Skólaslit - 24. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 07:41

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

24. OKTÓBER

Joanna starir.

Andlitið glápir á móti og brosir enn breiðar. Svo opnast munnurinn.

,,Hhhhhhhhh...“ heyrist. Án þess að taka augun af skrímslinu þreifar Joanna út í loftið og nær taki á Pavel.

,,Þegar ég gef merki, hlaupum við,“ hvíslar hún.

,,Hhhhhhh...“ stynur veran. Pavel slítur sig lausan.

,,Nei,“ byrjar hann. ,,Við...“

,,Ekkert kjaftæði,“ hvæsir Joanna. ,,Tilbúinn?“

,,Hhhhhh....“

,,Nei,“ mótmælir Pavel. ,,Hlustaðu á mig!“ Joanna hlustar ekki.

,,Hlaupum!“ gargar hún og stekkur af stað. Pavel grípur í hana.

,,Bíddu!“ skipar hann. ,,Manstu; þú þurftir að horfa til að sjá. Nú þarftu að hlusta til að heyra!“ Joanna stoppar. Hún lítur aftur á óvættinn sem er enn í horninu með opinn munninn.

,,Hhhhhhh...“ heyrist. Joanna hlustar betur. ,,Hhhhhh... æ.“ Joanna starir forviða á kvikindið og svo á bróður sinn.

,,Hæ?“ spyr hún, gersamlega hlessa. Pavel brosir og kinkar kolli.

,,Já,“ svarar hann. ,,Hæ.“ Hann lítur upp í hornið og veifar. ,,Þetta er Joanna, stóra systir mín. Joanna, þetta er Þórarinn. Hann var í 10. bekk, þangað til í morgun. Núna er hann draugur.“

Joanna situr á gólfinu og starir upp í hornið. Draugurinn er enn á sínum stað, skælbrosandi og ógeðslegur. Ef Joanna pírir augun og hallar höfðinu örlítið aftur sér hún næstum glitta í kunnuglegt andlit á strák sem hún man eftir úr 10. bekk.

,,Hvenær sástu hann fyrst?“ spyr hún lágum rómi. Pavel yppir öxlum.

,,Fyrr í kvöld.“

,,Hvers vegna sagðirðu ekki neitt?“ Hann yppir öxlum aftur.

,,Hvað átti ég að segja?“ Nú yppir Joanna öxlum.

,,Góður punktur.“ Draugurinn lítur á Pavel. Svo aftur á Joönnu.

,,Er hann...“ Hún leitar að rétta orðinu. ,,Góður?“ Pavel hugsar málið.

,,Ég held hann sé hvorki góður né vondur. En honum líður ekki vel. Hann vill ekki vera svona.“ Joanna lítur aftur á drauginn. Hann er skælbrosandi. Kannski samt aðallega vegna þess að hann er ekki með neinar varir.

,,Mér sýnist hann himinlifandi,“ svarar hún. Draugurinn fnæsir lágt. ,,Sorrý,“ bætir hún við. Hún hugsar málið. ,,Hvers vegna er hann draugur? Allir aðrir eru uppvakningar eða vampírur. Eða varúlfar.“ Pavel hristir höfuðið.

,,Ég veit það ekki. En ég veit að hann vildi ekki að við færum áðan. Þegar við fórum heim,“ segir Pavel. ,,Hann vildi að ég myndi elta sig.“ Hann bendir á tölvuna. ,,Hingað.“ Joanna klöngrast á fætur. Hún virðist vera að jafna sig á mesta sjokkinu.

,,Hvers vegna?“ spyr hún.

,,Ég veit það ekki,“ svarar Pavel. ,,Athugum.“ Hann ýtir á takka á lyklaborðinu og borðtölvan kveikir á sér. Það síðasta sem var skoðað kemur í ljós.

Við þeim blasir vefsíða.

RÚNIR stendur stórum stöfum.

,,Notist varlega,“ stendur svo fyrir neðan það. ,,Aðeins eina rún skal nota á hverjum stað í hvert skipti. Berið virðingu fyrir rúnunum.“

,,Hvað í ósköpunum er þetta?“ spyr Joanna og gengur að skjánum. Pavel fer neðar á síðuna. Ótalmörg tákn, af öllum stærðum og gerðum, koma í ljós. Undir hverju og einu stendur eitthvað.

,,Ýfir ótta.“

,,Umbreytingar.“

Joanna lítur furðu lostin á Pavel.

,,Hvað í ósköpunum var Lovísa að gera?“

Og allt í einu fattar hún það.

,,Ó, nei,“ hvíslar hún.

,,Hvað?“ spyr Pavel. Hún bendir á skjáinn.

,,Þetta eru sömu tákn og eru inni í draugahúsinu! Skrollaðu efst!“ skipar hún. Pavel hlýðir.

,,Aðeins eina rún skal nota á hverjum stað í hvert skipti.“ Joanna bankar í skjáinn þar sem setningin er.

,,Aðeins eina rún! Draugahúsið er stútfullt af þeim!“ Skyndilega fölnar hún í framan. Hún lítur á Pavel. ,,Æsa og Pétur!“

,,Hvað með þau?“ spyr Pavel.

,,Þau eru enn þar inni. Við verðum að ná þeim út! Núna!“

Æsa og Pétur ráfa dýpra og dýpra inn í draugahúsið. Enn hefur ekkert óvenjulegt gerst. Þau ganga fyrir horn og stoppa.

Þau eru komin að því:

Völundarhúsinu.

Hápunkti draugahússins.

,,Þetta er...“ byrjar Pétur.

,,Öðruvísi en þig minnti?“ klárar Æsa. Hann kinkar kolli.

,,Aðeins.“

Í morgun hafði völundarhúsið verið mismunandi skilrúm sem búið var að leggja dökkar drapperingar yfir. Það var draugalegt, en þú sást samt alveg að þetta var ekki í alvöru. Núna er þetta allt annað. Myrkrið inni í völundarhúsinu er dimmara en nokkuð sem krakkarnir hafa séð áður. Það er nánast eins og drapperingarnar hafi vaxið og tekið yfir skilrúmin. Þær leka yfir gólfin og teygja sig upp í loftið. Eina birtan í öllu völundarhúsinu virðast vera táknin, enn skrifuð með sjálflýsandi málningu, enn stærri og flottari og fleiri en þau tákn sem krakkarnir sáu áðan.

Þau eru alls staðar.

Æsa og Pétur líta hvort á annað. Hann réttir út aðra höndina og hún tekur um hana.

Svo stíga þau inn í völundarhúsið.

Gríma húsvörður er á ganginum sem liggur að Chill-svæðinu. Hún varð ekkert vör við drauginn, enda var hennar athygli allt annars staðar. Á ganginum eru fjórar kennslustofur, tvær sitthvoru megin. Eftir að hafa heyrt umgang í einni þeirra þegar systkinin voru að rífast ákvað hún að tékka.

Ofurvarlega hefur hún læðst á milli þeirra og lagt eyrað upp að þeim.

Í þremur þeirra er dauðaþögn.

Í þeirri síðustu, þessari sem er næst Chill-svæðinu, heyrði hún eitthvað.

Skrjáf. Þrusk. Smjatt.


Gríma stendur fyrir framan lokaðar dyrnar og starir á hurðarhúninn.

Hann er kyrr.

Svo hreyfist hann örlítið.

Svo er hann aftur kyrr.

Svo hreyfist hann örlítið.

Eitthvað er að reyna að komast út.

24.hluti–hunn.png