Skólaslit - 28. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 07:55

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

28.hluti_1-bekkur.png

28. OKTÓBER

Pavel og Joanna standa í miðjum matsalnum og skima í kringum sig.

,,Gríma...“ tautar Pavel hálfkjökrandi. ,,Aumingja Gríma...“ Joanna tekur í aðra öxlina á honum og kreistir hughreystandi.

,,Ég tel upp að þremur og svo hlaupum við fram í anddyri. Þaðan förum við inn í draugahúsið,“ hvíslar hún. Pavel bendir á vegg draugahússins sem liggur í gegnum matsalinn.

,,Hvers vegna förum við ekki bara beint inn í það héðan?“ Joanna hristir höfuðið.

,,Við myndum ekkert vita hvað við værum að hlaupa inn í,“ segir hún. ,,Ef við förum inn um anddyrið erum við með allt á hreinu.“

Skyndilega heyrast öskur. Systkinin líta hvort á annað.

,,Hvað var þetta?“ spyr Pavel.

Hann þarf ekki að bíða lengi eftir svari.


Heill bekkur af uppvakningakrökkum, öllum í fyrsta bekk, flæðir inn í matsalinn.

Systkinin bíða ekki boðanna, heldur hlaupa af stað. Þau hafa engan tíma til að fara fram í anddyri. Þau setja stefnuna á vegg draugahússins og hlaupa á hann á fullri ferð.

Uppvakningarnir elta.

Svartar drapperingarnar sem mynda vegg draugahússins gefa auðveldlega eftir og systkinin þurfa næstum að passa sig að stoppa nógu snemma svo þau hlaupi einfaldlega ekki í gegnum draugahúsið og út hinum megin.

,,Æsa!“ veinar Joanna.

,,Pétur!“ gargar Pavel.

Þau hlaupa af stað inn í draugahúsið.

Uppvakningarnir elta.

 
Pétur og Æsa standa enn við Myrkrið, innst inni í völundarhúsinu, algjörlega í sjokki eftir að þau sáu hvað kom fyrir Lovísu og vini hennar.

,,Hvers vegna varstu að sýna okkur þetta?“ spyr Æsa lágt og snöktir. Myrkrið hugsar sig um.

,,Ég vissi að ykkur myndi líða illa af því. Þá nýtist þið mér betur.“ Æsa leitar að hendi Péturs og finnur hana. Hún kreistir. Hann kreistir á móti.

,,Og hvað nú?“ spyr Æsa. ,,Ætlarðu að teygja úr okkur og nota okkur í veggskreytingu? Breyta okkur í skrímsli svo við étum vini okkar?“ Myrkrið hlær.

,,Mér dettur eitthvað í hug.“ Hrollur læðist upp eftir bakinu á Æsu. Hún lítur á Pétur. Þau verða að gera eitthvað. Þetta má ekki bara enda svona.

Æsu til mikillar furðu er Pétur brosandi.

,,Hvað?“ spyr hún lágt.

,,Ég er ekki vitlaus,“ segir hann. Hún starir á hann.

,,Ég veit það. Hvað ertu að tala um?“ Hann bankar á kollinn sinn með vísifingri.

,,Ég fæ kannski ekki góðar einkunnir í stærðfræði, en ég kann alls konar annað.“ Æsa hristir höfuðið.

,,Hvað er að þér?“ Pétur brosir enn breiðar.

,,Veistu hvað? Hver einasti ömurlegi aukatími í stærðfræði var samt þess virði, því ég fékk að sitja í sömu stofu og þú.“ Æsa roðnar. Pétur blikkar hana. Svo dregur hann djúpt að sér andann og lítur í áttina að iðrum völundarhússins. Í mesta myrkrið.

,,Þú klúðraðir málunum, hver sem þú ert!“ veinar hann. ,,Þú blaðraðir of mikið!“ Æsa rífur harkalega í hann.

,,Hvað ertu að gera?!“ Pétur slítur sig lausan.

,,Þú sýndir okkur allt sem þú gerðir við Lovísu! En þú leyfðir okkur líka að heyra hvað þú sagðir við hana!“ Myrkrið þegir. Æsa veit ekki hvort það er gott eða slæmt. Pétur heldur áfram. ,,Þú sagðir að hún hefði opnað ágætis dyr með þessu kroti sínu! Manstu?“ Æsa starir á Pétur eins og hann hafi misst vitið. ,,Og ef það er eitthvað sem ég hef lært í dag, þá er það það að ef hægt er að opna dyr, er svo sannarlega hægt að loka þeim aftur!“ Hann glottir. Lágt urr byrjar að óma alls staðar í kringum þau.

,,Þegiðu maður,“ hvæsir Æsa. Pétur hlýðir ekki.

,,Ég er kannski ekki góður í stærðfræði, en ég er skrambi góður í að teikna. Þessi drasl-tákn sem eru hérna út um allt,“ og hann opnar faðminn upp á gátt, ,,ekkert mál! Hefði teiknað þau hraðar og betur en Lovísa. En veistu hvað?“ Myrkrið svarar ekki. ,,Veistu hvað er það besta við það að teikna eitthvað?“ Pétur skellihlær og lemur fast í eitt skilrúmanna. Slímug húðin á því festist eitt andartak við flatan lófann. ,,Maður getur líka strokað það út! Ekki satt?! Ha?!“

Síðasta orðið bergmálar um íþróttasalinn.

Myrkrið svarar engu.

Æsa horfir full aðdáunar á Pétur þar sem hann stendur nokkra metra frá henni og veit um leið að hann hefur hitt naglann á höfuðið.

Hún veit líka að hann er dauðans matur.

Myrkrið mun ekki leyfa honum að komast upp með svona derring.


Þegar það gerist, gerist það hratt.

Skyndilega er eins og myrkrið alls staðar í kringum Pétur lifni við. Það byrjar að iða og áður en hann getur sagt nokkurn skapaðan hlut meira skríður eitthvað út úr mesta myrkrinu og upp eftir öðrum fætinum á honum. Það er langt og þykkt og kolsvart á litinn, eins og eitraður kolkrabbaarmur. Æsa byrjar að öskra. Áður en Pétur getur einu sinni litið niður eftir fætinum sínum hefur armurinn vafið sig utan um hann og kippt í.

Pétur skellur í gólfið og lendir harkalega. Hann missir andann. Armurinn byrjar að tosa. Pétur rennur af stað. Æsa stekkur til og ætlar að grípa í vin sinn en hann stoppar hana.

,,Nei!“ hrópar Pétur. ,,Farðu!“ Æsa starir á hann. Tárin byrjar að renna. Innan úr mesta myrkrinu smjattar eitthvað. Armurinn kippir aftur í Pétur og hann rennur eftir gólfinu, enn lengra frá Æsu. Nú er neðri hlutinn af honum kominn alveg inn í mesta myrkrið.

,,Strokaðu út!“ orgar hann. ,,Lokaðu hurðinni.“

Hann ætlar að segja eitthvað meira. Æsa er viss um það. Hana langar líka til að segja eitthvað meira. En hvorugu þeirra verður að ósk sinni.

Armurinn kippir aftur í Pétur og í þetta skiptið er það nóg.

Pétur hverfur alveg inn í mesta myrkrið.

,,Nei!“ veinar Æsa um leið og Pétur byrjar að öskra. Ópið ómar um völundarhúsið. Hún grípur fyrir eyrun og öskrar sjálf, en það er ekki einu sinni nóg til að kafffæra angistarhljóðin í Pétri. Svo tekur eitthvað enn hræðilegra við. Æsa þekkir hljóðið um leið; þetta er sama hljóð og þegar hún fær sér ristað brauð og tekur skorpuna af.

Eitthvað er að rífa Pétur í sundur.

Ópin hætta.

Eitthvað blautt lekur á gólfið í lítravís.

Þögnin tekur við. Einhvern veginn er það miklu verra.


Æsa stendur ein í myrkrinu og reynir að hemja ekkasogin.

,,Nei, nei, nei...“ hvíslar hún aftur og aftur.

Skyndilega skýst annar kolsvartur kolkrabbaarmur út úr myrkrinu. Æsa rétt nær að stökkva frá.

Hún snýr sér við.

Hún hleypur.

Hún hleypur aftur inn í draugahúsið.