top of page

Kæru hlustendur. Þessi kafli varð örlítið langur.

Ef þið viljið hlusta á hann í tveimur bútum er gott að taka pásu á 9:22

22. kafliSKÓLASLIT 3: ÖSKURDAGUR
00:00 / 19:06

Myrkrið er veikt. Það hefur vitað það í dágóðan tíma. Það var svo sterkt þegar það kom fyrst í þennan heim. Það voru svo margir til að tæma. Margir til að tæta í sig. Svo mikil þjáning. Svo dásamleg þjáning. Svo gómsæt þjáning.

En nú hefur fólki fækkað.

Myrkrið var of gráðugt. Það át of marga. Og nú er það svangt. Að svelta.

Myrkrið veit að á endanum mun það tærast upp.

En áður en það gerist vildi það finna þau.

Krakkana. Þau sem skemmdu fyrir því fyrst og þau sem voguðu sér að berjast gegn því þegar það loksins náði að brjótast í gegn.
Og núna eru þau hér. Tvö þeirra allavega. Hin þrjú verða rifin í tætlur af skrímslunum sem Myrkrið kallaði hingað. Skrímslin og Myrkrið eru eitt, þannig í raun er það Myrkrið sem mun rífa þau í tætlur.

Og ef skrímslin duga ekki eru dýrin rétt ókomin. Geiturnar, kettirnir, hundarnir, hestarnir, fuglarnir. Öllum er boðið í þessa veislu. Þessi börn eru svo gott sem dauð.

Myrkrið er svangt. Það veit að það á ekki langt eftir.

En það vill ná þeim. Öllum.

Áður en það fer.

Og sérstaklega áður en krakkarnir ná að gera eitthvað af sér.


Pawel og Natalia hlaupa af stað. Upprúlluð blöðin með rúnunum enn í höndunum.

Gríðarstór veran orgar ægilega og byrjar að elta. Hún er völt, eins og lítið barn sem hefur nýlært að labba, en það gerir hana bara enn hræðilegri.

„Bíðið!“ öskrar Myrkrið með öllum sínum munnum. „Bíðið!“ og það hrindir strætisvagninum frá. Það hlær og öll andlitin hlæja líka. Hljóðið er hræðilegt. Krakkarnir hlaupa.

Nema það eru ekki margir staðir til að flýja. Áður en krakkarnir vita af eru þau komin í sjálfheldu; að öðrum vegg varnargarðsins. Þau snúa sér að Myrkrinu og bakka þar til þau komast ekki lengra. Þau passa sig að snerta ekki vírana. Natalia fálmar út í loftið og grípur um aðra höndina á Pawel. Í hinni heldur hún enn á upprúlluðum blöðunum. Hún kreistir. Pawel kreistir á móti. Svo loka þau augunum. Þetta hefði ekki getað farið verr.

Skyndilega heyrist eitthvað.

Krakkarnir opna augun aftur.

Þetta er bíll.

Einhvers staðar í fjarska kemur bíll brunandi á fullri ferð.

Og hann stefnir beint í áttina að þeim!
 

Stuttu áður standa Arndís og Æsa frosnar og stara á skrímslin sem umkringja þær. Varúlfarnir eru másandi. Vampírurnar halla undir flatt eins og hungraðir kettir að fylgjast með músum. Draugarnir svífa fram og til baka eins og banvænir sokkar á snúru.

Stelpurnar eru dauðans matur.

Alveg þangað til Arndís fær hugmynd.

Hún lítur á fötuna fyrir framan sig. Svo lítur hún á bílinn sem þær voru að stela bensíni úr.

„Inn!“ veinar hún um leið og hún sparkar í fötuna. Bensín skvettist í allar áttir. Skrímslin bakka ósjálfrátt. Ekki langt, bara einn meter, en það er nóg.

Æsa þarf ekki að láta segja sér þetta tvisvar. Hún rífur í hurðina bílstjóramegin og hendir sér inn. Arndís eltir. Skellir á eftir sér. Læsir.

Lykillinn er sem betur fer í svissinum. Arndís snýr og bíllinn rýkur af stað. Tankurinn er hálfur.

„Kanntu að keyra?“ öskrar Æsa.

„Nei!“ gargar Arndís til baka og gefur í.

Bíllinn brunar yfir allavega þrjár vampírur sem vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið og brunar út af bílastæðinu.

„Hvert eigum við að fara?!“ gargar Æsa. „Það eru skrímsli alls staðar!“ Arndís beygir, endar inni á lítilli hliðargötu og beygir aftur. Skólinn þeirra er nú framundan. Hugsanlega ekki besti staðurinn til að heimsækja akkúrat núna. Æsa lítur í baksýnisspegilinn. Hann er fullur af skrímslum. Svo lítur hún aftur út um framrúðuna.

Á miðjum veginum stendur vera - grafkyrr og starir á stelpurnar.

„Stoppaðu!“ gargar Æsa. Arndís lítur á hana.

„Ertu rugluð?!“ Æsa rífur í Arndísi og bíllinn sveigist til og frá á veginum.

„Stoppaðu!“ öskrar Æsa aftur og í þetta skiptið hlýðir Arndís. Hún snögghemlar. Bíllinn rennur síðustu metrana og stoppar rétt fyrir framan veruna.

„Arndís?“ spyr veran hissa. Í skímunni frá ljósum bílsins sjá þau hver þetta er.

„Ragnar?!“ hrópar Arndís.

„Inn með þig!“ veinar Æsa og opnar farþegadyrnar. Hann hlýðir. Skrímslin eru bara rétt fyrir aftan þau.

Þau bruna af stað.

Skyndilega heyra þau þungan dynk fyrir ofan sig. Áður en þau ná einu sinni að velta því fyrir sér hvað hafi gerst skerast þykkar varúlfaklær í gegnum þak bílsins.

„Það er varúlfur á þakinu! Það er varúlfur á þakinu!“ gargar Æsa eins hátt og hún getur.

Skyndilega kemur vampíra hlaupandi meðfram bílnum. Áður en nokkur nær að gera eitthvað hendir hún sér á rúðuna aftur í, brýtur hana og skríður óð inn í bílinn.

„Það er vampíra aftur í! Það er vampíra aftur í!“ gargar Æsa eins hátt og hún getur. Skrímslið svarar með háu hvæsi. Ragnar æpir og Æsa skimar í kringum sig eftir vopni. Það eina sem hún finnur er löng rúðuskafa með bursta á öðrum endanum.

Vampíran iðar í sætinu, tilbúin að stökkva fram í og háma krakkana í sig. Um leið og ófétið stekkur af stað með opið ginið snýr Æsa sér við í sætinu sínu. Hún heldur á sköfunni og miðar öðrum endanum beint í áttina að vampírunni.

„Éttu þetta!“ æpir Æsa um leið og hún rekur sköfuna upp í gapandi vampíruna eins fast og hún getur. Krafturinn í Æsu á móti stökkkrafti vampírunnar skilar bara einni útkomu. Skafan brýst út úr hnakka vampírunnar. Dökkar heilatægjur skvettast yfir afturrúðuna. Skrímslið starir stjörfum augum á Æsu eitt augnablik og fellur svo aftur fyrir sig.

Æsa snýr sér við og þurrkar framan úr sér.

„Vel gert!“ segir Ragnar fullur aðdáunar. Æsa ætlar að þakka fyrir sig en kemst ekki að.

„Hvað er þetta?!“ gargar Arndís og bendir út um framrúðuna.

 

Við þeim blasir viðbjóðurinn sem er Myrkrið. Það stendur upp við varnargarðinn og gnæfir yfir Pawel og Nataliu.

„Hvað gerum við?“ hrópar Ragnar. Arndís hugsar sig um eitt andartak og lítur svo á Æsu.

„Réttu mér rúðusköfuna!“ skipar hún. Ragnar og Æsa stara á Arndísi og skilja ekkert. Varúlfurinn á þakinu rífur skyndilega hluta af því af og gægist í gegnum gatið. Hann ýlfrar spenntur. „Löngu sköfuna sem er í hausnum á vampírunni!“ gargar Arndís. „Réttið mér hana!“ Æsa snýr sér við í framsætinu, tekur um endann á rúðusköfunni sem snýr í áttina að henni og kippir í. Vampíran dettur fram fyrir sig. Hátt slúbb!-hljóð heyrist þegar skafan losnar.

„Hérna!“ segir Æsa og reynir að þurrka mesta ógeðið í sætið. Arndís tekur við sköfunni á sama tíma og hún stýrir bílnum í áttina að Myrkrinu. Hún leggur sköfuna á gólfið og skorðar hana á milli bensíngjafarinnar og sætisins.

Umsvifalaust gefur bíllinn í. Vélin hreinlega orgar.

„Hvað ertu að gera?!“ veinar Æsa.

„Út úr bílnum!“ gargar Arndís til baka, opnar dyrnar og stekkur út. Æsa er svo gersamlega forviða að hún byrjar að hlæja. Ragnar líka.

„Ókei, bæ!“ gargar Æsa og opnar farþegadyrnar. Hún og Ragnar stökkva líka. Rúlla um á götunni, meiða sig en er eiginlega alveg sama.

Og hafa heldur ekki tíma til að spá í það.
Um leið og þau standa upp eru þau umkringd. Varúlfur grípur í hnakkadrambið á Ragnari og sleikir út um. Draugur hendir sér á Æsu og hún finnur um leið hvernig hún virðist ekki geta staðið lengur. Hún bara fellur í jörðina, gersamlega máttvana. Veran svífur yfir henni og brosir. Og brosið er ærandi.

Arndís hleypur af stað til vina sinna en er tækluð af þremur vampírum. Hún hendist í jörðina. Þær geta ekki beðið eftir að smakka smá.

 

Bíllinn er enn á fullri ferð. Hann rekst utan í annan bíl, breytir um stefnu, brunar upp á gangstétt, fletur út eina stöðvunarskyldu og klessir aftan á lítinn fólksbíl. Hann er samt á svo svakalegri ferð að hann stoppar ekki við áreksturinn. Þess í stað þeytist hann upp á skottið á bílnum, því næst upp á þakið og virðist loks næstum takast á loft. Varúlfurinn á þakinu er enn á sínum stað og er satt best að segja mjög undrandi á þessari óvæntu flugferð.

„Drullið ykkur frá!“ orgar Æsa eins hátt og hún getur, þaðan sem hún liggur á jörðinni og horfir máttvana á það sem er að gerast. Draugurinn hallar sér yfir hana og brosið verður enn breiðara.

Pawel og Natalia heyra í henni. Pawel stekkur til hægri. Natalia til vinstri. Myrkrið er of stórt og svifaseint til að geta brugðist hratt við. Það eina sem það nær að gera er að snúa sér við og líta í áttina að hávaðanum.

Það sem mætir Myrkrinu er fljúgandi bíll, sem keyrir á bólakaf inn í magann á því.

Ósjálfrátt tekur rennandi blautt Myrkrið skref aftur á bak, missir jafnvægið og skellur á varnargarðinum. En það sem mikilvægara er; það skellur á rafmagnsvírunum.

Sem Ragnar var búinn að kveikja á.

 

„Nei!“ orgar Myrkrið um leið og banvænn rafstraumurinn tekur yfir líkamann sem það hafði búið sér til. Myrkrið hristist til og frá. Augun í andlitunum sem þekja líkama Myrkursins springa og leka, tennur skella svo fast saman að þær brotna og þeytast út í nóttina. „NEI!“ æpir Myrkrið enn hærra en svo getur það ekkert meira sagt því tungan í því, samansett úr hendleggjum og fótum uppvakninga, bólgnar út og springur. Svart slím skvettist í allar áttir. Þungur fnykur, eins og af brenndu grillkjöti, fyllir vitin.

Allir draugar, varúlfar og vampírur á svæðinu hætta umsvifalaust að spá í krökkunum. Þau falla í jörðina, organdi og veinandi. Þau upplifa öll sama sársauka og Myrkrið, finna öll fyrir því sem það finnur fyrir.

Bíllinn stendur enn hálfur út úr maga Myrkursins. Vélin organdi. Öll ljós blikka. Rúðuþurrkurnar eru á milljón. Flautan ómar í nóttunni. Rafmagnið er líka að hafa áhrif á hann. Og að lokum ræður farartækið ekki við meira. Bíllinn springur. Logandi varahlutir og dekk þeytast í allar áttir.

Myrkrið, nú með nánast engan maga, fellur fram fyrir sig, máttlaust og hálfdautt. Jörðin skelfur við höggið. Myrkrið reynir umsvifalaust að skríða á fætur en fattar um leið að það getur það ekki.

Natalia og Pawel standa á fætur. Þau ganga að Myrkrinu, sem liggur á jörðinni, brennt og illa haldið. Það reynir að lyfta höndunum, reynir að halda krökkunum frá, en það halda þau nú aldeilis ekki. Þau líta hvort á annað og kinka svo bæði kolli. Þau ætluðu að mynda stóran hring með því að setja rúnir um allan varnargarðinn.

En kannski þarf hringurinn ekkert að vera svo stór.

Þau grípa upprúlluðu blöðin með rúnunum á, rúnunum sem eru svo ótrúlega kraftmiklar, rúnunum sem opnuðu upphaflega hræðilegar dyr, og þau raða þeim á jörðina í kringum ófétið. Þetta var ekki það sem þau ætluðu sér upphaflega að gera, en það verður að duga.

Arndís, Æsa og Ragnar koma hlaupandi, grípa sömuleiðis blöð og byrja líka að dreifa þeim.

Um leið og Pawel leggur síðasta blaðið á jörðina er eins og allt breytist. Það kólnar en samt ekki. Loftið er léttara, en samt ekki. Það hættir að rigna.

Gustur, ekki ólíkur gegnumtrekk, blæs um svæðið.

„Dyrnar eru opnar...“ segir Natalia lágt og lítur á hina krakkana.

Myrkrið byrjar að iða enn meira. Það reynir að sparka blöðunum í burtu, en krakkarnir hafa lagt þau á jörðina í öruggri fjarlægð.

„Snögg,“ segir Arndís ákveðnum rómi og nikkar með höfðinu í áttina að logandi dekki skammt frá þeim. Pawel hleypur til, rífur neðsta hlutann af einu blaðanna og ber það upp að loganum.

Hleypur til baka og leggur brennandi blaðið á eitt blaðanna með rúnunum. Það fuðrar upp. Glóðirnar dansa í nóttinni og lenda á næsta blaði, svo því næsta. Eitt af öðru brenna blöðin með rúnunum og fuðra upp.

Að lokum er bara eitt eftir.

Það brennur til kaldra kola.

Og skyndilega er eins og allt loft hafi verið sogað úr heiminum.

Skrímslin, varúlfarnir, draugarnir og vampírurnar, sem enn liggja emjandi á jörðinni þagna. Öll sem eitt. Öll uppvakningadýr sem voru á leiðinni, bara rétt ókomin, sömuleiðis.

Svo byrja þau að tætast í sundur. Fyrst draugarnir. Svo vampírurnar. Síðastir varúlfarnir. Slím og blóð og feldur skvettast í allar áttir. Myrkrið er byrjað að titra. Í trylltum dansi reynir það að standa á fætur en hefur ekki máttinn til þess.

Smám saman byrjar það að eyðast upp. Hverfa. Tætast í sundur eins og hin skrímslin. Krakkarnir standa í öruggri fjarlægð. Þau líta ekki undan. Þau ætla að passa að Myrkrið fari fyrir fullt og allt. Sem það gerir. Myrkrið notar sinn síðasta kraft til að teygja sig í áttina að krökkunum. Svo fellur útrétt höndin í sundur og verður að engu.
Krakkarnir standa ein eftir. Stara á staðinn þar sem Myrkrið lá. Það er horfið.

„Nú spólast allt til baka!“ gargar Æsa skyndilega. „Haldið ykkur fast!“ Arndís ætlar að spyrja hana í hvað í ósköpunum þau eigi að halda sér í, en hættir við.

Þau kreista aftur augun.

 

Þau opna augun.

Þau standa enn við varnargarðinn. Svæðið í kringum þau er enn fullt af vampíruleyfum, draugaklessum, varúlfaslími og uppvakningagumsi.

Pawel lítur á Arndísi.

„En...“ byrjar hann og skilur ekkert. Æsa lítur brjáluð í kringum sig. Hún er að leita að Pétri. Hann er hvergi sjáanlegur. Natalia hristir höfuðið. Ragnar lítur leiður á Pawel. Arndís lítur undan.

„Hvað gerðist?“ spyr Æsa.

„Rúnirnar eyddu Myrkrinu,“ segir Arndís lágt. „En það hafði samt náð svo mikilli fótfestu hérna allt um kring, ofan í jörðinni... Mig grunaði að þetta myndi gerast...“ Æsa á ekki til orð.

„En við... við sigruðum Myrkrið!“ gargar hún og snýst í hringi um sjálfa sig. Arndís kinkar kolli.

„Já. En það spólaðist ekkert til baka. Allir sem eru dánir eru enn dánir.“ Hún lítur á Pawel sem lítur undan.

Svo gengur hann af stað.

„Hvert ertu að fara?“ spyr Æsa. Hann bendir út í nóttina.

„Ég ætla að rífa niður blöðin sem við náðum að hengja upp. Brenna þau líka. Hvert og eitt einasta. Við getum þó gert það fyrir þau.“ Hinir krakkarnir standa eftir eitt andartak. Svo hlaupa þau á eftir honum.

 

Það er enn nótt þegar krakkarnir koma sér fyrir inni í yfirgefinni skólastofu. Þau hjúfra sig hvort upp að öðru. Á morgun munu þau ákveða hvað þau ætla að gera. Líklega heimsækja gömlu heimilin sín, bjarga því sem hægt verður að bjarga. Svo er hægt að finna fleira fólk sem enn er á lífi utan varnargarðsins. En það er á morgun.

Myrkrið er horfið. Öll skrímslin líka. Það er það eina sem skiptir máli.

Auðvitað hefðu krakkarnir öll viljað að allt hefði spólast til baka, að allir hefðu lifnað við, að þetta hefði aldrei gerst, en þetta gæti verið verra.

Þau hafa þó hvort annað.

Ragnar sofnar fyrstur. Svo Natalia. Arndís. Æsa. Hún hrýtur en það truflar engan. Pawel er sá sem vakir lengst. Hann liggur á bakinu og hugsar um systur sína. Og vini sína. Bæði þá sem eru hér og þá sem eru ekki lengur hér.

Að lokum fara augnlokin að þyngjast.

Hann sofnar líka.
 

Það er 31. október.

Hrekkjavaka.

Fullt tungl.

Og í fyrsta skipti í langan tíma eru engir slæmir draumar.

ENDIR

bottom of page