top of page
10. kafliSKÓLASLIT 2: DAUÐ VIÐVÖRUN
00:00 / 10:21
10.jpg

Jeppinn brunaði eftir þjóðveginum. Hraðar og hraðar. Hálfur uppvakningur hékk tættur framan á honum, en myndi sjálfsagt losna af hvað úr hverju.

Aftur í sátu fimm logandi hræddir krakkar í kremju; Klara, Natalia, Jan, Meistarinn og Ragnar. Frammí sat logandi hræddur náttúrufræðikennari; Bragi Þór. Og við hlið hans sat bílstjórinn. Hann var ekki logandi hræddur. Þetta var bóndi úr sveitinni, hafði marga fjöruna sopið, tekið á móti ótal lömbum, bjó oft til sitt eigið slátur og hafði þess vegna séð mun ógeðslegri hluti en þessi krakkargrey sem voru að reyna að éta þau.

Bóndinn hét Jón, nýkominn á eftirlaun, nýbúinn að selja meirihlutann af jörðinni sinni undir sumarbústaði og var að fíla í tætlur að nú hefði hann afsökun fyrir því að keyra alltof hratt á glænýja jeppanum sínum.

„Jiha!“ veinaði hann og gaf enn meira í. Jeppinn þaut áfram.


Klara og Bragi náttúrfræðikennari höfðu ætlað að hlaupa að rútunni eftir að hún keyrði útaf. Þetta voru samt alveg nokkrir kílómetrar og auk þess var veðrið vont, þannig að þegar þau sáu jeppa nálgast ákváðu þau frekar að reyna að stoppa hann og fá far. Þau höfðu veifað og hrópað og Jón bóndi, sem hafði nú alltaf litið á sig sem góðan gaur, gat ekki annað en stoppað. Auk þess sá hann glitta í rútuna í gegnum kófið og grunaði að hér væri ekki allt með felldu. Klara og Bragi höfðu talað við Jón og sannfært hann um að leyfa sér að fá far að rútunni.

Þau voru um það bil að fara að stíga inn í jeppann þegar fyrsti uppvakningurinn úr rútunni stökk á þau. Þetta var stelpa úr 9. bekk, sem hafði greinilega kastast út úr henni, heyrt í þeim í fjarska og komið hlaupandi meðfram veginum án þess að þau sáu. Í gegnum snjókomuna sáu þau að fleiri nemendur fylgdu fast á eftir, alblóðugir og argandi.

Með öskri rétt náðu Klara og Bragi náttúrfræðikennari að henda sér inn í jeppann, skella hurðum og svo var brunað! Einhver skrímslanna höfðu reynt að elta þau, önnur skiptu um skoðun og hlupu upp eftir afleggjurunum í kring, örugglega tilbúnir að heimsækja bændurna í nágrenninu. Klöru hafði verið hugsað til geitalabbsins sem hún hafði farið í hérna rétt hjá í gær og vonaði að geiturnar myndu sleppa. Þær höfðu verið svo krúttlegar.

„Þetta eru uppvakningar,“ hvíslaði Ragnar þar sem hann sat aftur í. „Alvöru uppvakningar! Hvernig getur það verið?!“ Natalia sagði ekkert, heldur starði bara á gólfið. Jan leit út um afturrúðuna. Klara líka. Rútan varð sífellt minni og minni og skrímslin sem höfðu reynt að hlaupa á eftir þeim sömuleiðis. Þessir uppvakningar voru snöggir, jafnvel enn sneggri en mannfólk, en þeir voru ekki sneggri en bíll.

„Geggjuð tímasetning, gaur,“ tautaði Meistarinn og Jón bóndi svaraði með því að þenja vélina. Bragi náttúrfræðikennari spenntist allur upp í sætinu sínu.

„Það er slæm færð, viltu gjöra svo vel og hægja á þér!“ hvæsti hann en Jón svaraði engu. Bragi reyndi þá að róa sig niður með því að finna símann sinn til að hringja í einhvern með viti. Það kom fljótt í ljós að það var ekki að ganga vel.

„Virka símarnir ykkar?“ spurði hann pirraður og leit í baksýnisspegilinn.

Allir tékkuðu.

Það er að segja; þeir sem höfðu ekki týnt símunum sínum í öllum hamaganginum.

Allir hristu höfuðið.

Bragi Þór blótaði.

„Líttu á björtu hliðarnar, vinur kær,“ söng Jón bóndi sáttur. „Þú ert allavega laus við skrímslin.“

Og það var nákvæmlega þá sem þau heyrðu jarmið.

Þau litu forviða hvert á annað.

Annað jarm tók við af þessu fyrsta, enn hærra. Það skar í gegnum lætin í bílnum og veðrinu og nánast ómaði um alla sveitina.

„Hvað var þetta?“ hvíslaði Ragnar og skimaði í kringum sig. Enginn svaraði. Klara var sú sem fattaði hvað hafði gerst.

Uppvakningar smita með því að bíta. Allir sem hafa lesið hryllingsbækur eða laumast til að horfa á hryllingsmyndir vita það. En hvað ef – og þetta var stórt „Hvað ef?“ – einn af uppvakningunum hefði ekki bara fundið bóndabæinn þar sem geitalabbið hafði verið í gær – heldur bitið eina af geitunum?

Kannski allar?

Þær voru margar sko.


Klara sneri sér varlega við í sætinu sínu og horfði út um afturrúðuna.

Í fyrstu sá hún ekkert nema snjó.

Svo sá hún þær.

Geiturnar.

Uppvakninga-geiturnar.

Það var ekkert krúttlegt við þær lengur.

Nú voru þær eins og jarmandi snjóflóð, fullt af tönnum og augum og klaufum og hornum.

„Hraðar! Þú verður að keyra hraðar!“ veinaði hún og Jón bóndi lét ekki segja sér það tvisvar. Einhverjir skriðu niður á gólf og reyndu að fela sig þar, aðrir gátu ekki litið undan. Geiturnar nálguðust með hverri sekúndunni og hlupu mun hraðar en geitur áttu að geta.

Bragi Þór náttúrufræðkennari veinaði og greip fyrir augun. Hann hafði ekki einu sinni viljað fara í þetta asnalega skólaferðalag til að byrja með. Hann var hérna bara vegna þess að annar kennari hafði orðið veikur. Sunnudagar áttu að vera kósídagar heima hjá Braga og það var svo sannarlega ekkert kósí við þennan sunnudag!

Hugsanir hans voru truflaðar þegar furðulegt, taktfast hljóð ómaði hægra megin við hann. Bragi leit til hliðar.

„Hvah...“ gaggaði hann forviða. Við hlið jeppans hljóp nú uppvakninga-geit á fullu brokki. Þau horfðust í augu eitt andartak.

Svo opnaði skrímslið slímugt ginið, jarmaði ógurlega, og át baksýnisspegilinn.

„Oj bara!“ öskraði Bragi, greip um farþegadyrnar eins fast og hann gat og opnaði þær af öllu afli. Dyrnar skullu utan í geitina sem hentist út af veginum, náði ekki að hægja nógu snemma á sér og klessti á fullri ferð á umferðarskilti. Hún sprakk.

goats.jpg

Jón bóndi hafði ótaloft keyrt þessa leið.

Hann gæti nánast ekið hana blindandi.

Sem var nánast það sem hann var að gera núna. Skyggnið var slæmt og ófétin að aftan nálguðust hratt. Það hjálpaði heldur ekki til að krakkarnir voru öll að tryllast úr hræðslu.

„Hraðar!“ görguðu þau en nú gat Jón hreinlega ekki gefið meira í. Hann var að botna bílinn og ef hann héldi svona mikið lengur áfram myndi vélin gefa sig. Geiturnar voru alls staðar í kringum þau og það var bara tímaspursmál hvenær einhver þeirra myndi hlaupa í veg fyrir bílinn og senda þau útaf.

Skyndilega sá Jón glitta í ljós í gegnum snjókomuna og hann andaði léttar. Borgarnes var framundan. Þar væri hægt að kalla á hjálp. Leita skjóls. Hann tók enn fastar um stýrið og um leið og hann brunaði þvert yfir hringtorgið fyrir utan bæinn leit hann í baksýnisspegilinn og sá að geitaflóðið var nánast í skottinu á þeim.


En þá gerðist svolítið hræðilegt og stórkostlegt á sama tíma.

Geiturnar hættu að elta jeppann.

Það var það stórkostlega.

Það hræðilega var ástæðan fyrir því að þær hættu að elta bílinn; Borgarnes var stútfullt af húsum. Og húsin stútfull af fólki. Fólki sem átti ekki von á því að fá snaróða uppvakninga-geit inn um gluggann hjá sér.

Með hryllingi störðu krakkarnir á geiturnar skipta liði og ráðast inn í hvert húsið á fætur öðru um leið og jeppinn brunaði í gegnum Borgarnes. Veðrið var of slæmt til þess að þau heyrðu öskrin en þau ómuðu nú örugglega samt.

Í bland við hræðilegt jarm.

„Við getum ekki stoppað hér,“ sagði Bragi náttúrufræðikennari grafalvarlegur á svip og leit á Jón. Bóndinn kinkaði leiður kolli. Hann átti fjölmarga vini í Borgarnesi. Hann myndi aldrei sjá þá aftur. Og nú myndu þeir aldrei fá tækifæri til að sjá nýja flotta jeppann hans.

Skaðinn var ómælanlegur.

„Hvert förum við þá?“ spurði hann. Ragnar varð á undan öllum öðrum í jeppanum að svara. Hann sagði það nánast án þess að hugsa.

„Við þurfum að finna hinar rúturnar tvær,“ sagði hann. „Og svo komast heim.“ Jan flissaði lágt.

„Ég hefði haldið að þér væri alveg sama um hina krakkana...“ tautaði hann. Ragnar leit á hann.

„Hvers vegna segirðu það?“ Jan roðnaði.

„Bara... þú veist.“ Ragnar svaraði ekki heldur leit í baksýnisspegilinn. Augu Jóns bónda mættu honum.

„Það voru tvær aðrar rútur. Finnum þær,“ endurtók Ragnar. „Svo heim. Á Reykjanesið.“


Jón bóndi gaf í.

Keyrði út úr Borgarnesi og setti stefnuna á Hafnarfjallið.

Og hafði ekki hugmynd um uppvakninginn sem var fastur undir jeppanum.

bottom of page