


Fyrst héldu krakkarnir að Jón bóndi hefði stigið á svell og runnið. Þau horfðu aftan á hann þar sem hann stóð við bílinn og virti fyrir sér aðstæður og svo bara – hvarf hann.
Í fyrstu var það fyndið.
Meira að segja Meistarinn, sem var alveg við dyrnar sem Jón bóndi hafði staðið við, gat ekki annað en flissað. Það hættu hins vegar allir að hlæja þegar þau heyrðu dynkina undir bílnum. Ósjálfrátt lyftu þau öll fótunum og störðu á gólfið.
Einhver var að lemja í botninn á bílnum.
Og öskra.
Og einhver annar var að éta.
Á minna en sekúndu föttuðu krakkarnir hvað hefði gerst. Og þau trylltust. Sem var óþægilegt fyrir alla því þau voru í kremju. Einhver sparkaði í einhvern og einhver annar sló óvart enn annan.
En það skipti engu máli.
Það eina sem skipti máli var að komast frammí og út!
Eða að minnsta kosti leggjast á flautuna og vara Braga náttúrufræðikennara og alla hina við.
Og þau urðu að vera snögg.
Því undir jeppanum voru öskrin þögnuð.
Bragi var staddur fremst í annarri rútunni og var að reyna að útskýra aðstæður fyrir tveimur mjög efins kennurunum og bílstjóra. Það gekk ekki vel.
„Sko,“ sagði Gunnar íþróttakennari loks og tosaði svo harkalega í buxnastrenginn á joggingbuxunum sínum, sem hann virtist aldrei fara úr, að það hreinlega gat ekki verið þægilegt. „Ég veit að það er október og þá er voða fyndið að hræða fólk og svona en þetta er smekklaust og í besta falli lélegt grín.“
Tinna samfélagsfræðikennari, sem var tiltölulega nýbyrjuð að kenna, kinkaði kolli.
„Ekki fyndið,“ sagði hún ákveðin á svip á milli þess sem hún jórtraði alltof stóra tyggjóklessu. „Bara alls ekki, sko.“
Bragi opnaði munninn til þess að mótmæla, en íþróttakennarinn, eins og íþróttakennara er siður, nennti ekki að hlusta á afsakanir.
„Við stoppuðum hérna við göngin til að bíða eftir ykkur, af því þið gátuð ekki haldið í við okkur,“ hélt hann pirraður áfram „og núna þegar þið loksins mætið er það á jeppa og bara með örfáar hræður.“ Hann hnussaði. „Hvar er restin Bragi? Og hættu þessu rugli.“
Bragi Þór náttúrufræðikennari hafði ekki oft misst sig um ævina. Skiptin mætti telja á fingrum annarar handar. Þegar hann var lítill og einhver kjaftaði hvernig Star Wars 5 endaði. Þegar hann var unglingur og vespunni hans hafði verið stolið.
Og núna.
Hann hafði horft upp á nemendur sína vera étna. Breytast í skrímsli. Reyna að éta sig. Og nú ætlaði Gunnar íþróttakennari, gaur sem ætti fyrir löngu að vera farinn að gera eitthvað allt annað en að kenna, að saka hann um lygar.
Þannig að Bragi missti sig.
Og kýldi Gunnar.
Beint í nefið.
Íþróttakennarinn átti aldrei von á því. Greip um andlitið með báðum höndum, varð rangeygður og féll á hnén.
„Hafðu þetta!“ hafði Bragi hrópað stoltur um leið og allir krakkar inni í rútunni stóðu á fætur og klöppuðu.
Ekkert af þessu gerðist.
Þetta var ekki eitt af þessum örfáu skiptum sem Bragi missti sig. Þetta var eitt af hinum skiptunum. Þegar Bragi beit á jaxlinn, bölvaði í hljóði og bakkaði.
Þótt hann hefði rétt fyrir sér.
Gunnar íþróttakennari og Tinna samfélagsfræðikennari stóðu bæði sigri hrósandi fremst í rútunni og biðu eftir svari. Raunverulegu svari. En Bragi hafði engin svör. Hann hafði sagt satt. Hvað annað átti hann svo sem að segja?
Á endanum þurfti hann ekkert að sanna.
Öskur, aftast úr rútunni, sá um það.
„Hvað er þetta?!“ argaði stelpa úr 10. bekk sem sat aftarlega og hafði verið að horfa út um gluggann. Gunnar íþróttakennari og Tinna samfélagsfræðikennari litu bæði til hliðar.
Fyrir utan rútuna mátti sjá Jón bónda.
Eða það sem eftir var af honum.
Önnur kinnin hafði verið bitin af og blóð rann niður eftir bringunni. Hann staulaðist á milli rútanna og datt á þær til skiptis á milli þess sem hann reyndi að halda jafnvægi. Blóðslóð fylgdi.
Bragi missti andann.
Gunnar íþróttakennari leit hins vegar brjálaður á Braga.
„Voða fyndið!“ hvæsti hann og gaf bílstjóranum merki um að opna dyrnar aftur. „Gerviblóðarugl og kjaftæði.“ Bragi reyndi að grípa í íþróttakennarann og stoppa hann en Gunnar hundsaði hann. „Frá!“ hvæsti hann um leið og hann steig út, tilbúinn að taka í lurginn á Jóni bónda.
Annað kom þó á daginn.
Um leið og bóndinn sá íþróttakennarann var eins og það hefði kviknað á einhverju í höfðinu á honum. Hann tók kipp, leit á Gunnar og hljóp af stað, augun sjálflýsandi. Hver einasti krakki í báðum rútum fylgdist með þegar gamli bóndinn stökk á íþróttakennarann og hreinlega reif hann í sig. Það skvettist blóð út um allt!
Tinna byrjaði að öskra, sem og nánast allir.
Bragi beið ekki boðanna. Hann kippti í hálsmálið á bílstjóranum.
„Lokaðu á eftir mér!“ hvæsti hann. Karlinn starði skilningsvana á hann en Bragi vissi að hann hefði ekki tíma til að endurtaka sig. Hann ýtti Tinnu samfélagsfræðikennara frá dyrunum og stökk af stað.
Krakkarnir sem hann bar ábyrgð á, þeir einu sem voru eftir, voru enn inni í jeppanum rétt fyrir aftan þau.
Hann varð að komast til þeirra!
Jón bóndi var upptekinn við að éta Gunnar íþróttakennara á milli rútanna. Bragi fór þess vegna í þveröfuga átt, fram hjá framhlið rútunnar og svo meðfram hlið hennar.
Þar var enginn.
Allavega ekki enn.
„Hvernig gat þetta gerst?“ tautaði hann, skelfingu lostinn. „Hvernig gat þetta gerst?!“
Skyndilega heyrði Bragi bílflaut og fattaði um leið hvaðan það kom. Grunur hans var staðfestur þegar hann hljóp fyrir horn rútunnar. Uppvakningur, skítugur og ógeðslegur, var á húddinu á jeppanum. Hann lamdi á þunna framrúðuna eins og óður.
Bragi sá glitta í krakkana sína, skelfingu lostna, enn inni í bílnum. Ragnar var kominn frammí og lá á flautunnni en hinir voru enn aftur í. Hann sá líka að nánast öll bakhliðin á uppvakningnum hafði tæst af. Braga grunaði að ófétið hefði einhvern veginn fest undir bílnum og malbikið á leiðinni hingað séð um að rífa helminginn af honum af.
Uppvakningurinn lamdi aftur í glerið. Rúðan hélt enn, en myndi líklega ekki gera það mikið lengur.
Bragi Þór náttúrufræðikennari var góður kennari. Höfum það alveg á hreinu. Krökkunum sem hann kenndi fannst það kannski ekki alltaf og sum kvöld fannst honum sjálfum það ekki heldur, en hann var það. Og í dag toppaði hann sjálfan sig.
Í dag var eitt af þessum örfáu skiptum sem Bragi missti sig.
„Hey!“ veinaði hann eins hátt og hann gat. „Þetta eru mínir nemendur! Láttu þá í friði!“ Uppvakningurinn kipptist til, leit í áttina að Braga og rann um leið af húddinu. Hann lenti í snjónum með látum. Umsvifalaust spratt hann á fætur og hljóp af stað.
Bragi sömuleiðis.
„Opnið dyrnar um leið og ég kem aftur að þeim!“ veinaði hann um leið og hann hljóp í stóran hring í kringum jeppann. Uppvakningurinn elti.
Bragi skransaði í snjónum, rann næstum á hausinn, rétt náði að halda jafnvægi og hélt áfram að hlaupa.
Uppvakningurinn var ekki eins heppinn. Hann fór nákvæmlega sömu slóð nema hann náði ekki að halda jafnvægi. Þess í stað flaug hann á höfuðið, skall harkalega á snævi þakt malbikið og braut af sér kjálkann. Beinið þeyttist út í buskann. Svart slím skvettist í allar áttir um leið og uppvakningurinn skreið ringlaður á fætur. Svo hljóp hann aftur af stað með orgi.
En það var nóg.
Bragi náði að klára hringinn og var nú kominn að bílstjórahurðinni.
Dyrnar voru opnaðar með látum. Skelfingu lostinn Ragnar var í gættinni.
„Frá!“ veinaði Bragi og henti sér í sætið, um leið og hann reif í dyrnar og skellti.
Sekúndu seinna henti kjálkalaust skrímslið sér á dyrnar. Krakkarnir veinuðu. Bragi líka.
Sem betur fer hafði Jón bóndi skilið lykilinn eftir í svissinum.
„Keyrðu, keyrðu, keyrðu!“ öskruðu allir. Og það var það sem Bragi gerði. Hann botnaði jeppann og þaut af stað. Það síðasta sem hann sá áður en hann brunaði burt frá rútunum var staðfesting á því að að bílstjórinn í annarri rútunni hafði ekki hlustað. Gunnar íþróttakennari og Jón bóndi hlupu inn um opnar dyrnar.
Bragi leit undan og gaf í. Hann ætlaði þó ekki að setja stefnuna aftur til baka í Borgarfjörðinn. Hann vissi hvað biði þeirra þar.
„Göngin eða Skaginn? Göngin eða Skaginn?!“ veinaði hann um leið og hann stefndi að stóru hringtorgi, rétt við Hvalfjarðargöngin. Einhverjir hrópuðu á hann að beyja í áttina að Akranesi. Aðrir vildi göngin.
Á endanum var valið fyrir þau. Hópur uppvakninga, sem bara rétt áðan höfðu verið krakkar á skólaferðalagi, skullu skyndilega á jeppanum. Án þess að ráða við það beygði Bragi.
Gin Hvalfjarðarganganna tók við þeim.
„Það er ekki mjög gáfulegt að bruna ofan í rör í jörðinni ef það eru uppvakningar á eftir þér!“ gargaði Jan einhvers staðar innan úr krakkaþvögunni. Bragi vissi að það var rétt hjá honum en það var of seint að bakka núna.
Hann gaf í.
Sterkt flass gaf til kynna að hraðamyndavélin hefði náð mynd af þeim.
Þau keyrðu enn hraðar.
Uppvakningarnir, nánast hver einn og einasti, eltu.
