
Kæru kennarar, slæmar fréttir: Kaflinn í dag er í lengri kantinum.
En ef þið þurfið að taka lesturinn í tveimur hollum
mæli ég með að taka pásu á 09:09.
Kæru krakkar, góðar fréttir: Kaflinn í dag er í lengri kantinum.
-Ævar

Sæmundur lögregluþjónn veit það ekki, en hann á bara örfáar mínútur eftir ólifaðar.
Á meðan unglingurinn og Þórkatla voru fyrir utan í snjónum hafði Sæmundur setið við tölvuna sína, með nefið nánast klesst við skjáinn. Hann var að skoða það sem Unnar skólastjóri hafði sent honum; ljósmyndir af krökkunum í rútunum þremur og tenglana á samfélagsmiðlana þeirra.
Sæmundur byrjaði á samfélagsmiðlunum. Flestir þeirra virtust ekki hafa verið uppfærðir síðan í hádeginu, fyrir utan einn. Stelpa úr 10. bekk hafði náð live stream-i af því þegar aftasta rútan stoppaði. Myndbandið byrjaði á stelpunni aftast í rútunni að blaðra. Allir í kringum hana voru með mega læti. Eftir því sem leið á myndbandið rölti stelpan eftir rútunni og endaði loks frekar framarlega þar sem hún settist. Á leiðinni í sætið sitt skyldaði alla til að veifa í myndavélina (sem fólk var mismikið til í) og þegar hún var sest náði hún þeim sem sátu fyrir framan sig. Allir veifuðu. Og jú, þarna flaug skór í hnakkann á kennaranum. Alveg eins og unglingurinn hafði sagt. Kennarinn hrópaði á þögn og næstu augnablikin í myndbandinu sagði enginn neitt, en stelpan hélt áfram að geifla sig og flissa framan í myndavélina. Svo kom önnur stelpa og hrópaði að hún heyrði eitthvað, rútan var stoppuð og allir fóru út í glugga. Myndbandið endaði svo á því að eitthvað hoppaði úr farangursrými rútunnar og allir öskruðu og hlógu. Svo var ekkert meir. Myndbandið var búið.
Sæmundur spólaði aðeins til baka og pásaði þegar þetta „eitthvað“ stökk út úr rútunni, en myndbandið var á of mikilli hreyfingu til að nokkuð væri hægt að sjá almennilega.
Eitt var þó kýrskýrt; unglingurinn hafði verið að segja satt.
Sæmundur dæsti og hafði því næst opnað ljósmyndirnar af nemendunum. Hann skrollaði fram og til baka, skoðaði aftur, bar saman og bakkaði. Ekkert óvanalegt hér. Bara krakkar, sumir að brosa eins fallega og þeir gátu, aðrir að gretta sig, enn aðrir einhvers staðar mitt á milli.
Sæmundur hallaði sér aftur í skrifborðsstólnum sínum og dæsti.
Ekkert. Það var ekkert upp úr þessu að hafa.
En samt... Samt var eitthvað við þessar myndir og þetta myndband sem var að trufla hann. Eins og pirrandi fluga sem vildi ekki fara. Hann gat samt ekki gert sér grein fyrir því hvað það var.
Sama hvað hann reyndi.
Sæmundur komst ekki lengra með pælingarnar sínar.
Skyndilega hafði Þórkatla vaðið inn með unglinginn á eftir sér.
Ískuldi fyllti lögreglustöðina um leið og dyrnar opnðust.
„Fór hann aftur út?! Þú veist við erum með klósett hérna inni, sko!“ hafði Sæmundur byrjað að grína en sá um leið á svip lögreglustjórans að henni var ekki hlátur í huga. Já, og svo var auðvitað blóð út um allt sem fékk hann líka til að hætta með þetta uppistand sitt.
Unglingurinn hélt á einhverju.
Um leið og hann hrökklaðist inn á stöðina rak hann annan olnbogann í dyragættina og missti það.
Blóðugur, afrifinn fótur rúllaði í áttina að Sæmundi.
Sæmundur lögregluþjónn starði á fótinn, svo á Þórkötlu og svo aftur á fótinn.
„Taktu hann upp maður!“ hafði Þórkatla skipað um leið og hún dró unglinginn aftur inn á kaffistofuna. „Pakkaðu honum inn! Hann er af Hönnu! Og komdu svo!“
Sæmundur hafði hlýtt. Fann plastpoka, fór í hanska, tók fótinn (sem hafði skilið eftir dimman blett á gólfinu) og kom honum fyrir í pokanum. Merkti svo plastpokann með límmiða. Skrifaði dagsetningu og staðsetningu. Vissi að hann þyrfti að koma honum fyrir í kæli og velti því fyrir sér eitt andartak hvort að ísskápurinn inni á kaffistofu væri málið, ákvað að það væri slæm hugmynd, velti því fyrir sér að setja hann út, komst að þeirri niðurstöðu að þá myndi hann frjósa og ákvað að lokum að geyma fótinn í bílskúrnum. Allavega til að byrja með.
Þar var kalt, en ekki frost.
Sæmundur kom innpökkuðum fæti læknisins samviskusamlega fyrir inni í bílskúr upp við stafla af rykugum sumardekkjum og laumaði sér aftur svo í áttina að kaffistofunni.
Rödd Þórkötlu bergmálaði um stöðina og það var alveg á hreinu að nú var annað uppi á teningnum en í spjalli þeirra unglingsins fyrr í kvöld.
Þetta var yfirheyrsla.
„Hvað gerðist?“ spurði Þórkatla ákveðin.
Unglingurinn sat snöktandi við borðið og hristi höfuðið.
„Ég sagði þér það!“ veinaði hann. „Ég sat hér, leit um öxl, sá lækninn fyrir utan gluggann, hún var að horfa inn og fyrir aftan hana sá ég eitthvað annað.“
„Hvað sástu?“
„Ég veit það ekki! Eitthvað stórt! Skugga! Hann stóð yfir henni, bara rétt fyrir aftan hana og hún augljóslega tók ekki eftir því og ég spratt á fætur og reyndi að benda henni á það en hún skildi mig ekki eða heyrði ekki í mér útaf veðrinu og þá ákvað ég að hlaupa út bakdyramegin...“
„Hvers vegna ekki að framan?“ þrumaði Þórkatla. Unglingurinn snökti.
„Þið þið voruð þar að tala í símana ykkar og og ég vissi að þið mynduð ekki hleypa mér aftur út og ég varð að bjarga henni, þannig að ég bara hljóp og hljóp en þegar ég kom út og fann hana loksins var það of seint. Það var ekkert eftir, nema pollurinn og fóturinn en ég sá skuggann, ég sá hann hverfa út í nóttina og hann var stór, svo svakalega stór...“ Unglingurinn komst ekki lengra. Hann fól andlitið í höndum sér og grét.
Þórkatla starði á hann. Það logaði eldur í augunum á henni. Sæmundur stóð í dyragættinni og reyndi að láta lítið fyrir sér fara. Hann hafði örsjaldan séð Þórkötlu svona reiða í yfirheyrslu. Ef unglingurinn væri að ljúga þá myndi hún á endanum ná að kreista sannleikann úr honum.
En var unglingurinn samt að ljúga?
Gat verið að það væri eitthvað þarna úti?
Sæmundur leit af unglingnum og Þórkötlu og í áttina að glugganum.
Gat það verið? Hafði eitthvað komið og rifið lækninn í sig?
Sæmundur fann hroll liðast upp eftir bakinu. Svo hló hann með sjálfum sér. Auðvitað var ekkert í myrkrinu. Þetta átti sér allt náttúrulegar skýringar. Þau þurftu bara að finna þær.
Unglingurinn hélt áfram að gráta.
„Ég veit ekki hvað gerðist...“ byrjaði hann aftur og þá fékk Þórkatla nóg. Leiftursnöggt lamdi hún í borðið og unglingurinn skrækti. Hún snöggroðnaði.
„Ég þarf að... eitthvað,“ rumdi hún og óð út úr kaffistofunni. „Ekki líta af honum!“ kallaði hún og stuttu seinna heyrði Sæmundur hurð lokast - með látum. Þórkatla hafði farið inn í búningsklefa. Hún hafði hlaupið á sig þegar hún lamdi í borðið og Sæmundur vissi að hún þurfti að kæla sig niður.
Hann leit á unglinginn.
Greyið var enn með andlitið í höndunum og bakið gekk upp og niður í gríðarlegum ekkasogum. Sæmundur hugsaði sig um – og tók svo ákvörðun.
„Hey,“ sagði hann lágt og settist hjá unglingnum. „Þetta verður allt í lagi.“ Svo strauk hann honum aðeins um bakið. Unglingurinn dró djúpt að sér andann og hristi höfuðið.
„Ég bara skil ekki neitt...“ sagði hann kjökrandi ofan í borðið. „Hvað er að gerast hérna?!“ Sæmundur setti upp hughreystingarsvip og kreisti aðra öxlina á unglingnum.
„Það er nú það sem við erum að reyna að komast að, kallinn minn,“ sagði hann og dæsti.
Sæmundur lögregluþjónn veit það ekki, en hann á bara örfáar mínútur eftir ólifaðar.
Þeir sitja saman í þögn.
Unglingurinn og Sæmundur.
Það er þægilegt. Eins og að vera í auga stormsins. Fyrsta tækifærið í marga klukkutíma til þess að anda. Sæmundur tekur því fagnandi.
En hann getur ekki notið augnabliksins til fullnustu. Það er enn eitthvað að trufla hann. Eitthvað í sambandi við myndbandið. Og ljósmyndirnar. Hann lítur í áttina að opinni hurðinni og veit að tölvan hans er skammt undan.
Að lokum ræður hann ekki við sig.
„Ertu góður í smá stund einn?“ spyr hann unglinginn varlega. „Ef þú vilt get ég setið með þér, en ég held ég verði að gá að svolitlu.“ Unglingurinn, sem virðist vera að ná að róa sig, lítur til hans og brosir dauflega út í annað.
„Ég er góður.“ Hann hlær lágt með sjálfum sér. „Takk.“ Sæmundur brosir.
„Ekki málið,“ og hann stendur upp og stefnir í áttina að ganginum. Stoppar samt í dyrgættinni og lítur um öxl.
„Hvað?“ spyr unglingurinn stressaður.
„Ekki fara aftur út, ókei?“ grínast Sæmundur. Unglingurinn hlær.
„Lofa.“
Á sama tíma situr Þórkatla inni í búningsklefa og reynir að róa sig niður. Hún ætlaði ekki að snappa á aumingja barnið, hún er bara hrædd og skilur ekki hvernig þessi dagur getur bara sífellt haldið áfram að verða verri og verri.
Hún dæsir. Hún er ekki að sjá heildarmyndina. Það er eitthvað sem hún er ekki að taka eftir.
„Það er bara svo augljóst!“ hafði hún alltaf sagt þegar hún var lítil að lesa ráðgátubækur. „Vísbendingarnar eru þarna alveg frá byrjun. Þú þarft bara að fylgjast vel með.“
„Ég hef ekki verið að fylgjast nógu vel með...“ tautar hún við sjálfa sig. „Ég er búin að vera út um allt. Ég verð að byrja aftur upp á nýtt.“ Hún hugsar til baka. Símtölin. Foreldrarnir. Og unglingurinn. Skrambans unglingurinn. Hún grefur annarri höndinni ofan í buxnavasann til að finna símann sinn. Hún ætlar að horfa aftur á viðtalið við unglinginn. Sem þau tóku fyrr í kvöld. Þegar hann var nýmættur. Hann hlýtur að hafa sagt eitthvað, viljandi eða óvart, sem getur hjálpað þeim við þetta allt saman.
Sæmundur situr við tölvuna sína.
Skoðar myndirnar.
Myndbandið.
Aftur.
Og aftur.
„Það er eitthvað hérna...“ tautar hann. Á skjánum er eigandi símans að sveifla honum fram og til baka, nýkomin í sætið sitt, að veifa þeim sem sitja fyrir framan hana. Og krakkarnir veifa allir til baka. Sæmundur nuddar augun og færir sig enn nær skjánum ,,Hvað er það sem ég er ekki að sjá? Hvað... er...“
Sæmundur frýs.
Ýtir á pásu eins hratt og hann getur.
Brosandi andlit allra þeirra sem sátu framarlega í rútunni mæta honum.
Hann spólar nokkrar sekúndur til baka.
Ýtir á play.
Horfir.
„Nei...“ hvíslar hann.
Spólar alveg upp á byrjun.
Horfir alveg til enda.
Þorir varla að anda.
Með skjálfandi hendi lokar hann myndbandinu og opnar möppuna sem inniheldur allar nemendamyndirnar.
Skoðar þær.
Allar.
Og sprettur á fætur.
Hann ætlar að kalla á Þórkötlu.
Hlaupa inn í búningsherbergi og vara hana við. Segja henni að þau hafi gert hræðileg mistök. Segja henni að unglingurinn inni á kaffistofu hafi aldrei verið í rútunni. Hann er ekki á myndbandinu! Og gott betur en það; hann er ekki einu sinni í þessum skóla! Hann er ekki á einni einustu mynd!
En hann mun aldrei ná því.
Vegna þess að Sæmundur lögregluþjónn á nú bara örfáar sekúndur eftir ólifaðar.
Ljósin flökta.
Lágt hljóð ómar um herbergið.
Hviss.
Sæmundur tekur örlítið skref aftur á bak, eins og hann hafi orðið ringlaður í eitt andartak.
Svo byrjar eitthvað að leka.
Niður eftir enninu. Hökunni. Gegnum skyrtuna. Niður skálmarnar.
Örþunn, rauð lína myndast niður eftir Sæmundi miðjum, eins og einhver hafi lagt rauðan þráð eftir honum endilöngum.
Og svo – eins og rauð rós sem opnast – treður sér út, allt sem var inni í Sæmundi. Sundurskorin innyflin falla til jarðar og skvettast um allt. Helmingarnir tveir sem voru rétt áðan Sæmundur lögregluþjónn falla í sitt hvora áttina og lenda á gólfinu með þungum dynk.
Inni í búningsklefa situr Þórkatla.
Hún starir á símann sinn og skilur hvorki upp né niður.
Á skjánum spilast viðtalið við unglinginn frá því fyrr í kvöld.
Nema upptakan virðist vera biluð.
Það bara hlýtur að vera!
Skjárinn sýnir stólinn sem unglingurinn sat í. Tóman. Í fjarska heyrast raddir Þórkötlu og Sæmundar. Rödd unglingsins, og hann sjálfur eins og hann leggur sig, eru hvergi.
„Hvaða...“ tautar Þórkatla og starir á skjáinn. Spólar fram og til baka í löngu myndbandinu. Kannski var þetta bara einhver villa í byrjun upptökunnar? Nei, þetta er svona allan tímann. Það er eins og unglingurinn hafi aldrei verið þarna.
Ótrúlega óþægileg tilfinning hellist yfir Þórkötlu og hún er staðin á fætur án þess að fatta það.
Þau hafa verið höfð að fíflum.
Inni á kaffistofu situr unglingurinn.
Brosandi.
