Skólaslit - 29. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 09:17

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

29. OKTÓBER

Það sem gerist næst hljómar eins og kafli úr léttlestrarbók:

Joanna og Pavel hlaupa.

Uppvakningarnir elta.

Æsa hleypur.

Myrkrið eltir.

Joanna og Pavel hlaupa fyrir horn.

Æsa hleypur fyrir horn.

Joanna og Pavel klessa á Æsu.

,,Uppvakningar!“ veinar Joanna og rífur í Æsu.

,,Það er eitthvað enn verra á eftir mér!“ gargar Æsa og rífur í Joönnu.

,,Út!“ hrópar Pavel og rífur í þær báðar. Hann hendir sér á vegg draugahússins sem gefur auðveldlega eftir og kútveltist fram á gang. Stelpurnar fylgja á eftir.

Krakkarnir hlaupa.

,,Hvert?!“ veinar Æsa.

,,Bara eitthvert!“ hrópar Pavel.

,,Þarna koma þau!“ gargar Joanna. Æsa og Pavel líta um öxl. Uppvakningakrakkarnir steypast út um gatið á draugahúsinu, eins og hræðileg alda. Þetta eru ekkert nema munnar og hendur. Skrímslin orga af hungri og hlaupa af stað.

,,Við erum með lyklana hennar Grímu,“ hrópar Joanna. ,,Finnum hurð, opnum hana og læsum okkur inni.“ Hún grefur aðra höndina ofan í buxnavasann sinn og veiðir upp lyklana. Sá silfurlitaði glansar í tunglsljósinu.

,,Hérna!“ segir Æsa og grípur um fyrstu hurð sem hún sér. Hún tekur í húninn. Læst.

Joanna kemur hlaupandi, miðar lyklinum, stingur honum í skránna og snýr.

Dyrnar opnast.

Æsa þýtur inn. Næst Pavel. Joanna rífur lykilinn út skránni, grípur um hurðina, sveiflar sér inn og skellir.

Sekúndu seinna hendist heill her af uppvakningakrökkum á hurðina. Þau bíta og slá, rífa í húninn og veina. En sama hvað þau gera, komast þau ekki inn.

Um leið og Joanna skellti varð allt dimmt inni í herberginu. Pavel fálmar út í loftið og finnur loks ljósrofa.

Hann kveikir.

,,Æ, nei...“ muldrar Æsa.

Þau eru lokuð inni í pínulitlum kústaskáp.


Krakkarnir skima í kringum sig.

Veggirnir eru alsettir hillum sem eru fullar af alls kyns drasli. Hér er nóg af klósettpappír, plastpokar, hreinlætisvörur í alls kyns brúsum og auðvitað allavega einn kústur. Pavel lítur í kringum sig og rekur augun í fjölmarga brúsa af sama hreinsiefninu sem búið er að koma fyrir neðst í hverri einustu hillu. TERPENTÍNA stendur á þeim öllum. Hann hugsar málið. Hann hefur heyrt þetta orð áður. En hvar? Svo man hann það. Í fyrra máluðu foreldrar hans íbúðina þeirra upp á nýtt. Þá keyptu þau svona efni til að hreinsa penslana. Ef Pavel man rétt var ógeðsleg lykt af þessu. Hann lítur ofar í hillurnar. Þar er meira drasl. Í miðjuhillunni er einn auka terpentínu-brúsi sem hefur verið komið fyrir ofarlega og lítur næstum út eins og kóngur í ríki sínu þar sem hann trónir yfir skápnum.

 Joanna lítur á Æsu og svo á bróður sinn.

,,Hvað nú?“ hvíslar hún.

,,Við bíðum,“ segir Æsa lágt. ,,Uppvakningarnir laðast að hljóði. Ef við þegjum hljóta þeir að fara á endanum.“ Joanna hugsar málið.

,,Ókei. En hvað með það sem var að elta þig? Þú sagðir að það væri enn verra en uppvakningar. Hvað var það?“ Æsa finnur hroll læðast upp eftir bakinu. Hún lítur í kringum sig.

,,Eitthvað hræðilegt. Eitthvað sem býr í myrkrinu. En fyrst það er ekki komið er ég ekki viss um að það mæti á svæðið,“ segir hún svo. ,,Kannski er það háð draugahúsinu. Kannski getur það bara verið þar sem táknin eru.“

,,Hvar er Pétur?“ spyr Pavel skyndilega. Æsa átti ekki von á þessari spurningu og hálf-bregður við kökkinn sem mætir umsvifalaust á svæðið. Hún lítur undan.

,,Hvar er Gríma?“ spyr hún til baka.

Enginn svarar.


Þau hafa setið á gólfinu í þögn í meira en klukkutíma.

Smám saman fór að hægja á látunum í uppvakningunum. Í allavega tíu mínútur hefur ekkert heyrst í þeim. Annað hvort eru þeir farnir eða bíða hálf-sofandi fyrir utan.

Skyndilega dæsir Joanna.

,,Við verðum að gera eitthvað,“ hvíslar hún. ,,Við getum ekki bara setið hér að eilífu. Förum yfir þetta allt saman. Hvað vitum við?“ Æsa kinkar kolli.

,,Veran í myrkrinu sýndi okkur Pétri hvernig þetta byrjaði.“ Joanna og Pavel sperrast bæði upp.

,,Og þér datt ekki í hug að segja okkur það fyrr?!“ hvæsir Joanna forviða. Æsa lítur undan.

,,Sorrý, ég bara... mér fannst það erfitt. Ókei?“ Joanna roðnar smá og fattar að hún fór kannski aðeins fram úr sjálfri sér.

,,Ekkert mál,“ svarar hún. ,,Segðu okkur hvað gerðist. Þegar þú ert tilbúin.“ Æsa lítur á hana og brosir út í annað. Svo verður hún grimm á svipinn.

,,Lovísa notaði einhvers konar rúnir og allt fór í rugl. Fyrstu skrímslin voru 10. bekkingar sem breyttust í það sem þau voru í draugahúsinu.“ Pavel sýpur hveljur. Æsa kinkar kolli. ,,Pétur tók eftir því að þessi vera í myrkrinu sagði að Lovísa hefði opnað dyr. En ef það er hægt að opna er vel hægt að loka, ekki satt?“

,,Góður punktur,“ segir Joanna.

,,Táknin komu þessu af stað. Strokum þau út og þá kannski getum við endað þetta.“ Pavel hugsar málið.

,,En hvað gerist þá?“ spyr hann. ,,Ef við endum þetta? Hvað þýðir það?“ Æsa yppir öxlum.

,,Ekki glóru.“ Joanna stendur á fætur.

,,Ókei, ég er til í þetta,“ segir hún og teygir úr sér. ,,Skárra en að sitja hér og bora í nefið. En hvernig ætlum við að stroka út þessi tákn? Draugahúsið er stórhættulegt. Og ef þessi vera er þarna enn inni er ekki séns að hún leyfi okkur að sleppa þaðan aftur.“

,,Bara við hefðum sprengjuna,“ heyrist allt í einu í Pavel. Stelpurnar líta á hann.

,,Sprengjuna?“ spyr Joanna. Pavel dæsir.

,,Sem Arndís sagði okkur frá. Þessi sem klikkaði. Kveikiþráðurinn datt úr. Arndís sagði að ef sprengjan hefði virkað hefði hún orðið rosaleg.“ Hann stendur líka upp og hallar sér upp að hillu. Aðeins of harkalega.

Eitthvað dettur fram fyrir sig í einni af hillunum fyrir ofan hann.

Krakkarnir líta allir upp.

Það er terpentínu-brúsi.

Á nákvæmlega sama tíma fá Æsa og Joanna nákvæmlega sömu hugmyndina.

Æsa sprettur á fætur.

Hún teygir sig í brúsann og byrjar að hrista hann af einskærum spenningi. Það gutlar í honum.

,,Heldurðu að það gæti gengið?“ spyr hún spennt. Joanna hugsar sig um og getur varla staðið kyrr af gleði.

,,Það ætti að gera það.“

,,Við verðum samt að ná að dreifa þessu út um allt.“

,,Og vera í öruggri fjarlægð þegar við setjum þetta af stað.“

,,Og forðast skrímslin.“ Pavel hristir höfuðið.

,,Stopp, stopp, stopp Hvað eruði að tala um?“ spyr hann hlessa. Æsa kastar brúsanum til hans. Pavel grípur. Brúsinn er þungur. Aftan á honum er stór límmiði þar sem farið er yfir allt sem alls ekki má gera við vökvann í honum. Ein viðvörun er stærri en allar hinar. Æsa bendir á hana:

,,Afar eldfimt,“ les Pavel. Í eitt andartak skilur hann ekki. Svo byrjar hann að brosa. Hann lítur á Æsu. Hún kinkar kolli.

,,Pétur sagði mér að stroka út. Loka hurðinni. Það er það sem ég ætla að gera. Maður þarf ekkert endilega strokleður til þess að eyða einhverju. Stundum er líka hægt að nota eld.“ Hún bankar í brúsann. Pavel iðar af spenningi. Svo byrjar hann að hlæja.

,,Við þurfum ekkert að vita hvar sprengjan hennar Arndísar er,“ segir Joanna. ,,Allur skólinn mun brenna og á endanum munu logarnir ná í hana. Og þá – kabúmm!“


Í fyrsta skipti í langan tíma er von í hjarta krakkanna.

Þau byrja að móta áætlun.

Þetta er góð áætlun.

Það getur meira að segja vel verið að hún muni ganga upp.

Ef krakkarnir hefðu vitað að allavega eitt þeirra myndi deyja við að hrinda henni í framkvæmd hefðu þau haldið sig inni í kústaskápnum.

29.hluti_trapped-in-the-closet.png