ERTU MEÐ SPURNINGU FYRIR ÆVAR EÐA ARA?
SENDU OKKUR PÓST Á SKOLASLIT@GMAIL.COM FYRIR 18. OKTÓBER
OG VIÐ SVÖRUM ÞEIM Í VÍDJÓI.
Strákarnir stara á skjáinn.
Uppvakningarnir hlaupa í áttina að Joönnu, Ragnari og Nataliu. Þau – eins fáránlegt og það hljómar – ganga hægum skrefum á móti þeim, þakin uppvakningaógeðinu.
„Hvað er eiginlega á þeim?“ spyr Halldór og færir sig alveg að skjánum. Pawel ýtir honum frá.
„Þetta er... slím?“ tautar hann. „Hvað eru þau að gera öll útí slími? Hvers vegna flýja þau ekki? Hvers vegna voru þau skilin eftir?!“ Sendiferðabíllinn brunar í burtu eins hratt og hann kemst og er nánast kominn í hvarf. Uppvakningarnir nálgast sjálfboðaliðana þrjá á leifturhraða.
„Ég held þú ættir að líta undan...“ segir Halldór lágt og býr sig undir að halda fyrir augun á Pawel. Hann ýtir Halldóri frá. Halldór leyfir honum það.
Áður en þeir ná nokkuð að segja meira skella ófétin á Joönnu, Ragnari og Nataliu eins og alda.
Í nokkur alltof löng andartök sjá strákarnir ekki í vini sína. Pawel heldur niðri í sér andanum. Halldór hristir höfuðið. Þeir hefðu aldrei átt að koma hingað.
En það er eitthvað skrítið við þetta allt saman: Uppvakningarnir stoppa ekki. Venjulega þegar þeir háma einhvern í sig er það eins og frábært partý; allir vilja vera með. Þess í stað halda þeir hlaupunum áfram. Næstum eins og þeir hafi ekki tekið eftir krökkunum.
Getur það verið?
Strákarnir stara.
Hjörðin þynnist smám saman.
Og út úr henni – loksins! – ganga Joanna, Ragnar og Natalia, enn á sömu hægu ferðinni og rétt áðan! Strákarnir veina af gleði.
„Þeir eru að elta bílinn!“ gargar Halldór sigri hrósandi og knúsar Pawel. „Fíflin eru að elta bílinn!“ Strákarnir vita ekki hvað er í þessu blessaða slími sem þekur krakkana, en þeim er alveg sama.
Annar uppvakningahópur kemur skyndilega hlaupandi og stefnir á krakkana.
„Fleiri,“ segir Pawel og bendir. Halldór hlær.
„Og hvað með það?“ Pawel brosir. Strákarnir fylgjast með þessum enn stærri hóp hlaupa fram hjá vinum þeirra eins og þau séu ekki þarna.
„Ég held þetta hafi verið þeir sem eltu okkur áðan,“ segir Pawel. Halldór kinkar kolli.
„Ég held það sé rétt hjá þér. Lætin í sprengingunni hafa pottþétt lokkað þá út.“ Krakkarnir eru horfnir af skjánum sem strákarnir voru að fylgjast með en birtast nú á öðrum.
Þau ganga inn í flugstöðina og skima í kringum sig. Velja átt og rölta aftur af stað.
„Hvað eru þau að gera?“ spyr Halldór forviða. Pawel brosir.
„Er það ekki augljóst? Þau eru að leita að okkur!“ Pawel byrjar aftur að ferðast á milli hinna skjánna eins og forvitin fluga. Hann fylgir Joönnu, Ragnari og Nataliu eftir þangað til þau ganga inn um dyr merktar TOLLUR. Eftir það finnur hann þau hvergi. Pawel lítur á Halldór.
„Ég held að flugstöðin sé tóm,“ segir hann. „Allir uppvakningarnir hlupu út. Við skulum fara og finna þau.“
Halldór hugsar sig um. Þetta er hræðileg hugmynd! Kvíðahnútur fyllir magann. Svo hristir hann höfuðið.
„Það er mun öruggara að bíða hér,“ segir hann lágt og lítur skömmustulegur undan. Það var eitthvað við þennan banvæna eltingaleik upp á líf og dauða kvöldið áður sem hræddi hann. Meira en venjulega. Hann langar ekki fram. Pawel dæsir.
„Þau eiga aldrei eftir að finna okkur ef við förum ekki á móti þeim. Þau eru nú þegar farin inn um allt aðrar dyr en við notuðum.“ Hann bendir á skjáina. „Á endanum eiga skrímslin eftir að ráfa aftur inn í flugstöðina. Það er nú eða aldrei.“ Halldór hugsar málið eitt andartak.
Svo blótar hann.
Þetta er rétt hjá Pawel.
„Ókei, ókei, ókei...“ tautar hann og byrjar að arka um herbergið. „En hvað eigum við að gera ef við mætum uppvakningum? Þeir hafa pottþétt ekki allir hlaupið út, sko. Sverð-prikið mitt er geggjað en það getur ekki bjargað öllum alltaf, það er bara þannig.“ Pawel skimar í kringum sig.
„Kannski getum við útbúið skjöld?“ spyr hann. Halldór kinkar stressaður kolli.
„Negla. Love it.“ Hann bankar í skrifborðið. „Rífa þetta niður í stórar plötur? Festa það svo framan á okkur?“ Pawel virðir það fyrir sér.
„Hvernig ætlarðu að rífa þetta niður?“ spyr hann svo. „Þetta er þykkur viður.“ Halldór opnar munninn til að svara en finnur ekkert svar. Blótar aftur. Gáir undir skrifborðið. Þar er ekkert nema yfirfull ruslafata.
„Við getum bundið þessa framan á okkur,“ segir hann og sparkar í hana. Fatan veltur og gömul samlokubréf dreifast yfir gólfið. Halldór þarf ekki að heyra Pawel segja nei. Hann veit að þetta er ekki góð hugmynd. Hann heldur áfram að skima í kringum sig.
Finnur ekkert.
Fórnar höndum.
„Það er ekki furða að þessi dúddi þarna drapst hérna inni!“ hrópar Halldór pirraður og bendir í áttina að löngu dauða-karlinum sem enn situr uppþornaður og gapandi í rúllustólnum úti í horni. „Ef ég væri hann hefði ég sko líka...“ Halldór þagnar í miðri setningu.
Starir á löngu dauða-karlinn.
Pawel lítur forvitinn á vin sinn.
„Hvað?“
Halldór glottir.
„Ókei...“ segir hann og lítur á Pawel. „Ég er með hugmynd.“ Pawel grettir sig.
„Er hún ógeðsleg?“ Halldór kinkar kolli.
„Mjög.“
Strákarnir standa yfir löngu dauða karlinum, sem þeir hafa nú lagt á gólfið. Karlinn hafði setið svo lengi í rúllustólnum að nú er hann fastur í þeirri stöðu, jafnvel þótt þeir hafi fjarlægt stólinn; hann situr á gólfinu með galopið ginið.
„Ertu viss?“ spyr Pawel efins. Halldór kinkar kolli.
„Þetta verður ekkert mál. Hann er hvort eð er svo uppþornaður að þetta verður bara eins og að...“ Hann hugsar sig um. „... brjóta spagettí!“ ákveður hann loks.
„Ég held að maður eigi ekki að brjóta spagettí,“ segir Pawel. Halldór lætur þetta sem vind um eyru þjóta.
„Haltu í lappirnar,“ segir hann og grípur um axlirnar á löngu dauða-karlinum. „Ég jugga. Þú heldur eins og þú getur. Ókei?“ Pawel kemur sér fyrir við fætur karlsins og grípur í sitt hvorn skóinn.
„Tilbúinn,“ segir hann lágt. Það er ekki eftir neinu að bíða. Halldór tekur um axlirnar á karlinum og byrjar að ýta. Til að byrja með er það erfitt og Pawel á í mestu vandræðum með að missa fæturna ekki frá sér.
„Koma... svo...“ stynur Halldór um leið og hann hálf-leggst á bak mannsins og spyrnir sér í gólfið. Skyndilega er eins og löngu dauði-karlinn gefi alveg eftir og hann leggst saman eins og bók sem lokast. Pawel hendir sér aftur á bak þegar höfuð karlsins mætir skyndilega við fæturna. Halldór dettur næstum fram fyrir sig og á Pawel.
„Passaðu þig!“
„Sorrý“, tautar Halldór móður, grípur með báum höndum um axlirnar og tosar karlinn aftur til baka og rúmlega það. Nú liggur löngu dauði-karlinn þráðbeinn á gólfinu. Halldór dæsir. „Þetta mun örugglega taka smá tíma í viðbót.“
Sem það gerir. Halldór þarf að jugga löngu dauða-karlinum fram og til baka í örugglega korter áður en hann er sáttur.
„Svona,“ segir hann loks og þurrkar svita af enninu. „Tosa þú í fæturna og ég tek í axlirnar.“ Pawel hlýðir. Halldór kemur sér fyrir. Þeir horfast í augu. Þetta er algerlega fáránlegt. „Einn, tveir, og...“
Þeir tosa.
Magi löngu dauða-karlsins rifnar í sundur, nánast hljóðlaust. Rykský fýkur upp úr sundurrifinni bumbunni. Strákarnir detta báðir aftur fyrir sig.
Halldór liggur á gólfinu, móður og másandi.
Svo byrjar hann að hlæja.
Eftir smá stund tekur Pawel undir.
Strákarnir eru í hláturskasti í örugglega fimm mínútur.
Pawel er með neðri hlutann.
Halldór er með efri hlutann.
Með snúrum úr hinum ýmsu tækjum og tólum reyna þeir að festa sitt hvorn helminginn af löngu dauða-karlinum framan á sig.
„Fullkominn skjöldur!“ tilkynnir Halldór sáttur og hallar höfðinu örlítið til hliðar svo hár löngu dauða-karlsins lendi ekki upp í honum.
Pawel er enn að vesenast með neðri hlutann. Hann nær ekki að þrengja snúrurnar nógu vel og fætur löngu dauða-karlsins þvælast stanslaust fyrir hans eigin fótum.
Skyndilega dettur eitthvað á gólfið.
Það virðist hafa verið í buxnavasa löngu dauða-karlsins.
Pawel leggur neðri hluta mannsins frá sér og beygir sig eftir því sem datt.
„Hvað er þetta?“ spyr Halldór forvitinn og vaggar til hans. Það er pínu erfitt að ganga venjulega með efri hluta af manni framan á sér.
Þetta er gamaldags, mjótt upptökutæki.
Pawel tekur það upp.
Ýtir á play.
Ekkert gerist.
Spólar smá til baka.
„ ...þetta eru niðurstöður mínar og þær er ég svo sannarlega viss um,“ heyrist skyndilega og strákunum bregður báðum. Röddin er afar þreytuleg. „Og það mun breyta öllu.“ Pawel stoppar upptökuna. Strákarnir líta hvor á annan.
Það er alveg á hreinu hver er að tala á upptökutækinu.
Pawel lítur á skjáina.
„Hann sat hér,“ hugsar hann upphátt, „og fylgdist með. Þangað til hann dó.“ Pawel lítur á Halldór. „Hvað ætli hann hafi séð? Hvaða niðurstöður var hann að tala um?“
„Komdu,“ segir Halldór og nikkar í áttina að neðri hlutanum sem liggur á gólfinu „Við verðum að drífa okkur.“ Pawel stingur upptökutækinu í vasann. Halldór grettir sig.
„Kannski er eitthvað þarna sem við getum notað,“ segir Pawel.
Strákarnir standa við lokaðar dyrnar. Báðir með mennskan skjöld festan framan á sig. Leggja eyrun að hurðinni.
Hlusta.
Ekkert. Bara þögn.
„Ókei,“ segir Halldór lágt og grípur um sverð-prikið. „Ég fer fyrstur. Svo þú. Við finnum næstu dyr, komum okkur af þessum blessaða gangi og reynum svo að finna krakkana, ókei?“ Pawel kinkar kolli. Hann lítur eitt andartak um öxl í áttina að skjáunum. Joanna, Ragnar og Natalia hafa enn ekki látið sjá sig síðan þau fóru inn um hurðina merkt TOLLUR. Vonandi er í lagi með þau. Það er heldur enginn skjár sem sýnir ganginn. Það hefði til dæmis verið mjög hentugt núna.
Það er ekki eftir neinu að bíða.
Halldór opnar dyrnar upp á gátt.
Og frýs.
Í gættinni stendur uppvakningur.
Hann er klæddur í bol merktum flugvellinum og með nafnspjald sem á stendur: „LÁRA – GET ÉG AÐSTOÐAÐ?“
„Nei, bíddu!“ kallar Halldór, en það skiptir engu máli. Skrímslið orgar af spenningi og stekkur inn.
Pawel veinar og dettur aftur fyrir sig.
Halldór, án þess að fatta hvað hann er að gera, ber fyrir sig hendurnar.
Uppvakningurinn opnar munninn upp á gátt og bítur.