Skólaslit - 20. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 05:57

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

20. OKTÓBER

Allir eru með stjaka.

Allir eru með vasaljós.

,,Allir til?“ spyr Joanna og lítur yfir hópinn. Þau kinka öll kolli. Halldór kveinkar sér lágt. Það síðasta sem þau gerðu var að skipta um umbúðirnar á bitinu. Joanna, sem verðandi læknir, tók það auðvitað að sér. Hún var ekki viss en henni fannst blóðið sem vall úr sárinu grunsamlega dökkt. Kannski er það samt bara lýsingin hérna inni.

,,Ókei,“ segir Joanna og tekur í hurðarhúninn. ,,Komum.“

Þau læðast niður stigaganginn. Joanna er fremst. Svo Æsa. Pétur. Arndís. Halldór. Pavel og Gríma húsvörður. Pavel stoppar eitt andartak á stigaganginum á 2. hæð. Fyrir framan íbúðina þeirra.

,,Komdu, kall,“ segir Gríma blíðlega um leið og hún gengur fram hjá honum. ,,Við skulum drífa okkur.“ Pavel lítur á hana, alvarlegur á svip.

,,Má ég spyrja að svolitlu?“ spyr hann. Gríma nemur staðar. Svo fer hún niður á hnén.

,,Auðvitað,“ svarar hún. ,,Hvað ertu að spá?“ Pavel lítur á lokaðar dyrnar. Nöfnin þeirra systkina og foreldra þeirra eru á hurðinni á litlu skilti sem límt hefur verið rétt fyrir ofan gægjugatið.

,,Þú komst hingað niður. Sagðir að það væri ekki öruggt hér. Þess vegna fórum við upp til þín.“ Gríma kinkar varlega kolli og veit um leið hvert þetta er að fara. ,,Þýðir það að mamma og pabbi voru búin að hleypa vampírum inn? Var það þess vegna ekki öruggt?“ Gríma veltir því fyrir sér andartak að ljúga að Pavel, en hættir svo við það. Hver væri tilgangurinn með því?

,,Já,“ segir hún lágt. ,,Ég heyrði þær berja að dyrum hjá þeim. Foreldrar þínir voru yndælisfólk. Þau hleyptu þeim inn.“ Hún tekur um aðra öxlina á Pavel og kreistir. ,,Ég samhryggist, elsku vinur.“ Pavel segir ekkert. Hann er að hugsa málið.

,,Ég er ekkert vitlaus, sko,“ segir hann svo. ,,Þó ég segi ekki margt, þá sé ég alls konar sem aðrir taka ekki eftir.“ Hann lagar heyrnartólin á höfðinu. Gríma brosir út í annað.

,,Ég veit, vinur,“ segir hún. ,,Ég veit.“ Svo stendur hún á fætur. ,,Komdu, við skulum ekki láta þau stinga okkur af.“ Gríma leggur aftur af stað og í eitt andartak stendur Pavel einn á stigaganginum. Hann hallar undir flatt og veltir því fyrir sér hvort hann ætti að segja Grímu frá því hvað hann sá í skólanum fyrr í kvöld en hættir við.

Hún myndi ekki trúa honum.


Hópurinn læðist út úr blokkinni.

Stefnan er sett á grunnskólann.

Alls staðar eru hús í ljósum logum, bílar á hvolfi, fjarlæg öskur. Í fjarska heyrist hundur ýlfra. Reglulega stoppa krakkarnir og hlusta. Læðast. Gægjast fyrir horn. Það síðasta sem þau vilja gera er að vaða beint í flasið á uppvakningahóp. Eða rekast á fleiri vampírur.

,,Hvernig ertu?“ spyr Arndís Halldór sem haltrar við hliðina á henni. Hann opnar munninn til að svara, setur upp skrítinn svip, ræskir sig og hrækir. Rautt slím klessist á gangstéttina fyrir framan hann.

,,Verið betri,“ svarar hann rámum rómi og hóstar. Joanna trítlar upp að þeim og leggur höndina á ennið á Halldóri.

,,Þú ert heitur.“ Hann ýtir henni í burtu.

,,Ég er fínn,“ segir hann. ,,Slappiði af. Ég er ekkert að fara að púlla Unnar skólastjóra á þetta. Ég læt mig hverfa áður en ég breytist.“ Hann lítur á stelpurnar. ,,Ég lofa.“


Æsa labbar við hlið Péturs. Hún sér að hann er að líta í kringum sig, nánast eins og hann sé að leita að einhverju.

,,Hvað?“ spyr hún.

,,Ég á heima hérna rétt hjá,“ segir hann og bendir. ,,Mamma leggur venjulega hérna einhvers staðar. Ég sé samt bílinn hvergi.“ Æsa reynir að gera lítið úr þessu.

,,Kannski er hún ennþá í vinnunni?“ spyr hún vongóð.

,,Já, kannski...“ tautar Pétur. Æsa brosir.

,,Við förum upp í skóla, sjáum hvað er málið og svo tékkum við á mömmu þinni, ókei?“ Pétur kinkar kolli.

,,Ókei,“ svarar hann.


Gríma og Pavel arka öftust. Myrkfælni húsvarðarins er mætt aftur á svæðið og henni finnst hrikalega óþægilegt að vera hérna. Hún sér óvætti í hverjum skugga og er oftar en einu sinni næstum því búin að stökkva af stað og ráðast á eitthvað með stjakanum sínum.

,,Er allt í lagi?“ spyr Pavel. Grímu bregður smá, en nær að fela það. Hún kinkar kolli.

,,Já,“ svarar hún. ,,Mér finnst myrkur óþægilegt. Þannig að þessi kvöldganga er ekki beint málið.“ Hún dregur djúpt að sér andann. ,,Ég get ekki alveg útskýrt það. Í myrkri finnst mér bara alltaf eins og....“ Hún stoppar og finnur ekki réttu orðin.

,,Eins og einhver sé að fylgjast með þér?“ spyr Pavel. Hann segir það svo blátt áfram að Gríma skellir næstum upp úr.

,,Já,“ svarar hún. ,,Eins og einhver sé að fylgjast með þér.“

Þau líta bæði í kringum sig en sjá ekkert.

,,Komið!“ hvíslar Joanna. ,,Höldum hópinn!“

Þau halda ferðinni áfram.

Skólinn nálgast með hverju skrefinu.

Tunglið dansar í skýjunum.

Skammt frá þeim, í skjóli við stóran ruslagám, stendur eitthvað og starir.

Ekkert þeirra sér hann.

Þetta er ekki uppvakningur.

Þetta er ekki vampíra.

Þetta er eitthvað enn verra.

20.Stjaki.png