Skólaslit - 4. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 05:39

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

4. OKTÓBER

,,Hvað eigum við að gera?“ veinar Halldór. Þau hlaupa. Í öllum æsingnum hefur Arndís beygt inn rangan gang, og örugga skjólið í efnafræðistofunni hvergi nálægt.

Þau gefa í. Stofur þjóta fram hjá. Í hvert skipti sem þau grípa í hurðarhúna til að leita skjóls heyra þau óféti skella sér á dyrnar hinum megin. Í eitt skiptið ná þau næstum að opna. Það má ekki gerast – nógu margir uppvakningar eru nú þegar á eftir krökkunum.

,,Sprengjan!“ gargar Meistarinn og lítur um öxl á uppvakningaflóðið sem eltir þau. ,,Það er eina lausnin!“ Arndís er fremst, Halldór í miðjunni og Meistarinn aftastur. Uppvakningarnir eru kannski tíu metrum fyrir aftan þau. Þeir eru svangir. Og snöggir.

,,Ég hélt að uppvakningar ættu að vera hægir!“ veinar Halldór um leið og Meistarinn grefur annarri höndinni ofan í buxnavasann sinn og rífur upp kveikjarann. Hann slær honum við lærið á sér og umsvifalaust kviknar logi. Ef krakkarnir væru ekki í svona svakalega mikilli lífshættu hefðu Halldór og Arndís örugglega klappað því þetta var svo töff.

,,Snöggir!“ öskrar Arndís um leið og hún skimar í kringum sig eftir útgönguleið. Meistarinn heldur á kveikjaranum með annarri og sprengjunni með hinni. Hann ber logann að upprúlluðu blaðinu sem á að virka sem kveikur.

Umsvifalaust kviknar í því.


Bæði Meistarinn og Halldór nema staðar. Þeir vita að þeir hafa bara eitt tækifæri til að gera þetta. Þeir verða að vanda sig.

,,Tilbúinn?“ spyr Meistarinn og lítur djúpt í augun á Halldóri. Halldór kinkar kolli. Meistarinn glottir. Svo grípur hann um sprengjuna með báðum höndum, beygir sig í hnjánum og kastar henni í áttina að Halldóri. Ef Meistarinn hefði kastað bolta á þennan hátt í íþróttatíma hefði örugglega verið hlegið að honum og honum strítt fyrir að skjóta ,,ömmuskoti“. En nákvæmlega núna er þetta akkúrat það sem þurfti.

Sprengjan flýgur í vígalegum boga beint í áttina að Halldóri.  

Hann heldur niðri í sér andanum.

Miðar.

Sparkar.

Eins fast og hann getur.

Sprengjan flýgur til baka, þýtur yfir höfðinu á Meistaranum og inn í miðjan uppvakningahópinn.

Beint í mark.

Fullkomið skot!

,,Niður!“ veinar Halldór og kastar sér í gólfið. Um leið og hann lendir grípur hann fyrir eyrun. Þetta verður eitthvað svakalegt. Sprengingin verður örugglega svo hávær að allar rúður á svæðinu eiga eftir að springa í tætlur! Í eitt andartak veltir hann því fyrir sér hvort að uppvakningaleifum muni rigna yfir þau en hann ákveður að það sé skárra en að vera étinn.


Ekkert gerist.

Halldór þorir ekki að hreyfa sig.

Ekkert gerist.

Halldór fer upp á fjóra fætur og lítur um öxl.

Ekkert hefur gerst.

Nei, það er ekki satt: Uppvakningarnir eru komnir enn nær en áður. Meistarinn liggur enn á gólfinu rétt fyrir aftan Halldór, furðulegur á svipinn. Hann starir á eitthvað sem liggur á milli þeirra. Halldór sér um leið hvað þetta er.

Kveikurinn.

Upprúllaða blaðið sem átti að liggja alveg inn í kjarna sprengjunnar. Hann hefur losnað við sparkið og flogið til jarðar. Þar sem strákarnir liggja á gólfinu og stara slokknar loginn. Eftir liggur hálfbrunnin blaðsíða.

,,Ég hélt ég hefði límt hana nógu vel,“ segir Meistarinn titrandi röddu. ,,Í alvöru. Ég hélt...“ Hann kemst ekki lengra.

Fremstu uppvakningarnir eru komnir að honum þar sem hann liggur í gólfinu. Óðir grípa þeir um lappirnar á Meistaranum og draga hann inn í hungraðan hópinn. Halldór ætlar að spretta á fætur og hlaupa á eftir þessum nýja félaga sínum en Arndís kemur hlaupandi og rífur í hann.

,,Þú getur ekkert gert!“ hrópar hún til að yfirgnæfa öskrin í Meistaranum. Og smjattið í uppvakningunum. Halldór stendur frosinn og starir á nemendur frá fyrsta og upp í tíunda bekk háma félaga þeirra í sig. ,,Komdu!“ veinar Arndís og rífur aftur í Halldór. ,,Við verðum að drífa okkur!“ Hann hleypur af stað.

Arndís líka.

Það er samt tilgangslaust. Þau vita hvar þau eru stödd; þessi gangur sem þau eru á er botnlangi. Hann endar í stofu. Stofu sem er pottþétt læst eins og allar hinar eða troðfull af skrímslum.


Þau hlaupa samt.

Loks kemst Arndís að hurðinni í botni gangsins og tekur í húninn. Hún heldur í vonina að þau geti opnað og þannig fundið öruggt skjól.

Læst.

Arndís veinar og lemur í dyrnar.

,,Nei!“ argar hún. Halldór svarar engu. Hann snýr í hina áttina og fylgist með uppvakningunum, sem eru greinilega búnir með Meistarann. Einn þeirra, stelpa úr fyrsta bekk er fyrst til að stökkva aftur af stað. Hún er í bol með mynd af Minions-kalli á. Bolurinn var einu sinni hvítur. Ekki lengur.

Halldór skimar í kringum sig.

Þau geta hvergi flúið.

Þessi gangur er versti mögulegi staður til að vera á.

Uppvakningarnir eru öðru megin, læst hurð hinum megin.

Skrímslin fylla ganginn.

Þau koma nær.

Og nær.

Og nær.

4.hluti_lit.png