Skólaslit - 3. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 06:31

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

3_edited.jpg

3. OKTÓBER

Í hverjum einasta grunnskóla á landinu er náttúrufræðistofa, efnafræðistofa eða stofa þar sem vísindagreinar eru kenndar. Þar má finna alls kyns efni í duftformi sem sitt í hvoru lagi eru algjörlega skaðlaus. Ef þú hins vegar blandar þeim saman geturðu búið til sprengju. Arndís veit þetta vel og hún veit líka að Meistarinn býr yfir nákvæmlega sömu upplýsingum. Eini munurinn á þeim er sá að Meistarinn væri líklegur til að gera eitthvað í því.

Halldór opnar aftur dyrnar að stofunni og gægist fram á gang.

,,Enginn,“ hvíslar hann og lítur á félaga sína. ,,Hvað nú?“ Arndís hugsar sig um.

,,Ég tel að það sé best að koma sprengjunni fyrir í miðju skólans. Í íþróttasalnum. Í völdunarhúsinu. Þá leita öll skrímslin þangað. Ráfa um leiðirnar og vonandi villast. Á meðan getum við beint athyglinni að útgöngunum. Sloppið út og fundið skjól.“ Hún lítur á Meistarann sem bograr yfir sprengjunni hinum megin í stofunni, vopnaður límbandsrúllu sem hann fann í skúffu í kennaraborðinu.

,,Varlega!“ hvæsir hún í áttina að honum. Meistarinn veifar annarri höndinni út í loftið eins og hann sé að reka freka flugu í burtu.

,,Mun þetta virka?“ spyr Halldór efins. Meistarinn lítur um öxl og glottir.

,,Auðvitað,“ segir hann. Svo færir hann sig svo Arndís og Halldór sjái hvað hann hefur verið að gera.

,,Ertu að djóka?“ tautar Halldór. Meistarinn hristir höfuðið stoltur.

,,Þetta er snilld,“ hlær hann. Á gömlu skólaborði fyrir framan Meistarann liggur eitthvað sem lítur út eins og heimsins versta sprengja. Arndís og Meistarinn höfðu blandað saman réttu efnunum og vafið þau varlega inn í blaðsíður úr bókum sem þau fundu uppi í hillu. Fleiri blöðum var hlaðið utan um kjarnann og límbandi vafið þétt hring eftir hring. Út úr herlegheitunum stendur svo upprúllað blað sem nær alveg inn í miðju sprengjunnar. Eins konar kveikiþráður.

,,Ókei,“ segir Halldór. ,,Hvernig gerum við þetta?“ Þegar enginn svarar tekur hann eftir því að bæði Arndís og Meistarinn eru að horfa á hann.

Þegar Halldór lítur aftur á sprengjuna og virðir hana betur fyrir sér tekur hann eftir stærðinni og löguninni á henni. Hann skilur.

Hún lítur út eins og fótbolti.

,,Þetta er ekki flókið,“ segir Meistarinn og klappar sprengjunni. ,,Við kveikjum á blaðinu sem stendur út úr. Þú miðar. Þú skýtur. Þú skorar.“ Halldór kyngir.

Þetta verður mikilvægasta mark hans á öllum ferlinum.

Krakkarnir læðast fram á gang. Það er komið kvöld og þess vegna dimmt úti en enn virka einhver af ljósunum. Samt ekki mörg.

Halldór er fremstur og heldur á sprengjunni. Meistarinn heldur á kveikjara sem hann – auðvitað – var með á sér þótt það standi skýrum stöfum í skólareglum að það megi alls ekki. Arndís rekur lestina og lokar varlega á eftir þeim inn í efnafræðistofuna.

,,Til öryggis,“ segir hún um leið og hún sleppir takinu á hurðarhúninum. ,,Ef við viljum koma aftur hingað. Ef við skiljum eftir opið gætu einhverjir vafrað hérna inn. Það er gott að eiga öruggt skjól.“ Þau ganga af stað.

Ómennsk öskur heyrast hér og þar og í hvert skipti sem óhljóðin bergmála um ganginn stoppa krakkarnir og líta í kringum sig.

,,Sjáiði eitthvað?“ spyr Meistarinn.

,,Nei,“ hvíslar Halldór og gengur varlega fyrir horn um leið og hann klofar yfir eitthvað sem hann vonar að sé gervihendi. ,,Ég heyri bara í þeim en sé...“ Setningin gufar upp í munninum á honum eins og hálsbrjóstsykur um leið og hann snarstoppar. Meistarinn og Arndís ganga næstum aftan á hann en rétt ná að sveigja fram hjá honum.

,,Hvað?“ byrjar Arndís og grípur svo andann á lofti.

,,Ó, nei...“ hvíslar Meistarinn.

Þau eru stödd skammt frá íþróttasalnum. Áætlunin hafði verið að laumast að draugahúsinu, ýta frá tjöldunum sem mynduðu það og þannig koma sér þangað inn. Þaðan myndu þau laumast inn í anddyri íþróttasalarins þar sem Meistarinn myndi kveikja á sprengjunni og Halldór svo sparka í hana. Á meðan kveikurinn væri að brenna myndi sprengjan fljúga langt inn í völdunarhúsið. Allt myndi springa, uppvakningarnir myndu sópast að úr öllum áttum og á meðan myndu þau forða sér út um næsta auða útgang.

Ekkert af þessu mun gerast.

Ástæðan er einföld: Heill her af uppvakningum stendur nákvæmlega þar sem þau ætluðu að lauma sér inn í draugahúsið . Munnarnir opnir. Augun sjálflýsandi. Hendurnar slakar niður með síðum. Ófétin stara stjörf út í loftið, nánast eins og þau séu að bíða eftir einhverju.

,,Bakkið ...“ hvíslar Arndís eins lágt og hún getur um leið og hún byrjar að bakka aftur fyrir hornið. Einn uppvakninganna, strákur úr 6. bekk sem Halldór man eftir úr árshátíðaratriði frá því í fyrra, tekur snöggan kipp. Þrír aðrir sömuleiðis. Þeir skima í allar áttir eins og þeir séu að leita að uppruna hvíslisins.

,,Sjitt,“ missir Meistarinn óvart út úr sér, aðeins of hátt. Allir uppvakningarnir, örugglega um tuttugu talsins, kippast nú til. Öll höfuðin sem hingað til höfðu horft út í loftið, snúast í áttina að krökkunum. Einhver höfuð snúast hálfan hring. Önnur heilan.

Augun verða örlítið bjartari.

Munnarnir örlítið opnari.


Eitt skrímslanna byrjar að veina. Hin herma. Handleggirnir lyftast.

,,Hlaupið!“ gargar Arndís.

Krakkarnir hlaupa af stað.

Það gera uppvakningarnir líka.