Skólaslit - 21. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 07:51

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

21. OKTÓBER

Krakkarnir læðast áfram í áttina að skólanum. Arndís arkar fremst eins og herforingi. Hún var til í að leyfa Joönnu að leiða í smá stund en núna er hún búin að jafna sig eftir vampíruinnrásina. Arndís vill ekki vera leiðinleg, en hún er langklárust af öllum hérna. Auðvitað á hún að leiða. Hinir krakkarnir fylgja.

Um leið og þau stytta sér leið yfir gangbraut rekur Pétur augun í skilti:

,,VARÚÐ – SKÓLABÖRN“ stendur á því.

,,Þú þarft sko ekki að segja mér það,“ tautar hann og hugsar um skóla fullan af uppvakningum. Æsa sér hvað hann er að horfa á og flissar lágt. Hún hallar sér upp að honum.

,,Eigum við að stela því?“ Pétur lítur forviða á hana.

,,Skiltinu?“ spyr hann hissa. Hún kinkar kolli.

,,Ekki núna, auðvitað. Bara þegar þetta er búið.“ Pétur starir á Æsu.

,,Bíddu, bíddu, bíddu. Ertu að segja að við munum hanga saman þegar þetta allt saman er búið?“ spyr hann og grettir sig um leið og setningin hefur fallið. Hún hljómaði svona 100 sinnum aulalegri en hún átti að hljóma. Æsa lemur hann í öxlina.

,,Auðvitað, hvað er að þér?“ Hún brosir. Pétur er nokkuð viss um að enginn í öllum heiminum sé fallegri en Æsa. Hún lemur hann aftur í öxlina. ,,Komdu. Við erum að missa af þeim. Arndís verður brjáluð ef við flýtum okkur ekki.“ Þau hlaupa af stað, hlið við hlið.

Í fjarska ýlfrar hundur.


,,Smá... pása...“ biður Halldór og staulast í áttina að illa förnu strætóskýli. Joanna er satt best að segja ekki viss um hvort skýlið sé svona skemmt því uppvakningar réðust á það, eða hvort það hafi verið svona áður en allt fór í rugl. ,,Ég þarf aðeins... að hvíla mig,“ stynur Halldór. Joanna styður hann síðustu metrana að skýlinu, þar sem hann hlammast á útkrotaðan plastbekk.

,,Hvernig ertu?“ spyr hún áhyggjufull og þarf að hemja sig að leggja höndina ekki aftur á ennið á honum til að finna hitann. Hún þarf þess samt ekki. Þar sem Halldór situr másandi og hallar höfðinu að skýlinu sér Joanna að honum líður mun verr. Dökkrauð slikja er byrjuð að sjást í gegum sárabindin á hálsinum.

,,Ég er allur asnalegur eitthvað,“ tautar Halldór með lokuð augun. ,,Það er...“ og hann smjattar út í loftið, ,,það er eitthvað svo mikið af öllu. Fattarðu hvað ég meina?“ Joanna starir á hann.

,,Nei...“ segir hún lágt.

,,Svo mikið af lyktum. Alls staðar. Af umhverfinu.“ Hann smjattar aftur. ,,Af ykkur...“ Joanna bakkar út úr strætóskýlinu og hleypur til hinna. Hún fer beint til Grímu.

,,Þú ert skrímslasérfræðingur, ekki satt?“ spyr hún. Gríma kinkar kolli.

,,Allavega þangað til annað kemur í ljós.“ Joanna lækkar róminn.

,,Hvernig virkar þetta eiginlega með vampírur? Halldór var ekki tæmdur, þannig að hann dó ekki. En hvað með að vera svona...“ hún leitar að rétta orðinu, ,,... hálfdrukkinn?“ segir hún svo. Gríma hugsar málið.

,,Til að hann yrði að vampíru eins og þeim sem við slógumst við í íbúðinni minni þyrfti hann að vera bitinn og svo þyrfti hann að drekka blóð úr þeirri sömu vampíru.“ Joanna grettir sig. ,,Þetta virkar ekki eins og með uppvakningana. Það er ekki nóg að vera bara bitinn.“

,,Oj!“ hvíslar Joanna. Svo stækka augun í henni um helming. ,,En það var blóð út um allt þegar þær sprungu! Þau fór yfir okkur öll! Örugglega upp í einhvern! Munum við þá breytast í vampírur?!“ Gríma hristir höfuðið.

,,Nei,“ svarar hún. ,,Þetta þarf allt að spila saman. Við vorum ekki bitin. Við ættum að sleppa.“ Joanna lítur aftur í áttina að strætóskýlinu.

,,En hann?“ Gríma hugsar málið.

,,Ég er ekki viss,“ svarar hún. ,,Ég er hreinlega ekki viss. Hann er enn mennskur. Allavega í bili.“

,,Hey!“ er skyndilega hrópað, alltof hátt. Krakkarnir snúa sér í áttina að hljóðinu og sjá Arndísi koma arkandi til þeirra.

,,Jæja!“ segir hún ákveðin. ,,Höldum áfram.“ Joanna nikkar í áttina að Halldóri.

,,Halldór þarf að hvíla sig.“ Arndís hnussar.

,,Þetta er ástæðan fyrir því að ég hata hópaverkefni,“ segir hún og horfir pirruð á Joönnu. ,,Ég er miklu sneggri en allir og enda alltaf á því að þurfa að gera allt sjálf.“ Svo veður hún aftur af stað, ein síns liðs. Joanna horfir á eftir henni og hristir höfuðið.

Í fjarska ýlfrar hundur. Pavel lítur í kringum sig. Svo tekur hann í aðra höndina á Joönnu.

,,Allt í góðu?“ spyr hún.

,,Nei...“ hvíslar Pavel.


Arndís gefur í. Hún sér í skólann.

,,Skil ekki hvers vegna þetta þarf að taka svona langan tíma,“ tautar hún. ,,Endalaust að stoppa og kjafta. Gerum þetta bara, klárum þetta!“

Tunglið er fullt.

Í fjarska ýlfrar hundur.

Ýlfrið er djúpt og langt og draugalegt svona í myrkrinu. Það truflar samt ekki Arndísi. Þau eru alveg að vera komin. Hún er núna neðst í brekku og veit að þegar hún hefur náð upp á topp er skólinn bara rétt hjá.


Arndís stoppar.

Hún sér eitthvað.

Efst í brekkunni sér hún glitta í skugga af einhverju. Fullt tunglið lýsir upp útlínurnar af verunni, sem virðist vera á fjórum fótum. Í eitt andartak heldur Arndís að þetta sé uppvakningur að éta eitthvað eða einhvern á jörðinni og býr sig undir að vara hópinn við, en svo sér hún að þetta er dýr.

Hún brosir.

Þetta er hundur.

Hann ýlfrar.

Arndísi verður hugsað til baka. Af og til hefur hún heyrt gól í hundi síðan þau yfirgáfu skólann fyrr í kvöld. Þetta hlýtur að vera hann.

Ýlfrið er hátt og snjallt.

Svo stendur hundurinn upp.

Og Arndís sér að þetta er enginn hundur.

,,Nei...“ hvíslar hún og snýr sér við eins hratt og hún getur. Hún baðar út öllum öngum og hleypur af stað. ,,Snúið við!“ veinar hún til vina sinna til að vara þau við. ,,Snúið við! Snúið við!“

Arndís kemst ekki lengra.

Dýrið hleypur niður brekkuna á fjórum fótum á fullri ferð og er svo snöggt að það mætti halda að einhver væri að spóla því áfram. Með galopið ginið setur það stefnuna beint á Arndísi og ýlfrar svo hátt að rúður titra í nærliggjandi húsum.

Dýrið er komið að Arndísi áður en hún veit af. Um leið og það hleypur fram hjá henni lyftir það flugbeittri krumlu og sveiflar henni, líkt og sveðju.

Svo kippir dýrið loðnum handleggnum að sér.

Gleraugun hennar Arndísar fjúka eitthvert út í nóttina.

Í eitt andartak stendur hún orðlaus á miðri götunni.

Hún starir í áttina að vinum sínum sem standa frosin skammt frá.

Hún teygir sig í áttina að þeim.

Svo dettur efri helmingurinn af líkama hennar fram fyrir sig, á meðan sá neðri dettur aftur fyrir sig.

Dýrið stendur másandi við það sem eftir er af Arndísi og sleikir blóðugar klærnar. Svo reisir það sig aftur upp á tvo fætur og dregur djúpt að sér andann.

Þetta er varúlfur.

Og hann ýlfrar.

21.hluti_Arndís-hissa.png