Skólaslit - 8. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 08:39

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

8.hluti_Unnar copy.png

8. OKTÓBER

Pétur elskar tölvuleiki. Hann lifir fyrir þá. Þegar hann kemur heim úr skólanum fær hann að spila í tvo tíma, annað eins eftir kvöldmat þegar hann er búinn að læra heima og ef hann er sniðugur getur hann laumast til að stilla vekjaraklukkuna sína svo hann nái góðum slurk á morgnanna áður en mamma hans vaknar. Pétur sefur að meðaltali fjóra tíma á hverri nóttu. Restin fer í tölvuleiki.

,,Ég sef bara þegar ég er dauður,“ hafði Pétur alltaf sagt við vini sína. Nákvæmlega núna finnst honum þetta orðatiltæki ekki sniðugt lengur.

Frá því snemma í morgun hefur Pétri liðið eins og hann sé staddur í tölvuleik. Hræðilegum martraðar-hrollvekjutölvuleik. Og það er ekki eins gaman og hann hefði haldið.


Dagurinn hafði byrjað vel: Hann vaknaði um hálf fimm-leytið við lágt stillta vekjaraklukku og náði að spila í tæpa þrjá tíma (Pétur á vini í Bandaríkjunum og þegar hann er nývaknaður er enn bara kvöld hjá þeim, þannig að þeir eru alltaf til í að spila). Þegar hann heyrði að mamma hans var vöknuð hafði Pétur laumast aftur upp í rúm og þóst vera sofandi. Hún ,,vakti“ hann, hann fékk sér morgunmat, rölti í skólann og fór í gegnum draugahúsið í kringum hálf níu-leytið. Pétri fannst vampírurnar langmest krípí. Lovísa formaður nemendafélagsins hafði verið í besta gervinu, með vígtennur og allt. Spónaplöturnar sem mynduðu veggi völundarhússins höfðu verið þaktar með óhuggulegum og furðulegum táknum. Það var líka töff. Mikil vinna hafði greinilega verið lögð í þetta draugahús. Eftir það mætti Pétur beint í aukatíma í stærðfræði hjá Unnari skólastjóra. Þar settist hann niður og byrjaði að dotta nánast um leið.


Pétur hefur aldrei skilið stærðfræði.

Tölurnar einhvern veginn ganga ekki upp í höfðinu á honum. Sama hvað hann reynir. Hann skilur ekki hvers vegna þær geta ekki bara hagað sér. Hann hefur misst tölu á því hversu oft hann hefur setið í tíma, litið í kringum sig og séð alla vera á fullu að reikna, á meðan hann skilur ekkert.

Og þá hellist hún yfir hann. Versta tilfinning í heimi: Pétri finnst hann vera heimskur.

Pétur er samt ekkert heimskur. Hann kann helling af hlutum. Hann kann að skipta um dekk á bíl, hann er mjög góður að teikna og einu sinni í viku sér hann um kvöldmatinn heima. Alveg sjálfur. Mamma hans segir að hann geri bestu pítsur í heimi.

En það telst víst ekki með.

Pétri líður aldrei verr en í stærðfræði. Þannig að í stað þess að leyfa vanlíðunar-tilfinningunni að hellast yfir sig hefur hann það fyrir sið að um leið og kennarinn hefur snúið sér að töflunni setur hann upp hettuna sína og lætur hugann reika.

Þessi bölvaða stærðfræði er eitthvað sem hann bara nær ekki utan um.

Sama hvað hann reynir.

Þess vegna var Pétur í aukatímanum hjá Unnari. Svo hann gæti lært það sem hinir krakkarnir í bekknum hans náðu einn, tveir og bingó. Til hvers? Jú, svo hann gæti klárað stærðfræðibókina sem hann var í núna. Og til hvers að klára hana? Jú, svo hann gæti byrjað á enn erfiðari stærðfræðibók. Og til hvers að byrja á henni? Jú, svo hann gæti klárað hana  og byrjað á enn erfiðari stærðfræðibók.

Og fullorðna fólkið kallar tölvuleiki tímasóun?!

 

Á næsta borði hafði Æsa setið. Hún var vopnuð sirkli sem hún átti að vera að nota til að reikna út eitthvað tengt hringjum, en var í staðinn að laumast til að skera tákn út í borðið sitt með beitta enda sirkilsins. Úr fjarlægð sýndist Pétri þetta vera táknið úr Harry Potter. Þetta þarna með hringnum og þríhyrningnum eða eitthvað. Hann var ekki viss, hann hafði bara séð myndirnar einu sinni og aldrei lesið bækurnar. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem Æsa skemmdi hluti sem flokkuðust tæknilega séð sem eign skólans. Og örugglega ekki það síðasta. Pétur hefur þekkt Æsu síðan þau voru á sama leikskóla í eldgamla daga. Hún hefur alltaf verið svona. Alltaf að skemma. Fikta. Pota. Honum finnst það snilld; að fylgjast með Æsu úr fjarlægð og dást að öllu því sem hún þorir að gera.

Satt best að segja hefur Pétur alltaf verið svolítið skotinn í Æsu. Alveg síðan í eldgamla daga. Alveg síðan hún rólaði viljandi á hóp af eldri krökkum sem stálu húfunni hans í 1. bekk. Ekki það að hann myndi nokkurn tímann þora að gera eitthvað í því; hann er logandi hræddur við hana.


Joanna sat annars staðar í stofunni og var að glósa eins mikið og hún mögulega gat. Hún var stanslaust að trufla Unnar skólastjóra með því að rétta upp hönd og spyrja að einhverju. Pétri fannst það fínt. Þá var athyglin ekki á honum. Pavel litli sat á næsta borði við hana og var að lita. Unnar stóð upp við töfluna að útskýra eitthvað óskiljanlegt.

,,Við eigum aldrei eftir að nota þetta kjaftæði þegar við verðum stór...“ tautaði Pétur ofan í hettupeysuna og lygndi aftur augunum. Í huganum var hann að spila tölvuleik. Kannski Fortnite, kannski MineCraft, World of Warcraft, skipti ekki máli. Hann vildi bara vera einhvers staðar annars staðar en hér.

Svo byrjuðu lætin.

Öskrin.

Unnar hafði farið fram á gang, komið klóraður til baka, þau höfðu læst stofunni og svo falið sig. Síðan liðu klukkutímar. Ekkert gerðist. Unnar bara svaf. Alveg þangað til gellan sem hoppaði yfir tvo bekki braust allt í einu inni í stofuna. Þá fór allt í rugl.

Og núna voru þau um það bil að fara að yfirgefa þetta fullkomna skjól, með Unnar skólastjóra á milli sín, á leiðinni inn á kennarastofu.

Leið sem var pottþétt full af uppvakningum.

Þetta getur bara endað illa.

Þau opna fram á gang. Hann er auður. Slím og blóð þekur gólfið og veggina. Rétt við dyrnar að stofunni er stór gluggi sem vísar að leikvellinum. Hann er brotinn. Kalt októberloftið blæs um ganginn. Arndís stoppar eitt andartak í gættinni og starir á brotna rúðuna.

,,Er í lagi með þig?“ spyr Joanna blíðlega. Pavel stendur við hlið hennar. Honum gæti ekki verið meira sama um gluggann. Hann horfir forvitinn upp í annað hornið fyrir ofan dyr skólastofunnar. Svo brosir hann út í annað. Enginn tekur eftir því, fólk hefur um nóg annað að hugsa. Arndís kinkar kolli.

,,Já, ég er í lagi,“ og röddin er rám. Hún skimar í kringum sig. ,,Ég hélt það... yrði kannski eitthvað eftir af honum. Halldóri.“ Joanna tekur um aðra öxlina á Arndísi og kreistir.

,,Þetta er ömurleg áætlun,“ tautar Pétur um leið og hann staulast fram á gang. Unnar er með aðra höndina yfir axlirnar á honum. Sem betur fer er það ekki sú sem var klórað í. Æsa er ekki eins heppin. Hin höndin er yfir axlirnar á henni. Þau eru að hjálpa honum að komast leiðar sinnar.

,,Oj, oj, oj...“ tautar Æsa og kúgast. ,,Höndin á þér lyktar eins og skemmt kjötfars.“ Hún lítur á Unnar skólastjóra sem er nú eitt svitabað. Það er eins og hann hafi dottið ofan í sundlaug. Skyrtan hans er blaut í gegn. ,,Sorrý,“ bætir hún við. Hann stynur lágt.

,,Get lítið... gert í því núna.“

Pétur, Unnar skólastjóri og Æsa eru fremst. Joanna og Pavel næst. Arndís öftust. Hún lokar á eftir þeim.

,,Varlega...“ hvíslar hún og þarf ekki að segja það tvisvar.

Þau staulast af stað.