Skólaslit - 5. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 05:45

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

5. OKTÓBER

Arndís finnnur eitthvað skella í bakið á sér.

Í eitt andartak heldur hún að einhver uppvakninganna hafi náð að laumast á bak við þau. Að ófétið muni rífa hana í gólfið og rífa hana í sig. Sekúndu síðar fattar hún að þetta eru dyrnar að læstu kennslustofunni.

Þær eru opnar!

,,Inn!“ skipar rödd og tekur harkalega í aðra öxlina á Arndísi. Arndís dettur næstum aftur fyrir sig, skakklappast aftur á bak inn í stofuna og hlammast loks á rassinn á hörðu, dúkalögðu gólfinu. Tennurnar í henni skella saman með háum smelli og hún bítur næstum í tunguna á sér. Hjartað slær enn svo hratt að hún heyrir nánast í því. Svitinn lekur niður eftir bakinu á henni.

En það skiptir ekki lengur máli: Hún er sloppin. Þetta verður allt í lagi.

Þar sem Arndís situr á köldu gólfinu er hún með fullkomið sjónarhorn inn á langan ganginn. Og hún sér að ekkert verður í lagi. Henni líður næstum eins og hún sitji í sófanum heima hjá sér að horfa á hræðilega hryllingsmynd – það er að segja ef hún myndi eyða kvöldunum sínum í svoleiðis tímaeyðslu.

,,Ó, nei...“ hvíslar hún. Arndís er gríðarlega góð í öllu sem tengist útreikningum. Þú þarft samt ekki að vera neinn sérfræðingur til að sjá að Halldór á ekki möguleika á því að sleppa.

Uppvakningarnir flæða á eftir honum eins og alda af tönnum og höndum. Þeir ýta og bíta, hrasa hvor um annan og einhverjir klifra meira segja eftir veggjunum eins og ógeðslegar, gríðarstórar köngulær. Arndís gefur ósjálfrátt frá sér lágt óp þegar hún sér glitta í Meistarann aftarlega í skrímslahópnum. Eða það sem eftir er af honum. Vinur þeirra sem bara rétt áðan var glottandi og til í allt, er núna með sjálflýsandi augu og galopinn munn sem teygður er í tryllta grettu. Arndís er ekki viss en hún er nokkuð viss um að það sé risastórt gat þar sem maginn hans var einu sinni. Eitthvað sem lítur út eins og illa farnar og slímugar slöngur úr þvottavél hanga í gatinu. Það tekur hana andartak að fatta að þetta eru þarmarnir í honum.


Halldór hleypur. Hann hleypur svo hratt að ef einhver væri að mæla tímann á honum væri hann örugglega búinn að setja Íslandsmet í spretthlaupi innanhúss, án atrennu. Hann hleypur eins og hann eigi lífið að leysa. Hann stekkur yfir skólatöskur sem einhverjir hafa skilið eftir á ganginum og sveigir listilega undan snögum og öðru sem stendur út úr veggjunum.

En það mun ekki duga.

Uppvakningarnir eru of margir. Of snöggir. Of nálægt. Það er bara eitt sem hægt er að gera:

,,Lokið!“ segir Arndís lágt án þess að líta af Halldóri. Hún vill ekki segja þetta en hún veit að það er ekkert annað í boði.

Ekkert gerist.

,,Lokið hurðinni!“ endurtekur hún, hærra í þetta skiptið. Þótt óhljóðin í uppvakningunum séu mikil heyrir Halldór hvað hún segir. Augun í honum stækka um helming. Hann teygir út báðar hendurnar í áttina að opinni stofunni og hrópar eins hátt og hann getur:

,,Nei!“

Hann er nokkra metra frá stofunni.

Uppvakningarnir eru nokkra metra fyrir aftan hann.

Eitt andartak skrikar honum fótur og hann styður sig ósjálfrátt við stóran glugga. Glerið brotnar næstum en Halldór nær að færa þyngdina til og forða stórslysi. Ef glerið hefði gefið sig hefði hann getað skorið sig. Og skurður þýðir blóð.

Og blóð þýðir enn trylltari uppvakningar.

,,Ég er að koma!“ öskrar hann og skrikar næstum fótur aftur í öllum æsingnum.

 

Arndís veit margt um margt. Hún veit til dæmis að það eru til tvær tegundir af hurðum: Þær sem lokast án nokkurra vandræða og þær sem þarf að skrattast svolítið á áður en þær smella í falsið og lokast. Hún hefur ekki hugmynd um hvor tegundin dyrnar að skólastofunni eru en henni er alveg sama. Til öryggis er best að loka henni sem fyrst. Ef uppvakningaflóðið skellur á hurðinni og hún er ekki almennilega lokuð munu skrímslin komast inn.

Útundan sér kemur Arndís auga á manneskjuna sem opnaði dyrnar fyrir henni. Í fljótu bragði gerir hún sér ekki alveg grein fyrir því hver þetta er en útlínurnar eru kunnuglegar. Henni sýnist þetta vera stutthærð stelpa á svipuðum aldri og hún. Það skiptir samt ekki máli núna. Einhverra hluta vegna stendur manneskjan bara við dyrnar og gerir ekkert.

,,Lokaðu!“ argar Arndís og lemur í gólfið. ,,Hann mun ekki ná þessu, þau komast inn!“ Stelpan svarar engu. Hún bara stendur og starir einbeitt á svip inn ganginn.

,,Hann nær þessu...“ tautar stelpan lágt.

Og þá fær Arndís nóg. Hún sprettur á fætur, grípur í stutthærðu stelpuna og ýtir henni harkalega frá. Stelpan átti greinilega ekki von á þessu, missir takið á hurðinni og tekur tvö skref aftur á bak.

,,Nei!“ grátbiður Halldór þar sem hann kemur hlaupandi á fullri ferð. Hann er alveg að ná í land. Alveg að komast inn. Örfáar sekúndur. Örfá andartök og þá væri hann kominn inn í skólastofuna.

Arndísi er sama.

Hún grípur þétt um hurðarhúninn og svo skellir hún hurðinni eins fast og hún getur.

5.hluti_hlaupa.png