Skólaslit - 9. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 07:38

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

9. OKTÓBER

Gangan í kennarastofuna ætti undir venjulegum kringumstæðum að taka fimm mínútur.

Í kvöld tekur hún meira en tuttugu. Þau vilja ekki flýta sér. Þau vilja ekki að neinn verði þeirra var.

Í hvert skipti sem krakkarnir ganga fyrir horn halda þau niðri í sér andanum og búast við hinu versta, að þau gangi í flasið á hópi af uppvakningum sem munu háma þau í sig, að skólastofur opnist ein af annarri og skrímsli flæði yfir þau, en í hvert einasta skipti gerist það sama:

Ekkert.

,,Hvar eru þeir?“ spyr Joanna loks eftir fimmta auða ganginn í röð og lítur um öxl á Arndísi. ,,Hvar eru uppvakningarnir?“ Arndís yppir öxlum og lítur í kringum sig.

,,Ekki glóru.“ Skyndilega tekur hún eftir svolitlu. Skammt frá, á litlum hliðargangi sér hún glitta í logandi skilti.

NEYÐARÚTGANGUR.

Arndís bendir á hann.

,,Bíðiði aðeins við. Við höfum annan möguleika á boðstólnum: Við gætum forðað okkur út úr skólanum, dyrnar eru þarna.“ Æsa hristir höfuðið.

,,Ekki séns. Uppvakningarnir eru alls staðar. Líka á leikvellinum. Ég vil öryggisherbergið.“ Hin kinka kolli. Æsa stynur og lagar hálf-myglaða hönd skólastjórans sem enn liggur yfir axlirnar á henni. ,,Er öryggisherbergið ekki voða næs, Unnar? Og alveg þess virði að standa í þessu rugli, er það ekki?“ Unnar skólastjóri umlar eitthvað óskiljanlegt. Andardráttur hans verður sífellt þyngri og blautari.

,,Flýtum... okkur...“ stynur hann. ,,Ég get ekki... mikið... meira.“

Þau gefa í.

Kennarastofan er opin.

Hún er tóm.

Það þýðir samt ekki að hér hafi allt verið rólegt í dag; blóðslettur eru uppi um alla veggi og gríðarstór kaffivél liggur í tætlum á gólfinu. Stórt borð í miðju kennarastofunnar er á hvolfi. Allt í kring um það má sjá vínarbrauð, kleinuhringi, súrdeigsbrauð og annað bakkelsi. Hvað sem gerðist hér inni gerðist greinilega í miðjum kaffitíma. Krakkarnir týnast inn í kennarastofuna á meðan Unnar stoppar í gættinni og styður sig móður við dyrakarminn. Pétur og Æsa rétta úr sér og teygja sig í allar áttir með miklum tilþrifum. Þeim líður milljón sinnum betur að þurfa ekki lengur að hjálpa skólastjóranum að komast leiðar sinnar. Arndís röltir um kennarastofuna og lítur í kringum sig.

,,Kennararnir líka...“ tautar hún. Innst inni hafði hún vonað að fullorðna fólkið myndi redda þessu. Greinilega ekki. Þau voru í alveg jafn miklu rugli og þau krakkarnir. Æsa klofar yfir haug af kaffibaunum á gólfinu og sparkar í stórt plastílát sem einu sinni var fullt af vatni fyrir kaffivélina. Teppið á gólfinu er blautt þar sem það lá.

,,Uss!“ hvæsir Arndís.

,,Kannski vildu uppvakningarnir kaffi og kunnu ekki á vélina?“ spyr Æsa og flissar. Joanna og Pavel trítla í áttina að stóra borðinu í miðju stofunnar. Pavel tekur upp vínarbrauðsbút en hendir honum svo aftur í gólfið þegar hann sér svart slím á honum. Hann ætlar að halda göngunni áfram, en systir hans tekur í hann.

,,Passaðu þig,“ segir Joanna blíðlega og bendir Pavel á langan brauðhníf sem liggur á gólfinu, rétt við blóðuga sneið af súrdeigsbrauði. ,,Hann er beittur.“ Pavel lítur á hnífinn og svo á systur sína. Svo kinkar hann kolli.

,,Hvar er skrifstofan þín?“ spyr Æsa ákveðin og lítur á Unnar. Hann horfir út í loftið og blikkar augunum ótt og títt, nánast eins og hann hafi verið að vakna og viti ekki hvar hann er. Svitinn lekur niður kinnarnar. Svo virðist hann ná áttum.

,,Skrifstofan... Þarna,“ muldrar hann og bendir á dyr í enda kennarastofunnar.

,,Og er öryggisherbergið þar inni?“ spyr Æsa áfram. Skólastjórinn kinkar kolli með erfiðismunum.

,,Bak við bóka... hilluna...“ stynur Unnar og gnístir tönnum. ,,Þið ýtið henni bara... til hliðar... Lítið mál.“ Krakkarnir líta hvort á annað.

Þetta gengur vel. Ótrúlega vel. Hræðilega vel.

,,Öryggisherbergi, here we come!“ syngur Æsa spennt og arkar í áttina að skrifstofu skólastjórans. ,,Komdu Unnar, við þurfum fingraförin þín fyrir skannann.“


Nákvæmlega þá gefur Unnar skólastjóri frá sér háa stunu og fellur til jarðar.

,,Nei!“ veinar Joanna og ætlar að stökkva til hans. Pavel grípur í hana. Hún lítur á bróður sinn sem hristir höfuðið hægt. Þau bakka innar í kennarastofuna. Pétur stendur frosinn. Æsa og Arndís líta hvor á aðra.

Unnar liggur á bakinu í dyragættinni og kippist til og frá.

,,Vont!“ veinar hann og lemur sýktu höndinni í gólfið. ,,Vont!“ Röddin verður sífellt hærri og hærri og bergmálar um skólann.

,,Uss!“ hvæsir Arndís. ,,Uppvakningarnir gætu heyrt í okkur!“ Unnari er sama. Hann orgar og veinar og sparkar í allar áttir. Sýkta höndin hendist máttlaus fram og til baka eins og blautur ullarsokkur þar til hún endar loks í andlitinu á eiganda sínum.

Eitt andartak glennast augu skólastjórans upp á gátt, eins og hann sé forviða yfir því að höndin sé þarna.

Svo opnar hann munninn.

Galopnar.

,,Nei...“ hvíslar Pétur.

Áður en nokkur getur stoppað Unnar byrjar hann að bíta í sýktu höndina. Fast. Blóð og svart slím spýtist í allar áttir. Maginn í Pétri fer heilan hring og áður en hann veit einu sinni hvað hann er að gera gubbar hann á gólfið í kennarastofunni. Enginn tekur eftir því. Allir stara á Unnar. Hann ræðst á sýktu höndina, eins og hundur ræðst á girnilegt bein. Hann bítur fastar, rífur í hana, hristir höfuðið til og frá og loksins – með ógeðslegu slúbb-hljóði – nær hann að bíta munnfylli úr henni. Unnar skólastjóri liggur á bakinu, með kjaftinn fullan af sjálfum sér, og orgar sigri hrósandi.

Svo tyggur hann.

Svo kyngir hann.

Svo grípur hann um dyrakarminn og hífir sig upp.

Hann starir á þau.

Augun eru sjálflýsandi.

Þetta er ekki lengur Unnar skólastjóri.

Öll von um öryggisherbergi er fokin út í veður og vind.

9.hluti_UrrrUnnar.png