Skólaslit - 14. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 12:39

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

14.hluti_radhusid.png

14. OKTÓBER

Joanna og Pavel búa með foreldrum sínum í fjölbýli, ekki langt frá miðbænum. Þau fluttu til Íslands fyrir fimm árum síðan frá Póllandi og hafa búið hér í Reykjanesbæ síðan þá.

Til að byrja með fannst Joönnu skrítið að búa á stað þar sem hún þurfti að læra nýtt tungumál, en smám saman vandist það. Það er ekki eins og hún hafi verið sú eina pólska í skólanum. Ef hún var komin með hausverk af því að þurfa að tjá sig á íslensku leitaði hún bara uppi hina pólsku krakkana og spjallaði við þau. Eða skipti yfir í ensku.

Íslenskan þvældist pínulítið fyrir Joönnu til að byrja með en eftir um það bil hálft ár var hún orðin nokkuð góð í henni. Endrum og sinnum fann hún samt ekki réttu orðin, sérstaklega þegar hún var orðin þreytt á kvöldin, en oftast slapp það. Joanna hjálpaði stundum foreldrum sínum þegar þau skildu ekki eitthvað og hafði meira að segja einu sinni verið beðin um að koma með þeim á fund í bankanum og þýða – bara til öryggis. Eftir fundinn hafði mamma hennar komið við í ísbúð og keypt stærsta bragðaref sem Joanna hafði nokkurn tímann séð. Hún hafði verið afar ánægð með dóttur sína þann daginn.

Joanna ætlar að verða læknir þegar hún verður stór. Hún er ekki viss hvort hún ætlar að sérhæfa sig í einhverju einu, eins og til dæmis hjartalækningum eða heilaskurðlækningum, en hún veit að hún vill hjálpa fólki. Hún veit líka að ef hún vill verða læknir verður hún að fá góðar einkunnir í grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og öllu öðru námi eftir það. Eins og það sé bara ekkert mál. Það er fáránlega stressandi. Þess vegna finnst Joönnu óþolandi að þurfa á hjálp að halda í stærðfræði.

Joanna hafði verið í aukatímanum hjá Unnari skólastjóra því hún skildi sumt, en ekki allt. Þess vegna var hún dugleg að spyrja; hún vildi ekki þurfa að eyða vetrinum í að mæta í fleiri aukatíma en hún nauðsynlega þurfti. Hún vildi ná þessu. Fá góðar einkunnir. Útskrifast. Verða læknir. Þetta var allt saman mikil vinna. Þess vegna fóru týpur eins og Arndís í taugarnar á henni; fólk sem hafði ekkert fyrir því að læra og fékk meira að segja að hoppa yfir tvo bekki. Joanna var samt ekkert að gera neitt mikið mál úr því. Hún var oftast mjög kurteis og hélt sig á mottunni.

Sérstaklega eftir það sem gerðist með Pavel þegar hann var í 1. bekk.


Pavel er fjórum árum yngri en Joanna. Hann er ekkert mikið fyrir það að spjalla og ef hann getur ekki teiknað eitthvað, hefur hann ekki áhuga á því. Hann elskar að lita og teikna og er satt best að segja orðinn skrambi góður, ef Joanna ætti að vera alveg hreinskilin. Pavel er ofurviðkvæmur fyrir hávaða, hvort sem það eru læti í umferð, öðrum krökkum eða bara sjónvarpinu heima. Frá því að Joanna man eftir honum var Pavel með heyrnartól á höfðinu, sama hvort hann var í tíma, úti að leika sér eða í afmælisveislu. Þannig var það bara og var ekkert mál. Joanna lét það ekki trufla sig.

Aðra sögu var að segja af strákunum í bekknum fyrir ofan Pavel.

Þetta gerðist þegar Pavel hafði verið í 1. bekk. Þá var Joanna í fimmta. Í fyrstu hafði hún ekki tekið eftir neinu óvanalegu. Hún átti fullt í fangi með allt sitt og allt það sem hún var að bralla og bardúsa í skólanum. En þegar Pavel kom heim einn daginn með eitthvað sem leit grunsamlega mikið út eins og glóðurauga og mjög greinilegar rispur á heyrnartólunum sínum, sem venjulega voru alltaf mjög hrein og fín, hafði hún tekið hann afsíðis og spurt hvað í ósköpunum hafði gerst.

,,Ekkert,“ hafði Pavel sagt. Svo vildi hann ekki tala meira um það. Joanna trúði honum ekki en vildi ekki ýta of mikið á hann. Daginn eftir vildi hún að hún hefði gert það.

Joanna hafði verið að vesenast hjá rólunum þegar hún heyrði ópið.

Hún þekkti röddina um leið.

Joanna hafði hlaupið af stað. Hún skimaði í allar áttir, hjartað sló svo hratt að henni leið eins og það myndi springa og þegar hún loksins sá hvað var í gangi fann hún reiðina ná algjörum tökum á sér. Hún sá rautt. Hún réði ekki við sig.

Pavel stóð einn á miðjum leikvellinum, umkringdur eldri strákum.

Heyrnartólin voru hvergi sjáanleg.

Nei, það var ekki satt. Dökkhærður strákur, ári eldri en Pavel, hélt á þeim. Nokkrir aðrir stóðu hjá og hlógu.

,,Þú verður bara að ná í þetta!“ hafði dökkhærði strákurinn hrópað og lyft heyrnartólunum hátt yfir höfuðið á sér. ,,Komdu, þetta er bara hérna. Ekkert mál!“ Pavel, gersamlega miður sín og með tárvotar kinnar, gekk titrandi í áttina að stráknum með útrétta hendi. ,,Já, koddu bara,“ hélt strákurinn áfram. ,,Bara teygja sig og ekkert mál.“

Þetta var gildra.

Joanna sá það um leið.

Pavel var hins vegar svo lítill að hann fattaði ekki hvað var í gangi. Hann var töluvert minni en dökkhærði strákurinn og þurfti að fara upp á tær til að eiga einhvern möguleika á því að ná aftur í heyrnartólin.

Um leið og Pavel byrjaði að teygja sig eftir þeim kastaði dökkhærði strákurinn heyrnartólunum eitthvert út í buskann. Samstundis og hann hafði losað sig við þau flatti hann út báða lófa og keyrði þá leiftursnöggt í magann á Pavel.

Hann flaug aftur fyrir sig og lenti harkalega á rassinum. Hlátrasköllin bergmáluðu um leikvöllinn og nú voru fleiri farnir að taka eftir því sem var í gangi.

Enginn gerði neitt.


Samband Pavel og Joönnu var eins og flestra systkina; oftast voru þau vinir, stundum rifust þau, einstaka sinnum slógust þau meira að segja. En nú var Joönnu allri lokið.

Hingað og ekki lengra.

Án þess einu sinni að hugsa um það arkaði hún upp að dökkhærða stráknum. Einhverjir vina hans sáu hana nálgast en voru of seinir að vara hann við. Joanna kom aftan að stráknum. Hann átti aldrei von á henni. Með sveiflu reif hún í hnakkann á honum eins fast og hún gat. Strákurinn var með sítt hár og þess vegna auðvelt að ná taki á því. Auk þess var Joanna auðvitað þremur árum eldri en strákurinn og höfðinu hærri. Þetta var sjálfsagt fyrir strákinn eins og að lenda í óðri tröllskessu.

Dökkhærða stráknum dauðbrá og skrækti ósjálfrátt út í loftið. Vinir hans flúðu eins og kakkalakkar í allar áttir.

,,Slepptu mér!“ hafði strákurinn æpt. ,,Þú meiðir mig!“ Joönnu var alveg sama. Hún reif enn fastar í slepjulegan hárlubbann á litla gerpinu og sneri. Bara smá. Það þurfti ekki meira til. Strákurinn veinaði og Joanna sá útundan sér að einhverjir af vinum hans voru á hlaupum í áttina að kennarastofunni til að klaga.

Henni var alveg sama.

,,Biðstu afsökunar,“ hvæsti hún í eyrað á stráknum. Hann svaraði með því að slá út í loftið. Hann hitti ekki. Joanna greip enn fastar í lubbann og sneri aftur, hálfhring í þetta skiptið. Dökkhærði strákurinn gaf frá sér svo furðulegt hljóð að undir öðrum kringumstæðum hefði Joanna skellt upp úr. Það hljómaði eins og eitthvað sem maður myndi oftast heyra í Húsdýragarðinum. ,,Biðstu. Afsökunar,“ skipaði hún aftur. ,,Núna.“ Dökkhærði strákurinn gafst upp.

,,Fyrir... fyrirgefðu,“ hvíslaði hann. ,,Fyrirgefðu. Í alvöru. Fyrirgefðufyrirgefðufyrirgefðu!“

Pavel sat enn á jörðinni og starði á þetta allt saman. Hann hafði áður séð stóru systur sína reiða, en þetta var eitthvað glænýtt. Það var nánast eins og það væri eldur í augunum á henni.

,,Ókei,“ sagði hann lágt. Svo leit hann á Joönnu og brosti út í annað. Hún brosti til baka. Svo sleppti hún stráknum. Hann spratt af stað eins og raketta og hélt um hnakkann.

,,Þú ert rugluð!“ hafði hann æpt á meðan hann skakklappaðist í áttina að vinum sínum, sem nú voru mættir með Unnar skólastjóra á milli sín. ,,Rugluð!“ veinaði hann og datt næstum um vegasalt. Joönnu var alveg sama. Hún kraup hjá Pavel, þurrkaði framan úr honum og svo fóru þau saman að finna heyrnartólin.

Þegar hún var kölluð inn á skrifstofu til Unnars, seinna sama dag, hafði hún útskýrt hvað hafði gerst. Það var enginn tilgangur með því að ljúga. Unnar hafði orðið skrítinn á svipinn, umlað eitthvað um ,,Þetta eru náttúrulega flóknar aðstæður,“ og ,,Skólinn mun gera sitt besta til að taka á því að svona lagað gerist ekki aftur...“ og ,,Það er erfitt að fylgjast með því hvað allir eru að gera...“ og svo hafði hann hringt í foreldra þeirra.

Þau voru ekki sátt, en gert var gert. Joanna bað þau afsökunar og lofaði að gera svona lagað aldrei aftur. Og hún stóð við það. En síðan þetta gerðist hafði hún alltaf verið á varðbergi.

Alltaf að passa Pavel.

Sama hvað.

Hún ætlaði ekki að klikka á þessu aftur, ekki að láta eitthvað slæmt koma fyrir hann aftur.

Pavel er vissulega orðinn eldri í dag og getur vel séð um sig sjálfur, en Joanna ræður bara ekki við sig. Pavel er litli bróðir hennar. Hann verður það alltaf. Jafnvel þótt hann verði 100 ára. Og hún 104 ára.

Þau standa fyrir framan ráðhús Reykjanesbæjar og virða húsið fyrir sér. Ráðhúsið er notað til margra hluta og er meðal annars líka stórt og flott bókasafn sem Joanna hefur oft heimsótt. Hún sér í gegnum brotnar rúðurnar að hér hefur eitthvað hræðilegt gerst.

„HROLLVEKJUR“ segir stórt skilti sem trónir efst á bókastandi sem komið hefur verið fyrir í anddyri safnsins. „HREKKJAVAKAN ER HANDAN VIÐ HORNIÐ! ÞORIR ÞÚ AÐ LESA ÞESSAR?“ Hillurnar eru fullar af bókum, sem nú eru allar úti í blóði.

,,Við vitum allavega hvert uppvakningarnir fóru,“ heyrist í Æsu.

,,Við vitum hvar þeir byrjuðu,“ leiðréttir Pétur. ,,Við vitum ekkert hvert þeir fóru.“ Hún kinkar kolli og gægist inn í bókasafnið.

,,Oj, bara,“ tautar hún.

,,Hvað?“ spyr Pétur. Æsa bendir inn í ævisögudeildina.

,,Ég veit ekki hvað ég ætti að kalla þetta...“ segir hún og kúgast örlítið. Hún leitar að rétta orðinu. ,,Afgangahaugur?“ spyr hún svo. Engan langar að sjá hvað hún á við.


Joanna skimar í kringum sig. Uppvakningarnir hafa greinilega verið hérna, en eru hvergi sjáanlegir núna. Hvar í ósköpunum eru þeir?

,,Jæja,“ segir Arndís ákveðin og lítur á milli krakkanna. ,,Hér er heldur enginn. Hvert er planið? Hvað viljum við gera?“ Krakkarnir hugsa sig um.

Enginn kemur með hugmynd.

,,Símar,“ heyrist allt í einu í Halldóri. ,,Við getum notað þá til að hringja á lögregluna. Láta vita. Kalla á hjálp. Minn er reyndar enn inni í stofu. Eruð þið með ykkar á ykkur?“ Krakkarnir líta hvert á annað. Eitt af öðru hrista þau höfuðið. Allir símar eru einhvers staðar annars staðar.

,,Ég er reyndar með minn á mér,“ segir Pétur og grefur aðra höndina ofan í buxnavasann, ,,en batteríið kláraðist áðan.“ Hann brosir út í annað. ,,PokemonGO tæmir það sko.“

,,Heima,“ heyrist skyndilega sagt. Krakkarnir líta allir í áttina að Pavel. Hann bendir ákveðinn í áttina að fjölbýlishúsi skammt frá. ,,Það er sími heima,“ segir hann. Joanna lítur á hina krakkana og brosir út í annað.

,,Mamma og pabbi eru með svona gamaldags síma,“ segir hún. ,,Sem er tengdur við landlínu. Má bjóða ykkur í heimsókn?“ Enginn segir neitt. ,,Nema þið séuð með betri hugmynd?“ bætir hún við.

Enginn er með betri hugmynd.