Skólaslit - 18. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 09:59

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

18. OKTÓBER

Pétur getur ekki setið kyrr. Hann gengur fram og til baka um stofuna og rekst reglulega utan í eitthvað.

,,Hvers vegna koma þær ekki hingað inn?“ spyr hann pirraður og bendir á hurðina. Vampírurnar eru enn fyrir utan. Hvísið heyrist reglulega.

,,Því ég bauð þeim ekki inn,“ svarar Gríma húsvörður. ,,Þegar ég var á ykkar aldri vissi ég allt um skrímsli. Vampírur, varúlfa, nornir, uppvakninga, nefndu það. Ég veit hverjar reglurnar eru. Ég man þær enn. Ég er enginn kjáni.“ Pétur grettir sig.

,,En hvernig vissirðu að þetta voru ekki bara fölir unglingar sem vildu banka upp á? Hvernig vissirðu að þetta væru vampírur?“ spyr hann. Krakkarnir sperra eyrun. Þetta er góð spurning.

,,Uppvakningarnir voru ekki ímyndun,“ segir Gríma húsvörður grafalvarleg á svip. ,, Og ef þeir voru raunverulegir gætu öll hin skrímslin sem ég las um þegar ég var lítil verið það líka. Ég tók enga sénsa.“ Hún dæsir. ,,Ég heyrði læti á stigaganginum áður en þær komust alla leið hingað upp og þegar vampírurnar bönkuðu gægðist ég og beið. Tvær voru við mínar dyr. Ein fór til mannsins á móti.“

,,Kalla?“ spyr Pavel hissa. Kalli er eldri maður sem hefur ekkert með það að gera að búa alla leið uppi á þriðju hæð. Hann á erfitt með gang og er örugglega meira en korter að koma sér alla leið niður á jarðhæðina. Gríma kinkar kolli.

,,Já,“ segir hún lágt. ,,Hann opnaði um leið. Ég hafði bara ekki fattað að láta hann vita. Ég hefði átt að gera það strax og ég kom heim úr skólanum.“ Hún lítur skömmustulega undan og röddin byrjar að titra. ,,Um leið og hann opnaði skiptu dyrnar mínar engu máli. Vampírurnar hlupu til, spurðu hvort þær mættu koma inn og um leið og hann kinkaði kolli stukku þær á hann. Það var hræðilegt.“ Pavel lítur á Joönnu, leiður á svip. Kalli var fínn kall. Hann átti ekki skilið að vera tæmdur af vampírum. Auðvitað gilti það um alla, en sérstaklega Kalla gamla.

Halldór stendur við gægjugatið og kíkir reglulega í gegn til að athuga hvort vampírurnar séu farnar.

Þær eru þarna enn.

,,Hleypið okkur inn...“ hvísla þær. Hann lítur um öxl.

,,Hefurðu séð fleiri en þessar þrjár?“ spyr Halldór. Gríma hristir höfuðið.

,,Það gætu samt verið fleiri,“ segir hún. ,,Kannski skipta þær með sér svæðum. Sum rándýr gera svoleiðis.“ Það hljómar ekki vel.

 

Kvöldið heldur áfram að líða og verður smám saman að nótt.

Pétur heldur áfram að þramma óþolinmóður um stofuna. Halldór stendur við dyrnar. Pavel og Joanna sitja á gólfinu og dotta. Gríma er inni í eldhúsi að fá sér eitthvað að borða. Arndís og Æsa sitja sitt hvorum megin í stofusófanum og hafa laumast til að kveikja aftur á sjónvarpinu. Á öllum stöðvum má sjá það sama; hryllilegar myndir af uppvakningum sem hægt og rólega eru að færa sig um höfuðborgarsvæðið. Nema á RÚV. Þar er verið að endursýna gamla þætti af Ævari vísindamanni, einhverra hluta vegna. Vampírur eru hvergi sjáanlegar í fréttunum. Þær virðast enn bara vera hér í Reykjanesbæ.

,,Heyrðu, ég nenni þessu ekki,“ heyrist allt í einu í Pétri. Allir líta á hann. Hann er furðulegur á svipinn. ,,Ég vil fara.“ Æsa skellir upp úr.

,,Hurðin er þarna,“ flissar hún og bendir. ,,Ekki láta okkur stoppa þig.“ Pétur lítur á hana, ekki til í brandara.

,,Án djóks, ég verð að tékka á mömmu. Hún veit ekkert um svona skrímsli og kjaftæði. Hún er fáránlega næs. Hún hefur örugglega boðið vampírum inn ef þær hafa bankað.“ Hann lítur á Halldór í von um stuðning. Halldór lítur undan. Gríma gægist inn í stofuna og sér um leið að stemmingin hefur verulega súrnað síðan rétt áðan.

,,Pétur...“ byrjar Joanna blíðlega en hann stoppar hana.

,,Hvað, eigum við bara að bíða hér? Endalaust? Gríma er örugglega ekki með mat fyrir svona marga og við vitum ekkert hvort að eitthvað sem er ekki nærri því eins kurteist og vampírurnar mæti allt í einu á svæðið. Nógu margir uppvakningar komast alveg í gegnum eina svona hurð, sko. Þið sáuð hvað þeir gerðu við hliðið á skólalóðinni. Rifu það í tætlur!“ Málrómur Péturs hækkar með hverju orðinu. Honum er mikið niðri fyrir. ,,Án djóks, krakkar. Kommon. Ég verð að tékka á henni. Þetta er tíu mínútna rölt. Við felum okkur bara og enginn sér okkur. Við vitum ekkert hvað er í gangi hérna, þetta gæti kannski orðið verra, ég verð að tékka á henni!“ Pétur stendur í miðri stofunni og starir á krakkana. Röddin brestur og hann er farinn að kjökra. ,,Plís...“ hvíslar hann.

Félagar hans líta skömmustulegir undan. Gríma sömuleiðis.

,,Krakkar...“ segir Pétur lágt. ,,Ég verð að tékka á mömmu...“ Enginn svarar. Skyndilega finnur Pétur að lítil hönd laumar sér í annan lófann á honum. Hann lítur til hliðar og sér Pavel standa við hlið sér.

,,Þetta verður allt í lagi,“ segir Pavel lágt. ,,Ég lofa.“ Pétur starir á þennan nýja vin sinn, opnar munninn til að segja eitthvað og getur svo ekki annað en hlegið.  

,,Ókei, litli gaur,“ segir Pétur og notar lausu höndina til að þurrka sér um augun. ,,Ókei.“

Halldór snýr sér aftur að hurðinni og gægist.

Vampírurnar stara enn á móti.

Hann pírir augun og reynir að muna hvað þau heita. Þau eru þrjú. Strákurinn heitir eitthvað eins og Gunnar eða Guðmundur og stelpurnar er Halldór nokkuð viss um að heiti Fanney og Padma. Þar sem hann horfir í gegnum gatið er nánast eins og þær lesi hugsanir hans. Skyndilega byrja vampírurnar þrjár að brosa.

Það er hræðilegt.

Án þess að ráða við sig bakkar Halldór frá hurðinni.

,,Þetta er rétt hjá Pétri,“ heyrist allt í einu í Arndísi. Hún teygir sig í fjarstýringuna og slekkur á sjónvarpinu. Það síðasta sem sést á skjánum áður en allt verður svart er Hallgrímskirkja í ljósum logum.

,,Hvað meinarðu?“ spyr Joanna.

,,Við vitum ekkert hvað er í gangi hérna,“ heldur Arndís áfram.

,,Lifandi martröð,“ skýtur Æsa inn í.

,,Já, já,“ svarar Arndís. ,,En hvers vegna? Hvað gerðist?“ Þau hugsa sig um.

,,Það er hrekkjavaka,“ segir Halldór spenntur. ,,Kannski er skilin á milli raunveruleikans og heims handan okkar þynnri og þess vegna auðveldara fyrir skrímsli að ferðast á milli...“ Arndís stoppar hann.

,,Kjaftæði. Það hlýtur að vera raunveruleg skýring á þessu. Eitthvað sem gengur upp.“ Hún lítur á milli krakkanna. Svo á Grímu. ,,Einhverjar hugmyndir?“ Allir yppa öxlum. Þau sjá um leið á svip Arndísar að það var það sem hún bjóst við að myndi gerast. ,,Ég meina,“ segir hún kæruleysislega og gengur að stórum stofuglugganum, ,,ekki getum við spurt uppvakningana, þeir tala ekki.“ Hún horfir út yfir rústaðan Reykjanesbæ. Fullt tunglið er enn stærra en áðan. Í fjarska sér hún uppvakninga staulast yfir bíl á hvolfi. Hugsanlega er einhver lifandi inni í bílnum. Samt ekki mikið lengur. Arndís lítur um öxl, eiginlega glottandi.

,,Hvað?“ spyr Halldór, þar sem hann stendur við dyrnar.

,,Uppvakningarnir eru ekki viðræðuhæfir. En mér dettur í hug þrjár góðar týpur sem geta ekki beðið eftir að tala við okkur,“ heldur hún áfram.

,,Hleypið okkur inn...“ er hvíslað. Halldór fölnar í framan.

Rúmlega klukkutíma seinna eru þau tilbúin.

Eða eins tilbúin og þau mögulega geta verið.

Stofusófanum hennar Grímu hefur verið snúið á hvolf. Búið er að skrúfa alla fæturna undan honum.

Með öllum þeim hnífum sem Gríma á inni í eldhúsinu sínu er búið að tálga stólfæturna niður í oddhvassa stjaka.

,,Gott og vel,“ segir Gríma og getur ekki falið hvað hún er stressuð. ,,Förum yfir þetta einu sinni enn: Við opnum, ég býð þeim inn, þið ráðist á þær. Stjakinn fer í hjartað, annars halda þær bara áfram. Og það er ekki nóg að rétt stinga þær. Stjakinn þarf að fara á kaf. Ýta fast! Farið varlega, þær eru mjög sterkar. Eruði með liðin ykkar á hreinu?“ Krakkarnir kinka kolli. Þau hafa ákveðið að skipta liði. Tveir á hverja vampíru.

Joanna og Pavel.

Pétur og Æsa.

Halldór og Arndís.

Gríma mun svo hlaupa á milli og hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda.

,,Munið,“ segir Arndís og lítur á vini sína, ,,að um leið og þið hafið stútað ykkar vampíru komið þið og hjálpið hinum. Um leið og ein er eftir höldum við henni öll og yfirheyrum hana.“

Allir kinka kolli.

Engum finnst þetta góð hugmynd.

En kannski verður þetta ein af þessum hugmyndum sem er svo heimskuleg að hún er frábær?

,,Allir til?“ spyr Halldór og kemur sér fyrir við dyrnar. Allir kinka kolli.

,,Þrír...“ Þau taka um stjakana sína.

,,Tveir...“ Það má heyra saumnál detta.

,,Einn...“

Halldór tekur í lásinn, snýr og opnar.

18.hluti_talga.png