


Jeppinn hrapaði.
Þau höfðu ekki hugmynd um hvort þau voru í 10 metra hæð, tuttugu eða hundrað.
Það var snjór alls staðar, æpandi rok og þau voru að hrapa.
Í frjálsu falli.
Uppvakningahausinn í framrúðunni hafði fokið eitthvert út í buskann. Í stað hans var nú stórt gat á rúðunni. Nístandi kuldi flæddi inn.
Klara lá öskrandi á gólfinu aftur í og hélt eins fast í Nataliu og hún gat. Meistarinn hafði náð að grípa um eitthvað undir farþegasætinu og ætlaði sko ekki að sleppa. Það hafði liðið yfir Braga náttúrfræðikennara. Hann lá máttlaus yfir stýrið og skvettist til og frá eins og kartöflupoki.
Og svo var það Ragnar.
Hann var sá eini í bílnum sem virtist rólegur.
Hann sat bara í framsætinu og starði út um skítuga rúðuna. Óveðrið lamdi jeppann úr öllum áttum og maginn var kominn upp í háls af öllum kippunum fram og til baka en Ragnar gat ekki annað en brosað.
Því ef þetta yrðu hans síðustu sekúndur gætu þær verið verri.
Í fyrsta lagi var hann ekki einn.
Og í öðru lagi myndi hann þá deyja sem hann sjálfur.
Ragnar var trans. Allir í skólanum vissu það. Hann hafði sjálfur vitað síðan hann mundi eftir sér; að hann væri í raun strákur en ekki stelpa – þótt honum hafi verið úthlutað kvenkyni við fæðingu.
Ragnar gat ekki nákvæmlega útskýrt hvernig hann vissi það, hann bara vissi það. Alveg lengst ofan í hjarta. Hann var strákur. Það kom aldrei neitt annað til greina. Það tók hann hins vegar mörg ár að þora að segja einhverjum frá því.
Ragnar var einkabarn og átti þess vegna engin systkini sem hann hefði mögulega getað trúað fyrir þessu. En hann átti foreldra og eitt kvöldið, þegar hann hafði verið um ellefu ára gamall, hafði hann setið inni í stofu og sagt þeim, í eins fáum orðum og á eins skýran hátt og hann mögulega gat, að hann var ekki stelpa, heldur strákur. Hann var trans.
Mamma hans og pabbi höfðu bæði orðið furðuleg á svipinn. Þau vissu ekki alveg hvernig þau ættu að taka þessu. Pabbi hans hélt fyrst að þetta væri eitthvað grín sem hann væri ekki alveg að skilja, en mamma Ragnars, sem hafði alltaf þekkt Ragnar betur en flestir, sá að hér var alvara á ferðum. Hann var með helling af greinum sem hann hafði prentað út á netinu og gaf þeim og vikuna eftir fór öll fjölskyldan saman til ráðgjafa sem vissi mun meira um þetta en hann. Og frekar fljótt gerðu foreldrar hans sér grein fyrir því að þetta var bara svona. Ragnar var strákur.
Og hafði alltaf verið það.
Ragnar vildi samt ekki stökkva strax á bólakaf út í djúpu laugina. Hann vildi ekki segja öllum. Til að byrja með sagði hann bara foreldrum sínum frá þessu. Þá bað hann þau líka að prófa að kalla sig „hann“ en ekki „hana“, og að nota nafnið „Ragnar“ í staðinn fyrir nafnið sem honum hafði verið gefið þegar hann var lítill. Bara svona til að prófa. Sjá hvernig honum líkaði það.
Mamma hans og pabbi samþykktu það og það gekk... ágætlega. Fyrstu mánuðina voru þau samt alltaf að ruglast. Stanslaust. En Ragnar var þolinmóður. Þau höfðu eitt allri ævinni í að kalla hann eitthvað annað og hann gat vel fyrirgefið þeim ruglinginn. Þau voru að reyna sitt besta. Og hann vissi líka að hann var heppinn – það hefðu ekkert allir foreldrar tekið þessum fréttum svona vel.
Það sem var samt mikilvægast var hvernig Ragnari leið þegar hann var kallaður „hann“.
Honum leið frábærlega.
Skyndilega varð allt rétt einhvern veginn.
Hann hafði alla ævi þurft að þykjast vera einhver annar.
En ekki lengur.
Þótt að Ragnar segði engum frá því hver hann var í raun og veru fór fatastíllinn hans samt smám saman að breytast; víðar skyrtur, peysur og aðeins of stórar gallabuxur tóku yfir. Klippingin sömuleiðis; síða hárið, sem hafði náð langleiðina niður á rass, var stytt. Helling. Það var æðislegt! Einhverjir tóku eftir þessum breytingum en flestir héldu bara að Ragnar væri eitthvað að flippa. Hann var alltaf svo hress, þetta var alveg í hans karakter.
Sá næsti sem fékk að vita sannleikann var þáverandi besta vinkona hans; Klara. Þau voru alltaf að bralla eitthvað saman; gefa út tímarit, skrifa leikrit, vera með skemmtiatriði á árshátíðinni og taka þátt í leikfélaginu. Og auðvitað hanga saman.
Eina helgina, nokkrum mánuðum eftir fundinn í stofunni með mömmu og pabba, hafði Ragnar ákveðið að segja Klöru sannleikann. Hún hafði fengið að gista og eftir spjall um allt og ekkert gat hann ekki beðið lengur. Hann sagði henni það. Og hann gat ekki annað en hlegið þegar viðbrögðin hennar voru: „Ó. Ok. Má ég klára pítsuna?“
Klara var snillingur.
Þetta skipti hana engu máli. Ragnar var enn Ragnar. Og já, hún mátti klára pítsuna.
Hann bað hana sömuleiðis um að nota nýja nafnið sitt og réttu fornöfnin. En bara þegar þau væru ein, ekki fyrir framan aðra. Ekki strax.
Klara sló til. Alveg um leið. Og það var dásamlegt!
Það sem var hins vegar ekki dásamlegt var mánudagurinn á eftir.
Þegar Ragnar gekk inn í skólann, eldsnemma og nývaknaður, vissi hann um leið að Klara hefði kjaftað. Allir störðu á hann. Einhverjir flissuðu, aðrir bentu. Gleðin sem hafði tekið yfir allt síðustu mánuðina varð að einhverju allt öðru. Hjartað sökk ofan í maga og hann þorði varla að líta upp úr gólfinu. Hann langaði að hverfa.
Svo byrjuðu skilaboðin. Úr öllum áttum.
Sms.
Snapchat.
Instagram.
TikTok.
Fáránleg skilaboð, stútfull af ógeðslegum hlutum. Hótunum. Þetta var fáránlegt og hræðilegt á sama tíma. Hvað var eiginlega í gangi? Hvers vegna létu allir svona?
Ragnar hafði látið foreldra sína vita um leið sem höfðu talað við skólann og skólinn reyndi sitt besta til að bregðast við þessu, en það virkaði ekkert sérstaklega vel. Skólinn er bara skólinn og hann er búinn á ákveðnum tíma. Það er kveikt á símanum allan sólarhringinn.
Ragnar reyndi að tala við Klöru og spyrja hvað í ósköpunum hefði gerst, en hún vildi ekki tala við hann lengur. Hann reyndi að útskýra fyrir henni að þótt hann héti Ragnar núna og væri loksins hann sjálfur væri hann enn með sama húmorinn, sömu áhugamálin, sömu skemmtilegu sögurnar sem þau skiptust á í frímínútum, að hann væri ennþá sama manneskjan, bara heil en ekki falin að hluta, að hann saknaði hennar og vildi að þau héldu áfram að hanga saman, en hún vildi ekkert með hann hafa lengur.
Þannig að Ragnar hætti að reyna.
Ljótu skilaboðin héldu áfram að berast eftir því sem leið á veturinn en Ragnar gerði sitt besta til að hundsa þau. Það var samt erfitt. Hann hætti á öllum samfélagsmiðlum og henti öppunum úr símanum sínum, sem minnkaði flóðið en þýddi líka að hann missti af nánast öllu sem var í gangi. Og hann var enn með símanúmer og það var hægt að senda sms í það.
Sem margir gerðu.
Þannig að á endanum hætti hann nánast að nota símann.
Var bara heima. Í tölvunni. Einn.
Hafði hann gert mistök? Hefði hann kannski aldrei átt að gera þetta? Hefði hann bara átt að þegja og halda áfram að þykjast vera stelpa?
Hvers vegna máttu allir aðrir nema hann vera þeir sjálfir?
Það liðu einhverjir mánuðir. Það kom sumar. Skólinn hætti.
Foreldrar Ragnars höfðu miklar áhyggjur af syni sínum og splæstu í sumarbúðir í Danmörku fyrir hinsegin krakka, þar sem alls kyns skemmtileg útivera var í boði ásamt áhugaverðum námskeiðum. Ragnar, sem var kominn með ógeð af Íslandi, skellti sér.
Og fékk sjokk.
Þarna var öllum sama hvort hann væri trans eða ekki. Hinir krakkarnir voru miklu meira að pæla í því sem hann hafði að segja, hvaða tölvuleiki hann spilaði og hvaða bíómyndi hefðu verið teknar upp á Íslandi frekar en nokkru öðru. Allir eru nefnilega svo margt, það að vera trans var bara eitt af því sem Ragnar var – ekki allt.
Á öðrum degi sumarbúðanna hafði Ragnar hitt danskan strák að nafni Elias.
Elias var hávaxinn og dökkhærður og kunni að syngja og var ógeðslega góður á gítar og var tveimur árum eldri og Ragnar varð svo gersamlega ástfanginn að hann sprakk næstum því.
Það gerðist samt nánast ekkert á milli hans og Eliasar. Bara einn koss – á síðasta deginum. En það var nóg. Ragnar kom aftur heim, endurnærður og með mjög mikilvæga vitneskju í farteskinu: „Vandamálið liggur ekki hjá mér. Það liggur miklu meira hjá öllum hinum.“
Ragnar hafði ekki gert mistök með því að velja vera hann sjálfur.
Engan veginn. Sama hversu erfitt lífið er, þá er alltaf best að mæta því sem sem maður sjálfur. Líf í felum, er ekkert líf.
Skólinn byrjaði aftur.
Sms-in, sem virtust hafa farið í sumarfrí, byrjuðu líka aftur. Nema í þetta skiptið trufluðu þau Ragnar ekki. Hann þurfti bara að hugsa um Elias og þá leið honum betur. Eyddi þeim án þess að lesa þau.
Og smám saman fór þeim að fækka.
Á sama tíma ákvað Ragnar að taka sér meira pláss. Eins og áður. Í stað þess að ganga með veggjum fór hann að hafa hátt. Skráði sig aftur í leikfélagið. Tók þátt í söngvakeppninni. Leit ekki undan þegar einhver var að horfa á hann.
Og honum leið betur. Miklu betur.
Utan skólans kynntist hann öðrum hinsegin krökkum í gegnum netið og komst að því að einhver þeirra bjuggu meira að segja frekar nálægt. Lífið var of stutt fyrir leiðinlegt fólk, Ragnar eignaðist nýja vini, sem tóku honum eins og hann var. Hinir máttu eiga sig.
Ragnar og Klara urðu ekki vinir aftur, en eftir því sem tíminn leið fannst honum eins og hún væri að reyna að biðjast afsökunar – en samt án þess að biðjast afsökunar. Eins og til dæmis þegar hún vakti hann í hádeginu þegar hann var næstum því búinn að sofa yfir sig.
Það var skárra en ekkert.
Bíllinn hrapaði og Ragnar brosti með sjálfum sér.
Það að segja frá því hver hann var í raun og veru var miklu stærra stökk í mun meiri hæð en þessi blessaði jeppi hafði nokkurn tímann verið í.
Þau lentu.
Með látum.
Allir hentust til og frá og dekkin þeyttust undan jeppanum. Ragnar kreisti aftur augun og hugsaði að nú myndu þau öll deyja. Þau hefðu lent á götu og bíllinn myndi springa.
En eitthvað allt annað gerðist:
Ískalt vatn byrjaði skyndilega að flæða inn í bílinn. Úr öllum áttum.
Krakkarnir sem lágu á gólfinu aftur í spruttu rennvotir á fætur.
„Sjór!“ gargaði Meistarinn og skyrpti. „Við lentum lengst úti á sjó!“ Hann reif í hurðarhúninn að hurðinni næst honum og reyndi að opna.
Barnalæsingin á jeppanum var enn virk.
Klara, sem var líka komin á fætur, reyndi að berja í rúðuna með stóru sprungunum en hún gaf sig ekki.
Bragi var enn meðvitundarlaus.
Sjórinn hélt áfram að flæða inn um allar sprungur og göt á bílnum. Brotna afturrúðan hjálpaði ekki til.
Jeppinn var að sökkva.
Hratt.
