Skólaslit - 16. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 09:34

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

16. OKTÓBER

,,Opnið! Fljót! Þær eru að koma! Þið eruð ekki örugg þarna inni!“ veinar röddin frammi á gangi.

,,Hvað eigum við að gera?“ hvíslar Æsa. ,,Hver er þetta?!“ Halldór reynir að gægjast gegnum gatið á hurðinni, en sér nánast ekkert.

,,Ljósin eru slökkt og manneskjan er alltof nálægt!“ hvíslar hann til baka. ,,Ég sé ekki neitt!“

,,Kannski er bara best að vera hér?“ spyr Joanna og Pavel kinkar kolli.

,,Já,“ segir hann. ,,Sammála.“ Pétur lítur um öxl.

,,Þetta er alveg næs hérna sko.“ Arndís, sem hefur staðið fyrir utan hópinn og verið annars hugar, er ekki sammála. Hún tekur ákvörðun og veður af stað.

,,Frá!“ skipar hún, ýtir krökkunum til hliðar, tekur í lásinn og snýr.

Dyrnar opnast upp á gátt.

Á dimmum stigaganginum stendur manneskja. Hún er hokin, á miðjum aldri og með grátt, tætt hárið í allar áttir. Hún er í dökkum samfestingi sem er frekar snjáður. Krakkarnir þekkja hana um leið. Þetta er kona sem hefur verið að þvælast um í grunnskólanum þeirra síðan þau muna eftir sér, lagandi allt sem þurfti að laga.

,,Gríma húsvörður?“ spyr Halldór forviða. Joanna treður sér í gegnum krakkaþvöguna.

,,Já, hún býr hérna á hæðinni fyrir ofan,“ segir hún. ,,Hún lítur stundum eftir okkur þegar mamma og pabbi eru ekki heima.“ Hún lítur á húsvörðinn. ,,Er í lagi með þig?“

Gríma svarar engu, heldur tekur harkalega í aðra höndina á Arndísi sem stendur við hlið Joönnu og rífur hana með sér.

,,Hey!“ hrópar Arndís en ræður ekki við húsvörðinn.

,,Áfram!“ hvæsir Gríma og skakklappast upp tröppurnar. Þær eru á leiðinni á hæðina fyrir ofan. Hún tekur tvær tröppur í hverju skrefi og Arndís er næstum því dottin. Nokkrum sinnum. ,,Þær eru að koma!“

,,Hverjar eru ,,þær?“ spyr Joanna hissa og stendur í dyragættinni með hinum krökkunum. ,,Um hvað ertu að tala?“

Skyndilega heyrist þungur dynkur frá jarðhæðinni.

Þetta er útidyrahurðin að lokast.

Óþægilegt hvísl ómar um stigaganginn.

Svo heyrast fótatök.

Hröð fótatök.

,,Já, nei, nei,“ tautar Æsa, treður sér fram hjá hinum krökkunum og eltir Grímu og Arndísi upp á þriðju hæðina. Pétur fylgir á eftir. Halldór stekkur af stað og Joanna grípur í Pavel um leið og hún skellir aftur hurðinni að íbúðinni þeirra.

Þau hlaupa.

,,Þetta er algjör vitleysa,“ tautar Halldór og getur ekki annað en flissað. ,,Hvað í ósköpunum gæti...“ Hann kemst ekki lengra. Af hæðinni fyrir neðan heyrist eitthvað hvæsa. Hann lítur um öxl og sér eitthvað sem er bara hægt að lýsa sem skugga þjóta upp tröppurnar einni hæð neðar. Á minna en sekúndu hættir þetta að vera kjánalegt. ,,Svona nú!“ hrópar Halldór og hleypur fram úr Pétri. ,,Áfram með þig, maður!“


Uppi á þriðju hæðinni eru dyrnar að íbúð Grímu húsvarðar opnar. Arndís er komin inn. Æsa líka. Halldór stekkur með tilþrifum eins og hann sé að keppa í langstökki og lendir jafnfætis í forstofunni. Hann snýr sér við um leið til að athuga stöðuna. Pétur er næstur í mark. Joanna og Pavel síðust.

,,Snögg!“ gargar Gríma á þau. Systkinin hlýða. Skyndilega sér Halldór eitthvað þjóta upp tröppurnar, rétt fyrir aftan krakkana. Þetta er ekki uppvakningur. Þetta er eitthvað sneggra. Eitthvað enn hættulegra. Hvæsið heyrist aftur.

,,Það er eitthvað fyrir aftan ykkur!“ hrópar Halldór, teygir sig á móti Joönnu, grípur um útréttan handlegginn á henni og kippir í. Hún rífur Pavel með sér.

Systkinin fljúga inn í íbúð Grímu húsvarðar og brotlenda á mjúkri mottu í forstofunni.

Svo er skellt í lás.


Algjör þögn.

Krakkarnir líta móðir hver á annan. Pavel hjálpar Joönnu á fætur. Enginn þorir að hreyfa sig.

,,Hvað...“ byrjar Æsa, en Gríma stoppar hana með því að lyfta upp vísifingri og bera hann að vörunum. Æsa hlýðir. Svo leggur Gríma flatan lófa að öðru eyranu.

Hlustið.

Þau halla sér nær hurðinni.

Og þá heyra þau það.

Hvíslið.

,,Hleypið okkur inn... Hleypið okkur inn...“ Krakkarnir líta hvert á annað. Það er eitthvað ótrúlega óþægilegt við þetta hvísl. ,,Hleypið okkur inn... Hleypið okkur inn...“ Tíðnin sem það er á er köld og skerandi, nánast eins og rafmagnstæki sem einhver hefur gleymt að slökkva á. Ofurvarlega fer Æsa upp á tær og gægist í gegnum gatið á hurðinni.

Þrjár náfölar manneskjur standa við dyrnar og gægjast á móti.

Æsa veinar næstum upp yfir sig, en rétt nær að hemja sig. Hún bakkar frá gatinu.

,,Oj!“ hálf-hrópar hún og hristir sig. Henni líður eins og hún hafi rétt í þessu farið í ískalda sturtu. Pétur stekkur til og gægist.

,,Hleypið okkur inn...“

Hann starir í gegnum gatið, þungt hugsi.

,,Hey,“ segir hann svo. ,,Ég held þetta séu krakkar úr skólanum. Úr unglingadeildinni.“ Halldór ýtir honum frá og gægist.

Það er rétt hjá Pétri.

Halldór þekkir þessa krakka. Þeir eru í hinum tíunda bekknum. Hann hefur stundum hangið með þeim. Þeir eru í vinahópnum hennar Lovísu, formanns nemendafélagsins. Síðast þegar hann sá þá voru þeir klæddir í búninga í draugahúsinu, tilbúin að hræða mann og annan.

Nú stara þeir bara og hvísla.

,,Hleypið okkur inn...“

Gríma húsvörður hristir höfuðið hægt og bakkar frá hurðinni.

,,Þetta verður í lagi,“ segir hún titrandi röddu. ,,Þetta verður í lagi. Bara ekki opna. Það voru mistökin sem allar hinar íbúðirnar gerðu. Opnuðu svalahurðir eða glugga eða dyr þegar þær bönkuðu og buðu þeim inn. Og þær voru svo svangar. Svo ótrúlega svangar. Ég heyrði þær tæma alla, tæma þar til ekkert var eftir, tæma þar til aumingja fólkið skrapp saman eins og beyglaðar fernur. Ekki... opna...“ Gríma er byrjuð að titra. Augun eru þrútin. Krakkarnir heyra kökkinn sem er nú mættur í hálsinn á henni.

,,Hvað er í gangi hérna?!“ hvæsir Æsa, brjáluð á svipinn og lítur á Grímu. ,,Þetta eru ekki uppvakningar!“ Gríma opnar munninn til að reyna að finna réttu orðin en gefst að lokum upp. Hún andvarpar bara og neðri vörin titrar.


Arndís stendur stjörf og starir á lokaðar dyrnar. Henni verður hugsað til baka. Til foreldra Pavels og Joönnu, sem lágu opinmynnt og náföl í rúminu sínu, með tvo lítil bitför á hálsinum. Tæmd eins og fernur. Ofurvarlega gengur hún að hurðinni og gægist. Manneskjurnar þrjár standa grafkyrrar nokkrum metrum frá hurðinni og stara fram fyrir sig. Og hvísla.

Arndís hefur alla tíð aðhyllst vísindalega hugsun. Sumir hlutir eru bara bull og ekki til í alvörunni. Eins og til dæmis uppvakningar. En vísindi eru auðvitað bara það sem þú veist nákvæmlega núna.

Það getur vel verið að eitthvað nýtt komi í ljós á morgun.

Og þá eru þessar nýju upplýsingar orðnar hluti af daglegu lífi.

Þannig eru vísindin; þau hlusta, taka eftir, rannsaka og þróast.

Í dag þróuðust þau. Uppvakningar mættu á svæðið. Hvern hefði grunað að það myndi gerast? Engan! Var þess vegna nokkuð svo fáránlegt að manneskjurnar sem stóðu fyrir utan dyrnar og voru að reyna að komast inn væru það sem Arndís er nokkuð viss um að þær eru?

Hún fær sig samt ekki til að segja það upphátt.

Það er of fáránlegt.

,,Hvað meinarðu með að þú heyrðir þetta fólk ,,tæma“ alla í hinum íbúðunum?“ heyrir Arndís Joönnu spyrja. Gríma gefur frá sér lítið harmakvein og Arndís getur ekki haldið aftur af sér lengur.

Hún verður að segja það.

Orðið sem hefur heltekið huga hennar síðan hún sá foreldra Pavels og Joönnu heimtar að brjótast út. Hún getur ekki beðið lengur. Hún veit að þetta er ómögulegt og fáránlegt en hún veit líka innst inni að hún hefur rétt fyrir sér.

Arndís snýr sér við og lítur á vini sína.

,,Vampírur,“ hvíslar hún. Allt dettur í dúnalogn. Krakkahópurinn starir á hana. Gríma húsvörður hættir að bakka frá hurðinni og kinkar kjökrandi kolli. Hún bendir á Arndísi titrandi fingri.

,,Já,“ segir hún og þarf að hafa sig alla við að röddin brotni ekki. ,,Vampírur.“

,,Hleypið okkur inn... “ er hvíslað frammi á gangi.

16.hluti_gaejugat.png