Skólaslit - 19. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 13:41

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

19.hluti_vampirur.png

19. OKTÓBER

Dyrnar opnast.

Vampírurnar standa við þröskuldinn.

Þær hreyfa sig ekki.

Krakkarnir standa grafkyrr nokkrum metrum innar í íbúðinni í einfaldri röð. Halldór bakkar hratt til þeirra um leið og hann opnar. Gríma stendur fyrir aftan þau.

,,Kvöldið,“ segir hún lágri röddu. Vampírurnar stara. Svo opnar ein þeirra, þessi sem Halldór er nokkuð viss um að heiti Padma, munninn.

,,Hleypið okkur...“ Hún fær ekki að klára setninguna.

,,Gangið í bæinn,“ segir Gríma.

Hún þarf ekki að segja það tvisvar.


Vampírurnar ryðjast inn.

Í gegnum gægjugatið höfðu þær litið út eins og venjulegir krakkar. Nú hafa andlitin þeirra breyst. Þau teygjast og tosast til og minna helst á hungruð villidýr – sem þau auðvitað eru.

,,Munið liðin!“ argar Arndís, rétt áður en strákurinn sem annað hvort heitir Gunnar eða Guðmundur tekur undir sig stökk og ræðst á hana. Arndís skellur harkalega í gólfið og gleraugun hennar fjúka eitthvert út í buskann. Vampíran heldur henni niðri og opnar ginið upp á gátt.

Tennurnar eru eins og litlir hnífar.

,,Halldór!“ veinar Arndís og reynir að ýta vampírunni í burtu, en getur það ekki. Stjakinn hennar er enn í annarri hendinni en hún nær ekki að lyfta henni almennilega. Vampíran hallar sér yfir hana. ,,Hallldór!“ argar Arndís eins hátt og hún getur og skyndilega er allt út í blóði.

Það er alls staðar.

Á peysunni hennar, hálsinum, andlitinu, alls staðar.

Í eitt andartak heldur Arndís að hún hafi verið bitin. Svo þurrkar hún sér um augun. Halldór stendur yfir henni, sigri hrósandi. Hann heldur á stjakanum sínum, sem líka er alblóðugur. Bolurinn hans og buxurnar eru sömuleiðis eldrauð.

,,Þú getur líka stungið þær í gegnum bakið til að komast að hjartanu, sko,“ segir hann sigri hrósandi. ,,Og já, þær springa.“ Arndís liggur enn í gólfinu og starir á hann. Hún getur ekki annað en brosað.

,,Takk,“ segir hún. Halldór glottir og réttir henni aðra höndina til að hjálpa henni á fætur. ,,Komdu,“ segir hann. ,,Þetta er í raun ekki það mikið mál. Hjálpum hinum að...“

Hann kemst ekki lengra.

Halldór hverfur.

Eina stundina stendur hann yfir Arndísi, þá næstu er hann kominn hinum megin í stofuna. Arndís liggur enn á gólfinu útötuð í blóði með útrétta hendi og skilur ekki hvað í ósköpunum gerðist.

Svarið er einfalt.

Stelpan sem Halldór var nokkuð viss um að heiti Fanney hefur stokkið á hann. Pétur og Æsa, sem áttu að sjá um hana, höfðu náð að halda henni en þegar kom að því að stinga stjakanum á bólakaf höfðu þau ekki ýtt nógu fast. Fanney hafði hent þeim af sér og stokkið á næsta fórnarlamb; Halldór.

,,Farðu af mér!“ öskrar Halldór þar sem hann liggur í stofugólfinu. Fanney hlýðir ekki. Hún situr á maganum á honum, hallar sér aftur og opnar faðminn eins og hún hafi verið að skora sigurmark í fótbolta. Svo tekur hún snöggan kipp, opnar munninn upp á gátt, orgar af ánægju og kastar sér svo fram.

,,Nei, bíddu!“ öskrar Halldór en það skiptir engu.

Beittar tennur vampírunnar tætast inn í hálsinn á Halldóri.

Hann trúir ekki því sem er að gerast.

Blóðið flæðir.

Vampíran drekkur.


Það er eins og það hægist á öllu.

Pétur, Æsa og Arndís koma hlaupandi, öskrandi með stjaka á lofti.

Pétur stekkur á vampíruna og ýtir henni af Halldóri. Skrímslið kastast harkalega í gólfið og orgar af hungri, brjálað yfir því að vera truflað í miðjum matmálstímanum. Vampíran fær samt ekki langan tíma til að pirra sig á þessu; Arndís og Æsa mæta með stjakana sína, tilbúnar að láta til sín taka. Og í þetta skiptið verður ýtt á bólakaf.

Það er Æsa sem hittir á hárréttan stað.

Fanney springur og blóði rignir yfir stofuna.

Krakkarnir stökkva umsvifalaust til Halldórs, sem liggur skjálfandi á gólfinu.

,,Hún beit mig!“ hvíslar hann og heldur um hálsinn. Blóð lekur milli fingranna. ,,Húnbeitmig, húnbeitmig, húnbeitmig...“ Halldór, sem alltaf er ekkert nema sjálfsöryggið uppmálað, er eins og önnur manneskja. Hann er logandi hræddur. Arndís grípur púða sem hafði verið í sófanum, rífur koddaverið utan af honum og tekur varlega í höndina á Halldóri sem heldur um sárið. Blóðflæðið er óþægilega mikið þegar höndin er ekki fyrir því. Arndís kemur koddaverinu fyrir við sárið.

,,Notaðu þetta,“ segir hún. ,,Þrýstu því þétt að.“ Hún hugsar málið. ,,Þetta verður allt í lagi,“ bætir hún við. Halldór kinkar kolli, kyngir og horfir í augun á henni. Þau vita bæði að Arndís er að ljúga.

,,Hey! Smá hjálp hérna!“ heyrist allt í einu öskrað innan úr eldhúsi. Æsa og Pétur líta forviða hvort á annað.

,,Djók!“ veinar Pétur. Þau hlaupa af stað.

,,Vert þú hjá honum!“ kallar Æsa til Arndísar og hverfur inn í eldhúsið. Pétur er rétt á eftir henni.


Eldhúsið hennar Grímu er ekki stórt.

Hér hefur greinilega mikið gengið á. Pottar og pönnur eru út um allt gólf og alls kyns olíur, krydd og morgunkorn sem Gríma hafði sjálfsagt raðað samviskusamlega upp á vísum stað er út um allt.

Vampíran Padma liggur á gólfinu. Joanna heldur höndunum. Gríma fótunum. Skrímslið iðar og reynir að losa sig. Það fyrsta sem Æsa hugsar þegar hún veður inn í eldhúsið er hvernig í ósköpunum þær fara að því að halda henni. Og þá sér hún Pavel. Hann stendur rétt við höfuð vampírunnar og gnæfir yfir henni með eitthvað sem lítur grunsamlega mikið út eins og...

,,Brauðstangir?“ spyr Pétur forviða og snarstoppar. Pavel lítur örstutt af Pödmu og á Pétur. Hann kinkar brosandi kolli.

,,Hvítlaukur,“ segir hann kátur. ,,Vampírur hata hvítlauk. Það vita það allir. Gríma átti ekki hreinan hvítlauk til. Bara hvítlaukskryddaðar brauðstangir frá því í fyrradag.“ Pavel hristir brauðstöngina og nokkrum hvítlauksolíudropum rignir yfir vampíruna.

Hún veinar og iðar til og frá.

,,Þær duga,“ segir Pavel hæstánægður.

,,Ekki meiri olíu!“ skipar Joanna. ,,Það er nógu erfitt að halda henni fyrir.“ Hún lítur á Æsu og Pétur. ,,Nenniði?“ spyr hún. Æsa stekkur til og grípur um aðra höndina. Joanna kinkar sátt kolli til hennar og dæsir, fegin að þurfa bara að sjá um eina hendi. Pétur tekur annan fótinn.

,,Eru hinar tvær dauðar?“ spyr Gríma móð og þurrkar sér snögglega um ennið.

,,Já,“ svarar Æsa. ,,Stofan þín er ógeðsleg. Þær springa.“ Gríma grettir sig en er samt sátt.

,,Gott,“ segir hún. ,,Þið stóðuð ykkur vel.“

,,Ein þeirra náði að bíta Halldór,“ bætir Pétur lágt við. Pavel missir næstum brauðstangirnar við þessar fréttir, en nær að grípa þær. Gríma og Joanna líta hvor á aðra, grafalvarlegar á svip.

,,Við höfum áhyggjur af því á eftir,“ segir Gríma ákveðin. Joanna kinkar kolli.

,,Sammála,“ svarar hún. ,,Arndís!“ kallar hún svo. ,,Komdu, yfirheyrðu hana!“


Arndís stendur yfir Pödmu, með stjakann á lofti.

,,Talaðu,“ skipar hún ískaldri röddu. Vampíran svarar engu, en glottir þess í stað. Arndísi er ekki skemmt. ,,Talaðu,“ endurtekur hún. ,,Núna.“

Padma glefsar út í loftið og Arndís veinar örlítið. Vampíran hlær.

,,Þið vitið ekkert...“ segir hún svo. Röddin er djúp og hættuleg, fullt af heift. ,,Þið getið ekkert...“ Hún opnar munninn til að segja eitthvað eitt í viðbót sem þau geta örugglega ekki þegar Pavel krýpur skyndilega og leggur eina brauðstöngina, enn löðrandi í hvítlauksolíu, á ennið á henni.

,,Svona,“ segir hann sáttur.

Vampíran tryllist.

,,Haldið henni!“ veinar Gríma og þarf að berjast við að missa ekki takið á fætinum sem hún heldur um.

,,Hún er svo sterk!“ gargar Pétur.

,,Ég er alveg að missa takið!“ æpir Æsa. Pavel heldur brauðstönginni þétt við ennið, starir á skrímslið og svo – eins og ekkert væri sjálfsagðara – fjarlægir hann brauðstöngina.

,,Talaðu,“ segir hann lágt.

Og þá sjá þau það.

Andlitið á vampírunni breytist. Það er ekki lengur eins og á dýri. Það er eins og á manneskju. Það er nánast eins og Padma – það er að segja Padma áður en hún breyttist – sé að reyna að brjótast í gegn. Skælt andlitið verður aftur mennskt og í andartak verður hún aftur hún sjálf. Hún opnar munninn upp á gátt og veinar.

,,Þetta er ekki okkur að kenna, við vildum þetta aldrei...“ Arndís hallar sér nær, enn með stjakann tilbúinn.

,,Hvað gerðist? Hvernig byrjaði þetta allt saman?“ Padma grettir sig, þetta er erfitt.

,,Ég... Þetta átti aldrei að... Ég...“

,,Hvernig byrjaði þetta?!“ hrópar Arndís og loksins gefur Padma sig.

,,Lovísa!“ gargar hún. ,,Þetta var allt saman Lovísu að kenna!“

Krakkarnir stara gáttaðir á Pödmu.

,,Formaður nemendafélagsins?“ spyr Joanna hlessa. Sviti rennur niður andlit Pödmu. Eitthvað undir húðinni í andlitinu hennar iðar, eins og það vilji brjótast út. Hún reynir að hafa hemil á því.

,,Lovísa... vildi gera almennilegt... draugahús...“ muldrar hún. ,,Hún gerði eitthvað... hræðilegt...“ Padma grettir sig. ,,Þetta er... ekki ég... Fyrirgefiði... Ég ræð ekki... við mig...“

Hún veinar og krakkarnir sjá á andlitinu að hún er aftur að breytast.

,,Nei!“ gargar Padma um leið og hún skyndilega tekur kipp. Höndin sem Æsa heldur rennur úr greipum hennar.

,,Passið ykkur!“ hrópar Arndís. Lausa höndin á Pödmu kraflar út í loftið, grípur um beittan stjaka Arndísar og rífur hann af henni.

Arndís frýs. Hún veit hvað mun gerast. Vampíran mun stökkva á hana og stúta henni með stjakanum. En hún hefur rangt fyrir sér.

Með veini sveiflar Padma stjakanum og rekur hann á bólakaf í hjartað á sjálfri sér.

,,Nei, bíddu!“ hrópar Arndís og teygir sig í áttina að vampírunni.

Padma springur.

Á minna en sekúndu er allt eldhúsið þakið blóði.

Krakkarnir sömuleiðis.

Þau stara hvert á annað; augun eins og litlir hvítir deplar í eldrauðum andlitum.

 

Þau eru inni í stofu.

Halldóri hefur verið komið fyrir í sófanum, þar sem hann liggur nú undir teppi. Gríma átti til sárabindi í gömlum sjúkrakassa og þau gerðu sitt besta til að gera að sárinu.

Enginn veit hvað þetta bit mun gera honum. Þegar kom að uppvakningunum voru bit og klór bráðsmitandi, en ekkert þeirra er viss með vampírur.

Allir eru í sjokki. Enginn segir neitt. Joanna þurrkar sér í framan með blautri erminni og lítur á vini sína.

,,Við vitum hvað við þurfum að gera,“ segir hún loks ákveðin. Arndís, sem fann loksins gleraugun sín á gólfinu hjá sjónvarpinu, lagar þau á nefinu og lítur forviða á hana.

,,Hvað ertu að tala um?“ Joanna bendir í áttina að eldhúsinu.

,,Varstu ekki að hlusta? Þú vildi komast að því hvernig þetta byrjaði. Hún sagði það: Lovísa. Draugahúsið.“ Joanna gengur í áttina að stórum stofuglugganum. Í fjarska ýlfrar hundur. Tunglið veður í skýjunum. Hún bendir. Krakkarnir vita nákvæmlega hvert.

,,Nei...“ hvíslar Pétur.

,,Við vitum ekki hvar Lovísa er,“ heldur Joanna áfram. ,,En við vitum hvar draugahúsið er.“ Halldór dæsir og reynir að setjast upp. Svo blótar hann. Svo leggst hann.

,,Ætlum við aftur í skólann?“ spyr Pavel, sem nú er kominn við hliðina á systur sinni. Hún kinkar kolli.

,,Já. Og þegar við erum komin þangað ætlum við inn í draugahúsið og við ætlum að komast að því hvað í ósköpunum er í gangi hérna!“