Skólaslit - 25. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 07:32

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

24.hluti_volundarhus.png

25. OKTÓBER

Í morgun hafði verið lítill vandi að rata í gegnum völundarhúsið. Vissulega gekk maður endrum og sinnum inn gang sem leiddi ekki neitt, en þá bakkaði maður bara og valdi hina leiðina. Maður ráfaði hingað og þangað, stundum rakst maður á einhvern sem reyndi að bregða manni og svo fann maður hana; miðju völundarhússins. Það hét hún allavega samkvæmt stóru skilti sem stóð þar, sem var útatað í gerviblóði.

Miðjan var samt ekkert í miðjunni. Hún var í öðrum endanum á íþróttasalnum sem völundarhúsið var reist í. Hún hefði eiginlega frekar átt að vera kölluð ,,Útgangur völundarhússins“. Þar var hurð og ef þú opnaðir hana varstu kominn fram á gang, hinum megin í skólanum. En völundarhús verða víst að vera með miðju, þannig að miðja var það.

Í kvöld er eins og Æsa og Pétur séu stödd í allt öðru völundarhúsi en því sem þau röltu í gegnum í morgun. Það er eins og húsið hafi eytt deginum í að vaxa. Flækjast. Stækka. Þau læðast milli þröngra ganga og gera nánast ekkert annað en að ganga á veggi og bakka. 

,,Kannski ættum við að snúa við?“ hvíslar Pétur. Æsa hristir höfuðið.

,,Nei. Padma talaði um draugahúsið. Við höfum enn ekki fundið neitt. Svarið hlýtur að vera hérna einhvers staðar. Hafðu augun opin.“

Um leið og krakkarnir höfðu stigið inn í völundarhúsið höfðu vasaljósin þeirra gefið sig. Hvorugt þeirra heldur að það sé tilviljun. Til að byrja með gátu þau notað sjálflýsandi táknin sem lýsingu, en nú virðist þeim fara fækkandi. Krakkarnir taka sömuleiðis eftir því að drapperingarnar sem hanga á spónaplötunum sem mynda veggi völundahússins virðast vera að breytast eftir því sem þau fara lengra inn. Þær eru orðnar rakari einhvern veginn. Þær liggja yfir gólfið og þegar þau stíga á þær finna krakkarnir að efnið er orðið slímugt. Æsa rennur næstum á höfuðið en Pétur nær að grípa hana.

,,Takk,“ segir hún og styður sig við hann. ,,Ég vil ekki detta ofan í þetta ógeð.“

,,Sammála,“ tautar hann.

Þau ganga áfram.

Gríma kemur hlaupandi inn á Chill-svæðið.

,,Við verðum að fara,“ segir hún. ,,Núna!“

Joanna kemur hlaupandi á móti henni. Pavel virðist vera að veifa upp í eitt hornið yfir tölvunni.

,,Sammála,“ segir Joanna. ,,Táknin í draugahúsinu eru eitthvað stórhættulegt. Lovísa var að skoða þau rétt áður en allt fór í rugl. Við verðum að vara Æsu og Pétur við.“ Hún stoppar og lítur á Grímu. ,,Bíddu,“ segir hún. ,,Hvers vegna vildir þú flýta þér?“ Gríma bendir inn ganginn.

,,Stofan næst okkur. Það er eitthvað þar inni. Það er verið að taka í hurðarhúninn.“ Pavel kemur hlaupandi.

,,Hvað er þar inni?“ spyr hann stressaður. Gríma lítur í áttina að hurðinni. Það er aftur verið að taka í húninn. Fastar í þetta skiptið.

,,Ég veit það ekki,“ segir hún. ,,En mig langar ekki að vera hérna þegar það kemur í ljós.“

Inni í völundarhúsinu eru nú engin tákn lengur á veggjunum.

Myrkrið hefur tekið algjörlega yfir og krakkarnir sjá ekki handa sinna skil. Þau ganga löturhægt áfram, bera fyrir sig hendurnar og passa sig á því að snerta ekki veggina. Þeir eru orðnir enn slímugri.

Skyndilega heyrist lágt þrusk.

Pétri verður svo um og ó að hann stekkur nánast í fangið á Æsu. Hún grípur hann, að sjálfsögðu.

,,Rólegur,“ segir hún. Hann sleppir takinu.

,,Sultuslakur, sko,“ svarar hann. Hún brosir út í annað.

,,Greinilega,“ svarar hún.

,,Góða kvöldið,“ heyrist allt í einu í myrkrinu. Bæði Æsa og Pétur öskra og grípa í hvort annað. Ósjálfrátt byrja þau að snúast í hringi til að reyna að heyra nákvæmlega hvaðan hljóðið kemur. Það virtist einhvern veginn koma alls staðar að. En það getur ekki verið.

,,Hvað var þetta?!“ hvíslar Pétur.

,,Sérðu eitthvað?!“ svarar Æsa.

,,Nei, það er bara myrkur hérna!“

,,Svona nú,“ heldur röddin áfram. ,,Þið þurfið ekki að leita að mér, ég er nú þegar hér.“ Þau stoppa bæði, móð og másandi.

,,Hvar?!“ hvæsir Æsa. ,,Hver er þetta?“ Röddin hlær lágt.

,,Við höfum ekki hist áður Æsa, en Pétur, við höfum nú spjallað áður, ekki satt? Þú hlýtur að muna eftir mér.“ Pétur skilur ekkert.

,,Ha?“ spyr hann. ,,Hvenær...“

,,Hvað eruði mörg, nákvæmlega?“ grípur röddin fram í fyrir honum og Pétur fattar um leið. Þegar þau voru heima hjá Joönnu og Pavel. Þegar þau hringdu í Neyðarlínuna. Pétur hafði staðið við hliðina á Joönnu og hlustað á þann sem hafði svarað. ,,Það varst þú í símanum?“ spyr hann titrandi röddu.

,,Mikið rétt,“ svarar röddin. ,,Ég er alls staðar.“

,,Það varst þú sem sendir vampírurnar á okkur.“

,,Mikið rétt.“

,,Hver ertu?“ spyr Pétur.

,,Ég?“ baunar röddin kæruleysislega til baka. ,,Ég hélt þið væruð búin að fatta það. Ég er Myrkrið.“ Ósjálfrátt færa Æsa og Pétur sig nær hvort öðru. Þau líta í kringum sig en sjá ekkert. Nema myrkur.

Þeim líður eins og eitthvað sé að horfa á þau.

Eitthvað hungrað.

,,Hvað ertu að gera hérna?“ spyr Æsa titrandi röddu.

,,Ég kom því mér var boðið. Það er ekki flóknara en það,“ svarar Myrkrið. Í fjarska heyrast skyndilega læti. Hróp. Jörðin titrar. Eitthvað brotnar.

Æsa og Pétur þekkja raddirnar. Þetta eru vinir þeirra. Þetta eru Gríma, Pavel og Joanna. Svo heyrist öskur. Hræðilegt öskur. Þau eru ekki viss hver er að öskra. Þau ætla að stökkva af stað.

,,Þið munuð aldrei komast út,“ segir Myrkrið og þau stoppa. ,,Hin koma ykkur ekki lengur við.“ Æsa kreistir höndina á Pétri svo fast að hann þarf að hafa sig allan við að kippa henni ekki að sér.

,,Hvað gerðist?“ spyr Æsa titrandi röddu, nú ekki af ótta, heldur reiði.

,,Hvað áttu við?“ svarar Myrkrið og flissar. Æsu stekkur ekki bros. Hún hefur fengið nóg.

,,Hvað gerðist?!“ öskrar hún inn í Myrkrið. Pétri dauðbregður. ,,Þú ert augljóslega það sem við áttum að finna hérna. Segðu okkur það þá. Segðu okkur hvað gerðist, segðu okkur hvers vegna skólinn fylltist af skrímslum, segðu okkur það bara, hættu þessu kjaftæði, hættu þessu stælum og segðu okkur það bara!“

Þögn.

,,Ég get gert gott betur en það,“ malar Myrkrið. ,,Ég get sýnt ykkur það.“