Skólaslit - 7. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 07:16

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

7. OKTÓBER

Veggurinn á milli stofanna tveggja er ekki þungur. Ef Arndís getur ýtt við honum er bókað mál að fullorðinn maður mun ekki eiga í neinum erfiðleikum með það. Sérstaklega ekki ef hann er orðinn að óstöðvandi uppvakningi.

,,Eruði að djóka, eða?!“ hvæsir Arndís á Joönnu.

,,Hann er fullorðinn og þungur!“ hreytir hún til baka. ,,Það var langöruggast að loka hann bara þarna inni.“ Arndís bendir á vegginn.

,,Ef ég anda færist veggurinn! Ef Unnar breytist, nei, þegar hann breytist erum við öll í mjög vondum málum!“

,,Ég heyri í ykkur...“ bergmálar skyndilega innan úr hinni stofunni. Allir frjósa. Æsa, sem hingað til hefur hallað sér aftur í sætinu sínu, sest svo hratt upp að hún gleypir næstum tyggjóið sitt. Pétur lokar leiknum í símanum. Pavel leggur frá sér litina. Joanna segir ekkert. Arndís læðist að veggnum og ýtir.

Varlega.

Lítil rifa myndast.

Unnar skólastjóri situr enn við kennaraborðið. Önnur höndin er enn alsett svörtum æðum. Hann lítur í áttina að Arndísi og brosir veiklulega.

,,Þetta er... allt í... góðu.“ Röddin, sem venjulega er há og snjöll, ákveðin og yfirveguð, titrar af áreynslu. Hann dregur djúpt að sér andann og lokar augunum eitt augnablik. Svo opnar hann þau aftur. ,,Afsakaðu,“ tautar hann. ,,Þetta er... erfitt...“

Arndís ýtir örlítið á vegginn og rifan stækkar. Joanna kemur trítlandi og gægist líka inn um gættina.

,,Ég ætlaði ekki að... hræða ykkur,“ stynur skólastjórinn. ,,Þetta bévítans klór var greinilega...“ og hann reynir að lyfta sýkta handleggnum, ,,aðeins... eitraðra en mig... grunaði.“ Joanna leggur örlítið meiri þyngd á vegginn og opnar bilið milli stofanna tveggja enn meira.

,,Hvernig hefurðu það?“ spyr hún og Unnar skólastjóri ranghvolfir í sér augunum.

,,Hef haft það betra,“ hlær hann lágt með sjálfum sér. ,,Hef haft það betra...“ Stelpurnar líta hvor á aðra og leita að einhverju til að spyrja. Þeim dettur ekkert í hug.

,,Ætlarðu að éta okkur?“ heyrist innan úr stofu. Það er Æsa. Strax í kjölfarið heyrist fliss frá Pétri. Unnar brosir út í annað.

,,Ég fékk mér... hafragraut í morgun. Það var nóg... í bili.“ Hann smjattar samt smá.

Arndís tekur í Joönnu og dregur hana aftur inn í stofuna þeirra.

,,Hann getur ekki verið hérna,“ hvíslar hún. ,,Eða við getum ekki verið hérna ef hann ætlar að vera hérna." Joanna snöggroðnar í framan af einskærri reiði.

,,Sum okkar geta kannski lokað hurðum framan í vini sína þegar þeir eru í hættu staddir, en það er ekki ég.“ Arndís lítur ósjálfrátt undan og nagandi samviskubitið mætir aftur á svæðið. ,,Unnar skólastjóri er enn hann sjálfur. Ég ætla ekki að henda honum út og fóðra þessi skrímsli þarna frammi.“ Arndís ætlar að segja eitthvað en finnur ekki réttu orðin. Hún veit innst inni að Joanna hefur rétt fyrir sér.

,,Ókei,“ segir Arndís loks. ,,Hvað gerum við þá?“ Hún lítur á hina krakkana í leit að hugmyndum. Pétur lætur sig hverfa inn í hettuna og Æsa glottir.

,,Ég er góð, sko,“ segir hún og hallar sér aftur aftur í sætinu sínu. ,,Þið megið ráða þessu. Ég er sultuslök.“ Pavel er enn að lita. Hann hefur núna skipt yfir í rauðan lit. Arndís lítur aftur á Joönnu. Hún starir á móti.

,,Ég veit ekki hvað við eigum að gera,“ segir hún svo.

,,Hug... mynd,“ heyrist úr hinni stofunni og stelpurnar gægast aftur í gegnum opið. Unnar skólastjóri situr enn við kennaraborðið, búinn að reisa sig örlítið við.

,,Hugmynd?“ spyr Joanna. Hann brosir út í annað.

,,Ég finn að ég... er að breytast,“ byrjar hann og stelpurnar taka ósjálfrátt eitt skref aftur á bak. ,,Og ég vil ekki vera... nálægt ykkur þegar það gerist.“

,,Gott að heyra,“ kallar Æsa og hlær.

,,Á skrifstofunni minni... innan af kennarastofunni... er herbergi.“ Hann lygnir augunum aftur eitt augnablik og andvarpar. Svo opnar hann þau aftur. ,,Leyniherbergi. Öryggis... herbergi.“ Æsa hættir skyndilega að hlæja og sprettur á fætur. Hún kemur askvaðandi í áttina að rifunni og ýtir Arndísi og Joönnu frá.

,,Svona herbergi sem hægt er að læsa að innan og enginn kemst inn í sama hvað, sem er stútfullt af mat og vatni og eiginlega bara mesta snilld í heimi?“ spyr hún óðamála. Unnar kinkar kolli og kveinkar sér örlítið í leiðinni.

,,Nákvæmlega svoleiðis. Síðasti skólastjóri... var sannfærður um að það væri þörf... á svoleiðis herbergi... frekar en að endurnýja tækin... á leikvellinum.“ Unnar hnussar. ,,Rugludallur.“ Svo hugsar hann málið aðeins betur. ,,Samt gott... fyrir okkur.“ Æsa klappar saman lófunum og snýr sér að stelpunum.

,,Þetta er geggjað! Við fáum bara öryggiskóðann hjá Unnari, skiljum hann eftir hér, finnum herbergið, lokum okkur inni og bíðum þar til þetta er allt saman búið!“ Unnar hóstar. Hljóðið minnir á stíflaðan vask. Svo hristir hann höfuðið.

,,Nei,“ segir hann. ,,Enginn kóði.“ Svo lyftir hann upp hendinni sem enn er ósýkt. ,,Fingrafar. Fingrafara... skanni. Til að komast inn.“ Stelpurnar líta hver á aðra.

,,Sem þýðir...“ byrjar Joanna skelfd á svip.

,,Að ég þarf að koma með ykkur,“ másar Unnar.

7.hluti_hond_2.png