Skólaslit - 30. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 14:38

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

30.hluti_klosett-ninja.png

30. OKTÓBER

,,Hvernig lít ég út?“ spyr Pavel efins. Stelpurnar virða hann fyrir sér.

,,Eins og þú sért endanlega búinn að missa það,“ segir Joanna og flissar. Pavel brosir út í annað.

Hann stendur fyrir framan Æsu og systur sína. Ef maður vissi ekki betur væri hægt að halda að hann væri hluti af draugahúsinu og ætti að leika múmíu. Nánast allur klósettpappír sem þau fundu í kústaskápnum hefur verið vafinn utan um hann. Þétt. Hendur, fætur, andlit, alls staðar. Hér og þar er búið að binda plastpoka til að halda pappírnum á sínum stað.

,,Manstu hvað þú átt að gera?“ spyr Joanna. Pavel kinkar kolli.

,,Hlaupa. Læti, en ekki of mikil. Lokka uppvakningana á eftir mér. Stinga þá af. Það er neyðarútgangur hérna stutt frá. Opna hann. Bíða eftir ykkur. Svo laumum við okkur þaðan niður í kjallara og út.“ Joanna kinkar stressuð kolli.

,,Heldurðu að þú getir þetta?“ spyr hún. Pavel glottir.

,,Auðvitað. Heldurðu að þið getið þetta?“ Hann nikkar með höfðinu í áttina að terpentínubrúsahaug sem stendur í miðjum kústaskápnum.

,,Þetta verður ekkert mál,“ segir Æsa. ,,Bara skrúfa lokið af og hella. Út um allt.“ Joanna andvarpar.

,,Ég ætti að gera þetta,“ segir hún og lítur á Pavel. Hann hristir höfuðið.

,,Ég er ekki nógu sterkur til að halda á öllum þessum brúsum. Og ég er líka sneggri og minni en þú. Erfiðara að ná mér.“ Joönnu finnst súrt að viðurkenna það, en þetta er rétt. Pavel lyftir öðrum klósettvöfðum handleggnum og ber hann upp að munninum á systur sinni.

,,Bíttu.“ Hún opnar munninn og bítur laust. Pavel slítur sig umsvifalaust lausan. Smá af pappír verður eftir í munninum á Joönnu. Hún skyrpir á gólfið.

,,Fór í gegn?“ spyr Æsa. Pavel brosir og sýnir henni handlegginn. Ekkert nema pappír blasir við.

,,Neibb. Ég vafði líka örugglega 10 umferðir eða eitthvað.“

,,Gott. Þetta mun ekki duga lengi en er skárra en ekkert.“ Pavel kinkar kolli.

,,Jebb.“ Hann stígur til Joönnu og knúsar hana. Hún knúsar fast á móti.

,,Farðu varlega,“ segir hún.

,,Sömuleiðis,“ segir hann. Svo brosir hann. ,,Þetta verður allt í lagi. Ég get séð um mig sjálfur.“ Joanna brosir til baka.

,,Ég veit.“ Pavel grípur skúringarmoppu og heldur á henni eins og sverði. Snýr hann sér að hurðinni. Lagar heyrnartólin á höfðinu. Og opnar.

Hann laumar sér fram og lokar strax á eftir sér.

Við honum blasa allavega sjö uppvakningar úr fyrsta bekk sem standa stjarfir og stara út í loftið. Þeir hafa enn ekki tekið eftir honum.

Pavel stendur grafkyrr.

,,Þú getur þetta,“ hugsar hann. ,,Þú getur þetta, þú getur þetta, þú ert hugrakkur, þú ert stór, þú ert risastór, þú ert með þetta!“ Hann læðist að enda gangsins til að hafa smá forskot. Svo klappar hann saman lófunum.

Uppvakningarnir taka kipp.

Þeir opna munnana.

Þeir líta á Pavel.

,,Þetta var ekki góð hugmynd!“ hugsar Pavel og hleypur af stað. Skrímslin elta.

Östuttu síðar opnast dyrnar.

Stelpurnar gægjast út.

Gangurinn er auður. Joanna starir áhyggjufull í kringum sig. Æsa lemur hana laust í öxlina.

,,Engar áhyggjur, hann er með þetta,“ hvíslar hún. Svo opnar hún dyrnar upp á gátt og stígur fram á gang. Æsa dregur á eftir sér fullan ruslapoka af stútfullum terpentínubrúsum. Joanna gerir slíkt hið sama. Þær loka á eftir sér og sækja svo sitthvorn brúsann ofan í poka.

Þær skrúfa tappana af og henda þeim í burtu.

,,Kýlum á þetta,“ segir Æsa. Þær byrja að hella.


Pavel hleypur.

Það er erfitt.

Svona umvafinn í klósettpappír líður honum eins og hann sé að hlaupa í sírópi. Uppvakningarnir eru rétt á eftir honum og hann finnur hvernig klósettpappírinn er byrjaður að renna.

Skyndilega kemur hann að krappri beygju, missir næstum af henni og rétt nær henni.

,,Vel gert!“ hugsar Pavel um leið og það er rifið í annan fótinn á honum.

Með veini missir hann jafnvægið og steypist fram fyrir sig. Lítill fyrstubekkingur í Minecraft-peysu heldur utan um fótinn og fer umsvifalaust að bíta.

,,Farðu!“ argar Pavel og lemur í hausinn á skrímslinu með moppunni. Skaftið brotnar. Uppvakningurinn veinar. Pavel hendir skúringardraslinu frá sér, sest upp og ýtir með öllum kröftum í skrímslið sem reynir að klóra til baka.

Í fjarska sér Pavel glitta í hina uppvakningana. Ef hann ætlar að gera eitthvað verður það að gerast núna. Með veini sparkar Pavel  eins fast og hann getur í Minecraft-merkið á miðri peysu uppvakningsins. Hann hittir beint í mark. Skrímslið gargar, missir takið og þeytist aftur fyrir sig, þar sem það skellur harkalega í gólfið með háum dynk. Eitthvað sem er mjög líklega myglaður heili slettist um allt gólfið þar sem uppvakningurinn lenti. Hann stendur ekki aftur upp. Pavel hafði einu sinni séð myndband af melónu sem var kastað af húsþaki. Þetta er svolítið svoleiðis. Pavel lítur logandi hræddur á fótinn þar sem uppvakningurinn nagaði en sér ekkert nema pappír.

,,Snilld!“ tautar hann um leið og hann skríður á fætur og hleypur.

Neyðarútgangurinn er ekki langt undan.

Hann þarf bara að komast þangað án þess að ófétin sjái hvert hann fór.

Hann tekur aðra beygju, inn annan gang.

Alls staðar í kringum hann eru hálfopnar stofur. Pavel fær hugmynd.

Um leið og Pavel hleypur fram hjá tómum stofunum skellir hann hurðunum aftur í þeirri von að uppvakningarnir haldi að hann hafi kannski lokað sig þar inni. Skellirnir óma um ganginn og skammt frá veina ófétin.

Síðasta hurðin sem hann kemur að er neyðarútgangurinn.

Hann er ólæstur.

Pavel opnar, stígur inn á dimman stigagang og lokar, rétt í tæka tíð áður en uppvakningarnir koma hlaupandi fyrir hornið.

Skrímslin stoppa á ganginum.

Líta í kringum sig.

Skoða stofurnar.

Skilja ekkert.

Stelpurnar hlaupa um gangana. Þær hella á gólfið, skvetta á veggina og skilja eftir hálffulla brúsa í tómum stofum. Lyktin er viðbjóðsleg en þeim er alveg sama. Eitthvað af vökvanum hefur slest á þær, en það er ekki eitthvað sem þær geta haft áhyggjur af núna.

Þær taka beygju og stoppa.

Héðan sjá þær í draugahúsið. Æsa lítur á Joönnu.

,,Ekki séns,“ segir Joanna, opnar brúsa, leggur hann á gólfið og rennir honum eftir gólfinu í áttina að draugahúsinu. Gulleitur vökvi sullast út og skilur eftir sig fullkomna slóð alveg að drapperingunum, þar sem brúsinn stoppar.

,,Negla!“ segir Æsa og gefur Joönnu fimmu. Þetta gengur vel hjá þeim. Og nákvæmlega þá fer allt að ganga illa.

Það er nánast eins og draugahúsið hafi verið að bíða eftir þeim. Skyndilega hendir sér eitthvað á drapperingarnar, sem gefa sig um leið.

,,Hlauptu!“ gargar Joanna um leið og hópur uppvakninga gubbast út. Stelpurnar vita ekkert hverjir þetta eru; þetta er bara eitthvað fólk. Æsa kannast reyndar við mann sem hún er nokkuð viss um að sé bæjarstjórinn í Reykjanesbæ og í eitt hræðilegt andartak veltir Æsa því fyrir sér hvort að veran í myrkrinu sé að kalla skrímsli úr öllum áttum í skólann fyrst hún sé bundin við draugahúsið. Það getur samt varla verið.

Eða hvað?

Hún hefur ekki tíma til að velta því fyrir sér.

Stelpurnar hlaupa.

Þetta var ekki hluti af áætluninni.

Þær setja stefnuna á neyðarútganginn.

Einhver af kvikindunum renna í terpentínunni og fljúga á höfuðið, en ekki nærri því öll.

Skrímslin öskra. Skrímslin hlaupa.

Pavel bíður. Hann er nokkuð ánægður með sjálfan sig.

Svo heyrir hann lætin. Og hann veit að áætlunin hefur fokið út um gluggann.

Ofurvarlega opnar hann dyrnar að neyðarútganginum og gægist fram. Gangurinn er auður. Hvert fóru uppvakningarnir? Óp bergmála um skólann. Hann þekkir raddirnar um leið.

,,Nei, nei, nei,“ hvíslar hann með sjálfum sér. ,,Nei, nei, nei!“

Stelpurnar koma hlaupandi fyrir horn.

Nokkrum metrum fyrir aftan þær eru uppvakningarnir. Fyrstu bekkjar skrímslin hafa greinilega farið hring og slegist í för með nýju uppvakningunum. Pavel stendur enn í dyragættinni að neyðarútganginum.

,,Fljótar!“ gargar hann á stelpurnar.

Þær gefa í.

Og þá gerist það.

Hluti af leiðinni sem stelpurnar hlupu til baka var þakinn terpentínu. Terpentínu sem núna hefur þakið skóna þeirra. Þær sjá Pavel standa í opnum neyðarútganginum og til að hlaupa hraðar spyrna þær enn fastar í gólfið.

Æsa er á sleipum skóm.

Gegnsósa í terpentínu eru þeir líkari skautum en skóm.

Hún missir jafnvægið og flýgur á andlitið.

,,Nei!“ veinar hún og snýr sér umsvifalaust í áttina að uppvakningaöldunni sem nálgast með hverri sekúndunni. Hún byrjar að skríða aftur á bak á höndum og fótum eins og fáránleg könguló en nú eru lófarnir þaktir sleipri terpentínu líka og hún gerir ekkert annað en að renna. Fötin hennar eru núna orðin gegnsósa og hún finnur súra terpentínu-lyktina fylla nasirnar.

Uppvakningarnir koma sífellt nær og Æsa finnur hvernig hjartað hamast í brjóstinu.

,,Nei!“ veinar hún og ber fyrir sig hendurnar. ,,Nei!“ Uppvakningarnir koma nær og nær og hún býr sig undir það að reyna að sparka í þá, að reyna að ýta þeim í burtu en hún veit að það mun ekki þýða neitt, því þeir eru svo margir og svo snöggir og nú eru þeir komnir svo nálægt að hún sér ekkert nema augun og tennurnar og hendurnar og munnana og skyndilega er rifið í hana og kippt í.

,,Æsa!“ argar Joanna um leið og hún rífur í annan handlegginn á Æsu og þeytir henni eftir ganginum í áttina að neyðarútganginum. Æsa, öll út í terpentínu, þýtur eftir ganginum eins og hún væri í snjóþotu.

Burt frá uppvakningunum.

Burt frá skrímslunum.

Og burt frá Joönnu.

Æsa fattar hvað mun gerast sekúndu á undan Pavel, sem enn stendur í dyragættinni. Joanna stendur hnarreist á miðjum ganginum og snýr sér í áttina að vinum sínum. Hún veit hún mun ekki ná þessu. Joanna brosir dauflega út í annað, leggur fingurna á varirnar og sendir litla bróður sínum fingurkoss.

,,Þú getur þetta!“ hrópar hún.

Svo kaffærir uppvakningaaldan hana. Það gerist svo hratt. Á einu andartaki er hún horfin.

Pavel öskrar. Hann hleypur af stað og neyðarútgangurinn lokast með látum á eftir honum. Æsa sprettur á fætur, hálf-rennur í áttina að honum, grípur hann, opnar dyrnar og ýtir honum inn.

Hún rífur í dyrnar og skellir.


Dimmur stigagangurinn tekur á móti þeim. Föl birta af grænu skilti sem merkt er NEYÐARÚTGANGUR lýsir upp tröppurnar í kringum þau. Á hæðinni fyrir neðan bíður kjallarinn. Einhverjar hæðir eru fyrir ofan þau. Æsa hleypur umsvifalaust af stað að ryðguðu handriði, hallar sér upp að því og leggur við hlustir hvort einhver óvættur leynist í myrkrinu.

Það virðist ekki vera.

Pavel er alveg sama. Hágrátandi hlammast hann á rassinn og hallar sér upp að lokaðri hurðinni. Hann lemur höfðinu við kaldar dyrnar og rífur svo af sér heyrnartólin. Hann grýtir þeim í gólfið. Þetta átti ekki að fara svona. Áætlunin átti að ganga upp. Þetta átti allt saman að enda vel. Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Æsa gengur aftur til hans og veit ekki hvað hún á að segja.

,,Komdu,“ segir hún loks lágt og reynir að tosa hann á fætur. ,,Við megum ekki drolla hérna. Það gæti einhver fundið okkur. Við þurfum að fara niður í kjallara, finna útgang þaðan og forða okkur.“ Úr vasanum dregur hún terpentínubrúsa. ,,Við hellum úr þessum á eftir okkur alla leið út, kveikjum í honum þegar við erum komin í öruggt skjól og búmm!“

Skyndilega heyrist eitthvað.

Æsa og Pavel frjósa.

,,Hvað var þetta?“ hvíslar Æsa. Pavel þurrkar sér um augun.

,,Ég er ekki viss...“ svarar hann. Æsa heldur niðri í sér andanum og læðist aftur að ryðguðu handriðinu. Hún hallar sér upp að því og hlustar.

Þögn.

Nei, ekki þögn.

Eitt fótatak. Svo annað. Svo lágt urr.

Æsa snýr sér leiftursnöggt við og hleypur að Pavel.

,,Það kemur að neðan. Við getum ekki farið í kjallarann. Komdu, við förum upp!“ Hún stekkur af stað. Neðan úr kjallaranum óma fleiri fótatök. Svo byrja einhverjir að öskra. ,,Komdu,“ hvæsir hún á Pavel þar sem hún stendur í tröppunum og spreyjar úr brúsanum. Hann sýgur upp í nefið.

,,Já,“ segir hann lágt. ,,Ég er að koma.“ Heyrnartólin liggja enn í gólfinu skammt frá. Hann hallar sér fram til að teygja sig í þau.

Pavel frýs.

,,Ó, nei...“ hvíslar hann.

Í fölri skímunni frá stóru grænu NEYÐARÚTGANGUR-skiltinu sér hann glitta í handarbakið á sér. Hann slapp greinilega ekki eins vel og hann hélt frá uppvakningnum í Minecraft-peysunni.

Örlítil rifa er á húðinni.

Það blæðir úr henni.

Hann hefur verið klóraður.