Skólaslit - 13. hlutiÆvar Þór Benediktsson
00:00 / 08:25

Ef þú vilt hlusta á kaflann skaltu ýta á play.

13. OKTÓBER

Arndís finnur eitthvað snerta sig.

Hægri öxlina.

Án þess að ráða við sig byrjar hún að öskra. Umsvifalaust skjótast krakkarnir í allar áttir eins og þau hafi fengið rafstuð, sumir með hendur á lofti tilbúnir í tuskið, aðrir með hendurnar fyrir andlitinu, tilbúnir að verja sig. Arndís kýlir án þess að hugsa og hnefinn endar í andlitinu á hræðilegum uppvakningi sem dettur umsvifalaust í jörðina. Hún bakkar hratt frá ófétinu og lítur ósjálfrátt á höndina til að athuga hvort hann hafi nokkuð náð að bíta í hana.

Ekkert sár.

Ekkert bit.

Hún andar léttar.

,,Flýjið!“ veinar hún og stekkur af stað. Allir hlýða.

,,Ái!“ veinar uppvakningurinn þar sem hann liggur í jörðinni og heldur um aðra kinnina. ,,Ertu að grínast?!“

Arndís hleypur.

Arndís snarstoppar.

Uppvakningar tala ekki. Uppvakningi er nokkuð sama þótt þú gefir honum á 'ann. Á leikvellinum er dimmt og erfitt að greina nokkurn skapaðan hlut. Arndís hafði gert ráð fyrir því að ef einhver myndi ráðast á hana væri það uppvakningur. Gæti verið að hún hafi rangt fyrir sér? Gæti verið að röddin sé kunnugleg?

Hún snýr sér hægt við.

Á jörðinni, nokkrum metrum fyrir aftan hana, liggur strákur.

Gæsahúð færist upp eftir báðum handleggjum og Arndís þarf að bíta í tunguna á sér svo hún öskri ekki aftur.

Hún þekkir strákinn um leið. Síðast þegar hún sá hann var hann með útréttar hendur, grátbiðjandi hana að loka ekki.

Sem hún hafði gert.

Hún hafði skellt á nefið á honum.

Halldór fótboltastrákur stendur á fætur, nuddar auma kinnina og glottir.

,,Nei, hæ,“ segir hann góður með sig. ,,Þú hér?“


Spólum til baka.

Gangurinn. Uppvakningar á fullu. Halldór að hlaupa. Arndís að loka.

Dyrnar skella aftur.

Halldór hefur örfáar sekúndur til að hugsa. Rétt áðan hafði hann misst jafnvægið og þurfti að styðja sig við glugga sem gaf sig næstum. Við endann á ganginum er annar gluggi.

Halldór hefur ekki tíma til að velta þessu mikið meira fyrir sér. Hann tekur undir sig stökk, ber fyrir sig aðra öxlina og hoppar gegnum glerið.

Brothljóð ómar um ganginn, rúðan gefur sig og Halldór lendir á annarri öxlinni í hörðu malbikinu, rúllar yfir hana, stendur á fætur og heldur áfram að hlaupa. Það blæðir úr handleggnum sem hann lenti á en Halldór getur ekki haft áhyggjur af því núna. Honum er alveg sama hvert hann stefnir, bara svo lengi sem það er burt!

Uppvakningarnir sem fylla ganginn reyna að elta hann, en glugginn er í um metershæð og þeir fatta ekki að hoppa eða klifra. Þess í stað reyna þeir að riðjast út um gluggann. Flestir stoppa á veggnum og hanga hálfir út, handleggirnir teygðir í áttina á eftir Halldóri. Einn og einn nær þó að lyfta sér upp og hlammast á hart malbikið með blautum dynk. Halldór bíður ekki boðanna.

Hann hleypur.

Í fyrstu ætlar hann að reyna að hlaupa um leikvöllinn í leit að skjóli en sér um leið að hér er líka allt fullt af uppvakningum. Það voru greinilega frímínútur þegar allt fór af stað. Uppvakningar á öllum aldri á víð og dreif um leikvöllinn, sem höfðu staðið stjarfir og horft út í loftið, rönkuðu við sér við lætin. Halldór var kominn úr öskunni í eldinn.

Hann gaf í, hljóp, sveigði ýmist til hægri eða vinstri, rétt slapp, greip um trjágreinar, lamdi frá sér, rétt slapp aftur og hljóp enn hraðar.


Að lokum hafði Halldór endað fyrir utan gluggalausan skúr, hinum megin á leikvellinum, þar sem alls kyns verkfæri voru geymd sem Gríma húsvörður notaði þegar það þurfti að gera við eitthvað. Skúrinn hafði verið ólæstur.

Halldór hafði komist inn.

Lokað á eftir sér.

Og ófétin höfðu ekki komist inn. Sama hvað þau reyndu.

Hann var ekki viss hversu lengi hann hafði beðið þarna inni, en að lokum fækkaði klórum og spörkum í skúrinn. Stunurnar úr uppvakningunum urðu líka sífellt lægri og óreglulegri. Að lokum hafði allt orðið hljótt.

Þangað til hann heyrði í krökkunum.

Hann hafði opnað dyrnar að skúrnum ofurvarlega, séð að allir uppvakningarnir væru farnir og leitað á hljóðið.

Og svo verið kýldur af Arndísi.


Án þess að taka eftir því hafa krakkarnir myndað hálfhring utan um Halldór á meðan hann segir þeim þetta allt saman.

Sögunni lýkur og krakkarnir líta hvert á annað.

,,Vá,“ segir Pavel loks. ,,Vá!“ Halldór hallar undir flatt og er ekkert voðalega mikið að neita því.

,,Tjah,“ segir hann pínu grobbinn, ,,þegar maður ætlar að skora þarf maður að vera snar í snúningum. Hvern hefði grunað að margra ára þjálfun í fótbolta væri fullkomin í miðjum uppvakningafaraldri?“ Krakkarnir hlæja. Í fyrsta skiptið síðan í morgun líður þeim vel. Fullt tunglið lýsir upp leikvöllinn. Í fjarska spangólar hundur. Ýlfrið er hátt og skerandi og bergmálar um leikvöllinn. Öllum bregður. Allir hlæja. Nema Arndís.

Hún hefur smám saman fært sig úr hópnum og stendur núna til hliðar við hann, aulaleg á svipinn eftir söguna. Hún segir ekkert. Halldór tekur eftir því og röltir til hennar. Hann veit hvað hún er að hugsa.

,,Þetta er ekkert mál, ég er ekkert pirraður út í þig,“ segir hann blíðlega. ,,Ég hefði gert það sama í þínum sporum.“ Arndís verður skrítin á svipinn. Hann hitti greinilega naglann á höfuðið. Hún hugsar málið.

,,Nei,“ segir hún svo. ,,Ég er ekki viss um það.“ Halldór lítur djúpt í augun á henni. Honum verður hugsað til baka. Þegar uppvakningarnir voru að taka yfir stofuna hans. Þegar hann flúði út, skellti á eftir sér og hélt hurðinni svo aðrir gætu ekki elt hann.

,,Trúðu mér,“ segir Halldór rifinni röddu. ,,Ég hefði gert það sama í þínum sporum.“ Arndís dregur djúpt að sér andann og kinkar svo kolli.

,,Ókei,“ muldrar hún svo. Æsa trítlar til þeirra glottandi.

,,Eruð þið byrjuð saman, eða? Getum við þá haldið áfram?“ Arndís, sem er nú þegar búin að kýla einn úr hópnum í kvöld, býr sig undir að gefa Æsu á lúðurinn. Halldór hlær og blikkar Arndísi. Hún ranghvolfir í sér augunum. Henni gæti ekki verið meira sama um einhvern strák.

,,Áfram,“ skipar hún og arkar af stað.


Þau yfirgefa leikvöllinn. Hliðið er lokað en það er enginn vandi að opna það. Þau sjá hins vegar um leið að uppvakningarnir hafa greinilega átt í erfiðleikum með það. Það er enn lokað. Þess í stað hefur gríðarstórt gat verið rifið á girðinguna sem umkringir leikvöllinn, rétt við hliðina á hliðinu.

,,Sjitt...“ tautar Pétur. ,,Er girðingin ekki úr járni?“ Joanna kinkar kolli.

,,Jebb,“ svarar hún. ,,Ég veit ekki hvernig þeir fóru að þessu.“

,,Komum...“ tautar Arndís. Gatið á girðingunni er stórt, en krökkunum líður betur að nota hliðið. Ekki að það skipti neinu máli, en þau skilja það eftir opið. Bara til öryggis ef þau þyrftu að koma aftur til baka.


Skólinn fjarlægist með hverju skrefinu sem þau taka. Öll eru þau að hugsa um fjölskyldurnar sínar. Vonandi er í lagi með þau.

Áður en þau vita af eru krakkarnir stödd í miðbænum. Eitt af öðru nema þau staðar.

,,Ó, nei...“ hvíslar Joanna og lítur í kringum sig.

Reykjanesbær er í rúst.

13.hluti_truno.png