



Krakkarnir skima í kringum sig eftir flóttaleið en það er engin slík í boði. Það eru uppvakningar fyrir utan og það sem var einu sinni Bragi náttúrufræðikennari er hér inni.
Myrkrið flissar.
„Svipurinn á ykkur... er alveg eins og á sænska túristanum... sem ég náði hérna fyrr í kvöld,“ segir það og glottir. „Sem ég notaði... til að komast inn á lögreglustöðina. Þóttist vera... unglingur. Til að tefja... og flækjast fyrir. Hann var líka... svona hissa.“ Krakkarnir vita ekkert um hvað Myrkrið er að tala, en trúa því samt sem áður.
Ragnar reynir laumulega að líta í kringum sig, en hér er ekkert nema lokuð herbergi. Og tölvur. Skrifborð. Stólar. Hann heyrir þungan dynk og vein og af hljóðinu að dæma getur hann nokkurn veginn reiknað út hvaða gluggi brotnaði rétt áðan.
Inni á klósetti.
Hafði hann ekki örugglega lokað hurðinni þegar hann var þar inni áðan? Það myndi gefa þeim örlítið forskot. Kannski. Vonandi.
„Er ég að gleyma einhverju?“ hugsar hann. „Við hljótum að gera...“ Hann hættir í miðri hugsun, því skyndilega hallar Klara sér upp að honum og klípur hann laust í annan handlegginn. Ragnar þarf að passa sig að hrópa ekki. Hann lítur á Klöru, sem er laumulega að horfa á eitthvað á bak við hann. Ofurvarlega lítur Ragnar um öxl, en sér ekkert nema ganginn sem leiðir að bílskúrnum.
„Hvað er hún að...“ byrjar hann að hugsa, en fattar það svo.
Bílskúrinn!
Þar er lögreglubíll. Eru þeir ekki oftast brynvarðir eða eitthvað? Ef þau komast inn í hann er ekki séns að nokkur nái til þeirra.
Eða hvað?
Hann hefur ekki tíma til að hugsa meira út í það. Þetta er snilldarhugmynd hjá Klöru og í raun það eina sem þau geta gert. En fyrst þurfa þau að sleppa lifandi frá Myrkrinu.
Það er enn að tala. Segjandi þeim frá því hvernig það blekkti Þórkötlu lögreglustjóra og sneiddi Sæmund lögregluþjón í tvennt.
„Með þessum...“ rymur það og rembist örlítið. Beittir svartir angar, næstum eins og á kolkrabba, byrja að brjótast út um bakið á því. Súr fýla fylgir í kjölfarið. Krakkarnir taka öll ósjálfrátt eitt skref aftur og Myrkrið hlær.
Og það er þá sem Ragnar fær nóg. Þetta er komið gott.
„Natalia!“ veinar hann um leið og hann stekkur að skrifborði Sæmundar, rífur upp stórt lyklaborð og kastar því til hennar.
Þegar þú æfir handbolta er ekkert eðlilegra en að fá óvæntar sendingar. Þú þarft auðvitað að snúa á andstæðinginn. Natalia átti samt næstum því ekki von á þessari.
Hún greip. Og fattaði um leið hvað Ragnar vildi að hún gerði. Hún skaut.
Markið var andlitið á Myrkrinu.
Og þetta var mark.
Tennur og eitthvað sem var einu sinni nefið á Braga náttúrufræðikennara skjótast út í loftið og lenda í subbulegu teppinu. Myrkrið orgar af sársauka og grípur fyrir munninn. Flugbeittir kolkrabbaarmarnir slást eins og óðir fram og til baka, rispa veggina og brjóta gluggana. Uppvakningarnir fyrir utan bíða ekki boðanna. Þeir vaða inn.
„Bílskúrinn!“ argar Klara. „Núna!“ Krakkarnir hlaupa af stað.
„Bíðið!“ orgar Myrkrið. „Bíðið!“
Krakkarnir bíða ekki.
„Áfram!“ öskrar Ragnar.
Krakkarnir steypast inn í bílskúrinn og skella á eftir sér. Ragnar og Klara setjast aftur í, Meistarinn í bílstjórasætið, Natalia við hlið hans.
Og það er um leið og allir skella hurðunum sínum sem þau fatta að ekkert þeirra er með lykil.
„Ertu að djóka?!“ hrópar Meistarinn þar sem hann lemur í stýrið. „Þetta var þitt plan, Klara! Hvað varstu að pæla?“
„Það var skárra en að standa og láta éta sig!“ svarar hún.
Natalia gáir í hanskahólfið, hólfið milli sætanna. Ekkert.
„En í svissinum?“ hrópar Ragnar. „Varstu búinn að gá þar?“ Allir halda niðri í sér andanum á meðan Meistarinn lítur á staðinn sem hann hefði kannski átt að byrja leitina á.
Lykillinn stendur út úr svissinum.
„Já!“ fagnar Meistarinn og snýr. Bíllinn hrekkur í gang með látum. Tankurinn er fullur. Útvarpið hrekkur í gang og í eitt andartak ómar Jón Jónsson alltof-hress-miðað-við-þessar-aðstæður um bílinn. Natalia slekkur.
„Kanntu ekki örugglega að keyra?“ spyr Ragnar um leið og hann festir sig í belti, bara til öryggis. Hin herma.
„Neibb!“ hlær Meistarinn, „en ég fékk oft að stýra traktornum hjá afa í sveitinni í gamla daga og ég hef spilað þónokkra kappaksturstölvuleiki...“ Hann kemst ekki lengra.
Litlu dyrnar að bílskúrnum springa af hjörunum og Myrkrið flæðir inn. Kolkrabbaangarnir slást enn í allar áttir, sumir hverjir í veggina og það sem á þeim hangir, aðrir utan í bílinn. Andlitið á Braga virðist hafa dottið af skrímslinu og ekkert er eftir nema rauð augun. Og enn meira myrkur.
„Bíðið!“ orgar það og baðar út öllum öngum.
„Keyrðu!“ garga krakkarnir til baka.
Meistarinn hlýðir.
Fyrir utan lögreglustöðina er fjöldinn allur af uppvakningum. Þeir ráfa um, lemja í veggi og glefsa út í loftið. Beint fyrir framan stóru dyrnar að bílskúrnum er heill hellingur af þeim. Þegar lögreglubíllinn brýst í gegnum þunna málmhurðina hendast þeir í allar áttir. Einhverjir lenda undir bílnum, aðrir kastast út í næsta skafl. Meistaranum er alveg sama. Hann gefur í, setur háu ljósin á og keyrir.
Hann veit ekki hvert.
Bara burt.
Einhver af skrímslunum reyna að henda sér á bílinn og hanga í, en missa að lokum takið. Einn uppvakningur nær þó einhvern veginn að lauma sér upp á þakið og hangir nú fram af því yfir framrúðuna, berjandi og öskrandi, en það þýðir ekkert.
„Extra-þykkt gler, beibí!“ veinar Meistarinn um leið og hann snögghemlar. Allir kastast fram fyrir sig, en þó enginn jafnsvakalega og uppvakningurinn. Hann flýgur af þakinu, skellur í götunni langt fyrir framan krakkana og liggur þar enn þegar Meistarinn gefur aftur í og keyrir yfir hann. Uppvakningurinn springur og sletturnar lita lögreglubílinn.
Einhverjir uppvakningar hlaupa enn á eftir þeim, en eru ekki nógu snöggir.
Þau stinga þá af.
Myrkrið stendur við sundurrifnar bílskúrsdyrnar og horfir á eftir bíllljósunum hverfa út í nóttina.
Það er pirrað en ekki stressað.
Það mun ná þeim.
Fyrr en seinna.
Því myrkrið getur beðið.
Endalaust.
ENDIR
EFTIRMÁLI
Ár hefur liðið.
Meistarinn, Klara, Ragnar og Natalia, eftir að hafa stungið uppvakningana af, enduðu loks á afviknum afleggjara. Þau voru ekki lengur viss hvar þau voru en afleggjarinn var langur og engin skrímsli nálægt, þannig að þau héldu bara áfram að keyra.
Að lokum enduðu þau hjá sveitabæ. Á póstkassanum stóð „Elín“, en enginn virtist vera heima. Það var þó á hreinu að einhver bjó þarna. Kannski hafði Elín verið í Reykjanesbæ þegar uppvakningarnir komu?
Krakkarnir fengu aldrei svar við því.
En þarna höfðu þau verið allt síðasta ár. Öll ljós slökkt, alltaf, vaktaskipti, bæði á daginn og á nóttunni. Skammt frá var fjara og þar sem Elín virtist hafa átt lítinn árabát lærðu þau smám saman hvernig væri best að fara út á sjó og veiða. Þau veiddu ekkert mikið, en þó eitthvað. Sem betur fer var nóg af öðrum mat inni í búri og ofan í stórri frystikistu. Útihúsin á sveitabænum voru tóm, en vel með farin. Inni í hlöðu mátti finna helling af drasli; gaddavír, girðingarstaura, hey og verkfæri. Engin dýr samt. Kannski voru þau einhvers staðar í nágrenninu?
Tíminn leið.
Dagar urðu vikur urðu mánuðir.
Enginn kom. Hvorki mannfólk né skrímsli.
Þegar frost fór úr jörðu tóku krakkarnir sig til og reistu þétta gaddavírsgirðingu í kringum húsið, bara til öryggis. Það þýddi líka að það þurfti ekki alltaf einhver að vera á vakt. Sem var mjög fínt, sérstaklega á nóttunni.
Krakkarnir ræddu það oft að bruna á lögreglubílnum aftur inn í Reykjanesbæ og rannsaka, en þegar á hólminn var komið þorðu þau það ekki. Hvað ef það myndi springa á bílnum? Hvað ef bærinn var ekkert nema uppvakningar?
En loks, um það bil ári eftir að krakkarnir höfðu fundið sveitabæinn og komið sér fyrir, einn fallegan október-morgunn árið 2023 þegar allir voru sofandi, er barið á húsið.
Laust.
Ragnar er sá fyrsti sem rumskar, en heldur að hann sé í ruglinu. Svo er barið aftur. Aðeins fastar. Og þá vakna þau öll.
Krakkarnir stökkva af stað. Þau hafa öll farið yfir þetta, ef ske kynni að skrímslin kæmust í gegnum varnirnar. Natalia grípur hrífu, Ragnar er með skóflu, Meistarinn heldur á girðingarstaur og Klara á lítilli sleggju. Þau er til í allt.
„Varlega...“ hvíslar Ragnar og bendir á útidyrnar um leið og hann læðist að þeim. „Ég opna, Meistarinn tekur fyrsta, þið þann næsta.“ Allir kinka kolli.
Ragnar tekur í hurðarhúninn.
Og opnar.
Birta flæðir inn og Meistarinn stekkur af stað.
Svo snarstoppar hann.
„Nei...“ hvíslar hann lágt og hnén gefa sig næstum.
„Hvað?“ hvíslar Klara og ýtir honum til hliðar. Natalia fer upp á tær til að sjá betur. Ragnar sömuleiðis.
Fyrir utan húsið standa sex krakkar. Öll klædd eins og þau hafi lent í ýmsu síðasta árið. Ragnar, Natalia, Klara og Meistarinn þekkja þau um leið. Þetta eru allt saman krakkar sem voru í skólanum þeirra, meira segja sömu deild – fyrir utan litla gaurinn með heyrnartólin. Hvernig eru þau enn á lífi? Voru ekki einhver þeirra með í skólaferðalaginu? Ragnar getur ekki annað en brosað. Hann er glaður að hitta einhvern annan, að sjá að fleiri hafa lifað af.
Það hefur margt gengið á síðasta árið, en hann þekkir þau enn með nafni:
Arndís.
Halldór.
Pétur.
Æsa.
Joanna.
„Pawel,“ segir sá yngsti þegar hann sér að augu Ragnar stoppa á sér. „Megum við koma inn? Það eru uppvakningar alls staðar og það væri mjög aulalegt að láta éta sig núna.“
