Skólaslit - 27. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 10:24

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

27. OKTÓBER

Gríma húsvörður, Joanna og Pavel læðast af stað út úr Chill-svæðinu. Hvað svo sem er hinum megin við lokaðar stofudyrnar er orðið frekara í tilraun sinni til að komast út. Í fyrstu hafði verið tekið varlega í hurðarhúninn.

Núna er byrjað að rífa í hann.

,,Förum til baka, inn í draugahúsið og náum í krakkana,“ hvíslar Joanna.

,,Hvað svo?“ spyr Gríma.

,,Svo... svo ákveðum við hvað við ætlum að gera.“ Pavel og Gríma kinka kolli. Þau ganga varlega fram hjá stofuhurðinni og án þess að ráða við það taka þau örlítinn sveig fram hjá henni.

Aftur er gripið í hurðarhúninn. Fastar í þetta skiptið.

,,Er stofan læst?“ hvíslar Pavel. Joanna lítur á Grímu húsvörð.

,,Kennslustofur eru það nú oftast ekki,“ hvíslar Gríma á móti. Pavel lítur skelfdur á svip á dyrnar. Sá sem er að taka í hurðarhúninn er enn ekki búinn að fatta að tosa hann alveg niður. Ekki enn. Skyndilega fær Joanna hugmynd.

,,Lyklar?“ spyr hún. Gríma skilur ekki. ,,Þú ert húsvörðurinn, ertu ekki með lykla að öllum skólanum?“ Í eitt andartak skilur Gríma ekki hvað hún á við. Svo fattar hún það. Hún stingur annarri höndinni ofan í buxnavasann sinn og gramsar.

Upp koma lyklar.

,,Frábær hugmynd,“ hvíslar hún og stígur að stofunni. ,,Við læsum henni að utan. Bara til öryggis.“ Joanna brosir. Pavel sömuleiðis.

Og það er nákvæmlega þá sem heimurinn fer á hvolf.


Jörðin titrar. Fyrst örlítið, svo meira.

Eitthvað er að koma.

Eitthvað stórt.

Skyndilega er eins og hluti af Chill-svæðinu hafi einfaldlega sprungið. Gríðarlegt högg ómar um rýmið og áður en nokkur getur flúið brotnar útveggurinn sem snýr að leiksvæðinu.

Glerbrotum, steypubútum og ryki rignir yfir Grímu, Pavel og Joönnu. Þau kasta sér í gólfið. Ósjálfrátt fálmar Joanna út í loftið og grípur í litla bróður sinn. Gríma ber hendurnar fyrir andlitið.

Í smá stund sjá þau ekkert fyrir ryki.

En þau heyra.

Þau heyra másið.

,,Hvað gerðist?“ muldrar Joanna. Gríma liggur rétt hjá henni.

,,Uss,“ hvíslar hún. ,,Ekki hreyfa þig!“ Joanna lítur á Grímu til að spyrja hana hvað hún eigi við en sér að húsvörðurinn er ekki að horfa á hana. Hún er að horfa inn á Chill-svæðið.

,,Ó, nei...“ heyrist í Pavel.

Másið innan úr rústum Chill-svæðisins breytist í öskur.

Það er djúpt og dimmt og nánast eins og blanda af ýlfri og hvæsi. Eins og blanda af varúlfaýlfri og vampíruhvæsi.

,,Þetta er Halldór...“ hvíslar Joanna.

Gríðarstórt gat hefur myndast í einum vegg Chill-svæðisins. Í miðju herberginu stendur hræðilegt skrímsli. Það er gríðarstórt og loðið, með skælt andlit og flugbeittar tennur. Dýrið er ekki bara með eitt sett af vígtönnum, heldur tvö. Í gegnum þetta allt saman sjá þau þó glitta í leifar af vini þeirra. Vini þeirra sem var bitinn af vampíru og – síðast þegar þau sáu hann – klóraður af varúlfi. Þar sem Halldór var enn að hluta til manneskja þegar hann var klóraður hafa óvættirnir tveir einhvern veginn blandast í honum.

,,Hann er vampíra og varúlfur,“ hváir Pavel.

,,Varúlfa-vampíra,“ tautar Joanna tómri röddu.

,,Var-vampíra,“ staðfestir Gríma.

Var-vampíran dregur djúpt að sér andann og öskrar. Þeir fáu gluggar sem enn eru óbrotnir á Chill-svæðinu gefa sig og springa með látum. Gríma, Joanna og Pavel grípa öll fyrir eyrun.

,,Við verðum að fara!“ ákveður Joanna. ,,Núna!“ Þau spretta á fætur, tilbúin að hlaupa. Var-vampírunni líst ekkert á það. Hún orgar ægilega og tekur ógnandi skref í áttina að þeim. Þau frjósa. Pavel byrjar að kjökra. Joanna grípur um hann.

,,Þetta verður allt í lagi,“ segir hún lágt. ,,Þetta verður allt í lagi.“

,,Ég vil ekki vera étinn...“ snöktir Pavel. Joanna dregur djúpt að sér andann og knúsar litla bróður sinn enn fastar. Hún veit að þau munu ekki sleppa. Hún veit að þetta er búið.

Og þá er enginn tilgangur að ljúga.

,,Þetta mun taka fljótt af,“ segir hún blíðlega. ,,Ég lofa.“ Gríma virðir systkinin fyrir sér og brosir dauflega út í annað. Var-vampíran stendur og starir á þau, tilbúin að stökkva af stað um leið og þau voga sér að hreyfa sig. Grímar dregur djúpt að sér andann. Svo ákveður hún sig. Hún lítur á skrímslið.

,,Gangið í burtu,“ hvíslar hún út um annað munnvikið, án þess að taka augun af var-vampírunni. ,,Hægt.“ Joanna lítur forviða á húsvörðinn.

,,Ha?“ Gríma heldur enn á lyklunum. Hún réttir Joönnu þá.

,,Til öryggis. Ef þið þurfið skjól. Þessi silfurlitaði á að ganga að öllum dyrum í skólanum.“

Joanna hristir höfuðið.

,,Hvað ertu að tala um?!“

,,Farið nú. Ég ræð vel við hann, ég er vön að eiga við óþekka unglinga.“ Eins og til að sanna þetta stappar Gríma fast í gólfið og var-vampíran urrar hátt. Gríma lítur örsnöggt á systkinin. ,,Svona nú! Snáfið! Gangið í burtu og ekki líta um öxl. Drífið ykkur, áður en ég hætti við!“ Á síðasta orðinu stuggar Gríma við krökkunum og ýtir þeim af stað. Var-vampíran ýlfrar og stekkur tvö skref í áttina að þeim.

Joanna opnar munninn til að segja eitthvað en finnur ekki réttu orðin.

,,Áfram nú!“ skipar Gríma.

Þau hlýða.

Ofurvarlega snúa systkinin baki í Grímu og var-vampíruna og rölta af stað, hægt en örugglega. Ófétið tekur eftir því um leið. Það orgar hátt og ætlar að byrja að elta þau.

Gríma tekur stórt skref og stígur á milli.

,,Stopp!“ skipar hún og starir á skrímslið. ,,Nú er þetta komið gott! Svona hegðun er ekki í boði hér í skólanum! Hingað og ekki...“ Hún kemst ekki lengra. Leiftursnöggt stekkur var-vampíran á Grímu, grípur um annan handlegginn á henni og lyftir henni upp. Var-vampíran er helmingi stærri en húsvörðurinn og örugglega tíu sinnum sterkari. Hún gæti allt eins verið að lyfta hálftómum innkaupapoka. Gríma veinar. Pavel ætlar að líta um öxl en Joanna grípur í hann.

,,Höldum. Áfram,“ skipar hún. Gangurinn er fjórar stofur, tvær sitthvoru megin. Þegar þau hafa náð að klára ganginn kemur beygja og þá geta þau látið sig hverfa inn í matsalinn. Nákvæmlega núna eru þau hálfnuð. ,,Við erum alveg að vera komin,“ hvíslar Joanna.

,,Slepptu mér!“ orgar Gríma og reynir að sparka út í loftið. Hún hittir beint í bringuna á var-vampírunni og það bergmálar í skrímslinu við höggið. Það þýðir samt ekkert. Eftir bit frá vampíru gat Halldór hugsanlega hamið sig. Klór frá öðru skrímsli bjó til banvæna blöndu.

Hann opnar ginið upp á gátt.

Tennurnar eru flugbeittar.

,,Hvað ætli litla myrkfælna Gríma myndi segja um þetta?“ hugsar Gríma húsvörður og getur ekki annað en brosað. ,,Að vera étin af alvöru skrímsli!“ Svo hugsar hún ekkert meira.

Skoltar var-vampírurnar taka yfir.

Skrímslið bítur höfuðið af Grímu.

Blóð spýtist í allar áttir. Var-vampíran öskrar ægilega og byrjar að tyggja með miklum látum. Óhuggulegt hljóð bergmálar um herbergið þegar beinin í höfuðkúpunni gefa sig. Smjattið sem fylgir er sveitt og seigt. Á meðan skrímslið tyggur heldur það á máttlausum búk Grímu í annari hendinni og sveiflar honum fram og til baka eins og hauslausri tuskudúkku.

,,Nei!“ veinar Pavel. Hann veit hvað hefur gerst. Ósjálfrátt snýr hann sér við og ætlar að ráðast á var-vampíruna. Joanna grípur í hann.

,,Komdu!“ öskrar hún. ,,Við verðum að forða okkur.“ Þau hlaupa. Seinni kennslustofurnar tvær þjóta hjá og matsalurinn tekur við. Þau taka skarpa beygju og hlaupa í hvarf.

Var-vampíran tyggur slepjulega. Blóð rennur niður munnvikin. Hún kyngir. Svo lítur hún í kringum sig og hvæsir.

Systkinin eru hvergi sjáanleg.

Skyndilega heyrist lítill smellur. Var-vampíran tekur kipp og skimar snögglega í kringum sig. Slef skvettist á veggina. Hvaðan kom þetta hljóð? Smellinum fylgir lágt ískur.

Augu skrímslisins enda á hurð rétt við inngang Chill-svæðisins.

Hurðarhúnn hefur verið tosaður alveg niður.

Dyr að kennslustofu opnast.

Í eitt andartak gerist ekkert.

Svo flæðir út heill bekkur af krökkum.

Þau eru öll í fyrsta bekk.

Þau eru öll uppvakningar.

Augun sjálflýsandi, munnarnir opnir.

Þau öskra.

Þau stökkva af stað.

27.hluti_vampíruvarúlfur.png