Skólaslit - 15. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 11:20

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

15. OKTÓBER

Krakkarnir læðast inn í fjölbýlishúsið. Þau kveikja ekki ljósið. Á mynd í anddyrinu sést að húsið er á þremur hæðum, auk þess að það eru geymslur ofan í kjallara. Stigagangurinn er teppalagður og – miðað við allt sem þau hafa séð í dag – mjög hreinn.

,,Önnur hæð...“ hvíslar Pavel og hleypur á undan þeim upp tröppurnar. Joanna tekur á rás á eftir honum.

,,Viltu fara varlega!“ hvæsir hún. ,,Við vitum ekkert hvort það séu uppvakningar hérna!“

Það eru engir uppvakningar hérna. Pavel stoppar fyrir framan dyr á annarri hæð, gramsar í öðrum buxnavasanum, veiðir upp lykil, opnar og veður inn. Hinir krakkarnir elta.

Halldór er síðastur og gægist upp eftir töppunum sem liggja upp á þriðju hæð, áður en hann lokar varlega á eftir sér.

Rétt eftir að hann lokar sést skuggi af mannveru skjótast í felur.

Það fyrsta sem Æsa tekur eftir er lyktin.

Hún er skrítin. Fnykurinn af uppvakningunum er rotinn, eins og úldið kjöt. Hún veit það vegna þess að fýlan hefur verið föst í nefinu á henni frá því í morgun. Lyktin hér er öðruvísi. Hún hugsar málið en eina orðið sem henni dettur í hug er: ,,Þurr.“ Æsa sér á svip Pavel og Joönnu að þau taka líka eftir lyktinni.

,,Allt í góðu?“ spyr Æsa. Joanna lítur á bróður sinn.

,,Já...“ segir hún lágt.

,,Eru foreldrar ykkar heima?“ spyr Arndís og skimar í kringum sig.

,,Pabbi?“ hvíslar Pavel eins hátt og hann þorir. ,,Mamma?“ Enginn svarar. Hann lítur á Arndísi og hristir höfuðið. ,,Enginn heima.“

,,Uppvakningarnir mættu í morgun,“ segir Joanna. ,,Ég veit ekki hvenær þeir sluppu út af skólalóðinni, en mamma og pabbi hafa örugglega enn verið í vinnunni þegar það gerðist.“ Hún hugsar sig um. ,,Vonandi eru þau enn þar."

Arndís röltir um íbúðina og virðir hana fyrir sér. Pavel trítlar inn í eldhús og nær sér í kex að borða. Pétur og Joanna stefna á símann, sem hvílir á lágu borði rétt við stofuna. Æsa stendur við stofugluggann og horfir út yfir götuna. Halldór er við útidyrnar og kíkir reglulega í gegnum gægjugatið hvort að einhver sé frammi á gangi.


Síminn er rykfallinn og greinilega ekki mikið notaður. Joanna gengur að honum, tekur upp tólið og slær inn 112.

Síminn hringir.

Og hringir.

Og hringir.

,,Hvað er málið?“ spyr Pétur. ,,Slóstu inn rétt númer?“ Joanna sendir Pétri svip sem fær hann til þegja á núll einni. Hann hallar höfðinu í áttina að vinkonu sinni til að heyra betur. Hún tekur tólið örlítið frá eyranu.

Þau hlusta.

Það hringir.

Og hringir.

Og hringir.

Og nákvæmlega þegar Joanna ætlar að fara að skella á er svarað.

,,Góða kvöldið,“ segir rödd á hinum enda línunnar. Joanna skrækir næstum af fögnuði og byrjar ósjálfrátt að babbla.

,,Hæ, við erum í Reykjanesbæ og það eru uppvakningar alls staðar og við rétt náðum að sleppa úr skólanum okkar og þeir hafa farið út um allan bæ því það er allt í rústi og getiði sent lögregluna til okkar, við erum bara rétt hjá miðbænum og við erum í öruggu skjóli en við vitum ekki hversu lengi og það er búið að éta næstum alla í skólanum okkar, líka kennarana og skólastjórinn breyttist líka og reyndi að éta okkur og já...“ Hún hættir loksins að tala og bíður eftir viðbrögðum.

Eina svarið er þögn.

Joanna lítur spurnaraugum á Pétur, sem yppir öxlum.

,,Allt í góðu?“ hvísl-kallar Halldór, þaðan sem hann stendur við útidyrnar. Æsa lítur af glugganum eitt andartak. Pavel kemur maulandi kex. Arndís er hvergi sjáanleg. Joanna tekur fyrir neðri hluta símtólsins, svo að sá sem hún er að tala við heyri ekki hvað hún er að segja.

,,Já, ég held það sé allt í góðu. Nema sambandið hafi slit-" Röddin á hinum enda línunnar lætur loksins aftur í sér heyra.

,,Hvað eruði mörg, nákvæmlega?“ Joanna lítur aftur á Pétur og grettir sig í framan. Þetta er furðuleg spurning.

,,Ö...“ Joanna lítur yfir hópinn og telur. ,,Fimm.“ Hún fattar að Arndís er ekki á svæðinu. ,,Sex,“ leiðréttir hún sjálfa sig.

,,Sex stykki,“ svarar röddin. ,,Mjög gott. Og heimilisfangið er?“ Joanna segir henni það.

,,Á annarri hæð?“

,,Einmitt, annarri. Er langt í ykkur?“ Eigandi raddarinnar virðist vera að hugsa sig um.

,,Alls ekki,“ er svo svarað mjúkum rómi. ,,Við erum nú þegar lagðar af stað.“ Pétur lítur á Joönnu. Það er eitthvað skrítið við þetta allt saman. Kvíðahnútur byrjar að myndast í maganum á Joönnu. Og allt í einu fattar hún svolítið.

Manneskjan sem svaraði sagði ekki: ,,112“ eða „Neyðarlínan“. Hún hafði bara sagt: ,,Góða kvöldið.“ Joanna finnur gæsahúð læðast upp eftir hnakkanum á sér. Allt í einu finnst henni eins og símtólið sé að hitna, að hún ætti að skella á, að hún hefði aldrei átt að hringja.

En hún ræður ekki við sig.

Hún verður að spyrja.

,,Hver er þetta?“ hvíslar hún skjálfandi röddu.

Ekkert svar.

Svo flissar eigandi raddarinnar.

Svo er skellt á.

Joanna stendur eftir með símtólið og starir á Pétur.

,,Ég held við ættum að forða okkur...“ hvíslar hún. Pétur kinkar kolli.

,,Hey!“ heyrist allt í einu í Æsu. Hún stendur við stóran stofugluggann og hallar sér alveg upp að honum. ,,Það er eitthvað lið að koma.“ Pétur og Joanna hlaupa til.

Það er rétt hjá henni.

Út úr nóttinni koma labbandi þrjár manneskjur. Það er auðvelt að sjá þær því tunglið er fullt og enginn annar á ferðinni. Manneskjurnar eru í um 100 metra fjarlægð. Krakkarnir sjá um leið að þetta eru ekki uppvakningar. Það er samt eitthvað furðulegt við þær. Eitthvað óþægilegt. Eitthvað ómennskt.

,,Við verðum að fara,“ segir Joanna og grípur í Pavel sem er nú líka mættur út í glugga og fylgist forvitinn með. ,,Núna!“ Hún skimar í kringum sig og tekur eftir því að Arndís er enn ekki á svæðinu. ,,Arndís?“ kallar hún.

Ekkert svar.

Joanna blótar á pólsku og stekkur af stað.

,,Hvar er hún?!“ tautar hún pirruð og hleypur innar í íbúðina. Pavel hleypur að útidyrunum  þar sem Halldór stendur og gægjist í gegnum gatið. Æsa og Pétur elta.

,,Erum við góð?“ spyr Pétur. Halldór kinkar kolli.

,,Já, við erum-"

Skyndilega er barið á dyrnar af fullu afli. Halldóri bregður svo svakalega að hann dettur næstum aftur fyrir sig á Pavel. Æsa öskrar og Pétur kúgast smá af einskærum kvíða.

,,Komið út!“ veinar einhver hinum megin við dyrnar. ,,Þið verðið að koma út! Koma upp! Upp til mín! Drífið ykkur! Þær eru að koma! Komið!“

,,Þarna ertu!“ Joanna kemur að Arndísi þar sem hún stendur við svefnherbergi foreldra þeirra Pavels og glápir út í loftið. ,,Komdu!“ skipar Joanna. ,,Við verðum að drífa okkur! Það eru einhverjir að koma!“ Arndís starir fram fyrir sig, nánast eins og í draumi. Svo tekur hún eftir Joönnu.

,,Ha?“ spyr hún hálfrugluð.

,,Komdu!“ skipar Joanna og arkar ákveðin í áttina að Arndísi.

,,Stopp!“ veinar Arndís skyndilega og lyftir báðum höndum. Joanna frýs og starir forviða á hana.

,,Hvað er að þér?“ spyr hún hlessa. Arndís veður af stað, grípur í Joönnu og dregur hana á eftir sér.

,,Ég er að koma, þú þarft ekkert að ná í mig! Komdu! Drífum okkur!“ Saman arka þær að útidyrunum, þar sem einhver er enn að berja og æpa frammi á gangi. Æsa er aftur komin að stofuglugganum.

,,Þau er komin nær!“ tilkynnir hún. Svo veinar hún lágt. ,,Sjitt! Ég held þau hafi séð mig. Þau gáfu í!“ Æsa hleypur að útidyrahurðinni.

Krakkarnir standa nú öll við dyrnar. Sá sem er hinum megin við þær er enn að berja og öskra.

Arndís stendur lengst frá hurðinni. Hún virðir pólsku systkinin fyrir sér. Henni finnst Joanna ekkert sérstaklega skemmtileg. Það er samt ekki séns að hún ætli að leyfa Joönnu að fara inn í svefnherbergi foreldranna.

Ekki eftir það sem Arndís sá.

Á meðan hinir krakkarnir höfðu verið í símanum eða vakta ganginn eða ná sér í kex eða horfa út á götuna hafði Arndís verið að forvitnast. Hún gerði þetta oft þegar hún kom í heimsókn í fyrsta skiptið eitthvert. Hún veit að það er dónalegt, en hún réði bara ekki við sig. Arndís hafði fyrst kíkt inn á baðherbergið, svo inn í herbergi Joönnu og loks endað í svefnherbergi foreldra þeirra Pavels.

Og þar höfðu þau legið.

Mamma þeirra og pabbi.

Munnarnir opnir. Augun líka.

Uppþornuð.

Tæmd.

Með tvö bitför á hálsinum hvort.

Arndís byrjar að skjálfa þegar hún hugsar til baka.

Hvað svo sem er í gangi hérna er það greinilega bara rétt að byrja.

15.hluti_foreldrar.png

E.S. Nú eru SKÓLASLIT nánast hálfnuð. Hefurðu einhverjar spurningar sem þú vilt að Ævar eða Ari svari? Sendu póst á skolaslit@gmail.com fyrir þriðjudaginn 19. október og spurðu. Ævar gerir myndband í lok vikunnar og svarar eftir bestu getu.