Skólaslit - 22. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 05:16

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

22.hluti_Varulfur4.png

22. OKTÓBER

Joanna rífur í Pavel og stekkur af stað. Pétur hleypur til vinstri. Æsa til hægri. Þau hverfa öll út í nóttina. Halldór situr enn í strætóskýlinu, nánast búinn að missa meðvitund. Gríma húsvörður stendur stjörf.

Varúlfurinn fnæsir og lítur í kringum sig. Trýnið er löðrandi í blóði.

Hann velur næsta fórnarlamb.

Og hleypur.


Gríma húsvörður veit að hún er dauðans matur um leið og hún sér varúlfinn stökkva af stað. Skrímslið skar í gegnum Arndísi eins og hnífur gegnum smjör. Gríma á ekki séns.

Dýrið hleypur að henni á fjórum fótum, eins og martraðar-lest sem er ómögulegt að stoppa. Hver einasta taug í líkama hennar öskrar á hana að hlaupa, að bjarga sjálfri sér, en Gríma ákveður að hlusta ekki. Skítt með óttann. Skítt með myrkfælnina!

Nú er komið nóg.

,,Ég mun ekki flýja,“ hugsar hún og dregur djúpt að sér andann. ,,Ég mun deyja með reisn!“ Og rétt áður en varúlfurinn tekur undir sig stökk hugsar Gríma húsvörður: ,,Krakkarnir sleppa. Það er þó eitthvað.“

Hún lokar ekki augunum.

Hún er ekki gunga.

Hún er hugrökk!


Gin varúlfsins er um hálfan meter frá Grímu þegar eitthvað skellur á honum á fullri ferð. Blóði og slefi rignir yfir Grímu um leið og dýrið kútveltist á harðri götunni og stoppar loks harkalega á litlum sendiferðabíl.

Gríma trúir ekki eigin augum.

Hún er enn lifandi!

Hvað gerðist?

,,Hlauptu!“ er orgað, rifinni röddu. Gríma lítur í áttina að hljóðinu. Það kemur frá sama stað og varúlfurinn liggur. Og þá sér hún hann: Halldór.

Hann stendur yfir varúlfunum, sem enn liggur í götunni.

Nema þetta er ekki lengur Halldór.

,,Ó, nei...“ hvíslar Gríma.

Bit vampírunnar hefur loksins sigrað. Halldór er orðinn að... Nei, Gríma hristir höfuðið. Hann er ekki orðin vampíra. Andlitið á honum er ekki eins breytt eins og á þeim sem réðust inn í íbúðina hennar fyrr í kvöld. Hún sér að þetta er Halldór. Og hann er ekki að ráðast á hana. Hann er að bjarga henni. Gríma á ekki til orð. Halldór virðist vera kominn með styrk vampíranna og snerpu, án þess þó að missa alveg stjórn á sér og drekka blóð.

Og nógu snöggur var hann fyrir.

Sem skrímslasérfræðingur eru svona 200 spurningar sem hún vill spyrja að. Halldór lítur snögglega á Grímu og í eitt augnablik breytist andlitið á honum. Það verður teygt og skælt. Hún bakkar ósjálfrátt.

,,Hvað er að þér? Hlauptu!“ orgar hann og Gríma lætur ekki segja sér það þrisvar. Hún hleypur af stað.

,,Allir í skólann!“ veinar hún og vonar að krakkarnir heyri í sér.

Þau gera það. Héðan og þaðan sér Gríma óljósar útlínur vina sinna hlaupa í gegnum nóttina. Öll stefna þau að skólanum.

Gríma rekur lestina. Þegar hún er komin efst í brekkuna fyrir framan skólann lítur hún um öxl. Varúlfurinn og fótboltahetjan Halldór eru í slag.

Klær varúlfsins hafa rifið djúpa skurði í aðra kinnina á Halldóri en hann lætur það ekki stoppa sig. Hann stendur móður nokkra metra frá ófétinu, nær áttum, hvæsir, opnar kjaftinn upp á gátt og stekkur svo á varúlfinn. Varúlfurinn er allavega höfðinu hærri en Halldór, þannig að hann lendir með andlitið á bringunni á skrímslinu. Það virðist hins vegar henta mjög vel. Halldór byrjar að bíta og rífa og varúlfurinn orgar af sársauka.

Gríma hefur séð nóg.


Hópurinn hleypur.

Þau stoppa eitt andartak við gríðarstórt gatið á girðingunni sem umkringir leikvöllinn og vita öll hvað það var sem eyðilagði hana. Uppvakningar komu ekki nálægt þessu. Varúlfurinn á þessa eyðileggingu skuldlaust.

,,Arndís...“ byrjar Pétur. ,,Halldór...“ Hann kemst ekki lengra.

Einhvers staðar neðar í brekkunni heyrist ýlfur.

,,Áfram!“ skipar Joanna.

Þau hlaupa inn í anddyri skólans.

Opið gin draugahússins blasir við þeim.

,,Komiði!“ hrópar Joanna og hleypur beina leið inn í draugahúsið. Pétur og Æsa elta. Gríma sömuleiðis.

Pavel er nú aftastur.

Hann stoppar. Bara eitt andartak. Hann stendur við draugahúsið og horfir inn í það.

Svo lítur hann til hliðar. Og hlustar.

,,Ókei,“ segir hann lágt.

Og svo, í stað þess að elta hópinn inn í iður draugahússins, stígur Pavel eitt skref til hliðar, ýtir frá svörtu tjaldinu sem myndar annan vegginn á draugahúsinu og hverfur inn í matsalinn.