

Rok.
Snjókoma. Slæm spá. Það sést varla á milli húsa.
Dagurinn hjá lögreglunni á Reykjanesinu hafði byrjað rólega. Einhver útköll vegna ferðafólks sem hafði aldrei áður keyrt í snjó. Önnur vegna stíflaðra niðurfalla. Einn páfagaukur sem hafði sloppið út um opinn glugga, en skilaði sér loks heim. Sem sagt; alls ekki mikið um að vera.
Þangað til rúturnar hurfu.
Þangað til 150 krakkar á skólaferðalagi hreinlega gufuðu upp.
Kakóbollinn sem Þórkatla lögreglustjóri hafði verið að blanda sér þegar fyrsta símtalið glumdi um stöðina stóð enn barmafullur við hliðina á kaffivélinni, ískaldur og ódrykkjarhæfur. Fyrsta símtalið var saklaust. Rólegt.
„Hérna, hafiði nokkuð heyrt eitthvað um að rútur hafi fest einhvers staðar? Krakkarnir áttu að vera komin um fjögur leytið hérna að ráðhúsinu og við stöndum hérna heill haugur af foreldrum til að taka á móti þeim og enginn er mættur.“
„Hvað segja krakkarnir?“ hafði Þórkatla spurt til baka.
„Það er nefnilega málið,“ hafði foreldrið sagt, „við náum ekki í þau.“
Þórkatla hafði verið lengi í lögreglunni og hún hafði lært það snemma að hlusta á innsæið. Litlu röddina í höfðinu á henni. Fyrsta hugmyndin var oftast sú rétta og hugmyndin sem nú hentist upp í huga hennar eins og ljósaskilti var eitt einasta orð:
VARÚÐ.
En einhverra hluta vegna hlustaði Þórkatla ekki á innsæið sitt í þetta skiptið. Kannski var það vegna þess að hún var enn blaut í fæturna eftir allavega fimm stífluð niðurfalls-útköll, kannski var það vegna þess að hún var þreytt, kannski hélt hún að foreldrarnir væru að gera úlfalda úr mýflugu. Það skiptir ekki máli.
Hún hlustaði ekki á innsæið.
Ekki það að það hefði svo sem breytt miklu.
Þórkatla sagðist ekki hafa heyrt neitt um neinar rútur en sagðist lofa að láta vita ef hún heyrði eitthvað. Mælti með því að fylgjast bara með á netinu á vef Vegagerðarinnar og vera dugleg að ýta á „refresh“.
„En hvað með símana?“ hafði foreldrið spurt. „Það svarar enginn. Hvað er málið með það?“ Þórkatla opnaði munninn til að svara, hugsaði sig um, vissi ekkert hvað hún ætti að segja.
„Veðrið?“ spurði hún til baka. Það virtist vera nóg fyrir stressuðu foreldrana í Ráðhúsinu.‘
Í bili.
Hálftíma seinna kom næsta símtal. Svo það næsta. Og svo byrjaði ballið. Ef Þórkötlu lögreglustjóra fannst vera mikil læti í veðrinu fyrir utan, var það ekkert miðað við áhyggjufullu foreldrana sem nú voru sumir hverjir mættir á stöðina.
Allir með áhyggjur.
Allir hræddir.
Skiljanlega.
Fjórar rútur, sem áttu að vera löngu komnar aftur á Reykjanesið voru, eins og eitt foreldrið orðaði það, ,,einhvers staðar milli Borgarness og Gvuð-má-vita-hvers!“. Þórkatla hafði stokkið af stað og loksins hringt í Björgunarsveitina. Nokkrar þeirra, meira að segja. Allir höfðu byrjað að leita. Lögreglustöðin fylltist af fólki. Meira að segja fjölmiðlar voru mættir á svæðið.
Tveimur tímum seinna var á hreinu að rúturnar voru hvergi. Horfnar. Gufaðar upp.
Og þá varð allt vitlaust.
Spáin var ekki góð. Veðrið myndi bara verða verra eftir því sem leið á nóttina. Enn fleiri björgunarsveitir voru kallaðar út. Einhverjir foreldrar ætluðu að vaða sjálfir út í veðurofsann, en Þórkatla náði sem betur fer að stoppa þá.
Eða kannski var það ekki Þórkatla.
Klukkan er 20:00. Eftir nákvæmlega eina mínútu mun það gerast. Og það verður svo ótrúlegt og hræðilegt að jafnvel stressuðustu foreldrar munu þagna og gapa.
Út úr myrkrinu og snjókomunni kemur eitthvað.
Í fyrstu virtist það bara vera skuggi en með hverju skrefinu sem það tekur er á hreinu að hér er um manneskju að ræða.
Ungling.
,,Þórkatla!“ veinar Sæmundur lögregluþjónn og stekkur af stað. Lögreglustjórinn eltir. Einhverjir foreldrar líka. Unglingurinn staulast nær og nær og þegar hann er kominn það nálægt að ljósastaurarnir kringum lögreglustöðina geta náð honum byrja allavega tveir pabbar að öskra.
Unglingurinn er illa farinn. Þakinn blóði. Óþekkjanlegur.
Hann getur loks ekki meira og fellur fram fyrir sig. Þórkatla lögreglustjóri rétt nær að grípa hann.
Einhverjir foreldrar reyna að komast að unglingnum til að sjá hvort þetta er barnið þeirra, en Sæmundur heldur þeim frá.
,,Pláss! Gefið okkur pláss!“ og foreldrarnir, eins erfitt og þeir eiga með það, hlýða.
Unglingurinn liggur móður í fanginu á Þórkötlu. Fötin rifin. Blóð alls staðar. Berfættur. Augun stara tryllt út í myrkrið.
„Dáin...“ hvíslar unglingurinn. ,,Þau eru öll dáin...“
