Skólaslit - 6. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 08:37

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

6. OKTÓBER

Hurðin smellur í lás.

Dynkir heyrast þegar uppvakningarnir skella á henni, hver á fætur öðrum. Arndís stendur grafkyrr og starir. Brothljóð, öskur og vein heyrast. Arndísi langar mest af öllu að grípa fyrir eyrun og loka augunum en hún verður að vera viss. Hún verður að vera viss um að þetta hafi verið þess virði. Að hurðin muni halda. Ef dyrnar gefa sig eru þau öll dauð. Steindauð.

Nei. Verra. Lifandi dauð.

Ópin verða hærri, annað brothljóð heyrist, einhver ber á dyrnar, einhver klórar, einhver sparkar. Arndís veit að það er Halldór. Það hlýtur að vera Halldór.


Hurðin heldur.

Smám saman verða lætin minni. Lengra á milli barsmíða. Óhljóðin fjarlægjast. Einhvers staðar í fjarska má heyra lága dynki, en Arndís hefur ekki tíma til að spá í þeim núna.

Hún andar léttar.

Á sama tíma líður henni hræðilega.

Skyndilega er rifið í hana. Ósjálfrátt slær hún út í loftið og lemur næstum í höfuðið á stutthærðu stelpunni.

,,Passaðu þig!“ veinar stelpan og hrökklast undan hnefanum. Arndís starir á hana, brjáluð.

,,Ég varð!“ hrópar hún til baka, eins og stelpan hafi verið að ásaka hana um eitthvað. ,,Annars hefðu þau komist inn!“ Neðri vörin byrjar að titra. ,,Ég varð...“ segir hún aftur, lægra í þetta skiptið. Stutthærða stelpan svarar engu. Hún bara starir á Arndísi.

Og það er þá sem Arndís fattar hver þetta er.

Áður en Arndís fékk að sleppa tveimur bekkjum og hoppa beint í tíunda hafði hún verið í bekk með þessari stelpu. Hvað hét hún aftur? Arndís var venjulega ekkert mikið að spá í nöfnum á öðru fólki en hana rámar samt í það. Jóna? Nei, Joanna! Fjölskyldan hennar er frá Póllandi, þannig að það er hvorki H né Ó í nafninu eins og í íslensku útgáfunni af Jóhönnu.

Joanna lyftir varlega upp báðum höndum eins og hún búist við því að Arndís muni reyna aftur að slá í áttina að sér. Einhvers staðar í fjarska heyrast lágir dynkir.

,,Róleg,“ segir hún hægt. ,,Annars verðum við að henda þér aftur fram á gang.“ Arndís hristir höfuðið og flissar ósjálfrátt. Hugmyndin um að vera hent út úr stofunni er fáránleg. En það sem er enn fáránlegra er orðið ,,við.“ Hvaða við?

Arndís lítur í kringum sig.

Það hafði svo mikið gengið á að hún hafði ekki tekið eftir því að í stofunni eru nokkrir aðrir krakkar. Skammt frá Joönnu situr hávaxinn strákur í hettupeysu. Hann er í símanum sínum í leik sem Arndís heyrir bara í en sér ekki. Henni heyrist það vera PokémonGO. Strákurinn er með hár sem nær alveg niður á axlir og þegar hann tekur eftir því að Arndís er að horfa á sig lítur hann upp úr leiknum og kinkar kolli.

,,Hæ,“ muldrar hann lágt undan hettunni.

,,H... hæ,“ stamar Arndís. ,,Hver... hver ert þú?“

,,Pétur,“ svarar strákurinn. ,,7. bekk.“ Svo hverfur hann aftur ofan í leikinn. Á borðinu við hliðina situr rauðhærð stelpa með gríðarstóra eyrnalokka. Hún er að tyggja eitthvað, alveg á fullu.

,,Æsa,“ segir stelpan hátt og snjallt og sprengir stóra tyggjókúlu með tilþrifum. ,,9. bekk,“ bætir hún við og jórtrar tyggjóið.

,,Hæ,“ segir Arndís. ,,Arndís.“ Æsa ranghvolfir í sér augunum.

,,Ég veit hver þú ert. Það vita allir hver þú ert. Fröken Slapp-við-tvo-bekki.“ Arndís veit ekki hvort þetta sé hrós eða ekki. Í fjarska heyrast lágir dynkir.


Hinum megin í stofunni er lítill strákur. Hann lítur út fyrir að vera í 4. bekk. Kannski fimmta. Hann situr við eitt borðanna með stór heyrnartól á höfðinu og er að lita mynd með trélitum. Arndísi rámar í að hafa séð hann áður í skólanum, alltaf með heyrnartólin sín annað hvort um hálsinn eða á höfðinu.

,,Þetta er Pavel,“ heyrist í Joönnu. ,,Litli bróðir minn.“ Arndís fylgist með Pavel þar sem hann skiptir um lit, úr grænum í bláan.

,,Er hann að hlusta á eitthvað?“ spyr Arndís forvitin. Joanna hristir höfuðið.

,,Nei, honum finnst bara þægilegra að vera með þau,“ svara Joanna. ,,Minni hávaði. Ég skil hann vel. Ef ég gæti sett á mig heyrnartól til að minnka ruglið sem er í gangi núna myndi ég gera það.“ Hún brosir út í annað. ,,Ég er orðin svo vön þeim að ég er löngu hætt að sjá þau.“

Arndís lítur á milli krakkanna. Hún veit að allir eru að hugsa það sama. Eða kannski er það bara hún sjálf sem er að hugsa það.

,,Ég varð...“ segir hún lágt, enn einu sinni. Enginn svarar henni. Hún dregur djúpt að sér andann og ákveður að breyta um umræðuefni.

 

,,Hvernig komusti hingað? Var stofan ólæst?“ spyr Arndís.

,,Við erum búin að vera hér síðan í morgun,“ segir Joanna og gengur aftur að læstri hurðinni. ,,Við vorum í aukatíma í stærðfræði. Pavel var með mér því hann var í eyðu. Við vorum með opið fram á gang þegar allt fór af stað. Unnar skólastjóri var að kenna tímann og fór fram til að tékka. Þegar hann kom hlaupandi til baka og sagði okkur að skella í lás hlýddum við. Síðan þá höfum við verið hér.“ Hún leggur eyrað upp að hurðinni og hlustar. Svipurinn sem hún setur upp gefur til kynna að allt sé orðið rólegt frammi.

Í bili.

Arndís lítur aftur í kringum sig. Það er eitt við þessa sögu Joönnu sem gengur ekki upp.

,,Hvar er Unnar?“ spyr hún. ,,Hvar er skólastjórinn?“ Joanna lítur á Pétur og Æsu. Þau líta bæði undan. Pavel er enn að lita. Það er eitthvað skrítið í gangi hérna. ,,Hvað?“ spyr Arndís.


Joanna lítur í áttina að vegg hinum megin í stofunni. Arndís sér um leið að það er hægt að ýta honum til hliðar og þannig komast yfir í aðra stofu. Í fjarska heyrast lágir dynkir.

Nei, ekki í fjarska.

Hinum megin við vegginn.

,,Sko,“ byrjar Joanna, ,,Unnar varð...“ Hún leitar að rétta orðinu.

,,Veikur,“ heyrist í Pétri sem aftur hefur litið upp úr tölvuleiknum.

,,Það klóraði hann einhver,“ bætir Æsa við og sprengir enn eina tyggjókúluna. ,,Þegar hann fór fram að gá hvað væri í gangi. Í handarbakið. Og svo varð hann-" Pétur grípur fram í fyrir henni.

,,Veikur,“ segir hann aftur. Hrollur byrjar að læðast upp eftir bakinu á Arndísi. Hún gengur varlega að færanlega veggnum og ýtir örlítið við honum.

Rifa myndast og hún gægist í gegn.

Í hinni stofunni sem er nákvæmlega eins upp sett og þessi sem þau eru í núna, sér hún glitta í Unnar skólastjóra. Hann situr á gólfinu upp við kennaraborð og starir fram fyrir sig. Hann er sveittur og augun hálflokuð. Í eitt andartak gerir hann ekkert. Svo tekur hann kipp, sveiflar höfðinu og lemur hnakkanum í borðið. Lágur dynkur heyrist. Fyrst einn, svo annar, svo sá þriðji.

Unnar skólastjóri er hinum megin í stofunni en Arndís tekur samt eftir höndinni á honum. Hún lafir máttlaus við hlið hans eins og kartöflupoki. Höndin gægist undan hvítri skyrtuermi. Hún er alsett kolsvörtum æðum.

Arndís lítur á krakkana.

,,Hvað er í gangi hérna?“ spyr hún forviða.

Í fyrsta skiptið síðan Arndís kom inn í stofuna lítur Pavel upp úr myndinni sinni.

,,Veikur...“ segir hann. Svo heldur hann áfram að lita.

6.hluti_krakkar.png