Skólaslit - 23. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 12:26

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

23. OKTÓBER

Krakkarnir læðast í gegnum draugahúsið. Pétur veinar.

,,Sjitt, ég hélt þetta væri alvöru uppvakningur!“ gargar hann og grípur ósjálfrátt fyrir munninn á sér. ,,Sorrý,“ hvíslar hann. Þau höfðu rétt í þessu gengið fyrir horn og beint í flasið á gínu sem búið var að skreyta með blóði og alls kyns ógeði. Hún liggur á gólfinu og er stillt þannig upp að hún teygir sig í áttina að gestum og gangandi.

,,Ég mö-yrði þig, drengur!“ hvæsir Æsa á hann. ,,Ég fékk næstum hjartaáfall!“

,,Sorrý,“ svarar hann og roðnar. ,,Ég hélt að einhverjir uppvakningar hefðu kannski komið til baka eða eitthvað.“

,,Einu uppvakningarnir sem eru hugsanlega enn á svæðinu eru lokaðir inni í stofum,“ segir Joanna, enn fremst í flokki, um leið og hún gægist fyrir horn. ,,Svo lengi sem þær eru lokaðar erum við í góðu lagi.“ Hún lýsir með vasaljósinu sínu og lítur í kringum sig. ,,Höldum hópinn. Látið vita ef þið sjáið eitthvað óvenjulegt. Fyrir utan, þið vitið, allt alvöru ógeðið.“ Krakkarnir skima í kringum sig. Hljóðmyndin sem búið var að búa til úr mismunandi hljóðum er löngu þögnuð. Í hennar stað er lágt rafmagnssuð, eflaust frá græjum sem hafa oltið um koll í öllum látunum. Hér er allt sem er í hefðbundnum draugahúsum; gervilík, gerviblóð, gerviskrímsli og gerviógeð á víð og dreif. Hér er líka hellingur af gumsi eftir að uppvakningarnir stormuðu í gegn í morgun. Ekki það að nokkur myndi viðurkenna það, en draugahúsið er mun flottara núna. Það var svo sem allt í lagi í morgun, en þetta er alvöru dæmi. En auðvitað segir það enginn upphátt; það væri óviðeigandi. Hér og þar eru rifur og göt í veggjum hússins þar sem uppvakningar annað hvort brutust út. Eða inn. Í fjarska má sjá glitta í neðri helminginn af Gunnari íþróttakennara.

Lyktin inni í draugahúsinu er þung og römm og Pétur þarf að passa sig að hugsa ekki of mikið um það hvers vegna skórnir hans klínast við gólfið, því annars fer hann að kúgast.

,,Ein pæling,“ segir Æsa. ,,Fóru allir hérna í gegnum draugahúsið í morgun?“ Allir kinka kolli nema Gríma. ,,Ókei,“ heldur Æsa áfram. ,,Er það bara ég eða er meira af þessu kroti á veggjunum en var þá?“ Pétur og Joanna stoppa og líta í kringum sig. Á tjöldin og spónaplöturnar sem mynda veggi draugahússins er búið að krota alls kyns tákn með sjálflýsandi málningu. Táknin eru alls konar; sum eru eins og furðulegir kassar, önnur líkar stjörnum. Sum eru stór, önnur lítil.

,,Nei...“ tautar Pétur með sjálfum sér. ,,Ég meina, ég tók alveg eftir þeim í morgun en þau voru ekki svona mörg.“ Hann hallar sér nær.

,,Hvað á þetta eiginlega að vera?“ spyr Æsa. Gríma gengur alveg að einu táknanna og pírir augun.

,,Þetta er að hringja einhverjum bjöllum,“ muldrar hún, ,,en ég er ekki viss...“ Joanna snýst í hringi og virðir merkingarnar fyrir sér. Svo skyndilega hrópar hún upp yfir sig.

Öllum dauðbregður.

,,Hvar er Pavel?!“

Pavel stendur einn inni í stóru herbergi sem unglingadeildin kallar dagsdaglega ,,Chill-svæðið“. Hér fá elstu krakkarnir að hanga í frímínútum á meðan þeir sem eru yngri neyðast til að fara út og berjast við snjó, rok, rigningu og vonandi allavega einu sinni á ári; sól. Pavel getur ekki beðið eftir því að verða unglingur og fá að vera inni í frímínútum. Það hljómar eins og draumur í dós.

Venjulega er Chill-svæðið mjög kósí. Ekki í kvöld. Ljósin í loftinu flökta og það er blóð alls staðar. Fúsball-borð liggur í tætlum á gólfinu, hluti af makindalegum sófa þar sem margur unglingurinn hefur lagt sig er í tætlum og Pavel er nokkuð viss um að í einu horninu er sundurtugginn handleggur.

Honum er samt sama um þetta allt. Eins og í leiðslu gengur hann að því allra mikilvægasta á öllu Chill-svæðinu; stórri borðtölvu. Tölvan er það langvinsælasta hérna, því símar eru bannaðir á Chill-svæðinu eftir að allavega þrír gaurar úr 10. bekk slösuðu sig í fyrra við að reyna að gera þrefaldan háhest. Þeir ætluðu að verða frægir á TikTok. Borðtölvuna má nota eins og maður vill. Það eina sem maður þarf að gera er að skrá sig á plagg sem hangir á veggnum við hliðina á skjánum. Það þarf varla að taka það fram að það er slegist um hver fær að nota tölvuna í hverjum einustu frímínútum. Í fyrra voru unglingarnir farnir að skrá sig svo langt fram í tímann að Unnar skólastjóri þurfti að setja á ,,Bara-skrá-sig-viku-fram-í-tímann-og-bara-í-eitt-skipti“-reglu. Þú getur notað tölvuna í nokkurn veginn hvað sem er; spilað leiki, tékkað á pósti, horft á YouTube – ef þú skráðir þig, átt þú þann tíma, skuldlaust.

Pavel stendur við borðtölvuna og virðir hana fyrir sér. Við hliðina á henni hangir skráningarplaggið. Síðasta skráning var klukkan rúmlega 9 í morgun: MAGNÚS.

Pavel veit ekkert hver þessi Magnús er. Hann tekur hins vegar líka eftir því að búið er að strika yfir nafnið hans Magnúsar og skrifa annað nafn í staðinn. Það er að sjálfsögðu stranlega bannað. Engu að síður hefur það verið gert.

LOVÍSA stendur stórum stöfum.

Pavel virðir nafnið fyrir sér. Lovísa er formaður nemendafélagsins. Sú sem vampíran Padma talaði um. Pavel hallar undir flatt og hlustar. Svo kinkar hann kolli.

,,Ókei,“ segir Pavel lágt. Hann skimar í kringum sig, finnur gamlan skrifstofustól sem oltið hefur um kolli í einu horni herbergisins, rúllar honum að tölvunni, fær sér sæti og teygir sig í áttina að lyklaborðinu.


Læti. Fótatök. Einhverjir eru að koma hlaupandi. Pavel dauðbregður og lítur um öxl.

Hann býst við hinu versta. Uppvakningaflóði eða fleiri vampírum.

Svo sér hann að það er jafnvel enn verra en hann grunaði.

Systir hans er komin. Og hún er brjáluð!

Joanna með Grímu húsvörð í eftirdragi kemur hlaupandi inn á Chill-svæðið. Hún er eldrauð í framan og titrar af reiði. Hún veður að Pavel, grípur fast í annan handlegginn á honum og rífur hann úr stólnum. Stóllinn rúllar undan honum og klessir utan í næsta vegg.

,,Aldrei gera svona lagað aftur!“ hrópar Joanna. ,,Aldrei! Veistu hvað ég var hrædd? Veistu hvað hefði geta gerst?! Þú varst bara allt í einu horfinn! Það eru skrímsli alls staðar!“ Hún hristir hann og þetta er vont og þó Pavel sé með heyrnartólin á höfðinu eru þetta samt læti. Hann slítur sig lausan.

,,Slepptu mér!“ hrópar hann á systur sína. Pavel finnur lítinn kökk byrja að myndast í hálsinum og reynir eins og hann getur að leyfa honum ekki að taka yfir. Pavel veit vel að ef mann langar til að gráta á maður svo sannarlega að gera það, en nákvæmlega núna vill hann bara alls ekki gera það fyrir framan systur sína. Hann er meira reiður en leiður. ,,Ég er ekkert smábarn!“

Joönnu bregður. Hún er ekki vön því að Pavel byrsti sig. Hann er oftast frekar rólegur. Hún býr sig undir það að svara honum fullum hálsi, en stoppar sjálfa sig. Hún virðir bróður sinn fyrir sér og lyftir svo upp báðum höndum.

Þetta er rétt hjá honum.

,,Fyrirgefðu,“ segir hún lágt og tekur eitt skref aftur. ,,Ég ætlaði ekki að meiða þig. Eða bregða þér. Ég er bara svo vön að þurfa að passa þig alltaf. Ég var bara... hrædd.“ Pavel hristir höfuðið.

,,Þú þarft ekki alltaf að passa mig,“ tautar hann sár. Joanna kinkar kolli.

,,Ég veit,“ segir hún lágt. ,,Ég veit. Ég gleymi því bara stundum.“ Hún brosir út í annað og opnar faðminn. ,,Fyrirgefðu. Í alvöru.“ Pavel hleypur ekki í knúsið en kinkar kolli.

,,Allt í lagi,“ segir hann svo.

Joanna lætur hendurnar síga. ,,Allt í lagi,“ er skárra en ekkert.


Hún lítur á borðtölvuna.

,,Hvað varstu að gera?“ Pavel bendir á listann við hliðina á skjánum. Hún gengur að honum og virðir hann fyrir sér.

,,Það má ekki krassa yfir nöfn sem eru búin að panta tíma,“ segir Joanna hneyksluð. ,,Það vita það allir!“ Pavel kinkar kolli.

Á meðan systkinin spjalla stendur Gríma húsvörður álengdar og kíkir reglulega fram á ganginn sem leiðir að Chill-herberginu. Þar eru nokkrar kennslustofur. Hún er nokkuð viss um að hún heyri einhvern umgang inni í einni þeirra. Sérstaklega eftir að krakkarnir byrjuðu að rífast.

Gríma gengur inn ganginn.


,,Hvers vegna varstu að skoða þetta?“ spyr Joanna. ,,Hvaða máli skiptir þetta?“ Pavel lítur á stóru systur sína. Hún brosir til hans og hann tekur ákvörðun.

,,Ekki fríka út,“ segir hann lágt. Joanna verður skrítin á svipinn og brosið hverfur um leið.

,,Ó, nei. Hvað gerðirðu?“ spyr hún.

,,Ekki fríka út,“ endurtekur hann. Joanna dregur djúpt að sér andann og nær að halda pirringnum í skefjum.

,,Ókei...“ svarar hún með semingi. Pavel dregur djúpt að sér andann. Hann veit að hann hefði átt að segja henni frá þessu um leið og hann fór að taka eftir þessu, en honum fannst eitthvað spennandi við að eiga eitthvað fyrir sjálfan sig.

Hann veit samt að nú er tími til kominn til að segja frá.


Ofurhægt lyftir Pavel vísifingri hægri handar, og án þess að líta af Joönnu, bendir upp í loftið fyrir ofan þau; nánar tiltekið í hornið beint fyrir aftan hana.

,,Hvað ertu að gera?“ spyr hún. Pavel svarar engu. Hann bara bendir.

Hún snýr sér við.

Í fyrstu sér Joanna ekkert. Hornið er bara horn. Hún snýr sér aftur að Pavel.

,,Þetta er ekki gott grín, sko.“ Hann bendir.

,,Horfðu,“ segir hann lágt. Hún hristir höfuðið.

,,Ég er að horfa!“ Hann hristir höfuðið.

,,Nei. Horfðu.“ Hún snýr sér aftur að horninu.

Horfir.

Svo horfir hún aðeins lengur.

,,Þetta er ekki fyndið,“ stynur hún. ,,Við höfum ekki tíma til að...“

Og allt í einu sér hún það.

Hræðilegur hrollur liðast niður eftir hnakkanum á henni og í gegnum allan líkamann. Hnén hennar gefa sig næstum og hún þarf að grípa fyrir munninn svo hún byrji ekki að öskra.

Það er andlit í horninu.

Ógeðslegasta andlit sem hún hefur nokkurn tímann séð.

Það felur sig í skuggunum. Það starir.

Og brosir.

23.hluti_bros.png