirinn lendir á bólakafi í tjörninni, rétt við fætur risa-uppvakningsins.

Skrímslið lætur það þó ekki trufla sig.

Það hleypur af stað.

Rafgeymirinn springur.

bottom of page