top of page
15. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 15:13

Kæru kennarar, slæmar fréttir: Þessi kafli er örlítið langur. 

Kæru krakkar, góðar fréttir: Þessi kafli er örlítið langur.

5.jpg

Uppvakningshausinn liggur í steindauðu gervigrasinu og starir svangur á krakkana, sem standa berfætt á miðjum vellinum, algerlega í sjokki. Allt fullorðna fólkið fylgist spennt með. Hvað gerist nú?

Grænklæddu konurnar hafa safnað saman öllum skóm og sokkum og komið þeim fyrir á hliðarlínunni. Þær standa nú við hliðina á Þjálfaranum, beinar í baki og tilbúnar í hvað sem er. Fólkið sem sat á klappstólunum fyrir aftan Þjálfarann er enn að jafna sig eftir skotið frá Æsu og sumir hverjir hafa fært sig lengra frá honum. Bara til öryggis, ef stelpugerpið skyldi óhlýðnast aftur. Kennarinn er hvergi sjáanlegur. Það sem eftir var af henni, það er að segja.

Krökkunum gæti ekki staðið meira á sama.
 

„Hvert fóruði með Pétur?“ kallar Æsa til Þjálfarans.

Hann svarar ekki. Glápir bara á hana.

„Hvar er Pétur?!“ endurtekur hún, hærra í þetta skiptið. Grænklæddu konurnar með hanskana líta á Þjálfarann til að sjá hvað hann muni gera. Hann hugsar sig um.

„Það er ekkert sem þú getur gert fyrir hann, hm?“ kallar Þjálfarinn loks til baka. „Kannski tekur það hálftíma, kannski 5 mínútur, kannski styttri tíma en það, en hann var bitinn, hm? Hann er farinn, hm? Við sjáum um hann, engar áhyggjur.“ Hann blæs aftur í flautuna. „Áfram með leikinn!“ Æsa ætlar að segja eitthvað meira, en Joanna tekur blíðlega í aðra öxlina á henni.

„Ekki gera honum það til geðs,“ segir hún lágt. Og Æsa veit að Joanna hefur rétt fyrir sér. Hún dæsir og skyndilega er allur vindur úr henni. Æsu líður eins og sprunginni blöðru.

Hún á ekkert eftir.

Æsa snýr sér að vinum sínum og hristir höfuðið. Svo lítur hún á sínar eigin óvörðu tær.

„Fyrirgefiði,“ tautar hún. „Ég vissi ekki að hann myndi taka...“ Hún kyngir kekkinum. „Pétur... Hann... Ég vildi bara...“ Hún nær ekki að klára setninguna. Hún þarf þess ekki. Það er ekki alveg á hreinu hver stígur fyrst fram og knúsar Æsu en á endanum eru þau öll komin í stórt hópfaðmlag.

„Við hefðum öll gert það sama,“ segir Halldór og knúsar extra-fast. „Og þetta var bara skrambi gott skot hjá þér.“ Æsa getur ekki annað en flissað.

„Takk,“ segir hún og ýtir sér út úr mannmörgu knúsinu. Hún er ekkert mikið fyrir svona lagað. Æsa þurrkar sér um augun og dæsir.
„Ég myndi drífa mig að fara að skora, hm?“ kallar Þjálfarinn. „Níu mínútur liðnar af leiknum. Ein markalaus mínúta enn og ég þarf að fara að leita að fleiri spjöldum, hm?“

Það er Pawel sem tekur af skarið í þetta skiptið. Hann hleypur af stað.

„Nei, bíddu!“ kallar Joanna á eftir honum en hann hlustar ekki. Slímugur og spenntur hausinn sér hann nálgast og opnar ginið upp á gátt. En Pawel veit betur. Hann valhoppar léttilega yfir uppvakningshausinn, snýr sér við og sparkar fast í hnakkann. Svart slím skvettist yfir tærnar og Pawel veinar.

„Slímið er heitt!“ hrópar hann og fer umsvifalaust niður á hnén til að þurrka fætinum í gervigrasið.

Hausinn rúllar eftir jörðinni. Fyrst hratt, svo hægar og hægar. Og að lokum veltur hann inn í tómt mark bláa liðsins. Foreldrafélagið fagnar ægilega. Krökkunum gæti ekki staðið meira á sama.

„Flott þetta!“ æpir Þjálfarinn og klappar saman lófunum. „1-0. Við látum það nú ekki standa, er það nokkuð bláa lið, hm? Koma svo!“

 

Þau halda áfram að spila. Rauða liðið skorar annað mark og það bláa nær sömuleiðis tveimur. Krakkarnir vita ekkert hversu langt er liðið á þennan hræðilega leik. Það eina sem þau vita er að þetta verður sífellt erfiðara. Uppvakningshausinn er smám saman farinn að fatta að þau miða á hnakkann hans og virðist gera í því að velta sér til og frá þegar þau nálgast. Hann vill ná þeim.

Sem hann að lokum gerir.

Joanna verður sú óheppna. Hún ætlar að senda hausinn til Ragnars með lausu sparki í hnakkann þegar ógeðið veltir sér skyndilega til hliðar, opnar ginið og bítur.  En hausinn er ekki hættur. Hann heldur áfram að bíta, hoppar upp eftir fótleggnum með hverju bitinu, eins og hræðilegur parkour-gaur. Hann endar rétt fyrir neðan hnéð og bítur á bólakaf.

Hér er gott að vera!

Joanna æpir og fellur í jörðina. Það er blóð alls staðar. Pawel stekkur af stað. Grænklæddu konurnar sömuleiðis. Það er greinilega mikilvægt að ná þeim sem eru bitnir áður en þeir verða að uppvakningum.

Pawel rennur næstum á höfuðið í grasinu en rétt nær að halda jafnvægi. Hann lemur eins fast og hann getur í gráðugan hausinn með öðrum olnboganum og ófétið sleppir takinu á systur hans. Lendir svo í grasinu skammt frá þeim.

Pawel krýpur við hlið systur sinnar og grípur um andlitið á henni. Joanna starir á hann og reynir að brosa. Hann langar að segja eitthvað, en hefur ekki tíma til þess. Grænklæddu konurnar eru komnar. Önnur þeirra ýtir Pawel frá og hin veltir emjandi Joönnu á börurnar.

„Ekki taka hana!“ gargar Pawel, en það er ekki hlustað á hann.

Grænklæddu konurnar bera Joönnu af velli.

Arndís gengur að Pawel og hjálpar honum á fætur.

Gengur með hann til hinna krakkanna, sem standa stjörf eftir í hóp á miðjum vellinum.

Þjálfarinn blæs í flautuna.

Ekkert gerist.

Fullorðna fólkið sem fylgist með á hliðarlínunni fer að ókyrrast.
„Áfram með leikinn!“ gargar Þjálfarinn. „Sparkið í hausinn, hm? Hvað er að ykkur?! Þetta er bara hluti af leiknum, haldið áfram!“ Meistarinn lítur af aumingja Pawel og á þennan fullorðna fáránlega mann. Hann tekur ákvörðun: Þetta er komið gott. Hingað og ekki lengra. Hann snýr sér að Ragnari.

„Ég ætla að rústa hausnum,“ hvíslar Meistarinn ákveðinn á svip.

„Ha?“ spyr Ragnar. Meistarinn glottir.

„Ef ég sparka eins fast og ég get hlýtur hann að springa eða e-ð?“ Ragnar hugsar sig um. Hann er ekki viss. Meistarinn bíður ekki eftir svari. Hann bara hleypur af stað. Fullorðna fólkið hrópar spennt. Nú fer loksins eitthvað að gerast!

Meistarinn hleypur eins hratt og hann getur að hausnum!

Hraðar en hann hefur nokkurn tímann hlaupið!

Býr sig undir að sparka!

Rennur í blóðpollinum sem Joanna skildi eftir sig.

Meistarinn flýgur upp í loftið og skellur svo flatur á bakið. Hann missir andann.

Lítur til hliðar.

Andlitið hans er alveg við uppvakningshausinn.

Þeir horfast í augu eitt hræðilegt andartak.

Svo opnar uppvakningurinn munninn og bítur á bólakaf í kinnina á Meistaranum.

Sársaukinn er ægilegur. Meistarinn baðar út öllum öngum, reynir að losa ófétið af andlitinu á sér en nær ekki almennilegu taki. Hausinn er slímugur og sleipur.

„Hjálp!“ gargar hann og kallinu er svarað.

Klara kemur hlaupandi. Hún stekkur til, hendir sér á hnén og grípur um hausinn með báðum höndum.

„Slepptu honum!“ veinar hún og rífur eins fast og hún getur í ófétið. Sársaukinn verður enn meiri, kinnin teygist eins og tyggjó. „Slepptu!“ argar Klara og hallar sér aftur til að ná enn meiri þunga í togið. Meistarinn æpir ægilega þegar hausinn loks sleppir takinu. Klara flýgur aftur fyrir sig með ófétið í fanginu.

Meistarinn grípur um kinnina á sér. Svart slím vellur úr sárinu. Það svíður. Ískaldur náladofi er farinn að taka yfir neðri hluta andlitsins. Það kemst ekkert að nema sársauki.

„Nei, nei, nei!“ gargar Meistarinn og lemur í gervigrasið. „Nei!“ Hann sér glitta grænklæddu konurnar sem koma hlaupandi eins hratt og þær geta, tilbúnar að bera hann af velli. Meistarinn snýr sér í áttina að þeim og öskrar eins og ljón. Hann mun sko ekki láta velta sér yfir á einhverjar börur! Þær munu þurfa að hafa fyrir því að bera hann af velli! Svart slímið lekur niður hálsinn. Grænklæddu konurnar hægja ekki á sér.

Ekki einu sinni þegar þær koma að honum.

Þær hlaupa fram hjá Meistaranum.

„Hvað er í gangi?“ hugsar hann sljór, en nær ekki að segja það upphátt. Skyndilega er farið að hægast á öllu. Náladofinn færist ofar upp eftir höfðinu og Meistarinn þarf að beita öllum sínum kröftum til að líta til hliðar og sjá hvað sé eiginlega málið. Allt er í móðu og úr fókus en ef hann pírir augun getur hann séð.

Grænklæddu konurnar eru rétt hjá honum. En þær eru ekkert að spá í Meistaranum. Það tekur hann augnablik að fatta að þær standa yfir Klöru.

„Hvaða...?“ nær Meistarinn að hvísla. Og þá sér hann það. Reiðin nær að taka yfir nálfadofann í eitt augnablik og móðan hverfur. Klara liggur í grasinu, enn með uppvakningshausinn í fanginu. Hún starir tómum augum út í loftið.

Hungraður hausinn fór aldrei úr fanginu á henni eftir að hann lenti þar.

Í fjarska sér Meistarinn móta fyrir Ragnari sem kemur nú hlaupandi. Natalia eltir hann og rétt nær að snúa Ragnar niður.

„Það er ekkert sem þú getur gert!“ öskrar hún á vin þeirra sem liggur flatur í gervigrasinu og trúir ekki sínum eigin augum.

Grænklæddu konurnar eiga í mestu erfiðleikum með að fjarlægja uppvakningshausinn úr fanginu á Klöru en tekst það að lokum. Þær kasta honum frá sér. Svo koma þær henni fyrir á börunum og hlaupa. Meistarinn starir á eftir þeim og veit innst inni að þær munu koma til baka eftir smá stund og sækja hann.

Náladofinn tekur endanlega yfir og allt verður móða.

„Áfram með leikinn!“ gargar Þjálfarinn um leið og Meistarinn hefur verið borinn út af.

Þeir krakkar sem eru eftir standa skjálfandi á vellinum. Þau eru sko ekkert að fara að gera neitt meira. „Koma svo, hm?!“ hrópar hann en öllum er sama.

Hann sér það.

Og ákveður að taka til sinna ráða.
Hann hleypur skyndilega inn á völlinn eins og íþróttahetjan sem hann er og setur stefnuna á hausinn.

„Svona!“ segir hann ákveðnum rómi, kemur sér í stellingar og lítur á Halldór sem er kannski tíu metra frá honum. „Halldór! Komdu!“ Halldór stígur út úr vinahópnum og í áttina að Þjálfaranum. „Þú ert fótboltahetjan. Svona, kláraðu þetta dæmi. Bara eitt mark enn og þá vitum við hver sigrar, hm?“ Halldór stoppar og hristir höfuðið.

„Nei...“ segir hann lágt. „Ég held að þetta sé bara komið gott.“ En Þjálfaranum er alveg sama.

Hann miðar á Halldór og sparkar.

Ef þetta væri venjulegur fótbolti hefði Halldór tekið hann á kassann, en það er auðvitað ekki í boði núna. Þannig að hann skýtur sér örlítið til hliðar. En þetta er búinn að vera langur og hræðilegur dagur og þess vegna er Halldór ekki alveg nógu vakandi. Í þetta eina augnablik gleymir hann aðalatriðinu í fótbolta.

Hann gleymir að passa hendurnar.

Í stað þess að lenda á kassanum endar uppvakningshausinn á handleggnum hans.

Og bítur.

Halldór veinar og fellur á hnén.
„Hvað ertu að gera?!“ orgar Arndís á Þjálfarann og hleypur til Halldórs. „Þú ert ekki einu sinni í þessum leik!“ Þjálfarinn lyftir upp báðum höndum í algjörri uppgjöf og trítlar aftur út af vellinum.

,,Þið vilduð ekki spila, hm?" gargar hann án þess að líta um öxl.

Grænklæddu konurnar mæta honum. Halldór er á hnjánum og heldur um bitið með hinni hendinni. Blóð spýtist milli fingranna.

Arndís stoppar nokkra metra frá honum og starir frosin á vin sinn. Svo missir Halldór takið á sárinu. Blóð sprautast yfir vinkonu hans eins og garðslöngu væri miðað að henni.

Svo fellur hann fram fyrir sig.

Þjálfarinn blæs í flautuna.

Fullorðna fólkið á hliðarlínunum sprettur fætur. Þau spjalla sín á milli, einhverjir arka svo þeir verði fyrstir í röðinni á klósettið og enn aðrir lyfta sér á tær til að sjá hvort það sé nú kannski verið að selja nammi eða mat einhvers staðar. Eða kannski kaffi, það væri nú næs, enda langt liðið á kvöldið. Það er næstum eins og þau hafi bara verið að horfa á venjulegan fótboltaleik.

Ekki martröð.

Rafvirkinn hallar sér enn upp að vegg og fylgist með. Svipurinn gefur ekkert til kynna. Hann er samt einn af þeim örfáu á svæðinu sem ekki er brosandi.


Ragnar, Pawel, Arndís, Æsa og Natalia standa ein eftir á miðjum vellinum. Þau skilja ekkert hvað er að gerast núna. Grænklæddu konurnar koma hlaupandi og koma Halldóri fyrir á börum. Sú þriðja tekur varlega utan um uppvakningshausinn sem liggur sáttur í gervigrasinu og setur hann í stóran glerkassa. Svo láta þær sig hverfa.

„Hvað...“ byrjar Ragnar en finnur ekki réttu orðin. Hnén gefa sig og hann fellur í jörðina. Hann lítur yfir völlinn. Sér glansandi blóðpolla hér og þar. Æsa grætur. Hún reynir ekki einu sinni að fela það. Ekkert skiptir máli lengur. Pawel horfir á eftir grænklæddu konunum. Hann langar að kalla nafn systur sinnar og spyrja þær hvert var farið með Joönnu en einhvern veginn finnur hann engin orð. Arndís tekur af sér gleraugun og segir ekkert. Hana klæjar í allan líkamann af vonleysi og reiði og ótta. Natalia tekur skyndilega kipp, beygir sig fram og ælir í grasið.


Þjálfarinn kemur hlaupandi.

„Flott þetta, flottur leikur, hm?“ segir hann sáttur og klappar saman lófunum. „Jæja, inn í búningsherbergi, fáið ykkur vatn, fáið ykkur ávexti, Næringafræðingurinn skildi eftir skál af bönunum og eplum handa ykkur, svona, hristið þetta af ykkur.“ Pawel lítur forviða á hann. Um hvað er maðurinn eiginlega að tala? Hvað er að honum?

„Til... til hvers?“ stamar Pawel. Þjálfarinn brosir.

„Það er hálfleikur, sko. Við erum bara rétt að byrja, hm?“

skolaslit-3_s15_new.jpg
bottom of page