top of page
21. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 11:31
1.jpg

Ragnar og Þjálfarinn sitja á gólfinu á skrifstofu Lárusar rafvirkja og þegja. Fyrir utan skrifstofuna má heyra stunur og öskur í bland. Enn eru uppvakningar að berja á dyrnar. Taka í hurðarhúninn. Skrímslin komast samt ekki í gegn. Allavega ekki í bili.

Það fyrsta sem þeir félagar gerðu eftir að Ragnar hafði slökkt á girðingunni var að draga fyrir stóra gluggann í hinum enda skrifstofunnar. Þennan sem vísar út að anddyri skólans. Sem betur fer eru gardínurnar það þykkar að þeir geta haft kveikt á litlum borðlampa sem stendur á enda skrifborðsins.

Eftir það höfðu þeir samt voða lítið að gera. Sátu bara og þögðu. Á einum tímapunkti stóð Þjálfarinn upp og greip þykka bók af skrifborðinu.

„Vopn, hm?“ sagði hann afsakandi um leið og hann settist aftur. „Ef þeir komast... þú veist...“ Ragnar vissi. Og hann vissi líka að bók myndi voða lítið gera.

Hér inni er engin klukka, þannig að Ragnar verður að reyna að ímynda sér hversu langur tími hefur liðið. Natalia og Pawel áætluðu klukkutíma í að dreifa blöðunum með rúnunum allan hringinn. Arndís og Æsa áttu að ná að þekja blöðin bensíni. Síðan átti Ragnar að kveikja aftur á girðingunni. Neisti átti að setja allt af stað. Öll blöðin brenna. Myrkrið átti að hverfa. En hvað er langt síðan hann hleypti uppvakningunum út? Hálftími? Þrjú korter? Ragnar er ekki viss. Hann situr bara og reynir að telja í huganum.

Skyndilega finnur hann að Þjálfarinn er að horfa á sig.

Hann lítur upp og sér að hann hefur rétt fyrir sér.

„Hvað?“ spyr Ragnar hvass. Þjálfarinn starir á hann og hallar sér upp að veggnum á móti Ragnari.

„Það var sko megavesen að redda þessum haus,“ segir hann. „Sem var notaður í fótboltaleiknum, hm? En það er enginn sem spyr að því, hm?“ Ragnari gæti ekki verið meira sama. Þjálfarinn heldur samt áfram. „Hann náði að klóra tvo á meðan við söguðum hann af.“ Hann hristir höfuðið. „Ferlegt alveg, hm?“ Ragnar svarar engu. Þjálfarinn virðist bara espast upp við það. „Á ég að segja þér leyndarmál?" segir hann. ,,Ég var ekki einu sinni þjálfari,“ og hann brosir trylltu brosi. „Í gamla daga, ég var ekki einu sinni þjálfari, hm?“ Ragnar skilur ekkert.

„Ókei...“ segir hann.

„Ég sagði það bara svo ég myndi fá stjórnunarstöðu hérna,“ heldur Þjálfarinn stoltur áfram. „Svo fólk myndi hlýða mér. Svo ég myndi fá að ráða, hm? Ég hafði bara nógu hátt. Tók mér nóg pláss. Laug því að ég vissi hvað ég var að gera. Og allt í einu fékk ég bara að ráða, hm?“ Ragnar starir á þennan fáránlega mann. Nei, ekki fáránlega. Sorglega.

Ragnar svarar engu. Þjálfarinn glottir og hallar sér nær.

„Viltu vita hvað ég var?“ spyr hann spenntur. „Í alvörunni? Í gamla daga? Hm?“ Ragnar opnar munninn til að spyrja, en sér svo að sér.

„Nei,“ segir Ragnar loks. „Mér er alveg sama hver þú varst. Ég hef séð hver þú ert. Og það er nóg.“ Glottið þurrkast af andliti Þjálfarans. Ragnari finnst það ekkert ofboðslega leiðinlegt.

 

Handan hurðarinnar heyrast skyndilega fótatök. Fyrst róleg, svo sífellt fleiri og hraðari.
„Hvað er í gangi?“ tautar Ragnar, stendur á fætur og leggur eyrað upp að læstri hurðinni.

Allt í einu byrja fótatökin að óma úr annarri átt.

„Ó, nei...“ hvíslar Ragnar um leið og hann lítur í áttina að skrifstofuglugganum. Svo stekkur hann af stað.

„Varlega...“ hvíslar Þjálfarinn og bakkar ósjálfrátt eins langt frá glugganum og hann getur. „Við erum á jarðhæð, hm? Þeir geta vel komist inn ef þeir sjá þig!“ Ragnar svarar engu, tekur í þykka gardínuna og togar hana örlítið til hliðar, bara til að sjá.

Það er byrjað að rigna. Lávaxinn uppvakningur, örugglega barn, hleypur skyndilega fram hjá glugganum og Ragnar er næstum því búinn að hrópa upp yfir sig. Hann rétt nær að gleypa hljóðið. Uppvakningurinn hleypur eitthvert út í nóttina. Heill her af þeim fylgir á eftir.

Ragnar blótar. Þetta átti ekki að gerast!

Arndís og Pawel höfðu verið svo viss um að ef ófétin sæu engar manneskjur fyrir utan skólann myndu þau bara halda sig á sínum stað. Og um leið og Myrkrið yrði sigrað myndu uppvakningarnir drepast. Þannig að þau þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur. En annað hefur komið á daginn.

Ragnar getur ekki verið hérna lengur.

Hann verður að fara og hjálpa vinum sínum!


Ragnar arkar að hurðinni, tekur hana úr lás og opnar pínulitla rifu. Þjálfarinn fær næstum hjartaáfall og sprettur á fætur.

„Lokaðu drengur, hm?!“ hvæsir hann en Ragnar hlýðir ekki.

Hann gægist fram. Gangurinn er tómur.

„Það er engin lykt...“ tautar hann og opnar betur. Þjálfarinn, enn vopnaður bókinni, stendur grafkyrr.

Ragnar lítur um öxl og á rofann merktan GIRÐING. Svo sér hann Þjálfarann. Það er ekki séns að hann treysti þessum jólasveini til að kveikja aftur á girðingunni á réttum tímapunkti. Það er nú eða aldrei. Ragnar arkar aftur inn á skrifstofuna, tekur um rofann og ýtir honum aftur upp.

Einhvers staðar í fjarska heyrist þungur dynkur.

Girðingin er komin aftur í gang.

Vonandi voru krakkarnir búnir að þessu.

„Hvað á þetta að gera?“ spyr Þjálfarinn.

„Brenna blöð sem eru þakin bensíni sem hanga á rafmagnsvírnum,“ svarar Ragnar. Þjálfarinn verður skrítinn í framan. „Hvað?“ Þjálfarinn hnussar.

„Rafmagn virkar ekki þannig, hm? Það eina sem þið eruð með eru blautar blaðsíður. Sama hvort það sé kveikt á þessu drasli eða ekki.“ Svo hlær hann. Ragnar starir á Þjálfarann. Og innst inni veit hann að gerpið hefur rétt fyrir sér. Kannski vissi Ragnar það allan tímann.

Hann getur ekki beðið lengur. Hann hleypur af stað. Hlátur Þjálfarans glymur um gangana, hvell og sannfærandi.


Natalia og Pawel eru rétt rúmlega hálfnuð með að hengja upp blöðin með rúnunum, þegar Ragnar kveikir aftur á girðingunni. Það rignir og þeim er kalt. En þau mega ekki stoppa. Arndís og Æsa eru vonandi bara rétt á eftir þeim, búnar að hella yfir blöðin.

„Við höfum enn tíma!“ másar Natalia um leið og þau arka fyrir horn og snarstoppa.

Fyrir framan þau er stór umferðargata.

Við endan á henni hefur varnargarðurinn verið reistur, þakinn vírum og tilbúinn að láta hengja blöð með rúnum á sig.

Þangað var ferðinni heitið. En þangað munu þau aldrei komast.

Gatan er gersamlega troðfull af uppvakningum.

Natalia þekkir einhver andlitanna. Þetta er fólk úr Foreldrafélaginu. Einhvers staðar lengst inni í hópnum sér Pawel glitta í Pétur. Hann lítur undan áður en hann nær að sjá Jóönnu sem stendur stjörf skammt frá honum.

„Þau hafa farið út...“ hvíslar Natalia og byrjar að bakka. „Ó, nei, þau hafa farið út úr skólanum!“ Pawel bakkar sömuleiðis.

„Snögg!“ hvíslar hann. „Komdu!“ Þau snúast á hæli og hlaupa. Búast við því að heyra öskur og fótatök, finna krumlur rífa í sig, tennur bíta í sig, en eftir nokkur andartök fatta þau bæði að það er ekki að fara að gerast. Í raun er ekkert að gerast.

Pawel er fyrri til að líta um öxl. Svo Natalia.

 

Uppvakningarnir elta ekki. Þeir standa bara og stara. Sjálflýsandi augun flöktandi í rigningunni.

Krakkarnir hægja á sér. Hvað er í gangi hérna?

Og svo byrja skrímslin skyndilega að ýta hvort öðru.

Hrinda.

Pawel finnur kvíðahnút fylla magann. Hann veit nákvæmlega hvað mun gerast næst. Honum verður hugsað til uppvakninganna við flugstöðina og hvernig einn át hina til að stækka. Nema þá voru þeir bara þrír.

„Þessir eru mun fleiri...“ hvíslar hann.

Með orgi og smjatti ráðast uppvakningarnir hver á annan. Það er rifið og étið, slitið og hámað. Krakkarnir skima óð í kringum sig eftir felustað og sjá loks yfirgefinn strætó skammt frá. Þau henda sér á bak við hann og gægjast.

Uppvakningarnir verða sífellt færri og færri, en á sama tíma stærri og stærri. Að lokum eru bara tveir risar eftir. Annar stekkur á hinn og kastar honum í jörðina. Strætóinn skelfur þegar skrímslið skellur í malbikið.

Annar byrjar að éta.

Hinn er étinn.

Sletturnar skvettast um götuna, upp veggi og yfir þök.

Sá fyrri klárar.

Og reisir sig svo við.

Það tekur dágóða stund.

Viðbjóðsleg veran gnæfir nú yfir götunni eins og blokk. Í tunglsljósinu sést að risinn er ekkert nema andlit allra allra uppvakninganna sem mynduðu hann. Starandi, æpandi andlit þekja hann. Krakkarnir verða að forða sér. Þau geta ekki verið hérna. Það þarf nýja áætlun. Þau þurfa að finna Arndísi, Æsu og Ragnar og bara forða sér!

Skyndilega er eins og það kólni. Hrollur læðist upp eftir bökum Nataliu og Pawels þar sem þau krjúpa í felum á bak við strætóinn.

Þau líta hvort á annað og vita bæði hvað hefur gerst.

 

Svartur skuggi skríður eftir blautri götunni. Hann dansar á milli annarra skugga, leikur sér í skúmaskotum og nemur loks staðar við fætur risans. Svo læðist hann upp eftir fótleggjunum, flýtur upp eftir maganum og hálsinum og rennur loks inn um rifuna sem mætti líklega kalla munn.

Myrkrið er loksins mætt. Eftir allan þennan tíma.

Og það hefur fundið sér nýjan samastað.

Gríðarstór uppvakningurinn tekur kipp, næstum eins og honum hafi verið stungið í samband. Öll augun á öllum andlitunum galopnast, allir munnarnir teygast í skelfilega grettu. Svo lekur grettan og verður að hræðilegu brosi.


Umsvifalaust byrjar ógeðið að skima í kringum sig. Veran sér strætóinn um leið.

Sér krakkana um leið.

Sama hvað þau munu reyna að fela sig.

„Nei, sko!“ orgar veran með svo ótrúlega mörgum munnum og röddum að krakkana langar mest að öskra. „Þarna eruði!“

skolaslit-3_s21_bly.jpg
bottom of page