Skólaslit - 2. októberÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 08:25

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

2.hluti_Line-up.png

2. OKTÓBER

Höfuðin þrjú sem gægðust fram á gang tilheyrðu þremur krökkum í unglingadeildinni; Halldóri, Arndísi og Meistaranum. Halldór og Arndís voru í 10. bekk. Meistarinn í níunda.


Halldór var góður í fótbolta. Nei, ekki góður. Frábær. Bestur. Hann vissi það, allir í bekknum hans vissu það, skólinn eins og hann lagði sig vissi það, meira að segja foreldrar vina hans vissu það. Hann stefndi á atvinnumennsku þegar hann yrði eldri, hann var löngu búinn að ákveða það. Allar afmælistertur síðan hann var fjögurra ára voru annað hvort fótbolti, fótboltavöllur, leikmaður úr Ensku eða útprentuð marsípan-ljósmynd af Halldóri að skora mark. Nema þegar hann var sex ára og fékk æði fyrir Hvolpasveitinni, þá var kakan mynd af Ævintýraflóa en það er stranglega bannað að tala um það.

Halldór var góður í fótbolta sem þýddi að hann var snöggur að hugsa, sterkur liðsmaður og það sem mikilvægast var, fljótur að hlaupa. Fyrr í dag, á meðan bekkjarsystkini hans voru annað hvort að éta hvort annað eða breytast í uppvakninga, hafði hann stokkið milli borða, kastað stólum í allar áttir og loks komist fram á gang áður en hann greip um hurðarhúninn á skólastofunni sem hann hafði verið inn í og skellti í lás.

Það höfðu einhverjir enn verið lifandi þar inni. Halldór hafði heyrt í þeim þegar þeir reyndu að komast fram á gang. Þegar þeir rifu í hurðarhúninn og reyndu að opna. Halldór hafði haldið hurðinni. Hann vissi að ef hann hleypti krökkunum fram á gang myndu skrímslin fylgja með. Hann þorði ekki að taka sénsinn á því. Góður liðsmaður veit að liðsheildin er það mikilvægasta af öllu mikilvægu en stundum er nauðsynlegt að einspila. Halldór reddaði sér sjálfur út, hin bekkjarsystkini hans hefðu bara þurft að vera jafn sniðug, jafn klár, jafn snögg og hann. Þau voru það greinilega ekki. Það var ekki honum að kenna.

Þegar síðustu öskrin höfðu breyst í ómennsk vein hafði Halldór sleppt takinu á hurðarhúninum og hlaupið í öruggt skjól. Það tók hann ekki langan tíma að ramba á efnafræðistofuna. Hún hafði verið tóm, fyrir utan tvær manneskjur; Arndísi og Meistarann.

Arndís hafði verið nörd frá því hún mundi eftir sér. Stærðfræði, vísindi, tungumál; ekkert virtist flókið í hennar huga og satt best að segja skildi hún ekki hvers vegna allir ættu ekki jafn auðvelt með að læra þessa hluti og hún sjálf. Arndís stefndi á framhaldsnám erlendis eftir 10. bekk og sá fyrir sér að vinna fyrir NASA eða jafnvel sem rannsóknarlögreglukona hjá alríkislögreglu Bandaríkjanna þegar hún yrði eldri. Arndís átti ekkert svakalega margar vinkonur, enda hafði hún lítinn tíma fyrir svoleiðis, en hún vissi líka að ef hún ætlaði að taka grunnskólann á átta árum í staðinn fyrir tíu yrði hún að einbeita sér að því sem skipti máli; náminu. Fyrst þegar hún hafði stungið upp á því að fá að stytta námið sitt hafði Unnar skólastjóri hlegið að henni.

Arndísi fannst það hins vegar ekkert fyndið.

Í stað þess að gefast upp tók Arndís sig til og skrifaði bréf til menntamálaráðherra. Þegar hún svaraði ekki sendi Arndís annað bréf. Svo það þriðja. Svo eitt til viðbótar. Að lokum endaði Arndís á því að senda tvö bréf í hverri einustu viku til menntamálaráðherra í meira en hálft ár. Að lokum fékk hún svar; Arndís fengi að klára skólann fyrr. Þess vegna var hún að fara að útskrifast næsta vor í stað þess að vera í 8. bekk eins og jafnaldrar hennar.

Arndís vann.

Alltaf.

Arndís var með sína eigin stundaskrá og var þess vegna ekki með bekknum sínum og Halldóri inni í stofunni þeirra þegar uppvakningurinn braust inn og réðst á Sigrúnu stærðfræðikennara. Sem var kannski bara eins gott. Hún hafði verið á leiðinni inn í efnafræðistofuna til að lesa sér til um efnasambönd og annað þeim tengdum þegar hún gekk inn á Meistarann að reyna að stela tilraunaglösum.


Meistarinn var töff. Hann fór ekki eftir neinum reglum. Það var eina reglan hans og hann fór ekki einu sinni alltaf eftir henni. Hann klæddi sig oft í boli þar sem eitthvað dónalegt stóð á, hann gekk aldrei frá eftir sig í hádegishléinu og ef hann nennti að mæta í tíma fylgdist hann aldrei með.

Enginn vissi fyrir víst hvað Meistarinn hét í raun og veru (einhverjir héldu að nafnið hans væri hugsanlega Sigurður) en eftir að hann hafði múnað rútu fulla af krökkum úr öðrum skóla hafði enginn efast um að Meistarinn væri Meistarinn. Það var enginn meira töff en hann. Meistarinn var ekkert búinn að spá í það hvað hann ætlaði að gera við tilraunaglösin sem hann var að stela, hann vissi bara að það var töff að stela þeim og að það yrði mega vesen fyrir skólann ef eitthvað verðmætt hyrfi. Hann var nánast búinn að fylla skólatöskuna sína af alls kyns vísindadrasli þegar Arndís hafði labbað inn á hann. Þau höfðu rifist í um það bil hálfa mínútu um hvort hann ætti að skila dótinu eða ekki þegar Halldór hafði komið hlaupandi inn í stofuna.

Í fyrstu trúðu þau honum ekki þegar hann sagði þeim að bekkurinn hans væri orðinn að uppvakningum. Það breyttist hratt þegar þau heyrðu óp að utan. 10. bekkur hafði greinilega sloppið út og fyllti núna leikvöllinn. Krakkar á öllum aldri flúðu í allar áttir.

Sumir sluppu. Aðrir ekki.

 

Síðan þá eru liðnir nokkrir klukkutímar. Halldór, Arndís og Meistarinn drógu fyrir gluggana á efnafræðistofunni og höfðu lágt um sig. En nú er komið kvöld og þau öll orðin svöng. Þau vilja komast út úr skólanum. Strax.

Ofurvarlega taka þau dyrnar úr lás og gægjast fram á gang.

,,Hvað er eiginlega í gangi hérna?“ hvíslar Meistarinn titrandi röddu. Ómennskt öskur svarar þeim og þau loka hurðinni aftur. Þau líta hvort á annað. ,,Við getum ekki verið hérna endalaust,“ bætir Meistarinn við.

,,Þetta er ekkert mál,“ segir Halldór og pírir augun, einbeittur á svip. Þetta er nákvæmlega sami svipur og hann skartar þegar hann sér fyrir sér hvernig hann ætli að skora mark. ,,Við þurfum að komast út. Þetta ætti ekki að vera flókið.“ Hann hugsar málið. ,,Skrímslin virðast laðast að hávaða.“ Hann veit það vegna þess að krakkarnir sem öskruðu mest í stofunni hans voru þeir sem Sigrún stærðfræðikennari hafði fyrst ráðist á eftir að hún breyttist. Hann lítur í kringum sig. ,,Er ekki eitthvað hérna sem við getum notað til að vera með læti? Þá getum við flúið á meðan?“ Arndís ýtir þykkum gleraugunum ofar á nefið og hugsar málið.

,,Vísindin á auðvitað bara að nota í góðum tilgangi; til að bæta heiminn,“ segir hún hægt eins og hún sé að velta hverju einasta orði fyrir sér ,,en nauðsyn brýtur lög.“ Meistarinn kinkar kolli.

,,Við erum í efnafræðistofu. Hún er full af alls kyns drasli. Ég veit ekki hvar góða stöffið er falið hérna en ég kann alls kyns uppskriftir sem orskaka læti ef þú hjálpar mér að leita.“ Arndís lítur á hann og hnussar. Meistarinn yppir öxlum og glottir. Halldór lítur á milli þeirra eins og hann sé að horfa á tennisleik. Að lokum andvarpar Arndís.

,,Gott og vel,“ segir hún svo. ,,Ég skil hvert þú ert að fara.“ Meistarinn klappar höndunum saman, sáttur. Halldór er eitt spurningamerki í framan.

,,Þannig að,“ spyr hann, ,,við ætlum að gera hvað?“

,,Sprengja skólann,“ segja Arndís og Meistarinn í kór.