Skólaslit - 17. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 10:41

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

17.hluti_Grimahraedd.png

17. OKTÓBER

Gríma húsvörður hafði alla ævi verið myrkfælin.

Það byrjaði þegar hún var kannski svona fimm ára. Gríma hafði séð eitthvað í teiknimynd sem hræddi hana sem hún mundi samt ekki nákvæmlega hvað var. Hana rámaði í að það hefði verið grimmur hundur sem var að elta söguhetjurnar sem voru... mýs? Kettir? Hún mundi það ekki.

Það sem hún mundi hins vegar mjög vel eftir var tilfinningin þegar hún var komin undir sæng seinna sama kvöld og ljósin voru slökkt. Furðuleg tilfinning helltist yfir hana, nánast eins og önnur aukasæng, þung en köld á sama tíma. Óendanlegur kvíði og myrkfælni mættu á svæðið. Það var eitthvað í myrkrinu. Gríma var viss um það. Hana hafði langað að setjast upp í rúminu sínu og teygja sig í náttlampann sinn, stoppa þessa vitleysu, en hún þorði ekki að hreyfa sig. Eitthvað sagði henni að ef hún myndi voga sér að setjast upp í rúminu sínu myndi hann koma.

Hundurinn.

Hundurinn úr teiknimyndinni.

Hann myndi stökkva upp í rúmið hennar og rífa hana í sig.

Gríma vissi vel að þetta var bara bull en það skipti engu máli. Margt bjó í myrkrinu. Í myrkrinu voru óendanlegir möguleikar.

Gríma hafði ekkert sofið þá nóttina.

Og satt best að segja leið langur tími þar til hún svaf almennilega eftir það.

Þetta þýddi samt ekki að Gríma hefði ekki haft áhuga á hrollvekjum og hryllingi. Ó, nei! Einhverra hluta vegna varð þetta bara til þess að hún elskaði allt svoleiðis. Gríma stalst í að horfa á bannaðar myndir, lesa hrollvekjur og þegar hún var í 10. bekk sendi hún meira segja inn smásögu í keppni í skólablaðinu sem var svo ógeðsleg að foreldrar hennar voru kallaðir á fund. Þau voru voða lítið að stressa sig á þessu.

Í grunnskóla varð Gríma sjálfskipaður skrímsla-sérfræðingur. Hún vissi allt um skrímsli og annan hrylling, enda var fátt annað sem hún hafði áhuga á. Í hvert skipti sem Gríma hafði lesið um nýtt skrímsli, horft á hryllingsmynd með nýrri tegund af hryllingi sem henni hefði aldrei getað dottið í hug sjálfri, fylltist hún gleði í nákvæmlega hálfa sekúndu.

Svo fann hún hann læðast inn: Kvíðann.

Hún vissi að um leið og hún myndi loka bókinni eða slökkva á sjónvarpinu myndi ímyndunaraflið hennar taka við og hræða úr henni líftóruna. Hún gat samt ekki hætt.


Gríma hafði skammast sín fyrir þetta í mörg ár. Sem var samt auðvitað fáránlegt. Sumir eru myrkfælnir og það er ekkert að því. Ef við eigum að vera alveg hreinskilin þá eru nánast allir á þessari blessuðu eyju myrkfælnir. Hvers vegna haldiði að við semjum ekkert nema hryllilegar þjóðsögur og glæpasögur? Við erum öll logandi hrædd.

Þrátt fyrir það ákvað Gríma að halda myrkfælninni fyrir sig. Hún sagði engum frá. Ekki fyrr en í menntaskóla. Þá hafði hún verið í partýi og misst þetta út úr sér. Það varð auðvitað til þess að næstu árin reyndu allir að bregða henni eins oft og þeir gátu, reyndu að segja henni draugasögur, vildu ná að hræða hana.

Henni fannst það ekki gaman.


Gríma vissi vel að það voru ekki til nein skrímsli. Hún vissi það alveg frá byrjun, alveg síðan hún skreið upp í rúm eftir að hafa horft á teiknimyndina um hræðilega hundinn, en hún réði bara ekki við sig.

Smám saman skánaði þetta þó.

Og nú var Gríma flutt á Reykjanesið, hafði verið hérna í meira en tíu ár og vann við fínan grunnskóla við að dytta að því sem þurfti að dytta að. Henni fannst það gaman. Eitt af því sem hún gerði sem húsvörður var að opna skólann á morgnanna áður en nokkur annar var mættur, og sömuleiðis loka honum þegar allir voru farnir. Og af því að við búum á Íslandi var þetta oftar en ekki gert í myrkri.

Fyrstu skiptin hafði það verið draugalegt og Gríma hafði fundið gamla, góða kvíðann mæta á svæðið. En smám saman gerði hún sér grein fyrir því að það var ekkert í myrkrinu. Þetta var allt í lagi.

Í gærkvöldi hafði hún meira að segja virt draugahúsið sem krakkarnir höfðu búið til fyrir sér og ekki getað annað en dáðst að því. Það hafði hún svo sannarlega ekki getað gert þegar hún hafði verið lítil. Það hefði samt ekki stoppað hana í að heimsækja draugahúsið. Og hún hefði örugglega verið með martraðir í margar vikur.

Gríma húsvörður hafði skellt í lás og trítlað heim.

Vaknað snemma daginn eftir, opnað skólann, farið að vinna og svo... Svo hafði allt farið í rugl. Uppvakningar, vampírur, Gvuð má vita hvað fleira.

Grímu líður eins og hún sé aftur orðin fimm ára. Uppi í rúmi. Og þorir ekki að hreyfa sig. Því það eru skrímsli alls staðar.


,,Hvernig slappstu?“ spyr Joanna. Þau hafa komið sér fyrir í lítilli og teppalagðri stofunni í íbúð Grímu. Krakkarnir hafa talað stanslaust síðasta hálftímann og sagt Grímu allt sem á daga þeirra hefur drifið. Þau hafa sömuleiðis skipst á sögum hvort við annað. Pavel varð mjög spenntur þegar hann heyrði af sprengjunni sem Arndís hafði búið til, en um leið mjög svekktur þegar hún sagði honum að hún væri týnd einhvers staðar í iðrum skólans og engin leið hvort eð er að kveikja í henni, því kveikurinn datt af.

Gríma situr í stórum sófa og augun hennar skjótast eitt andartak í áttina að lokuðum útidyrunum.

,,Hleypið okkur inn...“ hvíslar einhver.

,,Ég hljóp,“ segir Gríma og lítur aftur á Joönnu. ,,Ég ætla ekkert að ljúga. Ég hljóp. Eins og versta gunga. Ég heyrði umgang á kennarastofunni, sá hvað var í gangi, sá þau ráðast hvort á annað og ég bara hljóp. Út úr skólanum, frá leikvellinum og hingað heim.“

,,Reyndirðu ekki að hringja á lögguna?“ spyr Pavel. Gríma kinkar kolli.

,,Að sjálfsögðu. Það var það fyrsta sem ég gerði. Ég þurfti að hringja þrisvar, þeir héldu alltaf að þetta væri símaat. Og þegar þeir loksins trúðu mér var það of seint. Skrímslin voru sloppin af skólalóðinni. Þau flæddu yfir bæinn.“ Krakkarnir líta hvert á annað og eru öll að hugsa það sama.

,,Mamma...“ tautar Pétur og finnur kvíðahnút myndast í maganum. Enginn svarar honum.

,,Ég faldi mig hér í íbúðinni. Sá uppvakningana staulast um bæinn. Hélt mig til hlés. Smám saman dimmdi. Og þá komu þær. Vampírurnar.“ Hún lítur aftur í áttina að hurðinni. ,,Ég kannaðist við nokkrar þeirra úr skólanum, en sá að eitthvað var að. Þær byrjuðu á fólkinu á neðstu hæðinni. Þú þarft að bjóða þeim inn, sjáðu til, annars geta þær ekki komið inn fyrir þröskuldinn. Og ef þú slysast til að leyfa þeim að koma geturðu alltaf tekið það til baka. Þá verða þær að fara. Þær ráða ekki við það.“

,,Hleypið okkur inn...“ er hvíslað.

,,Nenniði að þegja þarna!“ gargar Pétur skyndilega og öllum dauðbregður.

Þögn ríkir í smá stund.

,,Hleypið okkur inn...“ læðist svo um íbúðina.

,,Jesús minn!“ dæsir Pétur. ,,Þetta er óþolandi!“


Arndís hefur þagað grunsamlega lengi.

Vísindamaðurinn í henni lætur skyndilega á sér kræla.

,,Hversu útbreytt er þetta?“ spyr hún. ,,Sýkingin? Uppvakningarnir?“ Gríma verður skrítin í framan.

,,Voruði ekki búin að sjá það?“ spyr hún hissa. Krakkarnir hrista höfuðið. Gríma teygir sig í sjónvarpsfjarstýringu sem liggur við hlið sófans og ýtir á takka. Lítið sjónvarp skammt frá sófanum suðar. Svo kviknar á því.

Gríma velur stöð.

Það er fréttatími.

Hún leggur fjarstýringuna frá sér.

Krakkarnir stara orðlaus á skjáinn.

Það sem þau eru að horfa á er loftmynd af Reykjanesbæ. Lögreglubílum hefur verið komið fyrir alls staðar, með blikkandi ljósum, líklega til að stoppa uppvakningana í að komast leiðar sinnar. Þetta er ljósmynd. Hún er frosin á skjánum.

,,Svona var staðan fyrir tveimur tímum síðan...“ heyrist í djúprödduðum fréttamanni. Myndin á skjánum breytist. ,,Og svona er hún núna. Við vörum við myndum sem fylgja þessari frétt.“ Krakkarnir grípa andann á lofti. Joanna blótar. Pavel tekur í höndina á henni og kreistir. Æsa lítur undan og fnæsir. Pétur blikkar augunum eins og hann trúi ekki því sem hann sjái. Halldór flissar af einskærum ótta. Arndís starir.

Myndin sýnir Grindavík. Þar stendur allt í ljósum logum. Lögreglubíla-girðingin umhverfis Reykjanesbæ hefur greinilega ekki virkað. Ljósmyndin á skjánum breytist og sýnir núna Suðurnesjabæ. Hann er illa farinn. Sömu sögu er að segja af Vogum. Flugvöllurinn er lokaður, en ljósmynd tekin fyrir utan flugstöðina sýnir blóð á rúðum og verur á hlaupum í myrkrinu.

Síðasta myndin sýnir Hafnarfjörð. Nema þetta er ekki ljósmynd. Þetta er streymi úr vefmyndavél, skammt frá miðbænum.

,,Sjitt...“ hvíslar Halldór.

Það eru uppvakningar alls staðar!

,,Við hvetjum alla til að halda sig heima,“ heldur fréttamaðurinn áfram á meðan streymið rúllar enn á skjánum, ,,læsa dyrum og...“ Hann stoppar í miðri setningu. Einhver annar, sem ekki er tengdur í hljóðnema, er að segja eitthvað. Fréttamaðurinn hnussar. ,,Inn í húsið, hvað áttu við? Það á allt að vera læst!“ Krakkarnir líta hvert á annað. Gríma teygir sig aftur í fjarstýringuna.

,,Við skulum slökkva...“ segir hún en er ekki nógu snögg. Brothljóð heyrist í sjónvarpinu og öskur. Fyrst eitt. Svo mörg.

Gríma slekkur.

 

Krakkarnir sitja í stofunni í algjörri þögn.

,,Þetta er alls staðar...“ hvíslar Joanna loks.

,,Já,“ segir Gríma lágt. ,,Alls staðar.“