top of page
1. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 08:04
1.jpg
skolaslit-3_s1.jpg

Enginn sagði neitt.

Að lokum dró einhver í hinum enda búningsklefans djúpt að sér andann og rauf þögnina.

„Þetta er í raun ekkert flókið,“ sagði eigandi raddarinnar. „Reglurnar eru bara nákvæmlega eins og í venjulegum fótbolta, þið hafið spilað venjulegan fótbolta, eða horft á hann í sjónvarpinu, eða kannski bæði, ekki satt, hm?“ Röddin bergmálaði um búningsklefann, setningarnar flæddu hver ofan í aðra og hver einasta romsa endaði á litlu, aðeins of löngu, óþolandi „hm?“-hljóði.

Enginn sagði neitt.

Krakkarnir sátu á víð og dreif um klefann og fylgdust með. Joanna hélt utan um litla bróður sinn. Jafnvel þótt Pawel hefði tekið vaxtarkipp síðustu mánuðina og væri næstum orðinn jafnhávaxinn og hún skipti það engu máli; hún yrði alltaf stóra systir hans. Pawel starði á gólfið og óskaði þess að hann hefði liti og blað. Hann langaði til að teikna. Kannski hús umkringt fallegum trjám og brosandi sól. Eitthvað allt annað en þetta.

Æsa og Pétur sátu hlið við hlið á veðruðum viðarbekk. Hendurnar þeirra snertust ekki, en samt næstum því. Æsa titraði af reiði og Pétur vissi að ef aðstæður væru öðruvísi væri hún löngu búin að segja eitthvað. Storma út. Láta öllum illum látum. En það var ekki í boði núna.

Natalia sat skammt frá þeim og gerði það sem hún gerði alltaf rétt fyrir leik; reyndi að stjórna önduninni, reyndi að passa að spenningshnúturinn í maganum myndi ekki yfirtaka hana alla, reyndi að spara orkuna svo hún gæti notað hana til að standa sig sem best úti á vellinum. Halldór sat skammt frá henni, nokkurn veginn í sama pakka. Ef einhver hérna ætti góðan séns væri það hann. Af öllum í þessum búningsklefa var hann langbestur í fótbolta. Hann vissi að hann myndi þurfa að taka þetta svolítið á sig. Að hann mætti ekki bregðast vinum sínum. Sama hvað það kostaði.

Arndís sat við hlið Halldórs og starði á eiganda raddarinnar. Hún var kannski ekki góð í íþróttum en hún var hrikalega klár. Hún reyndi eins og hún gat að láta sér detta í hug einhverja leið til að sleppa úr þessu rugli, bara hvað sem var, en ekkert virtist koma til hennar.

Ragnar og Klara sátu hlið við hlið, beint á móti þar sem eigandi raddarinnar stóð. Ragnar með krosslagðar hendur og eldrauður í framan af reiði. Klara miður sín, gersamlega búin á því og engan veginn með orku í eitthvað meira.

Meistarinn var sá eini sem sat ekki. Honum hafði verið skipað það, en það var ekki séns að hann ætlaði að hlýða. Hann hallaði sér upp að vegg, varirnar svo samanherptar að þær voru orðnar að snjóhvítri línu.

Enginn sagði neitt.

Eigandi raddarinnar, maðurinn sem allir kölluðu Þjálfarann, skimaði hratt um búningsklefann, reyndi að ná augnsambandi við krakkana, beið eftir svari, fékk ekkert svar, henti einu stuttu bergmálandi „Hm?“ út í loftið og dæsti svo.

„Þetta,“ sagði hann vonsvikinn og gróf annarri höndinni ofan í vasann sinn, „er nákvæmlega ástæðan fyrir því að þið eruð komin í þá stöðu sem þið eruð komin í, hm?“

Enginn sagði neitt.

„Þið hafið hagað ykkur illa. Og hvað gerum við í skólanum þegar vinir sem sitja saman láta illa, hm?“ Hann beið eftir svari sem aldrei kom. „Við skiljum þá að,“ svaraði hann sjálfum sér.


Þjálfarinn virti krakkana fyrir sér, vonsvikinn á svip.

Svo dró hann úr vasanum lítinn samanbrotinn taupoka. Eitthvað hringlaði í honum.

„Marmarakúlur?“ hugsaði Ragnar, en sagði ekkert.

„Jæja,“ malaði Þjálfarinn um leið og hann opnaði pokann og steig í áttina að krökkunum. „Einn steinn á mann, tveir litir, blár og rauður, hm?“

Enginn hreyfði sig.

Þjálfarinn dæsti.

„Þið getið engum nema sjálfum ykkur um kennt,“ tautaði hann, stakk annarri höndinni á bólakaf ofan í pokann og greip lúkufylli af lituðum steinum. Án þess að horfa byrjaði Þjálfarinn að velja steina og kasta þeim ýmist til eða í krakkana.

Ragnar fékk bláan.

Klara líka.

Halldór rauðan.

Pawel rauðan.

Joanna bláan.

Meistarinn rauðan.

Æsa bláan.

Pétur bláan.

Arndís rauðan.

Natalia rauðan.


Krakkarnir störðu á steinana sem lágu nú út um allt gólf eða í fanginu á þeim. Þjálfarinn þurfti ekki að útskýra hvað hann hafði verið að gera.

Þeim hafði verið skipt í lið. Bláa og rauða liðið.

Og annað liðið, það rauða, var klárlega betra en hitt. Bæði Halldór og Natalia voru í því. Þau voru fáránlega góð íþróttum. Bláu myndu ekki eiga séns.

Þjálfarinn klappaði skyndilega saman lófunum. Öllum brá. Hann skellti upp úr.

„Þarna náði ég ykkur, hm?“ Æsa spratt næstum á fætur, tilbúin að annað hvort storma út, ráðast á Þjálfarann eða bæði, en Pétur greip í handlegginn á henni.

„Eins og ég sagði áðan; reglurnar eru bara nákvæmlega eins og í venjulegum fótbolta.“ Þjálfarinn horfði yfir hópinn og naut þess að vera loksins miðpunktur athyglinnar.  „Fyrir utan örfáa hluti,“ bætti hann svo laumulega við og brosti.

Enginn sagði neitt.

En í þetta skiptið lét Þjálfarinn það ekki trufla sig. Í þetta skiptið ákvað hann að bíða. Hann vissi að þetta myndi vekja forvitni þeirra. Að á endanum hreinlega yrði eitthvert þeirra að spyrja.

„Hvaða örfáu hluti?“ sagði Joanna loks lágt. Þjálfarinn brosti enn breiðar.

„Hm?“ spurði hann, þótt hann hefði vel heyrt í henni.

„Hvaða örfáu hluti?“ spurði Joanna aftur, hærra í þetta skiptið. Röddin titraði ekki, en það var stutt í það.

„Fótboltinn er ekki venjulegur fótbolti,“ byrjaði Þjálfarinn kæruleysislega, eins og ekkert væri sjálfsagðara. „Hann er haus. Uppvakningahaus. Þannig að þið skuluð passa hvernig þið sparkið í hann. Hann bítur.“ Krakkarnir störðu á Þjálfarann og nokkrir þeirra gátu ekki hamið hrollinn sem læddist upp eftir þeim.

„Eitthvað annað?“ spurði Natalia ákveðnum rómi. Þjálfarinn kinkaði kolli.

„Svo sannarlega, hm?“ Hann dró djúpt að sér andann. „Fyrra liðið til að skora þrjú mörk – og ég minni ykkur á að fótboltinn er haus, þannig að farið varlega – sigrar. Er frjálst ferða sinna. Má fara.“ Hann pírði augun. „Sem lengst í burtu.“

„En þeir sem tapa?“ heyrðist í Halldóri. Hann reyndi að fela óttann í röddinni.

Þjálfarinn brosti nú svo breitt að það hlaut að vera sárt.

„Það lið sem tapar,“ sagði hann og passaði sig að ná augnsambandi við alla í búningsklefanum, ,,það lið sem tapar... verður étið.“

Enginn sagði neitt.

bottom of page