top of page

ERTU MEÐ SPURNINGU FYRIR ÆVAR EÐA ARA?

SENDU OKKUR PÓST Á SKOLASLIT@GMAIL.COM FYRIR 18. OKTÓBER

OG VIÐ SVÖRUM ÞEIM Í VÍDJÓI.

12. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 11:43

„Velkomin, hm?“ hrópar Þjálfarinn.

Hann stendur uppi á sviði í stórum sal sem krakkarnir kannast vel við.

Klöru finnst meira að segja í smá stund að þetta hljóti að vera eitthvað grín. Því þetta getur varla verið satt:

Þau eru stödd í íþróttasalnum í skólanum þeirra.

Þjálfarinn dansar spenntur um sviðið við dynjandi lófaklapp. Hann brosir og hlær og veifar. Íþróttasalurinn er fullur af fólki. Krakkarnir sitja fremst á vel uppröðuðum stólum, alveg við sviðið. Þeim líður eins og þeim sé að dreyma. Eftir marga mánuði af nánast engum mat og stöðugum ótta eru þau nú stödd í gamla skólanum sínum, umkringd fullorðnu fólki, næstum eins og ekkert sé eðlilegra.

„Gefum nýjustu íbúunum okkar gott klapp!“ hrópar Þjálfarinn og bendir á krakkana. Fagnaðarlætin eru gríðarleg og Pawel lagar heyrnartólin sín til að reyna að minnka lætin. Þjálfarinn veifar hlæjandi til fólksins að róa sig, sem það gerir að lokum.

Hann brosir.

„Nú eru þið vafalaust algerlega forviða að vera komin aftur hingað, hm?“ Krakkarnir kinka kolli. Einhverjir fyrir aftan þau hlæja. Æsa snýr sér ósjálfrátt við, reiðubúin að senda öllum sem vilja fingurinn. Þjálfarinn bíður þolinmóður eftir svari.

„Smá, já,“ svarar Arndís loks. Hún lítur á hina krakkana til að athuga hvort það hafi ekki örugglega verið í lagi að hún svaraði. Allir virðast sáttir við það. Nema Halldór. Hann horfir á hana og er furðulegur á svipinn. Hvað er eiginlega málið? Hún hefur ekki tíma til að spá í það.

„Sem ég skil vel,“ syngur Þjálfarinn. „En því var nú samt lofað, ekki satt, hm?" Kennarinn situr á stól skammt við sviðið.

„Satt og rétt,“ tilkynnir hún sátt.

„Þið voruð vissulega með ágætis fyrirkomulag heima hjá ykkur, hm?“ heldur Þjálfarinn áfram, „en það er ekkert miðað við það sem við höfum búið til hér í miðjum Reykjanesbæ!“

Allir klappa.

Hann heldur stoltur áfram.

„Varnargarður. Búinn til af okkur fullorðna fólkinu. Skipulagður af okkur í Foreldrafélaginu. Hannaður af Verkfræðingnum, steyptur af Verkamanninum, varinn með rafmagni frá Rafvirkjanum og svona mætti lengi telja. Gríðarstór hávaxinn hringlega veggur, þar sem ekkert kemst inn!“

„En út?“ baunar Meistarinn til baka. Þjálfarinn hlær.

„Það er grallaraspói um borð!“ og allt fullorðna fólkið slær sér á lær af einskærri kæti. Þjálfarinn lætur þessi saklausu frammíköll þó ekki á sig fá. „Við höfum allt sem þarf hér hjá Foreldrafélaginu til að halda eðlilegu samfélagi gangandi. Meira að segja íþróttahöllina okkar! Enda fátt mikilvægara en hraust sál í hraustum líkama!“ Hann gefur sjálfum sér fimmu og brosir.

Krakkarnir vilja varla viðurkenna það, en brosið er smitandi.

Þjálfarinn dregur djúpt að sér andann, horfir yfir salinn og kinktar stoltur kolli.

„Standið upp krakkar. Bara andartak.“ Þau líta hvort á annað og hlýða svo. Þjálfarinn bendir á fólkið fyrir aftan þau. „Þetta eru allir meðlimir Foreldrafélagsins. Þau voru svo spennt að sjá ykkur að þau mættu öll.“ Krakkarnir stara framan í örugglega hundað fullorðin andlit sem brosa spennt til baka. Þetta er skrítið, en þetta er samt skárra en bóndabærinn.

„Þetta er nú bara eitt af því sem við gerum: Björgum börnum. Enda verk Foreldrafélagains mörg og mismunandi, hm?“

Krakkarnir kinka kolli til fólksins til að þakka fyrir sig.

„Jæja!“ segir Þjálfarinn spenntur og klappar saman höndunum. Krakkarnir líta aftur á hann „Hverjir vilja vöfflur, hm?“ Þau eiga ekki til orð.

„Eru vöfflur?!“ missir Meistarinn aðeins of spenntur út úr sér.


Það er komið kvöld.

Krökkunum hefur verið úthlutað sameiginlegt herbergi sem var líklega einhvern tímann stór skrifstofa. Það eru dýnur á gólfinu, einhver skrifborð og stólar hér og þar. Stór gluggi þannig að þau geta horft út á göturnar í kring.

„Ég hélt ég myndi aldrei koma hingað aftur...“ tautar Arndís og dæsir. Í fjarska sér hún glitta í það sem einu sinni var lögreglustöðin. Í eitt andartak leyfir hún sér að sakna mömmu sinnar. En bara í örfáar sekúndur.

Annað væri of mikið.

Handan lögreglustöðvarinnar sér hún í háan varnargarðinn. Þetta er svakalegt mannvirki.

Á hverri dýnu er sæng og koddi. Engin af rúmfötunum eru eins, eins og þau hafi verið fengið lánuð frá mörgum mismunandi heimilum. Sem er pottþétt raunin.

„Ótrúlegt að þau hafi bara náð að byggja þetta,“ tautar Meistarinn og dæsir. Arndís kinkar kolli.

„Ótrúlegt er rétta orðið,“ segir hún og lagar gleraugun á nefinu. Það er eriftt fyrir þau að tolla á réttum stað út af leppnum. Meistarinn fylgist með henni.

„Hvenær ætlarðu eiginlega að segja okkur hvað gerðist?“ spyr hann. Arndís lítur undan og svarar ekki. Meistarinn lyftir báðum höndum í uppgjöf. „Sorrý,“ segir hann og meinar það. „Ég var bara forvitinn.“ Arndís þegir.

„Hérna...“ heyrist allt í einu sagt. Það er Halldór. Hann stendur í miðju herberginu. Pawel er við hlið hans. Arndís lítur forvitin á þá. Þeir hafa báðir verið pínu skrítnir síðan þau björguðu þeim úr flugstöðinni. Sérstaklega Halldór. Krakkarnir, sumir hverjir komnir undir sæng, líta á strákana.

„Hvað?“ spyr Joanna áhyggjufull. „Allt í góðu?“ Pawel kinkar kolli.

„Við þurfum að biðja ykkur um eitt,“ segir hann og sest á gólfið. Halldór hermir. Meistarinn, enn við gluggann, flissar hátt en enginn tekur undir.

„Hvað?“ spyr Joanna aftur.

„Ömmm... Við þurfum að biðja ykkur um að setjast hérna með okkur í hring,“ segir Halldór vandræðalegur á svip. „Svo eigði að loka augunum. Og... og hlusta.“

Krakkarnir hlýða.

Halldór talar. Hann segir þeim frá því þegar hann flaug á höfuðið í flugstöðinni. Hvað honum fannst aðstæðurnar skyndilega kunnuglegar. Að honum hafi byrjað að líða eins og þetta hefði gerst áður. Pawel tekur við. Segir þeim að um leið og hann hafi heyrt Halldór tala hafi hann líka byrjað að muna eitthvað.

„Og ég sé...“ segir hann og virðir vini sína fyrir sér, „að nú eru einhver ykkar byrjuð að gera það líka.“ Og það er rétt hjá honum. Joanna starir á gólfið og hreyfir varirnar án þess að taka eftir því. Arndís er furðuleg á svipinn. Hún lítur á Halldór, sem kinkar kolli.

„Ég skellti á þig,“ segir hún lágt. ,,Ég lokaði þig úti." Hún skilur núna hvers vegna hann hafði horft svona furðulega á hana áðan. Halldór dæsir.

„Ekkert mál.“

Eitt af öðru byrja þau að muna. Eins og uppvakningafaraldur smitast minningarnar á milli þeirra. Þau skiptast á að rifja upp og segja hvað gerðist. En þegar kemur að Ragnari, Klöru og Nataliu er fátt um svör. Æsa lítur á þau.

„Hvað með ykkur?“ spyr hún forvitin. Ekkert þeirra vill svara. Klara tekur loks af skarið.

„Við vorum étin,“ segir hún lágt. „Um leið. Það ruddust uppvakningar inn í stofu og...“  Hún hættir. Hún vill ekki tala meira um þetta.

Það hefur liðið á kvöldið.

Krakkarnir muna allt. Þau muna eftir draugahúsinu sem Myrkrið fyllti af uppvakningum, vampírum, varúlfum og draugum. Þau muna að þau höfðu öll verið étin.

En það sem mikilvægast er: Þau muna öll að á endanum höfðu þau sigrað Myrkrið.

Að allt hefði spólast til baka.

„Við sigruðum Myrkrið áður,“ segir Arndís ákveðin á svip og reynir að hugsa ekki um það hvernig varúlfur hafði tætt hana í tvennt. „Við getum gert það aftur!“ Natalia hnussar.

„Síðast var það ekkert mál. Táknin voru rituð á tjöldin í draugahúsinu. Það þurfti bara að brenna draugahúsið. En núna voru þau rist á tré. Ræturnar ná niður í jörðina.“ Hún lítur á Meistarann sem lítur skömmustulegur undan. Það voru þau tvö sem höfðu skorið út táknin. Þetta var allt saman þeim að kenna. Það fannst þeim allavega. Alveg sama hvað hver sagði.

„Bull!“ segir Joanna. „Myrkið er Myrkrinu að kenna. Ekki ykkur. Og það hlýtur að vera hægt að stoppa það.“ Hún lítur vongóð á Pawel. Hann hafði verið sá sem lifði lengst síðast.

En Pawel er ekki að hlusta.

Hann er hugsi.

Það er eitthvað að trufla hann.

„Allt í góðu?“ spyr Joanna. Pawel lítur undan eitt andartak og svo aftur á stóru systur sína.

„Nei,“ segir hann lágt og lagar sig örlítið þar sem hann situr á gólfinu. Hinir krakkarnir, sem líður betur en þeim hefur liðið heillengi, full af yndislegri von um að kannski geti þau snúið þessu öllu saman við, að allir muni lifna við aftur, að allt verði í lagi, taka eftir því að eitthvað er ekki eins og það á að vera.

„Hvað?“ spyr Halldór og gengur til Pawels. „Hvað er málið?“ Pawel hugsar sig um eitt andartak enn, eins og hann sé að reyna að ákveða hvernig hann ætli að segja þetta.

Því hann veit að það sem hann er um það bil að fara að segja mun setja allt á hvolf.

Joanna tekur um aðra öxlina á honum og kreistir laust.

„Hvað?“ spyr hún blíðlega. Pawel dregur djúpt að sér andann. Lítur upp.

„Við hittum alla í Foreldrafélaginu rétt áðan, ekki satt?“ spyr hann og vonar svo innilega að hann hafi rangt fyrir sér.

„Jú...“ segja krakkarnir treglega. Pétur og Meistarinn líta hvor á annan og brosa út í annað.

„Alla?“ spyr Pawel aftur, bara til að vera 100% viss. ,,Hittum við örugglega alla?"

Aftur jánka því allir.

„Hvað ertu að spá?“ spyr Joanna.

„Það var bara fullorðið fólk þarna,“ segir Pawel ískaldri röddu. „Þjálfarinn sagði að Foreldrafélagið hefði oft bjargað krökkum. En hvar eru þá allir krakkarnir?“

bottom of page