Skólaslit - 31. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 22:19

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

31. OKTÓBER

Pavel og Æsa hlaupa.

Eitthvað er að koma neðan úr kjallaranum. Þau eru nokkuð viss um að það séu fleiri uppvakningar.

,,Hvert erum við að fara?!“ veinar Pavel.

,,Upp á næstu hæð!“ hrópar Æsa til baka. Hún er nú þegar komin að nýjum neyðarútgangi, opnar hann upp á gátt og lokar honum svo strax aftur.

,,Fleiri uppvakningar hér!“ gargar hún og hleypur áfram upp á 3. hæð. Pavel heyrir spörk og barsmíðar hinum megin við nýlokaðar dyrnar. ,,Upp!“ Pavel eltir. Öskrin úr kjallaranum eru orðin hærri og fótatökin hraðari. Æsa heldur enn á terpentínubrúsa og lætur leka úr honum á eftir sér. Pavel þarf að passa sig að fljúga ekki á höfuðið þegar hann hleypur á eftir henni.

Þegar Æsa kemur að neyðarútganginum á 3. hæð og ýtir á hurðina gerist ekkert. Hún reynir aftur. Dyrnar opnast örlítið og þegar hún gægist inn um rifuna sér hún að eitthvað þungt hefur dottið fyrir dyrnar hinum megin. Henni sýnist þetta vera skápur eða hilla. Hún ýtir enn fastar, en dyrnar gefa sig ekki.

Æsa bölvar. Pavel er kominn til hennar. Hann reynir að hjálpa til, en það skiptir engu.

,,Hvað nú?“ spyr hann. Æsa lítur upp. Það er bara eitt í boði.

,,Þakið,“ gargar hún. ,,Snöggur!“ Henni er svarað með hræðilegu orgi neðan úr myrkrinu.  Það eru ekki margar tröppur frá neyðarútganginum á 3. hæð og að hurðinni sem leiðir út á þak. Kannski átta. Við endann á þeim er stór hurð. Krakkarnir taka tvær tröppur í hverju skrefi og enda við dyrnar ,,Við verðum örugg þarna úti,“ segir Æsa vongóð. ,,Allavega í bili.“ Hún tekur í hurðarhúninn og togar.

Dyrnar eru læstar.

,,Nei!“ veinar Æsa og rífur aftur í hurðarhúninn. Ekkert gerist. Hún togar og togar en dyrnar gefa sig ekki. ,,Nei, nei, nei!“ Hún treður báðum höndum í vasana sína í leit að lyklunum hennar Grímu en grípur í tómt. Joanna var með þá. Æsa lemur í dyrnar og svo bara til að undirstrika þessar ömurlegu aðstæður sparkar hún í þær líka. Pavel tekur varlega í aðra höndina á Æsu og lítur á hana. ,,Hvað?“ spyr hún forviða. Hann tekur í hurðarhúninn og ýtir.

Þakið blasir við.

,,Dyrnar opnast út,“ segir hann lágt. Æsa veit ekki hvort hún eigi að hlæja eða gráta. Þau stíga yfir stóran þröskuld, út á þakið og loka á eftir sér.

Þakið er flatt og stórt. Það er enn nótt. Tunglið veður enn í skýjunum. Lítil ljós hér og þar lýsa upp svæðið.

Krakkarnir hlaupa frá hurðinni og stefna á mitt þakið. Æsa kreistir síðustu dropana úr terpentínu-brúsanum á eftir þeim og grýtir honum svo eitthvert út í nóttina.

Þau hægja á sér.

Þau stoppa.

Þarna standa þau eitt andartak, móð og másandi, á miðju þaki skólans og reyna að ná áttum. Það er kalt úti og þau eru illa klædd.

Æsa nikkar í áttina að terpentínu-slóðinni.

,,Ég held að slóðin sé órofin alveg niður á jarðhæðina,“ segir hún og röddin titrar örlítið vegna kuldans. ,,Nú þurfum við bara að kveikja í þessu og þá erum við góð.“ Hún hnussar. ,,Þangað til þakið hrynur, auðvitað. Við erum á versta mögulega staðnum.“ Hún skimar í kringum sig. ,,Ég held við getum ekki stokkið fram af, sko. Við erum of hátt uppi. Við erum föst hérna.“ Pavel lítur á hana og reynir að brosa. Honum er orðið örlítið óglatt og hann veit nákvæmlega hvers vegna. Hann veit hann verður að vara hana við.

,,Ég þarf að segja þér svolítið,“ segir hann lágt. Æsa lítur á hann.

,,Hvað?“ spyr hún. Pavel lyftir særðu höndinni. Hann sér í fölri skímunni frá ljósunum á þakinu að sárið er orðið ljótara. Stærra. Dekkra. Dýpra. Æsa grípur andann á lofti og bakkar ósjálfrátt eitt skref frá honum. Svo verður hún miður sín.

,,Elsku kallinn,“ segir hún lágt og stígur aftur í áttina að honum. ,,Mér þykir svo fyrir þessu!“ Hún knúsar Pavel og hann leyfir henni það.

,,Þetta er allt í lagi,“ segir hann dauflega. ,,Ég er viss um að þetta verður ekkert voðalega vont.“ Æsa virðir hann fyrir sér og reynir að stoppa tárin sem eru að brjótast fram. Þetta er búinn að vera ömurlegur dagur. Hún er þreytt og hrædd og gersamlega búin á því og það eina sem hélt henni gangandi var að hún var allavega ekki ein.

Nú er það farið líka.

Pavel ætlar að segja eitthvað en furðulegur sársauki í særðu hendinni stoppar hann. Hann gnýstir tönnum.

,,Allt í góðu?“ spyr Æsa. Hann hristir höfuðið.

,,Nei, þetta er vont.“

Þungur dynkur ómar skyndilega um þakið. Krakkarnir líta bæði í áttina að lokuðu hurðinni. Kvikindin úr kjallaranum eru greinilega komin upp á efstu hæð líka. Vonandi munu þau ekki ná að opna dyrnar.

,,Drífum í þessu,“ segir Æsa ákveðin. Hún veiðir bleikan kveikjara upp úr vasa.

,,Þú veist það má ekki vera með... kveikjara í skólanum,“ stynur Pavel og sest. ,,Unnar skólastjóri... gæti látið þig sitja eftir...“ Hann glottir út í annað og Æsa getur ekki annað en flissað. Hún prófar hvort að kveikjarinn sé ekki örugglega í lagi.

Loginn logar. Æsa virðist vera sátt. Hún virðir terpentínu-sullið fyrir sér.

,,Það ætti að vera nóg að kveikja í slóðinni hér,“ byrjar hún stolt, ,,og þá ætti loginn að...“ Æsa virðist skyndilega annars hugar. ,, ... ætti loginn að...“ endurtekur hún.

Svo verður hún náföl í framan.

,,Hvað?“ spyr Pavel. Æsa bendir miður sín í áttina að lokaðri hurðinni sem þau komu inn um.

,,Þetta mun ekki virka,“ muldrar Æsa lágt. ,,Dyrnar eru lokaðar. Loginn mun stoppa við þær og deyja út. Sama gildir um neyðarútganginn á jarðhæðinni. Hann er líka lokaður. Það skiptir engu máli þótt það sé terpentínu-slóð sitthvoru megin við dyrnar, eldurinn á eftir að slokkna áður en hann nær að brenna sig í gegn. Dyrnar verða að vera opnar.“ Hún lemur sig í ennið með flötum lófa. ,,Hvernig gat ég verið svona vitlaus?!“ Pavel stendur á fætur með erfiðismunum, gengur til hennar og reynir að hughreysta hana.

,,Okkur dettur eitthvað í hug,“ segir hann. ,,Við höfum nægan tíma og...“

Skyndilega ýlfrar hundur í fjarska.

Krakkarnir líta bæði í áttina að hljóðinu.

Þau vita að þetta er enginn hundur.

Eins hratt og þau mögulega geta hlaupa krakkarnir að næstu þakbrún og gægjast yfir hana.

,,Ó, nei...“ hvíslar Pavel.
 

31.hluti_þakið.png

Í fjarska sjá þau skrímsli nálgast skólann úr öllum áttum. Þau skríða yfir ónýta bíla og læðast meðfram nálægum byggingum. Vampírur koma fljúgandi, varúlfar koma stökkvandi, uppvakningar koma hlaupandi. Þetta eru margfalt fleiri kvikindi en nokkurn tímann voru nemendur og kennarar við skólann.

,,Þetta er veran í myrkrinu,“ segir Æsa lágt. Hún titrar af reiði. ,,Hún veit að við erum nálægt því að rústa henni og þess vegna er hún að sækja liðsauka. Uppvakningarnir á jarðhæðinni voru hvorki nemendur né kennarar. Hún er kannski föst inni í draugahúsinu þar sem táknin eru en hún getur samt kallað á kvikindin sín, sama hvar þau eru. Hún er alls staðar! Hér, í símanum heima hjá þér, alls staðar!“ Æsa getur ekki annað en hlegið. ,,Hvernig í ósköpunum datt okkur í hug að við gætum sigrað?“ Hún horfir á skrímslin nálgast og dæsir. ,,Þetta er búið,“ hvíslar hún. Svo byrjar hún að gráta.

Og nákvæmlega þá fær Pavel nóg.

Hann er logandi hræddur.

Honum er ógeðslega illt í hendinni.

Hann er að farast úr sorg.

En hann ætlar ekki að tapa.

Þetta má ekki allt hafa verið til einskis.

Hann rífur í Æsu og horfir djúpt í augun á henni. Tungan er þurr og það er farið að verða erfitt að tala.

,,Við getum kannski... ekki sigrað,“ stynur hann. ,,En við getum samt... reynt að tryggja það... að þessi vera særi ekki fleiri. Ég veit ekki með þig... en ég er ekki tilbúinn... að gefast upp alveg strax.“ Æsa starir á þennan óvænta vin sinn sem hún hafði nánast aldrei talað við fyrr en í morgun og sér að það sem hann segir er satt.

Hún kinkar kolli.

Þurrkar sér um augun.

Sýgur upp í nefið.

,,Hvað gerum við?“ spyr hún og röddin brotnar örlítið.

Pavel bendir á dyrnar.

,,Ég opna þær. Hleypi þeim... út á þakið. Tæmi þannig... stigaganginn. Fer aftur niður... á jarðhæðina. Kveiki... í þaðan.“ Æsa dregur djúpt að sér andann.

,,Og ég verð hér. Svo uppvakningarnir vilji koma út á þakið.“ Pavel kinkar leiður kolli.

,,Ég fel mig... bak við dyrnar. Þær opnast út... á þakið. Ef þeir sjá þig... pæla þeir minna... í mér... Mig grunar... að þú sért girnilegri... en ég.“ Hann lyftir upp særðu höndinni. ,,Ég er... skemmdur.“

Í fjarksa heyrast öskur. Æsa lítur um öxl. Skrímslin eru komin nær. Þau verða komin upp að skólanum hvað úr hverju. Æsa veit að þetta er það eina í stöðunni. Hún veður í vasann sinn og tekur upp kveikjarann. Pavel tekur við honum.

Þau horfast í augu.

,,Þú getur þetta,“ segir Æsa lágt. Pavel brosir.

,,Þú líka.“

Svo staulast hann í áttina að dyrunum.

Hvert skref er eins og Pavel sé klæddur í skó úr blýi. Beinverkir heltaka líkamann og mest af -öllu langar hann bara að leggjast niður og sofna. En hann veit hann má það ekki. Sama hvað. Hann má ekki gefast upp. Náladofi er farinn að leiða úr sárinu og upp eftir handleggnum, en það er eitthvað sem Pavel hefur ekki tíma fyrir núna.

Með erfiðismunum kemst hann loks að dyrunum og tekur um hurðarhúninn. Hann heyrir í uppvakningunum hinum megin við hurðina. Þeir berja og veina. Hann lítur um öxl.

,,Tilbúin?“ kallar hann rámri röddu, sem breytist svo í hósta. Á meðan Pavel hefur verið að koma sér að dyrunum hefur Æsa gengið þvert yfir þakið, eins langt í burtu frá Pavel og hún mögulega getur. Hún stendur við hinn enda þaksins, nánast alveg á brúninni.

Rödd Pavels bergmálar um þakið.

Æsa dregur djúpt að sér andann og heldur honum niðri.

Hún hugsar. Hún hugsar um skólann og hvernig hún hefur aldrei passað inn í hérna. Hún hugsar um krakkana sem hún kynntist í dag og hvernig, þótt að allt hafi verið í rugli, henni leið með þeim:

Vel. Alveg fáránlega vel.

Svo hugsar hún um Pétur og Joönnu, sem bæði fórnuðu sér svo hún gæti lifað. Nú er komið að henni að vera hetjan. Æsa er logandi hrædd, en hún ætlar ekki að hætta við. Hún heldur andanum niðri eitt andartak til viðbótar og sleppir honum svo.

,,Tilbúin!“ gargar hún til baka.

Pavel bíður ekki boðanna. Hann opnar dyrnar upp á gátt og togar hurðina eins þétt upp að sér og hann mögulega getur.

Uppvakningar hendast út um gættina, hver á eftir öðrum. Einhverjir detta um þröskuldinn, aðrir eiga í engum erfiðleikum með hann. Skrímslin sjá Æsu um leið. Hún er heldur ekkert að fela sig.

,,Komiði, gerpin ykkar!“ argar hún þar sem hún stendur hinum megin á þakinu og baðar út öllum öngum. ,,Ég er hér! Eftir hverju eruði að bíða?!“ Hún stappar og lemur í þakið og argar á skrímslin sem hlaupa óð í áttina að henni. ,,Komið bara! Ef þið þorið! Haldiði að ég sé hrædd við ykkur? Ég er nemandi í unglingadeild, þið eigið ekki séns í það sem ég geng í gegnum dagsdaglega! Koma svo! Þið getið reynt að bíta mig og klóra og breyta mér en ég verð aldrei ein af ykkur!“ gargar hún. ,,Aldrei! Ég er Æsa og ég er æðisleg!“

Pavel sér ekki þegar fyrstu uppvakningarnir ná Æsu, en hann heyrir að hún hættir skyndilega að hrópa. Orgin og veinin úr uppvakningunum taka yfir. Skjálfandi og eins varlega og hann getur laumar hann sér handan hurðarinnar, stígur inn á stigaganginn og lokar á eftir sér.

Gangurinn er auður.

Pavel heldur eins fast og hann getur í ryðgað handriðið og staulast niður í áttina að jarðhæðinni. Nokkrum sinnum hefur hann næstum runnið á höfuðið í sleipri terpentínunni en hingað til hefur það sloppið.

Reglulega þarf hann að stoppa og jafna sig. Hann finnur hvernig hann er að breytast. Finnur hvernig óseðjandi hungur er að taka yfir.

,,Nei,“ hvæsir hann út í myrkrið og grípur enn fastar um handriðið. ,,Ég er enn ég. Ég er ég sjálfur. Ég er ég sjálfur!“ Að heyra hans eigin rödd virðist gefa honum aukinn kraft.

Hann heldur áfram.

Loksins er Pavel kominn að neyðarútganginum á jarðhæðinni.

Bakið er blautt af svita og hann titrar. Fölt ljósið sem merkir hvar hurðin er sýnir Pavel að særða höndin er nánast orðin svört.

Hann verður að hafa hraðann á.

Pavel opnar dyrnar varlega.

Hópur af uppvakningum blasir við. Þeir líta allir á hann. En í stað þess að verða hræddur hellist ný tilfinning yfir Pavel. Hann starir á skrímslin og langar skyndilega ekkert meira en að verða hluti af þeim.

,,Nei...“ hvæsir Pavel og lokar augunum. ,,Ekki... strax!“ Í eitt andartak fyllist hugur hans af svartnætti. Í stað þess að sjá myrkur eins og venjulega þegar hann lokar augunum, sér Pavel nú ekkert nema tennur og neglur, blóð og slím sem flæðir, það flæðir og kaffærir og kæfir! Hann vill éta. Ekkert skiptir meira máli en að éta!

Með öllu því litla afli sem Pavel á til ýtir hann þessari tilfinningu til hliðar.

Þetta er ekki hann.

Þetta er ekki hann!

Skyndilega finnur hann fyrir einhverju. Einhverju kunnuglegu. Í huganum lítur Pavel til hliðar og sér Joönnu. Hún stendur skammt frá honum og brosir.

,,Þú getur þetta,“ segir hún og röddin bergmálar eins og hún sé að koma neðan úr helli eða handan við glervegg. ,,Þú ert þú sjálfur.“ Skyndilega byrjar að rigna. Nema það eru ekki dropar sem steypast ofan úr himninum, heldur minningar. Þeim rignir allt í kringum Pavel. Joanna og hann að fíflast. Mamma og pabbi að elda. Joanna og hann að lita. Joanna að hjálpa honum að reima skóna sína. Joanna að knúsa hann. Joanna, Joanna, Joanna. Allt sem henni tengist ýtir svartnættinu burt. Ljósið sem fylgir henni kæfir allt annað.

Hann er hann sjálfur.

Hann er hann sjálfur!


Pavel opnar augun upp á gátt. Aðeins eitt andartak hefur liðið.

Hann stendur enn í hálfopnum neyðarútganginum.

Hann er enn hann sjálfur.

Hann veit ekki hversu lengi, en hvað sem hann ætlar að gera þarf að gerast núna.

Með skjálfandi hendi tekur hann upp kveikjarann hennar Æsu og kveikir á honum.

Loginn er langur og skærgulur í myrkrinu.

,,Ég er ég sjálfur!“ argar Pavel og hendir sér fram á ganginn. Einhverjir uppvakninganna stökkva af stað, en Pavel er sama. Gangurinn er þakinn terpentínu. Uppvakningarnir sömuleiðis.

Fyrsti uppvakningurinn sem kemst að Pavel er slánalegur strákur í 8. bekk. Skrímslið stekkur á Pavel með galopinn munninn.

Það er nákvæmlega það sem Pavel vildi að hann gerði.

Pavel mætir opnum kjaftinum með krepptum hnefa. Í hnefanum er kveikjarinn. Pavel treður logandi kveikjaranum upp í uppvakninginn og ýtir hnefanum eins djúpt og hann mögulega getur ofan í kokið á ófétinu. Pavel heldur í kveikjarann eins fast og hann getur og orgar af sársauka þegar uppvakningurinn tryllist og byrjar umsvifalaust að bíta og naga eins og óður. Pavel gefur sig samt ekki. Hann má ekki missa takið. Þetta verður að ganga.

Sem það gerir.

Skyndilega heyrist hvúss-hljóð og á einu andartaki verður höfuðið á uppvakningnum alelda. Pavel kippir höndinni að sér um leið og ófétið fellur aftur fyrir sig með skerandi veini.

Um leið og uppvakningurinn lendir á gólfinu brotnar höfuðið á honum og logandi heilaslettur dreyfast út um allt.

Gangurinn verður samstundis alelda.


Á örfáum mínútum er eldurinn búinn að dreifa sér um allan skólann.

Uppvakningarnir sem voru á ganginum við neyðarútganginn eru ýmist brunnir til kaldra kola eða flúnir, alelda og öskrandi.

Pavel hefur fundið sér lítið skjól upp við neyðarútganginn.

Með sínum síðasta krafti þurrkar hann uppvakningaleifarnar af sundurtuggðum handleggnum á sér og lagar heyrnartólin á höfðinu.

Hann hugsar um mömmu sína og pabba. Hann hugsar um nýju vini sína sem hann kynntist í dag. Loks hugsar hann um Joönnu. Hann brosir.

Svo lokar hann augunum.

Logarnir taka endanlega yfir.

Pavel deyr sem hann sjálfur.

Kennslustofurnar eru allar í ljósum logum.

Kennarastofan er farin.

Anddyrið er hrunið.

Hálffullur terpentínubrúsi liggur alveg við draugahúsið. Joanna hafði rennt honum þangað. Um leið og eldurinn dansar eftir terpentínuslóðinni og nær inn í brúsann springur hann með litlum hvelli og skvettir logum í allar áttir. Drapperingarnar eru eldfóður.

Draugahúsið fuðrar upp.

Sjálflýsandi táknin hverfa.

Eldurinn færist inn í völundarhúsið á methraða.

Innan úr myrkrinu heyrist tryllt vein.

 

Einhvers staðar í iðrum skólans lúrir heimagerð sprengja á stærð við fótbolta. Búin til og hönnuð af Arndísi og Meistaranum fyrir mörgum klukkustundum síðan.

Sprengjan er reyndar ekki lengur með kveikiþráð, en það er allt í lagi.

Það er djúpt op á henni þar sem hann átti að vera.

Nú logar eldur alls staðar í kringum sprengjna. Límbandið sem heldur henni saman byrjar að bráðna.

Einn einasti logi dansar í loftinu fyrir framan hana.

Loginn læsir klónum í límbandið, rétt við kveikiþráðsopið.

Svo hverfur loginn ofan í það.

Djúpt brak skekur alla bygginguna.

Sprengjan springur.

Og það sem eftir er af skólanum slitnar í sundur.
 

 

-------

 

Skilaboð frá Ævari:

Kæru krakkar. Þar sem 31. október fellur á sunnudag og þetta er saga sem allir eru að lesa/hlusta á í skólanum fannst mér auðvitað ferlegt að enda hana ekki á skóladegi.

Þetta þýðir að það er einn kafli eftir.

Sjáumst á morgun - 1. nóvember!