Skólaslit - 26. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 19:33

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

26. OKTÓBER

Hvorki Pétur né Æsa geta hreyft sig.

Þeim líður eins og þau séu stödd í draumi eða að horfa á bíómynd.

Það er morgunn. 31. október. Klukkan er 07:45. Við erum stödd í anddyri skólans. Hluti af unglingadeildinni er mættur einstaklega snemma í dag. Allir sem vildu taka þátt í draugahúsinu fá frí og aðrir sem ekki voru valdir í það að vera í búningum og hræða geta fengið frí í fyrstu tveimur tímunum ef þeir hjálpa til við að skrá niður alla þá sem vilja heimsækja draugahúsið og raða þeim niður á tíma.

Lovísa, formaður nemendafélagsins, glæsileg eins og alltaf, brosandi eins og alltaf, pottþétt eins og alltaf, stendur uppi á stól og starir yfir hóp af unglingum. Sumir eru klæddir sem vampírur, aðrir sem varúlfar, nokkrir uppvakningar eru hér og þar og örfáir draugar. Alls staðar í kring eru svo nývaknaðir unglingar af öllum stærðum og gerðum sem munu halda utan um skipulagið, ekki í búningum en vopnaðir blýöntum og óútfylltum skráningarblöðum. Það gengur auðvitað ekki að allir flæði inni í draugahúsið á sama tíma, það þarf að hafa röð og reglu á þessu öllu saman.

,,Jæja!“ segir Lovísa og klappar saman lófunum. ,,Þá fer þetta að byrja.“ Lovísa er sjálf klædd upp sem vampíra og hefur greinilega vaknað fyrr en allir aðrir, því gervið er mjög gott. Unglingarnir spjalla sín á milli og eru ekkert að hlusta. ,,Krakkar!“ kallar Lovísa og klappar aftur. ,,Fókus! Ég er að tala!“ Einhverjir sperra eyrun en flestir eru enn að hugsa um eitthvað annað. Lovísa fær nóg. ,,Hey!“ gargar hún. ,,Þegiði!“ Það er eins og hún sé að tala við óþekkan hund. Allir þagna um leið. Frekjugrettan á andliti Lovísu breytist í blítt bros á minna en sekúndu. ,,Æði!“ syngur hún sátt og bendir á inngang draugahússins. ,,Þetta verður ógeðslega skemmtilegt, ókei?“ Einhverjir muldra eitthvað. ,,Ókei?“ spyr Lovísa hærra og allir samþykkja.

,,Ókei,“ svarar hópurinn hátt og snjallt.

,,Ekki klúðra þessu. Einn inn í einu þannig að við náum sem mestum hryllingi, ef vinahópar vilja fara inn saman þarf að láta vita af því fyrirfram og ef þú ferð inn er bannað að bakka. Þú verður að klára. Ekki eitthvað ,,Ég er hræddur“-kjaftæði, eins og í fyrra. Mér er sama þótt þú sért á yngsta stigi. Ef þú ferð inn, ferðu ekki aftur út! Skilið?“

,,Skilið...“ svarar hópurinn. 

,,Gott,“ segir hún og brosir. ,,Þetta verður besta draugahús ever! Farið nú, ég ætla að tala við hina sem skipta máli.“ Unglingarnir sem ekki eru í búningum líta hvert á annað og ráfa svo eitthvert í burtu. ,,Djók!“ hrópar hún á eftir þeim. ,,Verið samt mætt á slaginu eina mínútu í, annars drep ég ykkur! Djók!“ Einhverjir hlæja, aðrir ekki.

 

Lovísa dregur djúpt að sér andann og lítur á fólkið í búningunum. Eiginlega allir í unglingadeildinni vildu fá að vera skrímsli inni í draugahúsinu. Af einskærri tilviljun voru það bara vinir Lovísu sem enduðu á að vera valdir.

,,Jæja, snillarnir mínir,“ syngur hún og röddin hefur örlítið breyst. Hún er blíðari einhvern veginn. Lovísa lítur í áttina að hávöxnum strák sem er klæddur upp sem varúlfur. Hún blikkar hann og hann ýlfrar lágt á móti. Þetta er Valur Örn. Þau byrjuðu saman í fyrra og eru draumapar skólans. Ef einhver á séns í að tækla Halldór fótboltastrák er það Valur. Hann er samt meira að spá í körfu en fótbolta. Hann er svo hávaxinn að hann trónir yfir öllum öðrum á svæðinu, meira að segja kennurunum. Lovísa horfir yfir hópinn. ,,Draugahúsið í fyrra var drasl. Í ár verður það snilld. Þetta er síðasta árið mitt hérna og við ætlum að gera draugahús sem verður talað um í áratugi! Ég vil að það fyrsta sem verður talað um þegar við höldum upp á tíu ára útskriftarafmælið okkar sé: ,,Muniði hvað draugahúsið hennar Lovísu var geggjað?“ Ókei?“ Vinir Lovísu glotta og kinka kolli.

,,Þetta verður snölld!“ hrópar Valur Örn og ýlfrar enn hærra. Þórarinn, hans hægri hönd sem er klæddur upp sem draugur, brosir. Einhverjir hlæja. Tveir uppvakningar gefa hvor öðrum fimmu. Þeir halda báðir á spreybrúsum með sjálflýsandi málningu. Áður en húsið opna eiga þeir að skrifa hrollvekjandi hluti á veggi hússins. Padma, ein besta vinkona Lovísu, stendur rétt hjá henni og flissar. Hún er líka klædd upp sem vampíra. Það er samt ekki eins gott gervi og Lovísa er í, svo það sé alveg á hreinu.

,,Vitiði,“ dæsir Lovísa sátt og þeir sem fylgjast vel með sjá að örlítið tár virðist hafa heimsótt annað augað hennar, ,,ég er bara svo ógeðslega stolt af okkur öllum.“ Hún lítur í áttina að draugahúsinu. ,,Þetta kostaði blóð, svita og tár. Ég er búin að leggja allt í þetta, líkama og sál. Þetta verður svo æðislegt.“ Svo horfir hún aftur yfir hópinn og glottir ægilega. Það skín í gervi-vígtennurnar sem hún eyddi allavega hálftíma í að líma upp í sig. Lovísa hallar sér nær hópnum og lækkar róminn. Allir taka eitt skref fram á við. ,,Hræðið frekar of mikið en of lítið,“ tautar hún og passar að enginn annar heyrir. ,,Ég veit hvað Unnar skólastjóri sagði, en mér er alveg sama. Þetta á ekki að vera gaman, þetta á að vera hræðilegt. Ég vil að enginn sofi í nótt, ég vil að allir verði með martraðir. Ókei?“

Enn hærri hlátur. Enn fleiri fimmur. Enn meiri glott.

,,Hey, sjáðu,“ segir Valur Örn og bendir á eitthvað bak við Lovísu. Hún lítur um öxl og sér litla stelpu trítla upp að lokuðu anddyrinu. Hún er í frárenndri úlpu og Minions-bol. Lovísa lítur spennt á félaga sína.

,,Lömbin eru mætt á leið til slátrunar!“ syngur hún og stekkur niður af stólnum. ,,Allir inn í hús. Núna!“ Og það er nákvæmlega það sem þau gera. Uppvakningarnir, varúlfarnir, vampírurnar og draugarnir hlaupa í gegnum draugahúsið, koma sér fyrir í felum og bíða þess að fyrstu fórnarlömbin vogi sér inn.

Aðstoðarfólkið sem er ekki í búningum vafrar í rólegheitum aftur inn í anddyri, tilbúið að skrá niður hvenær fólk vill heimsækja húsið.

Lovísa trúir á það að ef maður ætli yfir höfuð að gera hlutina verði maður að gera þá almennilega. Það er þess vegna gríðarlegt sjokk þegar rúmlega hálftími hefur liðið síðan draugahúsið opnaði og nánast allir sem koma út úr því eru eiginlega ekkert hræddir. Sumir eru meira að segja hlæjandi. Þegar Lovísa heyrir setninguna: ,,Það var miklu betra í fyrra, þetta er allt svo gervilegt!“ frá lávöxnum strák úr 4. bekk er nóg komið.

Hún stormar út úr draugahúsinu og inn á Chill-svæðið. Hún er brjáluð. Hún dregur djúpt að sér andann og reynir að jafna sig. Það gengur ekki.

,,Ókei, ókei, ókei,“ tautar hún og skimar í kringum sig. ,,Hvernig redda ég þessu, hvernig redda ég...“ Augu hennar stoppa á borðtölvunni. Við hana situr strákur sem virðist vera að spila leik.

Lovísa arkar að honum.

,,Frá,“ skipar hún og grípur í aðra öxlina á honum. Stráknum bregður.

,,Ha?“ spyr hann hissa.

,,Frá!“ skipar Lovísa. Strákurinn bendir á skráningarplaggið við hliðina á tölvunni.

,,Róleg! Ég á tímann sko!“ Lovísa fnæsir, skimar í kringum sig, sér blýant á tölvuborðinu, grípur hann, krassar yfir nafn stráksins (sem er Magnús) og skrifar sitt eigið.

,,Og núna á ég tímann. Frá!“ Strákurinn starir á hana og á ekki til orð.

,,En...“ byrjar hann en Lovísa stoppar hann.

,,Það eru mikilvægari hlutir í gangi en þetta drasl sem þú ert að skoða,“ segir hún og rífur í hann. Magnús stendur upp. Lovísa sest í sætið og lokar leiknum hans án þess að save-a.

,,Hey!“ mótmælir Magnús, hálfaumingjalega. Lovísu gæti ekki verið meira sama.

,,Farðu bara til Unnars og klagaðu mig. Farðu.“ Hún er byrjuð að hamra á lyklaborðið og hennar vegna gæti Magnús allt eins verið á Mars. Hann stendur tvístígandi eitt andartak við borðtölvuna og strunsar svo í burtu.

Lovísa leitar.

Hún veit að á internetinu er hægt að finna allt. Vandinn er bara að nota réttu leitarorðin. Það tekur hana um tuttugu mínútur að finna það sem hún er að leita að.

,,Þessi gerpi eru að kvarta yfir því að þetta sé svo gervilegt,“ tautar hún um leið og hún virðir fyrir sér síðu, fulla af alls kyns furðulegum rúnum. Samkvæmt eldgömlum spjallþræði sem hún fann á einhverri síðu sem er löngu orðin óvirk eiga þetta að vera alvöru rúnir sem ýta undir ótta. Efst stendur eitthvað um að virða rúnirnar og nota bara eina á hverjum stað í hvert skipti en Lovísu er drull. Hún ætlar að hræða líftóruna úr þessu liði. Hún grípur blýantinn, finnur blað í ruslatunnunni undir tölvuborðinu og skrifar rúnirnar niður.

Allar.

Svo hleypur hún aftur inn í draugahúsið, rífur brúsa af sjálflýsandi málningu af einum uppvakninganna og byrjar að spreyja. Einhverjir spyrja hana hvað í ósköpunum hún sé að gera, aðrir kvarta yfir lyktinni en Lovísu er alveg sama.

Hún spreyjar. Sum táknin notar hún oftar en einu sinni, þau sem erfiðara er að teikna sjaldnar. En hún notar þau öll. Veggirnir í draugahúsinu sjálfu fá fyrst að finna fyrir því og því næst veggirnir í völundarhúsinu.

Síðasta táknið er spreyjað akkúrat við innganginn inn í íþróttasalinn. Lovísa grýtir spreybrúsanum í gólfið, horfir stolt í kringum sig og krossleggur hendurnar.

,,Jæja,“ hvæsir hún og bíður eftir að eitthvað gerist. ,,Koma svo!“

Skyndilega heyrist öskur.

Lovísa stekkur af stað, í áttina að innganginum. Fleiri óp og vein bætast í hópinn og Lovísa gefur í.

,,Sko, mig!“ hugsar hún. ,,Þið munuð sko ekki gleyma draugahúsinu mínu! Ég ýtti undir óttann ykkar, þið eruð í alvörunni hrædd og ég er snillingur!“ Hún hleypur fyrir horn og snarstoppar.

Glottið gufar upp.

Á gólfinu liggur Valur Örn, enn klæddur í varúlfabúninginn sinn. Hann er á fjórum fótum og engist sundur og saman. Lovísa ætlar að teygja sig í áttina að honum og hjálpa honum á fætur en hann ýtir henni í burtu.

,,Farðu...“ urrar hann á hana. ,,Forðaðu...“ Hann nær ekki að klára. Orðin breytast í gól. Skyndilega tekur hann kipp og sperrist allur upp. Augun galopnast og þykk hár byrja skyndilega að troða sér í gegnum húðina á andliti Vals á öllum stöðum. Hann orgar þegar nefið á honum lengist og verður að trýni og veinar þegar flugbeittar klær troða sér út um fingurgómana.

Varúlfurinn liggur másandi í jörðinni eitt andartak.

Svo stendur hann upp og ýlfrar hátt. Hann gnæfir yfir Lovísu.

Hún stendur stjörf og starir á skrímslið.

Það opnar ginið.

Skyndilega kemur einhver hlaupandi. Það er hávaxinn strákur úr 7. bekk.

,,Hey!“ veinar hann. ,,Þið verðið að stoppa þetta, það eru...“ Varúlfurinn snýr sér leiftursnöggt við, stekkur á strákinn og rífur hann í sig. Blóðgusa skvettist yfir Lovísu.

Og þá byrjar hún að öskra.

Lovísa hleypur af stað, fram hjá varúlfinum sem enn er að éta og fyrir annað horn. Aftur snarstoppar hún.

Við henni blasir mesti hryllingur sem hún hefur nokkurn tímann séð. Hún trúir ekki eigin augum: Skrímsli af öllum stærðum og gerðum fylla draugahúsið. Hún sér uppvakninga, vampírur, drauga og fleiri varúlfa. Hér og þar sér hún líka glitta í krakka sem greinilega voru bara á leið í gegnum draugahúsið í mesta sakleysi. Einhver þeirra eru enn á lífi. Ekki nærri því öll.

Skyndilega heyrast læti.

,,Hvað er í gangi hérna?!“ hrópar kunnugleg rödd. Gunnar íþróttakennari brýst í gegnum eitt tjaldanna sem mynda veggi draugahússins, tilbúinn að bjarga deginum. Hópur af uppvakningum tekur á móti honum. Hann átti aldrei séns. Þegar þeir hafa lokið sér af er bara neðri helmingurinn af íþróttakennaranum eftir. Uppvakningarnir troða sér hungraðir í gegnum gatið á veggnum sem Gunnar skildi eftir sig, tilbúnir í ábót. Öskrin sem heyrast stuttu seinna gefa til kynna að þeir hafi ekki þurft að leita lengi.

Restin af gestum draugahússins reynir að flýja en skrímslin eru mun sneggri.

Lovísa stendur bara og starir.

,,Nei,“ muldrar hún. ,,Þetta er ekki að gerast. Þetta er ekki að gerast.“ Hún byrjar ósjálfrátt að bakka og hrökklast undan verunum sem þjóta fram og til baka í kringum hana, einhverjar á leiðinni dýpra inn í draugahúsið að elta nemendur sem þar leynast, aðrar einfaldlega á leiðinni út til að ráðast á þá sem eru frammi á gangi eða í tíma. ,,Nei,“ tautar hún aftur. ,,Þetta er ekki að gerast. Þetta er draumur. Þetta er martröð.“ Hún sér Pödmu liggja veinandi í gólfinu, komin með alvöru vígtennur og andlitið skælt. Þórarinn, besti vinur Vals, stendur úti í horni, fölari með hverri sekúndunni, skælbrosandi og mjög krípí.

Lovísa byrjar að skjálfa. Hún skilur hvað hefur gerst.

Þessi skrímsli eru vinir hennar.

Þau eru að breytast í það sem búningarnir þeirra voru.

Og það er henni að kenna. Henni og rúnunum.

Uppvakningur, sem hún veit að er vinur Vals, strákur að nafni Daði, kemur skyndilega hlaupandi í áttina að henni með útréttar hendur. Það er dropinn sem fyllir mælinn. Lovísa öskrar, snýr sér við og hleypur.

Hún hrindir fólki frá, hún sparkar í einhvern sem liggur á gólfinu, ýtir fyrstu bekkingi sem kemur grátandi á móti henni með þeim afleiðingum að hópur uppvakninga nær í hann og hámar í sig. Lovísa hleypur.

Hleypur.

Hleypur.

Það eru hendur og öskur og blóð og slím alls staðar en hún neitar að stoppa, hún heldur áfram að hlaupa og hlaupa og hlaupa þar til hún loksins klessir á eitthvað.

Það er veggur.

Hún lítur forviða í kringum sig.

Hún hefur hlaupið inn í völundarhúsið. Í fjarska heyrir hún öskur og vein.

,,Hjálp,“ hvíslar hún og skimar í kringum sig. Enginn svarar. ,,Hjálp!“ kallar hún, hærra. Einhvers staðar heyrist þrusk. ,,Hjálpið mér!“ öskrar Lovísa svo hátt að röddin gefur sig næstum. Öskrið bergmálar um íþróttasalinn.

Enginn svarar.

Nema Myrkrið.

,,Góðan daginn,“ segir Myrkrið og Lovísa öskrar enn hærra. ,,Ég þakka heimboðið. Þú opnaðir ágætis dyr með þessu kroti þínu.“ Hún snýst í hringi um sjálfa sig og lemur út í loftið.

,,Hver er þetta? Hvað er að gerast?“

,,Þú vildir draugahús sem enginn myndi gleyma. Ég er með góðar og slæmar fréttir, mín kæra Lovísa,“ heldur Myrkrið áfram. ,,Þær góðu eru að enginn mun nokkurn tímann gleyma draugahúsinu þínu.“ Lovísa reynir að komast að því hvaðan röddin kemur en getur það ekki. Röddin er alls staðar. ,,Slæmu fréttirnar,“ malar Myrkrið, ,,eru hins vegar þær að því miður muntu ekki vera með okkur til að njóta frægðarinnar.“ Lovísa fölnar í framan. Hún veit hvað er að fara að gerast. Hún mun breytast, eins og allir hinir. Eins og óð veður hún upp í sig og reynir að losa gervi-vígtennurnar. Þær gefa sig báðar með litlum smelli og Lovísa hendir þeim út í myrkrið.

,,Ég vil ekki verða vampíra, ég vil ekki verða vampíra...“ endurtekur hún aftur og aftur. Hún byrjar þurrka fölan farðann framan úr sér, eins og óð. ,,Ég vil ekki verða vampíra...“ Skyndilega finnur Lovísa furðulega tilfinningu í andlitinu. Þetta er næstum eins og náladofi, nema verra einhvernveginn.

,,Hver talaði um að þú ættir að verða vampíra?“ spyr Myrkrið. ,,Þú sagðist hafa lagt blóð svita og tár í draugahúsið þitt. Líkama og sál. En við vitum að það er ekki satt. Þetta er ekki bara draugahúsið þitt. Það voru fjölmargir aðrir sem komu að því. En það getur orðið þitt. Nú skulum við bæta úr því. Til að klára það. Þú vilt gera hlutina almennilega, ekki satt?“

Náladofinn verður verri.

Svo verður hann ærandi.

Andlitið á Lovísu byrjar að teygjast. Eins og einhver hafi gripið þéttingsfast í báðar kinnar og tosað. Hún öskrar og skilur ekki hvað er að gerast. Hún skakklappast aftur fyrir sig þar til hún klessir á eitt skilrúmanna sem myndar völundarhúsið. Hún baðar höndunum í allar áttir og flækist í drapperingunum, sem losna og falla yfir hana. Með veini kraflar Lovísa sér leið út úr þungu efninu og sparkar því í burtu.

,,Svo voooont!“ veinar hún og grípur um andlitið um leið og hún leggur bakið upp að skilrúminu. ,,Svo voooont!“

Andlitið heldur áfram að teygjast.

,,Neiiii...“ orgar Lovísa. Restin af líkamanum byrjar að teygjast til og frá, hendur, fætur, búkur, höfuð, allt teygist þetta og tosast, dregið í allar áttir, sífellt lengra og lengra þar til ekkert er eftir nema strekkt húðin, sem dregin er upp eftir skilrúminu og hún verður sífellt þynnri og þynnri, eins og þunnt lag af smjöri sem er verið að smyrja yfir alltof stórt brauð og hún skríður yfir öll skilrúm völundarhússins, leggst yfir drapperingarnar, gerir þær slímugar og ógeðslegar og fleiri tákn byrja að myndast á strekktri húðinni, sem og inni í draugahúsinu og Myrkrið hlær, því Myrkrið er sátt, því Myrkrið er bara rétt að byrja og skyndilega gufar allt upp og Pétur og Æsa ranka við sér.


Þau standa enn á sama stað.

Þau eru bæði grátandi.

,,Jæja,“ segir Myrkrið. ,,Nú er komið að ykkur.“

26.hluti_umbreyting.png