top of page
9. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 11:36
9.jpg

Pawel og Halldór stara orðlausir skjáinn: Gríðarstór blossi. Svo er ekkert nema sandur.

„Nei!“ veinar Halldór og lemur í glerið. „Nei, nei, nei!“ Hann ræður ekki við það; tárin byrja að streyma niður kinnarnar. Það að koma hingað hafði verið hræðileg hugmynd. Ekki nóg með að Æsa og Pétur séu steindauð, heldur eru allir hinir vinir þeirra sprungnir í tætlur.

Halldór hlammar sér á gólfið og lítur í áttina að löngu-dauða karlinum, sem enn situr uppþornaður og gapandi úti í horni.

„Við eigum eftir að enda svona,“ snöktir hann og kastar sverð-prikinu frá sér. „Uppþornaðir og ógeðslegir. Um leið og við reynum að flýja verðum við étnir!“ Hann lítur upp á Pawel sem enn stendur við skjáina.

Pawel er ekki einu sinni að hlusta á hann. Þess í stað ferðast hann á milli hinna skjáanna eins og forvitin fluga.

„Hvað ertu að gera?“ spyr Halldór og sýgur upp í nefið.

„Leita,“ svarar Pawel og fer upp á tær til að sjá enn betur.

„Til hvers?“ snöktir Halldór. „Þau eru öll dauð og..."

„Fann þau!“ Halldór heldur fyrst að Pawel sé að grínast. Hann lítur upp á félaga sinn og sér um leið að það er ekki raunin.

Pawel bendir sáttur á skjá í efra horni veggsins. Þetta er annað sjónarhorn en áðan. Eins og myndavélin sé lengra í burtu en hin. Þess vegna slapp hún við sprenginguna.

„Hvað sérðu?!“ rymur Halldór um leið og hann staulast á fætur. „Sérðu krakkana?“

Skjárinn sýnir að það er nú komið gríðarstórt gat á listaverkið.

Þrefaldi uppvakningurinn er gufaður upp.

Sendiferðabíllinn er í lagi.

Og fyrir framan hann standa þau: Vinir þeirra.

Allir nema Pétur og Æsa.

„Hvað eru þau að gera?“
 

Í nótt hafði Joanna sett fullorðna fólkinu afarkosti; annað hvort myndu þau öll bruna út á völl um leið og birti eða krakkarnir myndu ekki fara með þeim.

Kennarinn og Rafvirkinn höfðu ekki verið viss. Myndarlegi maðurinn sem hafði staðið vörð, næs gaurinn sem vildi láta kalla sig Þjálfarann, hafði verið meira en til í þetta allt saman.

„Björgunarleiðangur, hm?“ hafði hann raulað spenntur.

Um leið og fyrstu geislar sólarinnar mættu á svæðið hafði öll heila hersingin hlaupið smá vegalengd, skellt sér upp í sendiferðabíl sem fullorðna fólkið hafði falið í öruggri fjarlægð og brunað af stað. Það voru engin sæti aftur í þannig að krakkarnir sátu öll á gólfinu og reyndu að halda sér í veggina í verstu beygjunum. Frammí var hins vegar langur bekkur sem allt fullorðna fólkið sat á, fast í belti og spennt á svip. Þjálfarinn í bílstjórasætinu, Rafvirkinn í miðjunni og Kennarinn við gluggann. Stór plastfata með loki var kyrfilega fest með kaðli við krók sem stóð út úr einum vegg bílsins. Það gutlaði eitthvað í henni og lyktin nálægt henni var viðbjóðsleg. Krakkarnir vildu helst ekki hugsa um hvað væri ofan í fötunni.


Á leiðinni var farið yfir áætlunina:

Keyra að flugstöðinni.

Taka hringinn og sjá hvort krakkarnir væru fyrir utan hana.

Ef ekki, þá þyrftu sjálfboðaliðar að fara inn.

Á meðan myndi bíllinn rúnta um svæðið.

Finna krakkana.

Koma út með þá.

Koma þeim um borð í bílinn.

Bruna til höfuðstöðva Foreldrafélagsins.

Ekkert mál.

En um leið og þau nálgast flugvöllinn sjá þau að það verður að breyta áætluninni.

„Frá!“ rymur Rafvirkinn, losar beltið sitt og klifrar yfir sætið. Krakkarnir færa sig frá og sá gamli byrjar að gramsa undir bekknum sem fullorðna fólkið situr á.

Krakkarnir taka varla eftir því. Þau stara öll út um framrúðuna, gersamlega forviða.

„Sjáið hvað hann er stór!“ gargar Meistarinn og bendir á uppvakninginn sem er um það bil að fara að ráðast á listaverkið.

„Á endanum! Þarna! Sjáiði!“ hrópar Klara. „Þarna eru einhverjir!“

„Þetta eru samt bara Æsa og Pétur!“ heyrist í Joönnu. „Hvar eru strákarnir?!“

„Við vöruðum ykkur við því að þetta væri rautt svæði!“ segir Kennarinn, aðeins of hvöss, og snýr sér við í sætinu. Krakkarnir svara henni ekki.

„Hann á eftir að éta þau!“ hrópar Natalia og grípur fyrir augun.

„Ekki á minni vakt!“ kallar Þjálfarinn stundarhátt og hendir sér á bílflautuna. Hávaðinn er skerandi.

„Ertu alveg orðinn snar?!“ veinar Kennarinn, en stoppar hann ekki.

„Við þurfum að kaupa tíma fyrir krakkana!“ svarar Þjálfarinn og gefur enn meira í. „Ef við getum ekki bjargað þeim, hvað í ósköpunum erum við þá að gera hérna?!“


Rafvirkinn hefur loks hætt að gramsa. Hann reisir sig við og rífur meðalstóran rafgeymi undan bekknum.

Arndís lítur forviða á sköllótta manninn. Svo á rafgeyminn. Og svo byrjar hún að brosa. Rafvirkinn brosir til baka.

„Skarpasti hnífurinn í skúffunni,“ segir hann spenntur. „Það er skrúfjárn í hurðinni frammí,“ heldur hann áfram. „Hjálpaðu mér að stinga göt á þetta.“

„Til að vatnið flæði hraðar inn?“ spyr Arndís, en þarf samt eiginlega ekki að spyrja.

„Búmm!“ hlær Rafvirkinn.

Þjálfarinn snarbremsar skammt frá listaverkinu. Stórar dyr renna til hliðar og krakkarnir hlaupa út.

Þau hafa ekki langan tíma.

Krakkarnir byrja að ópa og veina.

Risauppvakningurinn bítur á agnið. Tekur eftir þeim. Stekkur ofan í tjörnina.

Rafvirkinn stígur í áttina að ófétinu og kastar rafgeyminum í fullkomnum boga.

Hann lendir ofan í tjörninni. Svakaleg sprenging.

Uppvakningurinn tætist í sundur.

Stórt gat myndast á eggið.

Æsa og Pétur missa bæði takið á goggnum og hrapa til jarðar.

Ef það eru uppvakningar í næsta nágrenni hafa þeir heyrt hávaðann sem fylgdi sprengingunni.

„Áfram! Áfram! Áfram!“ gargar Þjálfarinn um leið og hann stekkur af stað í áttina að tjörninni. „Ég sæki þau, af stað með ykkur!“

Sjálfboðaliðarnir stíga fram: Ragnar. Natalia. Joanna.

„Drífið ykkur!“ hvíslar Joanna um leið og hún kreistir aftur augun og herpir saman varirnar. Hin herma.

Kennarinn kemur trítlandi með stóra ausu. Rafvirkinn stekkur til og sækir stóru fötuna inn í bíl.

Leggur hana á jörðina fyrir framan sjálfboðaliðana.

Og opnar.

Fatan er barmafull af vökva sem fullorðna fólkið kallar „felusafa“. Nafn sem myndi passa betur væri „Uppvakningagums.“ Það er viðbjóðslegt.

Arndís hafði spurt hvað þetta væri nákvæmlega og Kennarinn hafði útskýrt fyrir henni að þetta væru hakkaðar leifar uppvakninga sem Foreldrafélagið hafði safnað saman á síðustu mánuðum.

„Fullkominn felusafi,“ hafði hún sagt. „Ef þú ert þakin þessu hundsa kvikindin þig. Halda að þú sért ein af þeim.“

Arndís hafði hætt við að bjóða sig fram eftir þetta spjall.

Einhverra hluta vegna er uppvakningagumsið volgt, jafnvel þótt það hafi staðið í köldum bíl yfir nótt. Það er fullt af kekkjum og krökkunum líður smá eins og það iði. En það getur samt varla verið, er það nokkuð?

Lyktin er svipuð fýlunni og er af uppvakningunum, en krakkarnir hafa samt aldrei verið nógu lengi nógu nálægt þeim til þess að velta fnyknum almennilega fyrir sér. Þetta er pínu eins og lyktin af gömlu, óelduðu hakki í bland við kúkableyju. Sem er líka gömul og óelduð. Eða eitthvað álíka. Það er erfitt að lýsa henni. Hún er vond.

„Bara passa að þetta fari ekki í munninn,“ segir Kennarinn blíðlega og hellir fullri ausu af gumsi yfir höfuðið á Ragnari. Hann finnur viðbjóðinn renna eftir hnakkanum og niður bakið.

„Ég get ekki horft á þetta!“ muldrar Meistarinn og lætur sig hverfa aftur inn í bíl.

„Áfram nú,“ heyrist í Arndísi. Hún og Klara standa vörð, sittuhvorumegin við sendiferðabílinn. „Ég sé hreyfingu í fjarska...“

„Líka mín megin...“ heyrist í Klöru.

„Hér mætum við!“ er skyndilega kallað. Þjálfarinn hefur náð í Æsu og Pétur og saman staulast þau í áttina að sendiferðabílnum. Æsa hafði haft rangt fyrir sér; enginn fótbrotnaði. En að detta úr listaverkinu og ofan í tjörnina hafði samt verið hrikalega vont. Hún er aum í annarri hendinni og Pétur haltrar.

„Hvað í and...“ byrjar hún þegar hún sér Joönnu, Nataliu og Ragnar þakin ógeðinu. Pétur segir ekkert. Hann bara kúgast. Joanna starir á Æsu. Hún er ekki sátt.

„Hvar ertu strákarnir?“ spyr Joanna og stígur í áttina að Æsu. Hún roðnar. Hún veit upp á sig sökina. Allir vissu planið: Að halda hópinn. Sama hvað.

„Þeir... þeir fóru inn,“ segir Æsa skömmustuleg á svip og bendir í áttina að flugstöðinni. „Við klúðruðum þessu. Fyrirgefðu.“ Joanna lítur undan og segir ekkert.

„Svona, inn með ykkur,“ segir Þjálfarinn blíðlega og ýtir Æsu aftur af stað. „Þið stóðuð ykkur vel, hm?“

Halldór stendur enn við skjáina og fylgist spenntur með. Skyndilega sér hann eitthvað út undan sér og rekur upp vein. Pawel dauðbergður.

„Hvað?“ Halldór bendir á annan skjá. Þessi er neðarlega, langt frá þeim sem hann var að horfa á.

„Þeir eru að koma! Þeir eru að koma!“ Og það er rétt hjá honum. Skjárinn sem hann bendir á vísar í áttina að hárri byggingu, rétt hjá vellinum. Heill her af uppvakningum kemur hlaupandi eftir veginum. Í áttina að sendiferðabílnum.

Og krakkarnir virðast ekki sjá þá.

„Drífið ykkur!“ gargar Halldór á vini sína á skjánum. „Hvað eruði að gera?!“

„Þau heyra ekki í þér, uss!“ segir Pawel og lítur áhyggjufullur í áttina að lokaðri hurðinni. Það voru kannski ekki uppvakningar frammi á gangi áðan, en hann langar ekkert að auglýsa hvar þeir eru.


„Við þurfum að drífa okkur!“ kallar Kennarinn um leið og hún skutlar ausunni inn í bíl og sest svo sjálf inn. Þjálfarinn er kominn aftur undir stýri og þenur vélina.

„Sammála,“ hrópar hann. Arndís og Klara hoppa inn í bílinn. Rafvirkinn sömuleiðis.

„Sjáumst eftir smá,“ segir hann og brosir út í annað. 

Sendiferðabíllinn brunar af stað.

Ragnar, Joanna og Natalia standa ein eftir, þakin gumsinu.

Á móti þeim koma hlaupandi allavega 50 uppvakningar.

„Ókei...“ segir Joanna lágt og grípur um fötuna. Hún ætlar ekki að bíða sekúndu lengur eftir því að bjarga bróður sínum. „Sjáum hvort þetta virkar.“

skolaslit-3_s9_bly.jpg
bottom of page